13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

259. mál, skattkerfisbreyting

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorðari nú en ég hafði ætlað, að ég hefði ástæðu til, vegna þess vináttuvottar, sem þeir félagar mínir, sem eru á undan mér á mælendaskrá, hafa sýnt mér með því að gefa mér tækifæri nú að taka til máls, vegna nauðsynjar minnar að hverfa á brott um stund.

En vegna þess að sumir þeirra, sem í þeim hópi eru, eru andstæðir mér í þeim málum, sem ég vildi helst taka líka til umræðu hér, og vegna orða hv. 7. þm. Reykv., sem bann hafði við hér í kvöld, vil ég benda, um leið og við ræðum þessi mál, á þau orð, sem Þjóðviljinn, málgagn Alþbl., viðhafði í ritstjórnargrein sinni í dag. Þar sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstj. Íslands ætti því ekki að vera neitt að vanbúnaði að ganga hér hreint til verks í samræmi við gefin fyrirheit og gera Miðnesheiði á ný að okkar landi.“ Og áfram held ég með beinni tilvitnun í þetta málgagn: „Þá mun eftirleikurinn við liðþjálfa Nixons í Sjálfstfl. verða auðveldari.“ (Gripið fram í.) Má ég spyrja hæstv. þm., sem er nú búinn að koma öllu sínu á hreint þar fyrir norðan og austan: Við hvað er átt? Á að ganga að andstæðingum þessara dáta eða vilhöllum mönnum eða á að fá aðra dáta í staðinn? Og hvað á að sýna þeim? Veit hv. bóndi að norðan, hv. þm. Stefán Valgeirsson, nokkuð, við hvað er átt í þessari ritstjórnargrein, eða hefur verið haft samráð við hann um það? Ætla þeir sér kannske að senda í útlegð þá 53 þús. Íslendinga, sem skrifuðu undir mótmælin gegn því, að varnarliðið á íslandi verði látið fara burt? (Gripið fram í.) Það er rétt hjá þér. Og kannske hluta þeirra, sem ekki hefur skrifað undir, sem eru makar og fjölskyldumenn.

Hvernig á að framkvæma þá valdbeitingu, sem þarna er boðuð? Er það ekki sama valdbeitingin og kemur fram í því frv., sem við erum hér að ræða. Er það ekki sama valdbeitingin og kemur fram í því, þegar okkur er talin trú um það hér, hv. alþm., að hér sé um fullkomna samstöðu að ræða við alþýðusamtök Íslands? Það liggur fyrir í orðum hæstv. ráðh., að þeir hafi verið að skrökva hér í kvöld. Þeir hafa skrökvað að hv. Alþ., eins og reyndar hefur legið lengi fyrir um einn hæstv. ráðh. (Gripið fram í.) Hæstv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson. Hann hefur leyft sér að segja, að það hafi verið farið að óskum Alþýðusambandsins um það, að það ætti að skipta á sléttu.. Þetta er rangt. Það er skrök. Það var óskað eftir því, að hluti þess, sem kæmi fram í kjarasamningum, væri betrumbót á sköttum, ekki upp á það að skipta á sléttu. Og því segi ég, það er verið að skrökva að okkur alþm. Þessir menn leyfa sér að koma hér fram og segja, að það ætti að skipta á sléttu. Þetta er ekki rétt. Við fórum fram á það í Alþýðusambandi Íslands, — ég er einn af miðstjórnarmönnum þar, þó að ég sé ekki fylgjandi öllu því, sem þar hefur komið fram, — við fórum fram á 45 og yfir 50% betrumbót á okkar kaupi. Það var strax fullur skilningur á því þar, að það yrði metið til tekna, það yrði metið til kjarabóta, það sem gert yrði á sviði skattbreytinga. Af hverju halda hv. alþm., að allt í einu hafi verið samið um 18%, að sjálfsögðu að því viðbættu, sem til kom vegna taxtahækkana hjá þeim lægst launuðu og hækkana, sem verða svo á seinna tímabili, sem auðvitað mun hvergi nægja á móti þeirri ofsaverðbólgu, sem við sjáum fram undan.

Ég vil leyfa mér að segja, að þetta hafi verið ein meginkrafan, að það hafi verið vilji Alþýðusambandsstjórnar, miðstjórnar Alþýðusambandsins, að fara þessa leið. En má ég þá aftur spyrja, vegna þeirra fullyrðinga, sem hæstv. sjútvrh. hafði hér í kvöld um það, að við fylgdum ekki lýðræðinu hér á Alþ., að þetta gæti farið svo, ef það kæmi til Sþ., að þá væru 29:31, þá náttúrlega vaknar sú spurning: Af hverju kom þessari gáfuðu ríkisstj. það ekki til hugar að láta málið lenda í Sþ., þar sem þeir gátu beitt sínum meiri hl.? — En þá spyr ég hæstv. sjútvrh., en enginn þekkir betur til Alþýðusambands Íslands en hann, og ég minnist þess, að þegar ég byrjaði setu mína þar, þá var hann þar einn af fulltrúunum ásamt bæjarstjóranum á Norðfirði og öðrum slíkum höfðingjum: Af hverju í ósköpunum berjast þeir ekki fyrir sama lýðræðinu í Alþýðusambandinu? Telja þeir, að lýðræðið, sem kemur fram í meiri hl., sem samþykkir þetta skattasamkomulag, gildi í Alþýðusambandinu? Telur Lúðvík Jósepsson ráðh., að sú meirihlutakosning, sem á sér stað í Alþýðusambandinu, í stóru félögunum, ráði úrslitum um það? Er það lýðræðisleg kosning? Er það lýðræðisleg kosning, þegar fulltrúar stærsta stéttarfélagsins eru á móti þessu? Eru það lýðræðisleg úrslit þeirra mála þar, um leið og þeir telja sig fullbúna að segja: Þetta er samkomulag við verkalýðshreyfinguna? — Þetta er á sama tíma og það skeður, að það eru önnur stéttarfélög, sem eiga í samningum úti í bæ, eins og stundum hefur verið sagt, og sumir hafa ekki samið enn þá og eiga eftir mikið ósamið. Og meira að segja sumir þeirra, eins og farmennirnir, standa frammi fyrir því, að á sama tíma og þeir eru að reyna að semja, stendur ríkisvaldið fyrir framan þá og er að skerða þeirra fríðindi stórkostlega. Svo halda þeir, að þessir menn bara standi upp og hneigi sig fyrir þessum herrum og semji. Þetta eru sömu mennirnir, sem voru ofsóttir eftir síðustu samninga, þegar þeir voru búnir að standa í verkfalli í 5 vikur, af þessum sömu ráðh., fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar á þingi. Ég tala nú ekki um, hvernig þeir höguðu sér gagnvart sjómönnum í sambandi við skattamálin. Ég er þá ekki að tala um það, sem kom fram í síðustu skattalagabreytingum gagnvart fiskimönnum. Ég er að tala um það, sem farmenn höfðu þá unnið sér inn í samningum við fyrrv. ríkisvald á mörgum árum. Þeim var refsað fyrir að hafa gert þetta, og eftir að þeir höfðu staðið 5 vikur í verkfalli, þoldu þessir háu herrar ekki, að þeirra eigin fylgismenn höfðu neitað þessu. Þeir höfðu neitað því að fylgja þeirra ráðum, og þeim var refsað með því, að þessi fríðindi voru tekin af þeim. Og ekki nóg með það, það er verið að taka af þeim önnur fríðindi í dag. Skyldi nokkurn undra, þó að þessir menn segðu nú eitthvað við þessu, enda er ólga meðal allra áhafna í verslunarflotanum. Má vera, að hæstv. sjútvrh. sjái hér einhver ráð til þess að fyrirbyggja, að slíkt verði í framtíðinni. En ég held, að hann megi gera töluvert meira en hann hefur gert fram að þessu.

Ég minntist nokkuð á það, vegna þess að mér datt það í hug, þegar hæstv. ráðh. talaði hér í kvöld um það, að við vildum ekki, stjórnarandstæðan, fylgja lýðræðinu og þingræðinu. Ég endurtek: Hvað er lýðræði? Hvað er þingræði? Við höfum okkar ákveðnu þingsköp, við höfum okkar ákveðnu lög, sem við eigum að fara eftir hér á Alþ. Við höfum líka ákveðin lög, sem við eigum að fara eftir í Alþýðusambandi Íslands. Þar ræður meiri hl. kosning ríkjum. Stærstu félögin ráða þar miklu. Má ég minna þennan hæstv. ráðh. á það, og það er verst, að hæstv. fyrrv. félmrh. er hér ekki til staðar eða núv. félmrh., — má ég benda þessum mönnum á þeirra lýðræðishugsjón, þegar þeir meinuðu stærstu samtökum verkalýðsins í dag, verslunarfólki og skrifstofufólki, um það að koma inn í raðir Alþýðusambandsins og við urðum að berjast fyrir því, sem þá vorum í minnihlutaaðstöðu að fá þá dæmda inn? Er það furða, þó að maður verði hlessa, þegar maður heyrir þessa berra tala um lýðræðisást?

Herra forseti. Það var erindi mitt hér upp í ræðustól í kvöld við þessar umr., aðeins að ræða, hvað hefur skeð í þessum samningum, því samkomulagi, getum við sagt, sem hér er lagt til grundvallar, og reyndar samningum, sem líka liggja til grundvallar á öðrum sviðum, en við eigum eftir að fá til meðferðar hér á Alþ. Og þá minni ég enn á, að það er lítill meiri hl., og minni á það samkomulag, sem gert var um skattamálin hjá Alþýðusambandinu eða 30 manna nefnd Alþýðusambandsins og ríkisstj. og það undir mikilli áþján viðkomandi ráðh., sem þar stóðu og buðu í danssölum Alþýðusambandsins upp í dans sumum mestu verkalýðsleiðtogum Alþb., en þeir vildu ekki dansa stundum, að manni hefur skilist af fréttum. En hitt veit ég, að það voru auðvitað allir viljugir til þess að ná samkomulagi um þetta þýðingarmikla mál, því að allir voru orðnir fullvissir um það, að þarna lá í einn stærsti grundvöllurinn fyrir því að ná verulegri kjarabót. En hvað kemur í ljós á eftir? — Á eftir, segi ég, vegna þess að ég held því fram, að þessi samtök hafi verið blekkt. Þau töldu þörfina vera svona mikla, þegar þau vissu ekki um, hve gífurlega mikil áþján lá til viðbótar annars staðar, og ég held, að það hefði aldrei verið samþ. þó með þessum nauma meiri hl. 30 manna n., með 11 eða 13 menn sitjandi hjá og 4 á móti og byggt þannig upp, að í þessum meiri hl. voru þm., miðstjórnarmenn og stærstu stuðningsmenn Alþb. og stjórnarflokkanna. (Gripið fram í: Og Sjálfstfl.) Einn, hinir voru á móti, vegna þess að hann reyndi að vinna að þessu eins og hann gat. Og bann einn gaf Halldóri E. Sigurðssyni það orð, um leið og mér skildist, að hann einn hefði líka fengið það orð á móti frá honum, að hann reyndi að vinna hvað hann gat að því að ná fram þeirri stefnu Sjálfstfl. að fara inn á tekjuskattslækkun, og hann vann að því eins og maður og náði því fram, sem náðist. Það voru ekki félagar þínir, hv. þm. Jón Snorri.

Ef við förum nánar út í, hvaða samkomulag var þarna gert, þá held ég, að við ættum að renna aðeins yfir, hvað var gert meira en að ræða um skattalækkanir og skattabreytingar. Var ekki gert eitthvað meira, sem við eigum eftir að fá hér inn á þing? Og þá vitna ég aftur til þess, sem ég hef áður vitnað til, að það er ekki nóg, að einhver lítill meiri hl. í Alþýðusambandi Íslands með þeim kosningakjörum, sem þar er boðið upp á, geti ráðið því, að okkur séu settir úrslitakostir hér á Alþ., sem eru þó kjörnir eins og við erum kjörnir, um það, hvað við eigum að gera. Ég mótmæli þessu alveg, m.a. vegna minni hl., sem er í Alþýðusambandinu og m.a. í þessari n. meðal alls þess fjölda launþega, sem hvergi kom nálægt þessu. Má ég benda á Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem gerði olíusamningana frægu við ríkisstj., en ég hef sterkan grun um, að forustumenn þar hafi átt baksamninga við ríkisstj., vegna þess að tveim dögum eftir að samningarnir við Alþýðusambandið voru gerðir eru gerðir nýir samningar við þá. Voru slíkir baksamningar líka við meiri hl. fulltrúa í bændasamtökunum? Þurfti endilega að skella yfir þjóðina þeim gífurlegu verðhækkunum, sem áttu sér þar stað, á sama degi og launahækkanirnar voru samþykktar? Mátti ekki einu sinni bíða eftir því, að launahækkanirnar kæmu í framkvæmd. Og þá leiðrétti ég það strax hér, að ég er ekki sá Pétur Sigurðsson, sem það samþykkti. Það vissi auðvitað hæstv. ráðh. Lúðvík Jósepsson.

En ég spyr aftur: Er það rétt að taka í munn sér, að þetta sé í nafni allrar launþegahreyfingarinnar á Íslandi? Eigum við enga aðra launþegahreyfingu en Alþýðusamband Íslands, þ.e. lítinn meiri hl. þar, og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja? Eigum við ekki eitthvað meira? Jú, við eigum líka nokkuð sem heitir Farmanna- og fiskimannasamband Íslands. Hafa þeir verið teknir í þessar viðræður? Ég veit auðvitað ekki, hvað hæstv. sjútvrh. hefur gert, en ég efast um, að þeir hafi verið kallaðir inn í þessar viðræður, og ég veit það reyndar, að þeir hafa ekki verið kallaðir þar til. Auðvitað má kalla á ýmsa svona hópa, sem standa þar utan við og standa svo mikið utan við, að þeir eiga ekki samleið með þessum hópum. En það er mjög afskammtaður og vafasamur pólitískur meiri hl. í Alþýðusambandinu, sem leyfir sér að semja svona fyrir alla launþega Íslands. Ég efast um, að það sé jafnlýðræðislegt og hæstv. sjútvrh. taldi það vera. En þegar núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekki meiri hl. í hv. Nd., leyfir hann sér að draga í efa, að við höfum rétt til þess að fella fyrir honum frv. og hæstv. ríkisstj. En ég vil segja honum, að við höfum fullan rétt til að gera það.

Herra forseti. Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, vegna þess að ég vil ekki ganga á það samkomulag, sem ég gerði við mína samstarfsmenn, að lokum benda á, vegna þess að við eigum eftir að fá þetta til afgreiðslu hér í hv. Nd. og reyndar í hæstv. þingi öllu, við eigum eftir að fá fram fyrir okkur samninga, sem gerðir voru af þessum mjög takmarkaða meiri hl., sem heita samningar um launaskatt. Og þessir samningar, sem þar voru gerðir, munu ráðast stórkostlega á smáiðnaðinn í landinu og reyndar allan iðnað. Ég ætla nú þegar að undirstrika það, að þessum samningum var mótmælt af báðum samningsaðilum iðnaðarins í landinu, í hvaða flokki sem þeir voru, hvort sem þeir voru kommúnistar, sjálfstæðismenn eða aðrir í launþegastétt, og af öllum hinum í hinum stéttunum, ég efa að það sé nokkur framsóknarmaður þar lengur, en ég veit, að því var mótmælt af báðum aðilum og það hefur komið opinber yfirlýsing frá þeim, sem hafa mótmælt. Hvaða samningar eru þetta? Hverjir semja? Það eru menn, sem eru orðnir vonsviknir á því að geta ekki lafað fram á næstu kosningar, sem gera þetta. Og auðvitað veit hv. 4. þm. Reykv., að það er ekkert annað, sem er að baki þessu.

Má ég benda á meira? Það er gert samkomulag um lífeyrissjóði launþega. Hverjir tóku þátt í því samkomulagi? Lítill meiri hl. launþega. Hvað með okkur hina, sem tókum engan þátt í þessum samningum? Á okkar hluti lífeyrissjóðanna að fara líka inn í þetta samkomulag? Ég spyr. Geta einhverjir aðilar úti í bæ farið og samið um eign okkar í þessum lífeyrissjóðum? Ég efa það. Hins vegar skal ég taka undir þau orð hæstv. trmrh., að auðvitað er lífeyrissjóðafyrirkomulagið komið á heljarþröm. Hins vegar er ekki lífeyrissjóðafyrirkomulag þeirra sjóða, sem urðu til vegna samninga á sínum tíma og börðust fyrir því og fórnuðu fyrir það kaupi sínu í samkeppninni við önnur félög, komið á neina heljarþröm og fer ekki strax, og þar á ég t.d. við lífeyrissjóði sjómanna.

Ég hef aðeins minnst á Atvinnuleysistryggingasjóðinn. Það er eitt mál, sem við fáum hér inn á þing á næstunni vegna þessa samkomulags. Eru allir reiðubúnir til að samþykkja það? Það verður auðvitað að viðurkenna, að það var Alþýðusamband Íslands og hin stóra samninganefnd þar, sem samdi um á sínum tíma, að það yrði farin þessi leið. Það var þáv. sáttasemjari, sem var settur, fyrrv. hv. þm. Emil Jónsson, sem beitti sér fyrir þessu samkomulagi, sem gert var, og eftir það var samið frv. og samþ. hér á þingi með nokkrum hreytingum frá því, sem samþ. hafði verið í samningunum um þennan sjóð. En síðan hefur sú breyting orðið á, að það eru öll stéttarfélög landsins, sem borga í þetta, og allar stéttir með örfáum undantekningum, sem ég held, að séu að vísu nokkuð margir bændur. Hvernig slíkur lítill meiri hl. í verkalýðshreyfingunni getur leyft sér að semja og skipa okkur svo fyrir hér á Alþ., hvernig eigi að ráða fram úr þessum málum, fæ ég ekki skilið. En þetta hefur verið gert oftar en einu sinni.

M.a. er tekin inn í þetta ný grein, sem ég ætla síst að hafa á móti, en það hafa á undanförnum árum verið teknar margar nýjar greinar inn í þennan stóra og mikla sjóð. Það gæti komið að því, að þeir menn, sem nú þykjast ráða á Alþ., fengju það mikinn meiri hl., að þeir mundu bara setja þetta í sinn flokkssjóð. Þeir telja sig allra manna best fallna til þess að fara með málefni launþega, og það getur kannske komið að því.

Ég minntist líka nokkuð á, — og enn bið ég afsökunar þá, sem ég bað um að gefa mér tækifæri til þess að tala í þessari röð, — að ég hef talið, að það væri hefndarráðstöfun núv. hæstv. ríkisstj., þegar þeir réðust að farmönnum í sambandi við þau skattfríðindi, sem þeir höfðu haft, eða tóku þau af þeim. Ég bendi þeim á það nú og enn einu sinni, að samningar voru gerðir við verkalýðsfélögin um það, að þeir lægst launuðu fengju a.m.k. um 26%. Það var samið um það undir forustu þessara manna, en þó upp í 31%, en iðnaðarmenn frá 36% upp í 38%. Það eru nokkrar stéttir, sem eiga ósamið, og ég geri ekki ráð fyrir, að þeir menn standi upp öðru vísi en þeir fái það sama. Hins vegar verður litið á það, held ég, af þeim, án þess að ég þori nokkuð um það að segja, hvort ríkisstj. sé bara til viðtals við Alþýðusambandið, hvort hún vilji nokkuð tala við aðra. Og náttúrlega efar enginn, að það er vandi ríkisstj, og löggjafans að segja til um þetta, og ég veit, að þessir menn efa það ekki heldur. En eru þessir menn tilbúnir til þess að koma eitthvað á móti ódrengilegum árásum stjórnvalda í þeirra garð? Eru þeir reiðubúnir, og er löggjafinn reiðubúinn að koma á máti þeim líka í sambandi við eftirgjöf í sköttum, eins og þeir virðast vera, ef í hlut eiga þeirra eigin kjósendur úti um land? Nú mætti tala langt mál um það, kannske ekki síst vegna ræðu, sem kom hér fram í gær frá hv. 7. landsk. þm.

Ég hef líka minnst á, að það er nokkuð eftirtektarvert, að það er samið mjög snemma við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Það er samið þannig við þá, að þeir ganga á undan með samninga, sem eru auðvitað fyrir neðan allt, sem kom svo út úr hinum almennu samningum. Hins vegar um leið og upp er staðið frá samningum við hina lægst launuðu, Alþýðusambandið, þá er gengið til og hækkað beint um ákveðna prósentu og upphæð við þá. Þetta gefur auðvitað öllum mönnum, sem í verkalýðshreyfingunni standa, til kynna, að þarna hafi einhverjir baksamningar átt sér stað, olíusamningarnir svonefndu. Og ég held, að þegar upp verði staðið í raun eftir nokkur ár, þá liggi ljóst fyrir, að svo hafi verið.

Ég vildi aðeins á þessu stigi láta mínar skoðanir í ljós á því, sem hér hefur komið fram hjá hæstv. ráðh. og öðrum, þótt af mörgu væri að taka, og ég vil undirstrika það sem slíkur, — ég er miðstjórnarmaður í Alþýðusambandi Íslands, — en ég mótmæli allri þeirri málsmeðferð, sem við hefur verið höfð á þessu sviði frá hendi verkalýðshreyfingarinnar, einfaldlega vegna þess, að það hefur verið stór hluti hennar, sem hefur átt eftir að standa í samningum, meðan ákveðinn takmarkaður hópur hefur staðið í þeim og samið fyrir sig og sína. Og ég vil líka undirstrika það, að mín skoðun er sú, að það hafi aldrei verið beðið um breytingu á því sviði, að það yrði tekið aftur af launþegahreyfingunni jafnmikið og launþegar fengu í staðinn fyrir kerfisbreytinguna. Það var grundvallaratriði hjá verkalýðshreyfingunni, að hún fengi meira út úr skattkerfisbreytingunni en það að þurfa að fórna öllu aftur. Það var grundvallarskilyrði í allri kröfugerðinni á öllum ráðstefnunum, sem fram kom hjá Alþýðusambandinu, og það ætti fyrrv. forseti Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, fyrst og fremst að vita um. Það var grundvallarskilyrði í þessari kröfugerð, að verkalýðshreyfingin vildi ekki meiri skattkröfur, ekki meiri skattaáþján frá þessari ríkisstj. Hún for dæmdi þá stefnu. ríkisstj., sem mótuð var í byrjun, að hún ætti að hafa meira til þess að skipta á milli sín og sinna aðgerða. Fólkið sjálft vildi fá að eiga sitt fé og ráðstafa því. Þetta var meginmismunurinn, sem kom í ljós ári eða svo eftir að núv. hæstv. ríkisstj. hafði skrökvað að alþýðu landsins.