13.03.1974
Efri deild: 76. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2724 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

262. mál, mat á sláturafurðum

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem er um breyt. á l. um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, er með eðlilegum hætti hér fram borið, þar sem fyrri ákvæði um þetta efni eru fallin úr gildi, en þau þarf að framlengja, því að talið er, að hin löggiltu sláturhús geti ekki annað öllum verkefnum sláturhúsanna.

Þess vegna er nauðsynlegt að framlengja þær undanþágur, sem áður hafa verið í gildi. Ég er því ekki að andmæla því, að þetta lagafrv. sé fram horið, og ég mun styðja það. En ég átta mig ekki vel á því, vegna hvers þarf að breyta orðalagi, sem á þessari grein var í þeim lögum, sem giltu. Ég sé ekki neina sérstaka ástæðu til þess.

Næst hér áður var mælt fyrir frv. um breyt. á l. um dýralækna. Þar er getið um það, að verkefni dýralækna sé að fylgjast með framleiðslustöðum mjólkur og heilbrigði nautgripa. En þá er ekki talin þörf á að kveðja til nema einn dýralækni, og er það þó miklu viðameira málefni að ganga úr skugga um það, hvernig þar er ástatt um, heldur en það, hvort eitt sláturhús, sem notað hefur veríð, sé þess megnugt að ganga sómasamlega frá sláturafurðum. Ég vildi mælast til þess, að það yrði ekki brugðið frá því orðavali, sem var á þessari lagagrein í lögunum frá 1971. Annað erindi átti ég ekki í ræðustólinn að þessu sinni.