13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

259. mál, skattkerfisbreyting

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ræða hæstv. sjútvrh. var ákaflega athyglisverð, og margar fullyrðingar hans voru vissulega lærdómsríkar. Hann sagði, að það væri nú stefna sjálfstæðismanna og allra stjórnarandstæðinga, hvorki meira né minna, að láta ríkissjóð verða tekjulausan á árinu og þetta væri allt gert í því skyni að koma stjórninni frá, eins og hann komst að orði, til að svæla þá út á þann hátt. Það er fróðlegt að heyra, að einn ráðherranna skuli líkja ríkisstj. við tófugreni og refabæli. En hver er refurinn hver er tófan og hverjir eru yrðlingarnir? Það segir hann okkur væntanlega í næstu ræðu.

Við viljum gera ríkissjóð tekjulausan! Það er nú þannig, að samkv. fjárl. á ríkissjóður að fá upp undir 30 milljarða, 30 þús. millj., á þessu ári, og spár manna eru á þá lund, að tekjustofnarnir muni gefa a.m.k. 3400 millj. í viðbót, og ekki höfum við ætlað að ræna ríkissjóð þessu. Staðhæfing hæstv. ráðherra er furðuleg. Það, sem hann á við með þessum gífuryrðum, er, að stjórnarandstaðan hefur ekki viljað fallast á, að jafnhliða nokkurri lagfæringu á tekjuskattslögunum eru lagðir á nýir skattar, sem þýða aukna heildarskattbyrði á landslýðinn.

Hæstv. fjmrh., kom inn á það í ræðu sinni hér áðan, að stjórnin vildi nú gera tilboð, hún vildi gera tilboð um, að frv. gildi til áramóta, en þá komi í gildi núgildandi skattalög að nýju, eins og þau eru nú æskileg, nema takist að ná samkomulagi um eitthvað annað. Ef þetta frv. hæstv. ríkisstj. ætti að gilda til áramóta og falla úr gildi 31. des., hvað þýðir það þá í framkvæmd? Eftir nýjustu tölum sérfræðinganna, sem ríkisstj. hefur látið leggja fram í fjh.- og viðskn., tapar ríkissjóður á þessu ári, miðað við fjárl., vegna tekjuskattsfrv. 1700 millj. Til viðbótar eru líklega 500 millj. vegna skattafsláttarins, og við skulum segja 100 millj., sem ríkissjóður telur sig tapa vegna hækkaðs söluskatts. Þetta eru 2.2–2.3 millj. í tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. En hvað mundi hann fá á móti? Eftir upplýsingum hæstv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. mundi ríkissjóður fá af söluskattinum til áramóta 3400 millj.

Ég er ekkert hissa, þótt hæstv. fjmrh. stingi upp á þessu og þyki þetta glæsilegt boð. Með þessum hætti, að frv. ætti aðeins að gilda til áramóta, mundi hann fá aukalega í sjóðinn sinn rúman 1 milljarð króna á þessu ári, miðað við fjárlagaárið. Þetta er líklega eitt af því, sem hann kallar að skipta á sléttu.

Í þessu talnaflóði öllu saman verður mörgum erfitt að fóta sig. Sumir eru að reikna út, hvernig dæmið komi út árið 1975. En í þeirri bandóðu verðbólgu, sem við eigum við að búa, er slíkt harla fánýtt. Það er varla nokkur leið að reikna út væntanleg útgjöld ríkissjóðs eða tekjur eða skatta á næsta ári, árinu 1975. Ég held, að það sé nógu torvelt að átta sig á þróuninni þjóðhátíðarárið eitt saman, þótt ekki sé farið lengra. Það sést nú m.a., hversu hæstv. ríkisstj. sjálfri er erfitt að átta sig á þessari verðbólguþróun, því að fyrir viku lagði hún fram frv. það, sem hér liggur fyrir, þar sem gert er ráð fyrir því, að tekjuskattur álagður 1974 gefi að óbreyttum lögum 6400 millj., en þrem dögum síðar, á laugardaginn var, er hann kominn upp í 7000 millj., hefur hækkað um 600 millj. á nokkrum dögum. Og þessi áætlun, 7 milljarðar, er allt of lág, hún á eftir að breytast og hækka verulega.

Ég segi, að í þessu talnaflóði öllu er auðvitað mörgum erfitt að fóta sig, og ég held, að það sé best að vera ekki með allt of miklar spár um framtíðina, hvernig muni koma út söluskattur og tekjuskattur á árinu 1975. Það veit enginn og getur í rauninni enginn áttað sig á því í allri þeirri óvissu, sem nú er. Ég held, að það sé best að reyna að halda jarðsambandi og skoða árið í ár, hvernig ríkissjóður mundi koma út varðandi tekjur og gjöld, ef þetta frv. yrði samþ., og þá mun ég einnig minnast á það, ef till. okkar sjálfstæðismanna yrðu samþ.

Auðvitað er æskilegt að marka stefnu fram í tímann. Hins vegar held ég, að við verðum fyrst og fremst að glíma við reikningsdæmið fyrir árið í ár. Stefnan, sem segja má, að sé mörkuð hér, er í samræmi við það, sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram lengi. Það hefur löngum verið stefna okkar sjálfstæðismanna að draga úr beinum sköttum eins og tekjuskatti og ríkissjóður afli meiri tekna með óbeinum sköttum. Að því leyti má segja, að þetta frv. sé til bóta og miði í rétta átt, og að því leyti sem það er til bóta, er það ekki ríkisstj. að þakka, heldur er það öðrum að þakka, almenningi, verkalýðssamtökunum, stjórnarandstöðunni. Undan öllum þessum þrýstingi hefur ríkisstj. orðið að láta. Og ástæðan til þess, að hæstv. sjútvrh. var svo mikið niðri fyrir hér, eins og glöggt kom fram í hans ræðu áðan, er auðvitað sú, að hann finnur, að eftir að hann hefur átt sinn þátt í því ásamt öðrum hæstv. ráðh. að keyra tekjuskattinn upp úr öllu valdi, þannig að allur landslýður mótmælir og telur gjörsamlega óviðunandi, þá er ríkisstj. knúin til að hörfa frá villu síns vegar og gera nokkra bragarbót á tekjuskattinum.

Út af ummælum hv. 7. landsk. þm. Karvels Pálmasonar, að sjálfstæðismenn hafi haldið því fram, að fulltrúar verkalýðssamtakanna hafi látið plata sig, að við höfum farið niðrandi orðum um þá, þá er þetta algjör misskilningur. Það hefur einmitt verið tekið fram bæði af mér og fleirum, að við einmitt stöndum í þakkarskuld við verkalýðssamtökin á Íslandi fyrir að hafa knúið fram þessa stefnubreytingu, sem nú lítur þó dagsins ljós í þessu frv., þó að það nái of skammt. Það hefur líka komið fram, að verkalýðssamtökin eða fulltrúar þeirra hreyfðu einmitt því sama, sem fram hefur komið hér í ræðum þm. stjórnarandstöðunnar, hvort ekki væri hægt að mæta þessari tekjuskattslækkun að einhverju leyti með því að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, og í annan stað, hvort ekki væri hægt að mæta honum að einhverju leyti með því að reikna þar tekjur umfram fjárl., sem sannarlega verða svo að milljörðum skiptir á þessu ári. Hæstv. ríkisstj. neitaði að ræða þessi atríði við fulltrúa verkalýðssamtakanna. Hún setti það ófrávíkjanlega skilyrði, að 5% söluskattauki kæmi í staðinn. Þegar það verður að samkomulagi í þessu efni, verða menn að gera sér grein fyrir því, að samkomulagið er fyrst og fremst í því fólgið, að ríkisstj. hefur lofað verkalýðssamtökunum því að beita sér fyrir lækkun á tekjuskattinum. Ég skil ekki, að nokkur maður í verkalýðsstétt muni telja það nokkra brigð, þó að tekjuskattslækkunin yrði meiri en stjórnin gerir ráð fyrir eða þó að ekki þyrfti að hækka söluskattinn eins mikið og stjórnin setti að skilyrði.

Ef þetta frv. stefnir í rétta átt, ef það er í anda okkar sjálfstæðismanna, hvers vegna styðjum við það ekki? Ástæðurnar eru tvær. Önnur ástæðan er sú, að tekjuskatturinn lækkar allt of lítið samkv. þessu frv. Við teljum einnig að heildarskattbyrðin á landslýðnum þyngist með þessu frv.

Við sjálfstæðismenn fluttum í vetur frv. um verulegar umbætur á tekjuskattslögunum, mjög til samræmis við það, sem viðreisnarstj. lét verða eitt af sínum fyrstu verkum 1960 að gera. Þar er sú meginregla, það meginsjónarmið, að almennar launatekjur verði skattfrjálsar. Þegar hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., 4. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, kemur hér upp í ræðustólinn áðan og segir, að sig reki ekki minni til þess, að viðreisnarstj. hafi haft áhuga á lækkun beinna skatta, þá þykir mér ákaflega leitt, að hv. þm. skuli vera farið að förlast svo minni. Þetta er þeim mun lakara, þar sem hv. þm. hefur gerst sagnaritari og skrifað bók eða bækur, um þróun stjórnmála síðustu áratugi, að mörgu leyti fróðlega bók, þó að hún sé auðvitað ákaflega lituð, þar sem er rit hans um Framsfl. En það ætti þessum hv. þm. að vera ljóst, að einmitt 1960 er gerð stórfelldasta bylting í skattamálum, sem gerð hefur verið hér á landi, þar sem hinir beinu skattar, bæði tekjuskatturinn og tekjuútsvörin, voru lækkuð stórkostlega og tekinn upp söluskattur í staðinn, sem þá var 3%. Það var allt og sumt, sem viðreisnarstj. þá lögleiddi, og er það ekki ýkjamikið í samanburði við þau 18%, sem ríkisstj. vill nú hafa.

Till. sjálfstæðismanna nú, sem hv. 1. þm. Reykn. hefur gert hér grein fyrir, eru í samræmi við þetta frv., og skal ég ekki fara út í það frekar. En ég vil undirstrika, að tillöguflutningur okkar sjálfstæðismanna nú er á því byggður, að við viljum undirstrika það, að það þarf að lækka tekjuskattinn miklu meira en ríkisstj. leggur til. Það kemur í ljós, ef örlítill samanburður er gerður. Ef við tökum t.d. nettótekjur, 700 þús. hjá hjónum með 2 börn, mundi tekjuskatturinn eftir gildandi skattalögum verða 97 þús. kr., samkv. frv. 40 þús., samkv. till. okkar sjálfstæðismanna 20 þús. Ef við förum aðeins hærra í tekjunum, sem eru þó mjög algengar tekjur hér á landi, t.d. um 900 þús. nettó, yrði tekjuskatturinn 188 þús. eftir gildandi l., 115 þús. eftir frv., en 64 þús. eftir okkar till. Ég skal ekki nefna hér fleiri dæmi, en ég skýri aðeins frá þessu til þess að undirstrika, að við sjálfstæðismenn teljum frv. að þessu leyti, varðandi tekjuskattinn, stefna í rétta átt og vera nokkra bót frá því ófremdarástandi, sem ríkisstj. hefur lögleitt. En því fer svo fjarri, að það gangi nógu langt, og við teljum, að till. okkar sjálfstæðismanna mundu bæta hér verulega úr og þær hljóti að vera í samræmi við óskir alls þorra manna.

Hvernig leggjum við svo til, að tekjutapi vegna till. okkar, ef þær yrðu samþ., yrði mætt? Eins og komið hefur fram, mundi tekjutapið í ár, svo að ég haldi mér enn við fjárl. fyrir árið 1974, verða samkv. till. okkar sjálfstæðismanna um 2900 millj. Við leggjum til, að þessu yrði mætt annars vegar með 2 söluskattsstigum og hins vegar með því að draga úr útgjöldum ríkisins um 1500 millj. kr. Þessar 1500 millj. kr. eru ekki meira en 5% af ríkisútgjöldunum. Það ber svo aftur vott um hið algjöra skilningsleysi núv. ráðamanna á fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar að tala um það sem fráleitan hlut, sem ekki sé einu sinni hægt að ræða, að reynt sé að draga úr 30 milljarða útgjöldum um 11/2 milljarð. Hv. frsm. meiri hl., Þórarinn Þórarinsson, talar um þetta sem óábyrga stefnu og óábyrgar till. Mér er spurn: Er það ábyrg stefna í þjóðfélaginu að hækka útgjöld ríkisins ár frá ári allt hvað af tekur, og er það óábyrg stefna í fjármálum að vilja draga úr óhófseyðslu og ofsalegum útgjöldum ríkisins? Ég veit ekki hvað eru hugsanabrengl. ef þau koma ekki fram í þessum ummælum hv. þm.

Hitt atriðið, sem ég vildi nefna hér og veldur því, að við sjálfstæðismenn styðjum ekki þetta frv., er það, að við teljum, að með því sé verið að þyngja heildarskattbyrðina á landslýðnum. Nú hafa verið settar fram hér ákaflega margvíslegar tölur, bæði í umr. og í grg. frv. og í áætlunum, nýjum áætlunum, sem voru lagðar fyrir fjh.- og viðskn., um það, hvert tekjutap ríkissjóðs yrði. Ég vil endurtaka það, að ég tel enga ástæðu til þess að vera að reikna dæmi langt fram í framtíðina, og ég vil. að við höldum okkur bara við fjárlagaárið í ár. Hvernig lítur það út? Það lítur þannig út, að samkv. fjárl. á tekjuskatturinn að skila í ríkissjóð rúml. 5.8 milljörðum. Samkv. frv., eins og það liggur fyrir, mundi tekjuskatturinn verða 4.1 millj. Eftir þeim útreikningum, sem fulltrúar ríkisstj. og sérfræðingar hafa nú lagt fram, m.ö.o. samkv. upplýsingum frá ríkisstj. sjálfri, er tekjutapið vegna skattalagabreytingarinnar 1700 millj. í ár, miðað við fjárlagaárið. Þar bætast við um 500 millj. væntanlega, þ.e. skattafslátturinn. Hann er áætlaður 550 millj. Ég hef spurt um það, hversu mikið komi í ríkissjóð að nýju vegna þess, að námsmenn og tekjulágt fólk fær ekki fullan skattafslátt, heldur ætlar ríkissjóður að hirða það til að spara sér framlög í námslánasjóð. Ég hef ekki fengið upplýst, hvað þetta mundi lækka mikið, en einhver hefur getið upp á 60 millj. Ég skal ekki segja um það. En við skulum reikna með 500 millj. vegna skattafsláttar og svo þessum 100 millj., sem ríkisstj. telur, að söluskattshækkun muni valda ríkissjóði í auknum útgjöldum. Samkv. útreikningum ríkisstj. sjálfrar eru það ekki nema í mesta lagi 2.2–2.3 milljarðar á þessu ári, sem ríkissjóður tapar frá því, sem fjárl. gera ráð fyrir. Þetta liggur fyrir óumdeilanlega. En það, sem ríkisstj. ætlar að fá í staðinn, eru 3400 millj. á þessu ári, eftir síðustu upplýsingum, þ.e.a.s. í ræðu hv. frsm. meiri hl. í dag. M.ö.o.: þarna er nokkuð á annan milljarð, sem ríkisstj. ætlar sér að láta ríkissjóð taka á þurru, græða á breytingunni.

En þar með er ekki öll sagan sögð, því að þegar talað er í áætlunum sérfræðinganna um 1700 millj. tekjutap á tekjuskattinum, er það allt of há upphæð, og það liggur í því, að þegar verið er að reikna út þessar 4.1 millj., sem eiga að koma í ríkissjóð á ári, ef frv. verður samþ., þá er það fengið með því annars vegar að reikna 90% af eftirstöðvum tekjuskatts frá s.l. ári og hins vegar 72%, sem muni innheimtast á þessu ári af álögðum tekjuskatti í ár. Þessi 72% af væntanlegum álögðum skatti í ár eru hrein fjarstæða. Meðaltal af innheimtu á undanförnum árum hefur verið 80% upp í 86%. Það er ljóst, að þegar tekjuskattur lækkar, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., greiðist hann miklu betur, sérstaklega vegna þess, að fyrirframgreiðslurnar, sem koma inn á fyrri hluta árs, eru miðaðar við skattinn frá í fyrra, sem er miklu hærri. Það er augljóst, að innheimta á álögðum skatti í ár verður miklu hærri en 72%. Mér er miklu nær að halda, að það yrði nær 90% eða jafnvel meira, þannig að mér er næst að halda, að þessi áætlun um 1700 millj. tekjutap á þessu fjárlagaári, mundi lækka um 500–700 millj.

Það er því ljóst af þessu dæmi, þegar við höldum okkur við fjárlagaárið í ár, — og ég held, að við eigum að reyna að meta það, sem er að þessu leyti fyrirsjáanlegt, en ekki vera að reikna dæmið langt fram í tímann, — þá er það ljóst, að ríkissjóður mundi með þessu frv. auka verulega tekjur sínar, vafalaust töluvert á annan milljarð. Þetta viljum við sjálfstæðismenn ekki fallast á. Og ég verð að segja það, að mér finnst það illt, að með þessum hætti skuli vera reynt að spilla góðu máli, spilla því góða máli að lækka hina beinu skatta, en því er spillt með því að flytja fram slíkar tölur og slíkar till. eins og ríkisstj. gerir.

Herra forseti. Þó að það væru ýmis fleiri atriði, sem ástæða væri til að rekja hér, skal ég láta þetta nægja, a.m.k. að sinni.