13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. meiri hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í nál. meiri hl., leggur hann til. að frv. verði samþykkt að viðbættum þeim brtt., sem form. n. flytur á sérstöku þskj. og hann mun gera nánari grein fyrir hér á eftir.

Eins og rakið er í nál., er þetta frv. byggt á samkomulagi, sem gert var á milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna í sambandi við nýgerða kjarasamninga. Samkv. samkomulaginu skal tekjuskattur, sem lagður er á einstaklinga, lækka mjög verulega, en í staðinn kemur 5% söluskattur, sem kemur ekki inn í vísitöluna. Þá var samið um sérstakar bætur til handa þeim, sem ekki njóta neins hagnaðar af tekjuskattslækkuninni og yrðu ella að taka á sig söluskattshækkunina óbætta.

Eins og kom fram hér við 1. umr. frv., hafa staðið allmiklar deilur um það, hvort nemi hærri upphæð, tekjuskattslækkunin, sem frv. felur í sér, og þau aukaútgjöld ríkissjóðs, sem henni fylgja, annars vegar og svo söluskattshækkunin hins vegar. Þegar þetta samkomulag var gert milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna, var áætlun fjárl. lögð til grundvallar um þetta atriði. Skv. fjárl. er gert ráð fyrir, að álagður tekjuskattur á einstaklinga á árinu 1974 verði um 6.4 milljarðar. Reiknað var með, að skv. þeirri lækkun á tekjuskattinum, sem samið var um, mundi álagður tekjuskattur ekki verða nema 3.7 milljarðar kr., Þannig að skv. þessum útreikningum átti tekjuskattslækkunin að nema 2.7 milljörðum kr.

Síðan þetta samkomulag var gert, hefur farið fram endurmat á tekjuskattinum með tilliti til nýrra upplýsinga, því að nú liggja fyrir tekjuframtöl, og útdrættir úr tekjuframtölum leiða í ljós, að tekjurnar á síðasta ári hafa orðið nokkru hærri en áætlað er í fjárlögum. Skv. nýjustu áætlunum embættismanna, sem nú liggja fyrir, er gert ráð fyrir, að álagður tekjuskattur á þessu ári nemi 7 milljörðum kr. skv. gildandi skattalögum, en muni verða 4.1 milljarður kr. skv. skattalagabreytingunni, þannig að skv. þessu mun lækkunin verða 2.9 milljarðar kr. eða 200 millj. kr. meiri en áætlað var, þegar samkomulagið var gert milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna.

Skv. þessum upplýsingum, sem ég minntist nú á, þessum nýju áætlunum, nemur tap ríkissjóðs á tekjuskattslækkuninni 2.9 millj. kr. Við þetta bætist svo, að ríkið verður að taka á sig aukaútgjöld vegna hins svonefnda skattafsláttar. Það er greiðsla til þeirra, sem ekki greiða nú tekjuskatt og njóta því ekki neins hagnaðar af tekjuskattslækkuninni. Er áætlað, að þessar greiðslur nemi um 550 millj. kr. Og loks er reiknað með því, að útgjöld ríkisins aukist vegna söluskattshækkunarinnar um 100 millj. kr., þannig að samanlagt verði tekjutap ríkisins og útgjaldaaukning vegna þessara ráðstafana um 3.6 milljarðar kr.

Þetta, sem ég nú hef greint, er byggt á útreikningum sérfræðinga, sem eiga að vera alveg hlutlausir um þessi mál.

Þá er að reikna það, sem fæst við söluskattshækkunina. Nú áætla sérfræðingar, að eitt söluskattsstig muni nema um 800 millj. kr. á ársgrundvelli. En nú er þess að gæta, að meira en 2 mánuðir eru liðnir af árinu, og þeir áætla, að eitt söluskattsstig nemi á 10 mánaða tímabili um 684 millj. kr. Skv. því mundu þær tekjur, sem ríkið fengi af 5% söluskattshækkuninni á þessu ári, nema um 3.4 milljöðrum kr., þannig að það vantar nokkra upphæð upp á, að þessi hækkun bæti það tekjutap og þá útgjaldaaukningu, sem ríkissjóður verður fyrir vegna skattlagabreytingarinnar. Þess ber einnig að gæta, að í þeirri söluskattsáætlun, sem ég nefndi hér áðan, er miðað við greiðslur í 10 mánuði, en nú er þegar liðinn hálfur marsmánuður eða verður liðinn, áður en þetta frv. verður samþykkt, ef að lögum verður, þannig að þessi upphæð verður nokkru lægri en ég hér greindi.

Það er þess vegna alveg ljóst skv. þeim nýjustu upplýsingum, sem fyrir liggja um þessi mál, að ríkið hagnast ekki á þessari skattlagabreytingu á þessu ári, heldur verður frekar halli á henni. Hins vegar er rétt að geta þess, ef miðað er við ársgrundvöll, þannig að þessi söluskattshækkun yrði innheimt allt árið, að þá mundi koma fram nokkur hagnaður, því að eins og ég áðan sagði, þá er reiknað með, að söluskattsstigið gefi 800 millj. kr. á ársgrundvelli og 5 stiga hækkun mundi þá gefa um 4 milljarða eða nokkru meira en útgjaldaaukning ríkisins nemur á þessu ári. En það er líka tekið skýrt fram í samkomulaginu, sem gert var milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna, að þessi mál skuli tekin til nýrrar athugunar við næstu áramót, við fjárlagagerðina þá, og þá skuli tekið tillit til þess, hvort ríkissjóður hagnast á þessari breytingu eða ekki. Og þá verður gert annaðhvort að auka skattafrádráttinn ellegar þá að taka eitthvað af þessum söluskatti inn í kauplagsvísitöluna.

Því hefur verið haldið fram af ýmsum, að ríkið þyrfti ekki á þessum 5% söluskatti að halda sökum þess, að verðbólgan gerði það að verkum, að þeir tekjustofnar, sem ríkissjóður styðst við nú, muni gefa meira af sér en nemur þeirri útgjaldaukningu, sem hlýst af verðbólgunni. Í tilefni af þessu er rétt að geta þess, að vegna óska frá okkur, sem erum í fjhn., hafa embættismenn gert lauslegar áætlanir um það, hvaða áhrif verðbólgan sé líkleg til að hafa á fjárlögin á þessu ári. Niðurstaða þeirra er í stuttu máli sú, — og þá er miðað við þá skattlagabreytingu, sem hér liggur fyrir, — að útgjöldin muni aukast um 3.7 milljarða, en tekjurnar muni aukast um 3.1 milljarð, þannig að breyt. ríkissjóði í óhag frá því, sem er í fjárl., nemur um 600 millj. kr. Sjá allir á þessum útreikningum, sem hlutlausir embættismenn ríkisins hafa gert, að ríkissjóður kemur ekki til með að græða á verðbólgunni, og þess vegna verður ekkert aflögu þar til að mæta tekjuskattslækkuninni.

Mér finnst rétt að víkja að því í nokkrum orðum, vegna hvers meiri hl. hefur ekki getað fallist á þær till., sem liggja hér fyrir frá minni hl., en minni hl. er tvískiptur, þannig að fulltrúi Alþfl. er sér og fulltrúar Sjálfstfl. sér.

Eins og ég hef rakið, vegur 5% söluskattshækkun ekki á móti þeirri tekjuskattslækkun, því tekjutapi og þeirri útgjaldahækkun, sem ríkissjóður verður fyrir, heldur verður frekar nokkur halli. En í till. minni hl., er gert ráð fyrir verulegri lækkun á þeirri tekjuöflun, sem ríkið á að fá til að vega á móti tekjuskattslækkuninni.

Kem ég þá fyrst að till. Alþfl. Fulltrúi Alþfl. leggur til, að tekjuskattslækkunin verði sú hin sama og gert er ráð fyrir í frv., og hann gerir einnig ráð fyrir því, að skattafrádrátturinn verði sá sami og gert er ráð fyrir í frv. Skv. þessu mundi tekjutap ríkisins og útgjaldaaukning verða nákvæmlega sú sama skv. till. hans og skv. till. ríkisstj. og verkalýðssamtakanna, þ.e. að tekjutap og útgjaldahækkun ríkisins mundu nema 3.6 milljörðum kr. á þessu ári. Það, sem fulltrúi Alþfl. leggur svo til að komi á móti þessu, er hækkun söluskatts um 31/2 % Sú hækkun mundi gefa af sér á 10 mánuðum ársins um 2.4 milljarða, þannig að tap ríkisins á þessum viðskiptum mundi nema 1.2 milljörðum kr. Sennilega mundi verða einhver örlítil lækkun á þeim útgjöldum, sem ríkið verður fyrir vegna söluskattshækkunarinnar, þar sem hún verður ekki nema 31/2% í staðinn fyrir 5%, en það verður ekki sem neinu verulegu nemur. En sem sagt, skv. þessum till. Alþfl. mundi verða halli hjá ríkissjóði, sem nemur 1.2 milljörðum kr. — Þetta er að sjálfsögðu ástæðan til þess, að meiri hl. taldi útilokað að fallast á þessa till., þar sem stefnt var beinlínis að verulegum halla hjá ríkissjóði með því að fallast á þessa leið.

Ef litið er á till. Sjálfstfl., verður dæmið enn óhagstæðara. Mér er sagt, að þeir reikni með því, að skv. þeirra till. lækki tekjuskatturinn verulega miklu meira en gert er ráð fyrir í frv., en nákvæmir útreikningar á því eru ekki enn fyrir hendi. En til viðbótar gera þeir ekki ráð fyrir nema 2% hækkun á söluskattinum, sem mundi ekki gefa af sér nema 1.4 milljarða kr. á þessu ári, þannig að það er nokkurn veginn augljóst að skv. þeirra till. mundi hallinn á ríkisrekstrinum vegna skattalagabreyt. verða 3–4 milljarðar kr., a.m.k. það. Að vísu segir í þeim till., sem hefur verið útbýtt frá þeim hér í d., að þeir geri ráð fyrir því, að útgjöld ríkisins verði lækkuð með sérstakri heimild til handa ríkisstj. um 1.5 milljarða kr. En það liggja engar till. fyrir um það, hver þessi útgjaldalækkun eigi að vera. Það er alveg lagt samkv. þeirri till. í hendur ríkisstj. að ákveða það. Ég man ekki eftir, að það hafi verið flutt tillaga á Alþ., sem feli í sér öllu meira traust til ríkisstj. en það, að henni skuli vera gefin heimild til að breyta fjárl. eftir vild. Ég hef ekki mikla trú á því, að það standi mikil alvara á bak við þessa till. Það er meira að segja tekið fram í henni, að ríkisstj. eigi að hafa heimild til þess að lækka fárlagaútgjöld, sem eru bundin í öðrum lögum. Ég held, að þessi till. sé flutt hreinlega í blekkingaskyni, vegna þess að hv. þm. Sjálfstfl. treysta sér ekki til þess að koma fram með neinar beinar brtt. sjálfir. Af málamyndaástæðum til að geta sagt, að þeir séu með einhverri útgjaldalækkun, leggja þeir þetta af handahófi í vald ríkisstj. að nafninu til. En þeir vita ósköp vel, að inn á slíkar brautir er ekki hægt að ganga. Ef á að lækka útgjöldin, eiga að liggja fyrir beinar og ákveðnar till. um slíkar lækkanir, og þingið á að sjálfsögðu ekki að afsala sér valdi í þeim efnum að ákveða, hvenær lækkanir séu gerðar, heldur á það að ákveða það sjálft, en ekki láta ríkisstj. ákveða það af einhverju handahófi. Þessar till. Sjálfstfl. er því alls ekki hægt að taka alvarlega.

Ég held, að það sjáist glöggt á því, sem ég nú hef rakið, að það er nauðsynlegt fyrir ríkissjóðinn að fá 5% söluskattshækkunina, ef hann á að sleppa hallalaus út úr þessum viðskiptum. Og því frekar er þetta nauðsynlegt, þar sem endurskoðun eða ný spá í sambandi við fjárl. sýnir, að staða ríkissjóðs hefur heldur versnað en batnað, síðan fjárlögin voru samþ., vegna þeirra hækkana, sem áttu sér stað á þessum tíma. — Ég trúi því heldur ekki, að þetta geti verið endanlegar till. stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstaðan hlýtur að sjá, að þessar till. eru svo fjarri veruleikanum, að hún hlýtur að taka þær til endurskoðunar að nýju.

Ég vil annars, áður en ég lýk máli mínu, lýsa ánægju yfir tveimur málum, sem hafa verið flutt á Alþ. að þessu sinni. Ég held, að ég hafi komið upp í þennan stól í næstum samfleytt 12 ár og prédikað það fyrir þáv. ríkisstj., að beinir skattar væru orðnir allt of háir. Ég man ekki, hve oft ég hef t.d. flutt hér á þinginu frv. um leiðréttingu á skattvísitölunni. Þessi málflutningur minn fékk engar undirtektir þá. Á þeim tíma, þegar viðreisnarstjórnin fór með völd, var ekki neinn áhugi á lækkun beinna skatta, heldur miklu frekar hið gagnstæða. Ég man t.d. eftir því, að á þeim tíma, — ég held, að það hafi verið á þeim tíma, sem hv. 5. þm. Reykv., form. þingfl. Sjálfstfl., var fjmrh., — að þá voru persónuskattarnir eitt árið svo háir, að sérfræðingar ríkisstj, lögðu til, að skattborgararnir fengju sérstök lán til bráðabirgða til að borga skattana. Þannig var nú ástandið stundum í skattamálunum á þeim tíma. En þrátt fyrir það fékk það engar undirtektir þá að lækka beinu skattana. Og það má minnast þess í þessu sambandi, að á síðasta þinginu, þegar viðreisnarstjórnin fór með völd, voru samþykkt hér lög um breyt. á tekjuskattinum. Þau lög fólu ekki í sér, að það ætti að lækka persónuskattana, þeir voru látnir standa óbreyttir, þrátt fyrir það að fyrir lægi, að skattvísitalan væri fölsuð eða röng. Aðalefni þess frv. var að undanþiggja hlutabréf skatti. Það voru hlutabréfaeigendurnir, sem þá áttu samúð þeirrar ríkisstj., en ekki launamennirnir, sem greiða tekjuskatt. Og svo langt var gengið í þessum efnum af hálfu Sjálfstfl., skv. vitnisburði eins þm. Alþfl., sem hér situr, að Sjálfstfl. hótaði að stöðva tiltölulega litlar leiðréttingar á tryggingabótum, ef hlutabréfaeigendurnir fengju ekki þetta skattfrelsi fram. En það var ekki verið að setja slíkt skilyrði þá í sambandi við tekjuskattinn, sem lagður er á einstaklinga. Því miður, þó að ég reyndi að flytja allskeleggar ræður á þessu 12 ára tímabili um nauðsyn þess að lækka beina skatta, fékk það ekki undirtektir hjá núv. stjórnarandstöðuflokkum. Það var fyrst eftir að þeir komu í stjórnarandstöðu, sem þeir fengu áhuga á lækkun beinna skatta. Og það liggur annars vegar fyrir í frv. í þinginu, frá Sjálfstfl. og hins vegar í þáltill. frá Alþfl., að þeir eru komnir að þeirri niðurstöðu, að það sé nauðsynlegt að lækka verulega beinu skattana. En það er ekki nóg að flytja frv. og ekki nóg að flytja þáltill. til að sýna vilja sinn í verki. Það verður að sýna viljann í verki með atkvgr. á Alþ. Og það þýðir ekki að sýna viljann í verki á þann hátt að lækka aðeins beinu skattana, heldur skilja menn, að það verður að koma einhver tekjuöflun á móti. Ef það er ekki stutt jafnhliða, þá er að sjálfsögðu engin alvara í því að lækka beinu skattana. Þetta tvennt verður að fylgjast að. Þess vegna verð ég nú að segja, að á sama tíma og ég gleðst yfir þeirri stefnubreytingu hjá Sjálfstfl. og Alþfl. að flytja till um lækkun beinna skatta, hryggist ég yfir því, að þeir eru með alls konar krókaleiðir nú til að reyna að komast hjá því að samþykkja tekjuskattslækkunina. Þeir eru að reyna að finna alls konar krókaleiðir, sem eru fólgnar í því að tryggja ríkinu ekki nægilegar tekjur á móti, og nota það sem tylliástæðu til að láta tekjuskattslækkunina falla. Þetta er a.m.k. viðhorfið, sem blasir við í dag.

En ég vil ekki trúa því, hver sem niðurstaðan verður við þessar umr., að þetta sé endanleg afstaða stjórnarandstöðuflokkanna. Ég vil trúa því, að áður en afgreiðslu þessa máls á Alþ. lýkur, komi í ljós, að þeim sé hér nokkur alvara og þess vegna falli þeir frá þeim hundakúnstum, sem ég vil orða svo, sem þeir eru að leika hér núna, og taki ábyrga og jákvæða afstöðu til þessa máls, sýni í verki, að þeir vilji tekjuskattslækkun eða lækkun beinna skatta, með því að standa að nægilegri tekjuöflun til að vega þar á móti, því að þeim hlýtur að vera ljóst, að fyrir stjórnarflokkana er ekki hægt að fallast á framkvæmd þessa máls með þeim hætti, að það stuðli að stórkostlegum halla hjá ríkissjóði. Mér hefði þótt það saga til næsta bæjar, þegar hv. 5. þm. Reykv. var fjmrh., að hann hefði verið tilbúinn að gera þá verslun, sem hann vill, að núv. fjmrh. geri, þ.e. að hann afsali sér raunverulega 3–4 milljörðum kr. í tekjur án þess að fá nokkuð á móti og láti verða jafnmikinn halla á ríkissjóði. Ég held, að það sé fjarri öllu lagi, að hann hefði fallist á slíkt.

Ég sé, að hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, er þér í salnum, en það mun vera starf hans ásamt þingmennskunni að kenna ungum mönnum rekstrarhagfræði. Hann rækir þetta af svo mikilli trúmennsku, að ég verð iðulega að fresta fundum í utanrmn., til þess að hann geti komist upp í háskóla til að kenna. — Ég trúi því ekki, að hann kenni þessum ungu mönnum þá rekstrarhagfræði, sem felst í þeim till., sem liggja fyrir frá honum í sambandi víð þetta frv. Ég trúi því ekki, að hann kenni þeim, að þegar þeir semji um það að láta af hendi um 3.6 milljarða kr. og ætli að hafa jöfn kaup, að þá eigi þeir að sætta sig við að fá bara 2.4 milljarða í staðinn, — en það er það, sem hann er að leggja til með till. sinni. Ég held, að hann hljóti að kenna þessum ungu mönnum, sem læra hjá honum rekstrarhagfræði, að þegar um jöfn skipti er að ræða í fjármálum, þá verði það að gerast með öðrum hætti en þær till. eru, sem hann flytur hér í sambandi við þetta frv. nú við 2. umr.

Ég skal svo ekki hafa öllu fleiri orð um þetta mál að sinni. Ég vil aðeins láta þá von í ljós að lokum, eftir að prédikanir mínar um lækkun beinna skatta á undanförnum árum og svo það, að nú eru Sjálfstfl. og Alþfl. komnir í stjórnarandstöðu og líta kannske nokkuð öðruvísi á þessi mál en áður, eigi það eftir að reynast, áður en endanlegri afgreiðslu þessa máls lýkur, að þeir vilji raunverulega lækkun beinna skatta og sýni það í verki með því að tryggja nægilega tekjuöflun á móti. En ef þeir gera það ekki, þá eru þeir á móti lækkun beinna skatta, hvað sem yfirlýsingum þeirra líður að öðru leyti, því að þessi vilji verður ekki sýndur réttur í verki, nema fylgist að lækkun beinu skattanna og nauðsynleg tekjuöflun á móti.