13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2807 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv., frsm. meiri hl. fjh: og viðskn., ræddi hér áðan um það tekjutap, sem ríkissjóður yrði fyrir, ef till. ríkisstj. yrðu samþ. annars vegar, og bar svo saman við það tekjutap, sem ríkissjóður yrði fyrir, ef till. Sjálfstfl. yrðu samþ. Það var eins og mátti vænta, að hann grundvallaði ekki þann samanburð á því eina eðlilega í sambandi við þessi mál, þ.e. fjárl. annars vegar og hins vegar, hvað þær till. gefa, sem hér er verið að ræða um. En það var ekki nóg með það, að samanburðurinn væri rangur, eins og kom fram í fyrri ræðu hans, heldur sýndi hann það berlega með þeim talnaflutningi, sem hann viðhafði, að hann gerði sér ekki grein fyrir, hvernig sérfræðingarnir byggja upp þá áætlun, sem þeir lögðu fyrir fjh.og viðskn., því að hann lagði til grundvallar till. sjálfstæðismanna 2200 millj. kr. sem álagðan tekjuskatt 1974 og dró það frá þeirri upphæð, sem hann hafði gefið sér, 7 þús. millj., og fékk út 4.8 milljarðar. Það er að vísu rétt útkoma, þegar 2200 millj. eru dregnar frá 7 milljörðum, en hann gleymdi, sá ágæti þm., að 1974 má reikna 1300 millj. eftirstöðvar frá árinu 1973 til viðbótar sem álagðan tekjuskatt, þannig að ef hann hefði kunnað þá reikninga, sem sérfræðingarnir viðháfa, þegar þeir leggja sínar skýrslur fyrir, þá hefði þessi upphæð, sem hann notaði, átt að vera annars vegar 7 þús. millj. og hins vegar 3500 millj. þar á móti. En ég skal ekki fara lengra út í umr, um útreikningana.

Í nál. 1. minni hl., okkar fulltrúa Sjálfstfl. í fjh: og viðskn. er gerð glögg grein fyrir því, með hvaða hætti útkoman er fengin. Annars vegar er miðað við fjárlög ríkisins, eins og þau hafa verið samþykkt, og hvað þær till. um breytingu á tekjuskatti mundu þýða í tekjutapi fyrir ríkissjóð, og svo hins vegar, hvernig við leggjum til, að það verði bætt.

Þá vék þm. enn að þeirri brtt., þar sem við leggjum til, að ríkisstj. verði heimilt að lækka framkvæmdir samkv. fjárl. 1974 um allt að 1.5 milljarð, og taldi, að hér væri ekki um lýðræðislega till. að ræða, það væri að sjálfsögðu þingið, sem ætti að ákvarða þetta, en við ættum ekki að fela ríkisstj. það vald. Ég skaut því þá hér fram, að það væri sjálfsagt, ef það mætti verða til þess, að þessi hv. þm. gæti frekar fellt sig við þessa till., að flytja brtt., þar sem fram væri tekið, að þetta skyldi gert samkv. till. frá fjvn. Við hins vegar gerðum grein fyrir því í nál. okkar, að við teldum sjálfsagt og eðlilegt, að sá sparnaður, sem þarna mundi koma til, yrði samkv. till., sem fjvn. gerði til hæstv. fjmrh.

Hann sagði jafnframt, að það væri sjálfsagt að athuga slíkar sparnaðartill., en það væri bara ekki tími til þess núna, það væri ekki hægt í sambandi við afgreiðslu þessa máls, og fann alla vankanta á því, að rétt væri að taka til athugunar einhvern sparnað á þeim fjárl., sem nýlega hafa verið samþ. Ég vildi gjarnan minna þennan hv. þm. á það, sem ég reyndar gerði í framsöguræðu minni í dag, að frsm. 1. minni hl. fjvn., hv. þm. Matthías Bjarnason, einmitt vék sérstaklega að því í ræðu sinni við 3. umr. fjárl., hvort ekki væri rétt þá að setjast niður og nota þingið til þess að kanna, hvort ekki gæti náðst samkomulag um sparnað á ríkisútgjöldum og Alþingi setti þak á fjárl. Þetta máttu stjórnarherrarnir og stjórnarliðar þá alls ekki heyra. Þess vegna verður ekki mark tekið á þeim orðum hv. þm., sem hann lét hér falla áðan, að hann væri með einum eða öðrum hætti síðar meir til viðræðu um að spara á ríkisútgjöldum eða komast að samkomu lagi í þeim efnum á milli þingflokka. Hann varpaði því síðan fram: Hvers vegna koma þeir ekki með beinar till. í þessum efnum? Vilja þeir lækka þetta og vilja þeir lækka hitt? — Ég verð nú að segja eins og er, að það kemur úr hörðustu átt frá hv. 4, þm. Reykv., form. Framsfl., að koma með slíkar spurningar. Ég man ekki betur, þegar við vorum að glíma hér fyrir rúmu ári við frv. til l. um Viðlagasjóð, en að við í stjórnarandstöðunni legðum þá mjög hart að ríkisstj, og stjórnarflokkunum, að það yrði að einhverju leyti gengið í það að spara á ríkisútgjöldum til þess að mæta að einhverju leyti því tjóni, sem þjóðin varð þá fyrir. Við sjálfstæðismenn lýstum okkur reiðubúna til þess að setjast niður og skoða þessi mál og gera tilraunir til þess að ná samkomulagi um einhvern sparnað á ríkisútgjöldum. En það var því miður ekki hægt að ná samkomulagi, enda þótt að lokum væri um að ræða 200–300 millj. kr., sem í þann sjóð komu eftir þeim leiðum eða samkv. ábendingum, sem urðu til í þessum viðræðum. En á þeim orðum, sem hv. 4. þm. Reykv. viðhafði um vilja til sparnaðar, verðum ekki mark tekið, miðað við það, sem á undan er gengið, og þegar ég skaut því fram hér áðan, að það væri sjálfsagt að flytja brtt. þess efnis, að fjvn. gerði till. til fjmrh., þá fór hann strax undan í flæmingi, brá sér í næsta vígi og hörfaði svo koll af kolli.

Hæstv. sjútvrh. kom í ræðustólinn áðan og geystist víða. Hann rifjaði upp umr. um fjárlög hér í des. og var furðu lostinn, að honum fannst, á þeim ræðum, sem þá voru haldnar, og því, hvernig málum er komið nú í dag. Ég fyrir mitt leyti vildi gjarnan mega vekja athygli á því, að það er ástæðulaust fyrir hæstv. sjútvrh. að vera svo furðu lostinn á þessu öllu saman. En það var einmitt mjög gott, að hann skyldi vekja athygli á þessu, því að hann var raunverulega að vekja athygli á því, hvílík óðaverðbólga væri í þessu landi, að á tölum, sem lagðar væru fyrir Alþ. í des. varðandi fjárlög ríkisins, væri ekki hægt að byggja nema kannske í 2–3 vikur, þá væri komin ný skýrsla og allar tölur orðnar miklu hærri. Umr. fóru hér fram við afgreiðslu fjárl., og þá var m.a. bent á, að það væri ekki hægt að taka inn í fjárlög gjaldapósta, sem taldir voru nauðsynlegir, vegna þess að það voru ekki tekjur á fjárl. til þess. Því var lýst yfir, að áætlanir sérfræðinga væru teygðar til hins ítrasta. Skömmu eftir að fjárlög eru samþykkt eða um það leyti kemur á borð þm. frv. til l. um breyt. á l. um tollskrá. Og í grg. þess frv. er sagt, að verði það frv. lögfest, þýði það 635 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð, en 200 millj. hafði verið gert ráð fyrir í fjárl., þannig að sjálft frv. mundi þýða 435 millj., og það þyrfti hvorki meira né minna en eitt söluskattsstig til að tryggja þetta, ríkissjóður væri svo illa kominn. Við féllumst ekki á þetta, stjórnarandstöðumenn. Hver er svo reynslan? Frv. var að vísu ekki samþ. fyrir jól, en það er búið að samþykkja þetta frv. í dag, og það þurfti ekki eitt söluskattsstig til viðbótar til þess að mæta því tekjutapi, sem ríkissjóður varð fyrir vegna tollskrárfrv. Meira að segja í þeirri tekjuáætlun, sem er lögð fyrir fjh: og viðskn. nú á laugardaginn, koma gjöld af innflutnings- tolli, þegar búið er að taka tillit til þess tekjutaps, sem ríkissjóður varð fyrir vegna tollskrárfrv., með rúmlega 200 millj. kr. hærri áætlun en var í des. Fjárl. gerðu ráð fyrir 8515 millj. kr., en áætlun sú, sem fjh: og viðskn, fékk s.l. laugardag, gerir ráð fyrir, að tekjur af gjöldum af innflutningi 1974 verði 8738 millj. kr., rúmlega 200 millj. kr. meira, og er þá búið að taka inn í dæmið það tekjutap, sem ríkissjóður varð fyrir vegna tollskrárfrv. Þannig er þetta allt saman. Það var þess vegna mjög gott, að hæstv. sjútvrh. skyldi vekja athygli á umr., sem hér fóru fram í des., í samanburði við þær umr., sem fara hér fram í dag. Síðan í des. er búið að gefa tvær skýrslur frá sérfræðingum ríkisstj. í sambandi við tekjur og gjöld ríkissjóðs, og hverjar eru þessar tölur í dag og hverjar voru þessar tölur fyrir 21/2 mánuði? Hækkunin er hvorki meira né minna en 3 milljarðar, sem tekjur og gjöld ríkissjóðs í áætlun sérfræðinga hafa hækkað á aðeins 21/2 mánuði. Og ég segi: geri aðrar ríkisstj, betur. Það hefur engin gert.