13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2812 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

259. mál, skattkerfisbreyting

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er sagt í sögu Hrólfs konungs kraka, þegar hann barðist við mág sinn, hann vildi drottna yfir öllu, hann Hrólfur, hann hafði kappa, sem hét Böðvar Bjarki, og hann fór ekki í orrustuna, heldur reyndi hann galdur og sat inni, og ég held, að hann hafi heitið Höttur, kjáninn, sem kom og truflaði hann, og þess vegna biðu þeir ósigur. Þeir sáu ein 5 bjarndýr, meðan hann var ekki við, en ekkert bjarndýr, eftir að hann var kominn í bardagann. Ég var suður í Hafnarfirði, var þar á klúbbfundi, og þeir hafa aldrei fengið skemmtilegri mann. Þeir eru víst flestir komnir þarna á pallana, þessir góðu drengir. Þeir gátu látið mig í friði, en þeir gerðu það ekki, og þess vegna verða þeir að taka afleiðingunum af því. Ég sagði held ég fjmrh., hann var að síma í mig og hefur nú litið lagst fyrir kappann að lofa mér ekki að vera í friði, af því að ég hélt það væri öllum fyrir bestu, — ég sagði honum, að ég kæmi ekki nema að halda ræðu. Ég ætla þess vegna að halda ræðu, og þá taka þeir afleiðingunum af því að láta mig ekki vera í friði eins og Böðvar bjarka forðum.

Náttúrlega sjáið þið allir, hv. þm., að þegar þeir koma saman á Hótel Loftleiðum syfjaðir af því að rífast þarna í marga daga, senda okkur svo bara eitt frv., segja okkur að samþykkja það, þetta er fyrir neðan allar hellur fyrir Alþ. Auðvitað metum við, hvað er af viti í þessu, ef við erum menn, og hvað er ekki af viti, og vinsum úr. Ég hafði svolitla von um, að stjórnin gerði það, og hafði ég þó litla von um það satt að segja, því að ég vissi, að þeir mundu vilja samþykkja vitleysuna, en síður það, sem vit væri í, og það rættist.

Út af fyrir sig hef ég ekki nokkurn hlut á móti því að hækka söluskattinn og lækka tekjuskattinn. Ég hef alltaf haldið því fram, að tekjuskatturinn væri of hár. Raunverulega hef ég líka bent á það, að hann mætti vera hærri af hátekjumönnum, en lægri á hinu vinnandi fólki, sem stritar i6 tíma á sólarhring í fiskvinnslunni og þarf að borga 56% af kaupinu sínu í skatta.

Það er of mikið að leggja það á fólkið að vaka á nóttunni og borga 56%, en það er allt í lagi með hann Rolf Johansen, sem græðir 11 millj. á ári, þó að hann borgi meira en 56%. En ég veit, hvað það er að vinna, og það er engin ástæða fyrir fólk að vaka á nóttunni við það að vinna og svo er 56% tekið af því. Þess vegna segi ég: Það er allt í lagi, að þið takið 70% af þessum herrum, sem geta aflað milljóna króna, án þess nokkurn tíma að svitna. En þið skulið athuga, að það má ekki taka svona mikið af fólkinu, sem stritar. Þess vegna get ég gengið að því að hækka söluskattinn dálítið og lækka tekjuskattinn. Sannleikurinn er sá, að það má ekki taka nema 30% af þessu fólki, til þess að það vilji leggja á sig næturvinnuna, og þjóðin þarf næturvinnunnar með. Við búum á landi, sem heitir Ísland, og mismikið fiskmagn berst að landi. Því verður fólkið að leggja þetta á sig, og það gerir þetta ekki af peningagræðgi, það gerir þetta af því að það sér, að það þarf að vinna. Það þýðir ekki að gera verðmætin ónýt. Þess vegna eigum við að lækka tekjuskattinn. Það er allt í lagi að hækka söluskattinn, en hitt fannst mér dálítið kyndugt, þegar á að fara að borga mönnum fyrir það að borga ekki skatt. Það er alveg nýtt kerfi, sem á að setja upp á landi voru, Íslandi, líkt og lífeyrissjóðskerfið, sem við erum algerlega frumstæðir með og finnst ekki hliðstæða einu sinni meðal svertingja. Það er þessi virðulega gr. hér, þessi 4. gr. Það er ósköp einfalt að gera þetta, það þyrfti ekki neina langloku eins og þessa til þess að hækka söluskattinn um 3–5% og lækka tekjuskattinn. Nei, ónei, hér er komið alveg heilt frv., sem þeir eru búnir að semja þarna á Hótel Loftleiðum og láta Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóra stílfæra fyrir sig, sem er mætur maður, og auðvitað veit maðurinn, að þetta er tóm vitleysa, þó að hann verði að gera þetta. Þetta er reyndar góður drengur og ekkert nema gott um hann að segja. Auðvitað gæti ég aldrei gert þetta, ég er líka bóndi. En þetta bull, þegar á að fara að borga mönnum fyrir að borga ekki skatt. Þarna myndast heilt kerfi, og ímyndið ykkur þetta kerfi.

Svo kemur Karvel. Jú, það má ekki taka afskriftir til greina, segir Karvel. Auðvitað tóm endileysa, því að afskriftir eru algerlega heilbrigðar. Ef við kaupum vél, þurfum við að borga vélina, og það er eðlilegt að afskrifa hana: Það má deila um, hvort það á að afskrifa hana á mörgum eða fáum árum, en það þarf að afskrifa hana. Þetta er nýtt kerfi. Þetta er alveg eins og hjá Bakkabræðrum, að fara að búa til svona kerfi. En þetta gerðu þeir á Hótel Loftleiðum, og svo ætlar allur þingheimur að leggja sig flatan og samþykkja þessi ósköp.

Svo var ég nú að glugga í till. sjálfstæðismanna — ég met þá alltaf mikils og ætlast til mikils af þeim, — hvort þeir hefðu ekki manndóm til þess að fella þessa vitleysu niður. Nei, ónei, það stóð allt kerfið, bara að lækka söluskattinn ofan í 2%, en kerfið stóð.

Kratarnir? Jú, jú, það stóð bara 31/2% og ekkert annað hjá Gylfa, og hefur nú stundum komið meiri vitleysa frá Gylfa satt að segja. Hví í ósköpunum strika menn ekki út vitleysurnar og halda því sem vit er í? En þetta er bara það, sem ég hef oft orðið að horfa upp á hér. Þegar vinnutímastyttingin var á ferðinni, var ég einn á móti þeirri vitleysu. Auðvitað vissu sjálfstæðismenn, að þetta var vitleysa, en þorðu bara ekki að greiða atkv. á móti, héldu, að þeir mundu tapa atkv. Það hefur enginn maður skammað mig fyrir þetta. Og þegar þeir voru með barnaverndina og átti að setja menn í tugthúsið fyrir að láta 17 ára gamla unglinga reka kýrnar eftir kl. 5, þá var tveggja ára tugthús við því. Ég vissi ekki betur en ég stæði þá einn. Ég met sjálfstæðismenn mikils, þeir eru greindir og góðir menn.

En því í ósköpunum eru þeir að samþykkja þessa vitleysu? Því leggja þeir ekki til að strika þessa dellu út. Ef það fer í 6% af skattskyldum tekjum framteljanda samkv. 7. gr.? Hann er eitthvað að laga þetta, hann Vilhjálmur frá Brekku, en það skiptir engu máli. Þvílík vitleysa. Svo er það til greiðslu þinggjalda. Ég ætla að reyna að spara ykkur erfiðið við að hlusta á of mikinn lestur, — til greiðslu þinggjalda, sem á manninn eru lögð á greiðsluárinu. Þetta er það fyrsta. Í öðru lagi til greiðslu útsvars og annarra gjalda til sveitarsjóðs, sem á manninn er lögð á greiðsluárinu, að undanskildum fasteignagjöldum. Í þriðja lagi: Sé framlag ríkissjóðs samkv. 3. mgr. þessa liðar hærra en greiðslur samkv. 1. og 2, lið hér að framan, skal því, sem umfram er, ráðstafað eins og hér segir: Til jöfnunar á námskostnaði, sbr. l. nr. 69 1972, og til Lánasjóðs íslenskra námsmanna eða annarra fjárhagsaðstoðar ríkisins við námsmenn, þegar í hlut eiga menn, sem njóta frádráttar vegna námskostnaðar á skattárinu. Til greiðslu ógoldinna þinggjalda mannsins frá fyrri árum og síðan til greiðslu fasteignagjalda hans og ógoldinna gjalda til sveitarsjóðs frá fyrri árum, þegar í hlut eiga aðrir menn en um gat hér að framan. Í fjórða lagi: Sé fé enn óráðstafað að loknum greiðslum samkv. 1.–3. lið hér að framan, skal það greitt viðkomandi manni.

Það er náttúrlega gott að fá 550 millj. kr. til að verja í þessum tilgangi. Þarna myndast heilt kerfi. Sýslumennirnir eiga að hlaupa um og vita, hvað maðurinn skuldar í gömlum útsvörum, og þeir eiga að borga þetta. Ég hélt, að þeir hefðu nú nóg á sinni könnu.

Svo er nú það síðasta, þegar búið er að hjálpa upp á námskostnaðinn, þá á að greiða hinum ýmsu aðilum, þeim sem ekki hafa neinar tekjur, afganginn. Vitanlega getum við fengið einhvern fjmrh., sem getur komið þessu öllu í lóg, og ég efast ekkert um, að okkar fjmrh. núna, af því að hann er stórtækur maður og rausnarbóndi, hann mundi koma þessu öllu í lóg. En auðvitað sér hver einasti þm., sem hefur einhverja vitglóru, að þetta er tóm endileysa, að fara að borga manni fyrir að borga ekki skatt. Þetta er alveg frumstætt. Hv. 5. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, mjög gáfaður maður, sagði, að það hefði eitthvað verið minnst á þetta í Bretlandi, en ekki framkvæmt. Ég veit ekki, hvort þetta er satt eða ekki, og býst ég þó við, að maðurinn sé sannorður. En við erum víst frumkvöðlar í þessu eins og með tryggingakerfið okkar. Svona vitleysu er mér alveg ómögulegt að samþykkja, ég segi það eins og er. En nú eruð þið allir búnir að fallast á þetta: sjálfstæðismenn, kratar, framsóknarmenn, liberalir og ég veit ekki hvað og hvað. Ég hef alltaf vitað til þess, að við værum krafðir um þinggjöld, en ekki að okkur væru borguð þinggjöld, borgað fyrir að gera ekki neitt. Og karlarnir hérna, sem drekka, eru náttúrlega ekki með nokkrar tekjur, en þeir eiga að fá mest. Svo gæti ég trúað, að stöku bóndi skytist í það eftir afskriftirnar, því vitanlega þarf að afskrifa vélar, og það verður Karvel að skilja. Ef við kaupum vél, verðum við að afskrifa vél. Sumir bændur hafa engar tekjur. Og aðstaða manna er ósköp misjöfn að gera skattskýrslur. Þeir, sem eiga marga drengi, eins og ég, ég get verið skattlaus bara ef mér sýnist, þegar ég er laus við þetta þingkaup mitt. Ég ræð því alveg sjálfur. Þetta er eins og hver önnur vitleysa. Hvernig í ósköpunum stendur á, að maður eins og Gunnar Thoroddsen getur verið þekktur fyrir að leggja ekki til, að þetta sé fellt niður, svona della?

Svo er launaskatturinn, það á að hækka launaskatt. Nú eru sjómenn og bændur undanþegnir þessum launaskatti, og þá kemur þetta mest á viðskipti og iðnaðinn. Ég held, að hann hafi fengið 20–30% hækkun á kaupið. Iðnaðurinn stóð verst að vígi áður. Ætli það verði ekki heldur lítið úr útflutningsiðnaðinum okkar á eftir, eða þá að ríkið verður að borga með honum. En hvort sem er, held ég best að sleppa iðnaðinum við þennan launaskatt.

Ég hef alltaf verið á móti launaskatti. Þetta er eins og hver annar fáránlegur hlutur að vera að tala um, að kaupið sé of hátt, leggja svo á launaskatt og ætla að láta atvinnuvegina borga þetta í uppbót á kaupið. Þetta er eins og hver annar fáránlegur hlutur.

Fyrrv. stjórn, sem var náttúrlega góð á sinn hátt, eins og allar stjórnir eru reyndar, og allir þm. eru góðir menn og greindir menn og prýðismenn, og ég hef ekkert nema gott um þá að segja, þótt þeir séu misjafnlega miklir fjármálamenn, en fjármálamenn eru ekkert betri en aðrir menn, — fyrrv. stjórn bætti við ótal aukasköttum, og ég er búinn að reikna þetta út með iðnaðarmönnum og útgerðarmönnum, það eru 25–30 aukaskattar á þessum atvinnuvegum. Þetta gildir, að ef 100 kr. eru borgaðar í kaup, — þá fer ég eftir þeim reikningum, sem ég athugaði í fyrra og hittiðfyrra, — 42 kr. í ýmis aukagjöld. Nú gefur það auga leið, að ef þessi aukagjöld væru ekki, væri hægt að borga hærra kaup. Sannleikurinn er sá, að við borgum fólkinu ekkert of hátt kaup, höfum ekki gert það. En það eru alls konar aukagjöld, m.a. lífeyrissjóðsgjöld, útflutningsgjöld og launaskattur og allt mögulegt, sem étur utan af þessu. Svo þurfa þessir vesalings menn að halda 1–2 menn hvert fyrirtæki til þess að reikna út alla þessa skatta og skila öllu þessu af sér. Þetta er furðulegt. Svo á að bæta 11/2% við þessa vitleysu. En annars vil ég nú unna þessari stjórn sannmælis eins og öllum öðrum, að hún hefur ekki bætt við þessa aukaskatta, en ég átti von á, að hún fækkaði þeim. Hún var búin að lofa því og lofaði náttúrlega ýmsu, sem hún hefur ekki getað efnt eða ekki viljað efna. En hún hefur ekki gert það. Og nú á að bæta við launaskattinn, mér er ómögulegt að vera með. Ég verð að segja það eins og er, ég get ekki verið með. Það verður að fara einhverjar aðrar leiðir.

Þá eru hérna þrjár eða fjórar greinar með ægilegum hótunum yfir því, ef ekki er skilað söluskatti á réttum degi. Nú er það þannig með þessi kaupfélög okkar, að það er búið að stytta vinnutímann, sællar minningar. Menn eru þar stundum í annríki og fleiri menn í annríki, kaupmenn jafnvel líka og atvinnurekendur. Og það er ekki alveg víst, að þeir geti verið búnir með söluskattsskýrsluna á réttum degi, haft hana hárrétta. En þá á að bæta 2% við á hverjum degi, sem það dregst, þannig að eftir 5 daga séu það 10%, þá fellur gjaldið niður. Það er bara 10%, og svo er 1.5% á mánuði eftir það. Ég held að það séu óþarflega mikil viðurlög. Svo er þetta endurtekið í þremur greinum í þessu blessuðu frv., sem þeir lögðu drögin að á Hótel Loftleiðum, og alltaf heitingar og síðast kemst það upp í 10 millj. eða allt að 6 ára tugthúsi. Ég held, að það væri hægt að hafa þetta í einni grein og hafa þarna skynsamleg ákvæði, þannig að það séu ekki lögð ógurleg viðurlög, þó að það dragist í einn dag að afhenda skýrslurnar. Aðalatriðið er, að skýrslan sé rétt, þegar hún kemur. Svo er ágætt, að eftirlitíð væri öllu betra en það hefur verið. Það er betra að hafa eftirlitið betra, en heitingarnar minni, og þetta kæmist fyrir í einni gr., sem hér er í þremur gr.

Auk þess á að borga mönnum 18 500 fyrir það, held ég, hjónum, ef þau eru í nógu lágum tekjuskatti, en aftur einhleypingum 11 þús. Nú skil ég ekki, hvernig stendur á, að það á að fara að refsa fólki fyrir að vera gift. Það hættir allt fólk að gifta sig, ef það fær betri kjör hinsegin, og mér er sagt, að það séu margir hér í bænum, sem séu hættir við að gifta sig, því að þeir græða á því að vera ógiftir. Ég álit, að aumingja hjónin eigi bara að sitja við sama borð og þeir ógiftu, fá sama frádrag. Það eru þessi atriði sérstaklega, sem ég hef við að athuga.

Ég hef ekkert á móti því, eins og ég sagði áður, að hækka söluskattinn en lækka tekjuskattinn, — ekkert á móti því. En það er miklu viðkunnanlegra að láta gilda heilt ár, en ekki brot úr ári, þannig að ég held, að eftir öllum atvikum væri viturlegast, og ég sannast að segja treysti nú sjálfstæðismönnum og krötum til þess að kála þessari vitleysu og svo verði þetta athugað á þinginu seinni partinn nú í ár, þá verði þetta athugað og heiðarlega unnið að því. Við værum allir jafndauðir, þótt við borguðum sama tekjuskatt í ár og losnuðum við þennan vitlausa söluskatt, sem ekki er búinn að koma nema illu til leiðar. Það er bókstaflega kaupæði í landinu og búið að rífa peninga út úr bönkunum.

En nú vildi ég fara allt aðra leið. Ég vildi ekki hækka söluskattinn. Ég vildi lækka útgjöldin. Úr því að ég var píndur til að koma í þennan stað, datt mér í hug að benda ykkur á vissa hluti viðvíkjandi því. Ég ætlaði nú satt að segja að sleppa því að halda ræðu um það. Ég skrifaði ríkisstj. í fyrra bréf um það, að hún ætti að lækka ríkisútgjöldin um 5 milljarða, helming af því ætti hún að nota til að lækka tekjuskattinn og helming af því ætti hún að nota til að fjármagna fjárfestingarsjóðina. Ég gerði þetta í góðri meiningu, af því að maður á óþægilegt með að vera að „krítisera“ sína eigin ríkisstj. Ég var eins og góður drengur, sem benti pabba sínum á það, hvernig hann ætti að fara að því að framkvæma hlutina. Ég fór fyrst til Magnúsar Kjartanssonar, af því að það er góður haus á karli, og hann er líka trmrh. Næst fór ég til Ólafs Jóhannessonar, af því að ég veit, að hann er vitur. Svo fór ég til Lúðvíks. Og ég held, að ég hafi látið alla ráðh. hafa bréfið. En svo lét ég eitthvað 2–3 fjvn.-menn hafa það. Þetta er afar hógvært af stað farið. En aðalatriðið var þetta, það var tóm endileysa að taka allan lögreglukostnaðinn og láta ríkið taka hann að sér.

Fjmrh. okkar núverandi var bæjarstjóri áður. Það er oft svo með bændur, að þeir sjá aðeins landbúnað, og fiskimennirnir hjá bara fiskinn, þorskinn, og bæjarstjórinn sér bara bæjarútgjöldin, og bæjarfélögin voru svo lánsöm, að fjmrh. var bæjarstjóri eða ráðsmaður þarna í Borgarnesinu, og þá vissi hann um ýmis bæjarútgjöld, sem hann hafði orðið að borga. Þá var fyrsta verkið að losa bæjarfélögin við lögreglukostnað, losa þau við sjúkrakostnað, losa þau við almannatryggingar. Þetta var afar myndarlega gert, en eins og þið vitið er ekki hægt að losa einn við útgjöld, án þess að annar borgi, það skapast bara ný útgjöld. Nú hef ég ekkert við það að athuga, að almannatryggingarnar verði teknar, en sjúkrasamlögin urðu miklu dýrari, þegar ríkið tók við þeim, því að þá reyndu allir að snuða ríkið eins og þeir höfðu vit á. Nú var það þannig, að það var þrefalt lægri hjá okkur sjúkrakostnaður á Blönduósi heldur en hér í Reykjavík á Landsspítalanum, kostaði 1300 kr. hjá okkur 1970 eða 1971, síðast þegar ég athugaði það, en 4 þús. hérna, á dag. Og þegar ríkið var búið að taka allt saman, þá reyndu allir að græða sem mest, læknarnir ekkert betri en aðrir menn og seldu pillur, þó að sjúklingarnir hefðu ekkert að gera með pillur. Þetta gekk nú svona. Ég hef athugað, hvað þetta hefur hækkað.

Sannleikurinn er sá, að þegar þessi ágæta ríkisstj. okkar, sem margt hefur vel gert, tók við, þá þurfti ríkið að borga 1068 millj. til sjúkratrygginga, og það var ekki nema helmingurinn, helminginn greiddu heimabyggðirnar. En nú er þetta á fjárhagsáætluninni 4 387 millj. Þá er þetta orðið tvöfalt á tveimur árum. Þið getið reitt ykkur á, að þetta verður hærra, þegar reikningurinn kemur, heldur en áætlunin er, þannig að þarna er vitleysa á ferðinni. Og með lögreglukostnaðinn, þá þurftu allir að fá lögreglu, þegar ríkið borgaði allan kostnaðinn. Það eru ekkert nema kröfurnar. Þeir fá útsvar af lögregluþjónum og ánægju af því að hafa þá. Annars eru þeir hálfgerð plága úti á landsbyggðinni. Maður má ekki senda dreng í kaupstaðinn með traktor, án þess að þeir fari að elta hann. — Jæja, hvað sem því líður, þá er hann búinn að tvöfaldast á tveimur árum, sjúkrakostnaðurinn, og á eftir að hækka mikið og verður alveg furðulega hár að lokum. Þarna er um hreina vitleysu að ræða með bæði þessi atríði. Aftur með almannatryggingarnar er þetta allt í lagi.

Ég ráðlagði minni ágætu ríkisstj., sem ég hef stutt af trú og dyggð, að fella þetta niður og láta heimabyggðirnar sjá um þetta að hálfu. Það þarf bara að gæta þess að hafa hvorki lækninn né sýslumanninn í þessum sjúkrasamlagsstjórnum, þá er þeim vel stjórnað. Þá er þetta miklu ódýrara. Svo geta menn hjálpað fátæklingunum með því að láta bæjarfélögin borga hlutfallslega meira. Þau borguðu fyrst helming, það var í samræmi við dönsku tryggingarnar, — og einstaklingarnir helming, og ef bæjarfélögin tækju að sér meira, þá er hægt að leggja á þá ríku. Svo gætu menn hætt að leggja útsvör á lægstu brúttótekjur og hjálpað þannig þeim fátæku. Við þyrftum ekki að hjálpa þeim á þann hátt, sem gert er ráð fyrir hér, að verðlauna þá fyrir að borga engan tekjuskatt, sem sagt verðlauna þá fyrir að gera ekki neitt. Á þennan hátt gætu menn lækkað ríkisútgjöldin um hálfan þriðja milljarð, og þá þyrftum við ekkert að rífast um 3–5% söluskatt, heldur gætum við bara lækkað þetta.

Nú vitum við, að ríkisstj. er ekki í hreinum meiri hl. hér í þessari hv. d. Þá þarf hún að fá einhverja ágæta menn til að vinna með sér. Þess vegna þarf hæstv. forsrh. að kippa annaðhvort krötum eða sjálfstæðismönnum upp í bátinn hjá sér og sigla svo áfram fyrir fullum seglum. En þannig væri hægt að leysa þetta mál á all hagkvæman hátt, hækka ekkert söluskattinn, en lækka bara útgjöldin.

Nú er búið að stofna lífeyrissjóði, og eru tekin með lögum 10% af kaupi allra landsmanna eða hér um bil allra landsmanna. Og þetta segja Jóhannes Nordal og Jón Sigurðsson hagrannsóknastjóri, að muni gefa 4 milljarða í ár. Þetta eru alveg furðulegar upphæðir, og þetta ruglar allt fjármálakerfið. Þetta sá ég vitanlega undir eins og er búinn að margtönnlast á þessu, en þið hafið bara ekki reynt að skilja þetta. Allt sparifé Landsbankans og Útvegsbankans er 10 milljarðar. Á þremur árum mundi þetta fé, sem er tekið af fólki, verða hærra en sameiginlegt sparifé beggja þessara banka. Í fyrra lagði ég til, að þetta fé yrði tekið inn í kerfið, eins og Norðmenn og Svíar gera, og þá getum við sparað á því samkv. verðlagi í fyrra 3 milljarða, en samkv. verðlagi núna 4 milljarða, þannig að ef við tækjum þetta allt saman inn í tryggingakerfið, hefðum tryggingakerfið svipað og Norðmenn og Svíar hafa og settum helming af sjúkrasamlagsgjöldunum heim og lögreglukostnaðinn að hálfu, þá gætum við sparað 7 milljarða, bara á fjárl., sem nú eru, fyrir utan alls konar aukapósta, sem má spara.

En nú er ég búinn að sjá það, að þetta er ekki hægt. Það eina, sem getur bjargað okkar fjármálakerfi, er skyldusparnaður og að tryggja þennan skyldusparnað, þannig að féð verði eigi verðlaust, því að það er æðisgengin eyðsla, af því að fólkið veit, að ef það á peningana, eru þeir verðfelldir. Við eigum að breyta lífeyriskerfinu öllu saman þannig, að við eigum að taka þetta allt í skyldusparnað. Og við eigum að mynda sérstakan tryggingabanka. Þar á hver maður að eiga sina bankabók, leggja 10% af kaupinu sínu þar, og það á að vera verðtryggt, þá verða allir ánægðir nema bara þessir fáu menn, sem stjórna þessum lífeyrissjóðum í dag og hafa kaup fyrir það. Það er ekkert eftirlit með, hvernig þessu fé er varið. Nú líða öll fyrirtæki í landinu fyrir rekstrarfjárskort, og við getum ekki bjargað þeim með öðrum hætti en þessum. Menn rífa sparipeningana sína út, og það þarf 20–30% meira fjármagn í ár en í fyrra til að geta rekið fyrirtækin, og þau riða, fyrirtækin, ef þessu heldur áfram.

Breyta þarf lífeyrissjóðskerfinu í skyldusparnað og verðtryggja þennan skyldusparnað, og með því getum við bjargað þessu. Á tveimur til þremur áratugum eru allir einstaklingar í þjóðfélaginu orðnir vel stæðir og þurfa ekkert að kviða ellinni. Við getum sameinað Útvegsbankann og Landsbankann, því að þeir eiga að fást við útveginn, og látið Búnaðarbankann í friði, myndað svo í Útvegsbankahúsinu eins konar tryggingabanka, sem verður stærsti banki á Íslandi innan þriggja ára. Ég ætla að koma með þáltill. út af þessu bráðum. Ég er búinn að semja hana, en á eftir að ganga frá ýmsu viðvíkjandi henni.

Ég er nú gamall maður og gráhærður og þarf ekkert að smala atkv., og þess vegna segi ég ykkur alveg eins og ég meina. Og þetta er allt satt, sem ég hef sagt ykkur. Ríkisstj. hefur margt vel gert, og m.a. álít ég, að hafi verið haldið vel á landhelgismálinu, og hæstv. forsrh. á þakkir skilið fyrir það mál. (Gripið fram í: Hvað um Akranesferjuna?) Hann gerði það ekki. Það hefur verið hjálpað byggðunum úti á landi, og það er orðinn allt annar andi þar. Fólkið er bjartsýnt og vongott, fólkinu hefur fjölgað þar. Við skulum ekki gera lítið úr þessum verkum. Þetta er allt saman gott. En það er nú eins og ungum mönnum hætti til að fara dálítið geyst úr hlaði. Ég varaði þá við því. Ég held, að ég geti fullyrt það, að ég sagði hæstv. forsrh., að þeir skyldu lofa sem minnstu, þegar þeir byrjuðu að stjórna, og efna það því betur. Það var nefnilega dálítið klókt hjá krötum og sjálfstæðismönnum, þeir lofuðu bókstaflega engu öðru en því, að sjálfstæðismenn lofuðu að setja ekkert mál í gegn í þinginu, án þess að kratar samþykktu það, og kratar lofuðu því sama, að knýja ekkert mál fram, nema með samþykki „Sjálfstæðisins“ Þetta var klókt, þá höfðu þeir ekkert að svíkja, þeir höfðu engu lofað. En ríkisstj. núv. gerði merkilegan sáttmála, ekki ólíkan Gamla sáttmála, sem var alveg ómögulegt að efna. Það er ómögulegt að gera allt fyrir alla, það er ekki hægt, þannig að það hefði verið betra að lofa minna og efna meira.

Ég er búinn að minnast á lögreglukostnaðinn, ég er búinn að minnast á sjúkratryggingarnar, og ég er búinn að minnast á breytingar á tryggingakerfinu og þarf ekki að endurtaka það. (Gripið fram í.) Nei, ég er búinn að tala um hana. Þú þarft nú ekki að halda það, að ég láti þig gabba mig neitt. Það eru atvinnuleysistryggingar, það fara um 400 millj. kr. á ári þangað, helmingur frá ríkinu, fjórði partur er píndur út úr atvinnurekendum og hitt úr bæjarfélögum. Þetta eru 400 millj. á ári. Ef allt fjármálakerfið væri í lagi, væri hægt að spara þarna 196 millj. af ríkisfé. Þá er fasteignamatið, það er sístarfandi stofnun, og ég veit nú ekki, hvað þeir eru að dunda þarna. Það eru milli 10 og 20 millj., sem fara þangað. Það væri rétt að segja þeim að klára þetta, þá væri hægt að spara 10 millj.

Verðbót á línufiski er 20 millj. Ég held, að það dragi ekki sjávarútveginn langt og væri jafnvel hægt að spara þar. Svo eru ýmsir skólar á landinu, sem eru ekki nema hálffullir, m.a. garðyrkjuskóli og sumir kvennaskólarnir. Það væri hægt að sameina þetta meira. Svo kemur Háskólinn, sem hv. 7. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, sem menntmrh. réð miklu um í mörg ár, lektorarnir og prófessorarnir eru nú orðnir um 250 og stúdentar á 3. þús. Það er búið að mynda sérstaka deild, sem á að kenna stjórnmál, og kostnaðurinn við hann er kominn hátt í 404 millj. Satt að segja held ég, að það væri hægt að leggja sumar af þessum deildum niður, svo væri hægt að takmarka þetta eitthvað. Það þyrfti að endurskoða alla þá löggjöf, og það væri hægt að spara sennilega svona 100 millj. þar þjóðfélaginu til bóta.

Grænfóðurverksmiðjur er lagt til, að fái 20 millj. Satt að segja, ef grænfóðurverksmiðjur bera sig, eiga þær rétt á sér, en ef á að gefa með þeim, þá er ekki sérstök ástæða til þess. Skógrækt ríkisins eru ætlaðar 44 millj. Það eigum við að láta fara heim í byggðirnar og láta ungmennafélögin og sýslufélögin fást við þetta. Þetta er dund til gamans, sem þeir geta gert, en þetta verður aldrei neitt hagnýtt, því Ísland er eitt lélegasta skógræktarland í veröldinni. Þjóðleikbúsið tekur 103 millj., sinfóníuhljómsveitin o.fl. Ég held, að það væri best að leigja Reykjavíkurbæ eða Leikfélaginu Þjóðleikhúsið fyrir ekki neitt og losna við þessar 100 millj. Menn hafa ýmislegt í sjónvarpinu og þurfa ekki að fara í þetta Þjóðleikhús. Þetta eru 103 millj. Náttúruverndarráð með Eystein Jónsson sem formann, þennan ágæta dugnaðarmann, 26 millj., en það er nú komin till. um að hafa það 1000 millj. og ausa áburði, sem kallað er, og fræi upp um öræfi, þar sem ekki þrífast erlend grös. Áburður ofan í tjarnir og mela eða réttara sagt klappir hefur ekkert að þýða, þannig að það væri hægt að spara þar 20 millj.

Lánasjóður námsmanna fær 486 millj., og þar að auki eru 100 millj. teknar að láni handa þeim. Eftir því sem þeir fá meiri peninga, eftir því verða þeir latari og læra minna, og svo eru þessir drengir orðnir allt of margir, þannig að það á að skipuleggja þetta, eins og Magnús Jónsson, sem því miður er ekki hér í okkar hópi núna, stakk einu sinni upp á. Við eigum að gera áætlun: Hvað þurfum við marga lögfræðinga, hvað marga lækna, hvað marga presta o.s.frv.? Þessa menn eigum við að styrkja. Vitanlega er vandi að velja úr. Svo mega hinir læra, ef þeir vilja, en ríkið á ekkert að vera að borga með þeim. Þessir drengir, sem urðu að hálfsvelta sig rétt eftir aldamótin, urðu dugandi menn, og þeir hlupu ekki til útlanda. En þegar farið er að borga fullt kaup þessum drengjum, hvort sem þeir læra eða læra ekki, þá gerum við þá bara að slæpingjum, og þetta á að skipuleggja. Ég vil ekki láta námsmenn svelta, en þá verða þeir bara að vinna. Og svo þýðir ekkert að láta fleiri læra hverja grein heldur en þjóðfélagið hefur þörf fyrir að nota. Það á að skipuleggja þetta allt saman, og þar mætti spara sennilega 200 millj.

Dagvistunarheimili 85 millj., rausnin er nefnilega svo mikil hjá ríkisstj., að hún vildi borga helst allt fyrir alla. Dagvistunarheimili eru bæjarmál, sem bara viss bæjarfélög á landinu nota, og auðvitað eiga bæjarfélögin að sjá um þetta. Þar mætti spara 85 millj. Það er varið mörg hundruð millj. til að byggja skóla. Náttúrlega lifðum við, þó að við hægðum eitthvað svolítið á ferðinni. Annars eru skólar góðir. Hitt hygg ég, t.d. með Menntaskólann á Ísafirði, að það væri þakkarvert fyrir Vestfirðinga, ef þeir hefðu ekki fengið hann, því að þetta tekur bestu strákana frá þeim, þeir fara hér suður, verða stúdentar, dunda hér í Háskólanum eitthvað og verða aldrei að mönnum í staðinn fyrir að verða myndarskipstjórar og afreksmenn vestur á Ísafirði. Svo er mér sagt, að þeir hlaupi suður, þegar þeir séu komnir í 5. bekk, af því að það sé ekki nógu skemmtilegt á Ísafirði. Þessum byggðum er enginn greiði gerður með því að taka úrvalslið úr unga fólkinu og gera það að slæpingjum hér suður í Reykjavík.

Hjá húsameistara eru 15.2 millj., þegar búið er að draga frá vinnutekjur. Ég held, að það væri alveg eins gott að semja við einhverja arkitekta eða húsameistara að teikna það, sem ríkið þarf, og borga þeim fyrir það venjulegan taxta, og væri jafnvel hægt að fá afslátt á því og sleppa þessum 15 millj. Ég verð nú að segja það. Ég hef aldrei haft efni á svona löguðum kúnstum í mínum búskap, að borga mönnum fyrir að gera ekki neitt.

Til sérfræðilegrar aðstoðar við þingflokka, við höfum nú hérna mann í hverjum flokki, sem á að aðstoða okkur. Ég hef aldrei þurft á þessari aðstoð að halda, og þm., sem geta ekki komist af án þess að hafa aðstoðarmann, ég held, að það sé best fyrir þá að vera ekki þm., 6 millj. í þá — og svo til blaða og flokka 32 millj. eða eitthvað svoleiðis, þannig að þetta verða um 40 millj. Það væri best að strika þetta út, því að þá færu blöðin kannske að minnka, draga úr vitleysunni. (Gripið fram í: Þinni vitleysu.) Minni vitleysu, já, því að það er ekkert mannbætandi að lesa þessa leiðara þeirra.

Laxeldisstöðin í Kollafirði fær 4.2 millj. Það er komið á annað hundrað millj., sem er búið að leggja í hana. Skúli Pálsson selur ódýrari laxaseiði og borgar skatt. Ég held, að það væri best að leigja þá stöð eins og húsameistarastöðina og láta hana bera sig.

Lífeyrissjóð bænda, sællar minningar, sem Þórarinn Þórarinsson og Sigurvin, vinur minn, Einarsson, sögðu, að væri allt í lagi með og ætti að endurskoða eftir 2 ár. Sú endurskoðun er ekki komin enn. Þeir sögðu að ég væri kjáni að vilja ekki vera með í þessu. Ég var einn á móti þeirri vitleysu. Þeir eru ekki farnir að endurskoða enn og endurskoða aldrei. Vitleysan er svo mikil, að þeir gátu ekki endurskoðað hana. Og til verkalýðsfélaga fara 29 millj. Ef þessi kerfi væru komin í heilbrigt horf, þá væri það 65 millj. kr. sparnaður.

Svo eru það alþjóðastofnanirnar og ýmsir aukastyrkir, — það er ekki til sú alþjóðastofnun, þar sem íslendingar dingla ekki með í, og þegar þeir fóru á Norðurlandaráðsþing, þá voru þeir 20. Það hefði verið bægt að komast af með færri, bara hafa þá góða menn. Það er ágætt að vera með slíkt, en við þurfum ekki að fara með heilar hersveitir, 200 þús. manna þjóð. Svo hefur nú stjórnarráðið fjölgað um 42 starfsmenn. Þeir vinna mikið þarna í stjórnarráðinu, a.m.k. af vitleysum, þannig að ég veit ekki, hvort stjórnarráðið væri neitt verr sett, þótt þeir hefðu ekki fjölgað nokkurn skapaðan hlut.

En svona er það á öllum sviðum. Það er bara eytt og eytt, og ef einhver minnist á að spara, þá verða allir vondir, kalla hann íhaldsmann og afturhaldssegg. Ég held, að við ættum að fara að athuga hlutina, stilla eyðslunni í hóf og fara að haga okkur eins og viti bornir menn. Ísland er nefnilega gott land. Við eigum einhver auðugustu fiskimið í heimi, við eigum heitt vatn, sem er okkur geysimikils virði, við eigum fossa, og þó að Ísland sé kalt, þá er jörðin frjó, og hér getur öllum liðið vel. En við megum bara ekki haga okkur eins og flón. Það er búið að hækka kaupið og allt, og menn rifa peningana út úr bönkunum og eyða og eyða alveg eins og þeir hafa vit á. Mér er sagt, að þeir kaupi bíla núna alveg villt, þannig að ríkissjóður ætti að fá nógar tekjur, hvort sem þessi söluskattshækkun er 3 eða 5%, það er algert aukaatriði. (Gripið fram í: Er þá landinu stjórnað heimskulega?) Þið gerið nú ekkert til að gera það viturlegra. Annars hafðir þú ekki manndóm til þess að vera á móti ferjunni. Ferjan er ekki stórt mál, en þetta er átakanleg heimska. Það er tekið eftir þessu út um allt land, því að þeir lásu núna suður í Hafnarfirði ræðuna mína, þegar ég var að tala við Jón Árnason, og þeir lesa þetta eins og faðirvorið. Ef við bara högum okkur eins og menn með viti, þá getum við lifað hér góðu lífi. En við megum ekki láta eins og kjánar.

Annars verð ég að segja það við stjórnarandstöðuna, að mér finnst þið vera alveg einstakir meinleysismenn, og satt að segja hefði verið hægt að sauma miklu betur að ríkisstj. heldur en þið hafið gert. En þið hafið ákaflega takmarkaðan húmor. Ég hefði verið búinn að skjóta betur á hana í ykkar sporum. En þið eruð drengir góðir. Þið erum að svona naggi eins og út af blessuðum söluskattinum, sem skiptir engu máli. Svo kemur Karvel, og það má ekki láta menn hafa þessar endurgreiðslur, réttara sagt að láta ríkið borga skattinn, ef það er fyrir afskriftir. Þetta er ekkert nema barnaskapur, málið er tóm endileysa. Það er tóm endileysa, að ríkið borgi mönnum peninga fyrir að borga ekki neinn skatt, það er tóm vitleysa. Það var þess vegna, sem ég vildi ekki koma hér í kvöld. Mér er óskaplega nauðugt að vera með vitleysu, ég verð að játa það. Þetta er allt satt sem ég hef sagt, og þið hafið þetta fyrir að láta mig ekki í friði.