13.03.1974
Neðri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

259. mál, skattkerfisbreyting

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vil taka það fram, sem raunar kom fram í umr., að þessi till. er frá orði til orðs eins og ákvæði í brbl. hæstv. núv. ríkisstj. frá því í júlí 1972 um heimild þá til þess að lækka útgjöld ríkisins um 400 millj. Nú er heimildin miðuð við 1500 millj. Það er því alger misskilningur, sem hér kom fram hjá hv. 1. þm. Austf., að hér væri um einsdæmi að ræða, heldur er fyrirmyndin frá núv. hæstv. ríkisstj. sjálfri.

Ég vil svo aðeins bæta því við, að í nál. minni hl., þar sem minnst er á þessa brtt., er tekið skýrt fram, að þetta skuli ríkisstj. gera í samráði við fjvn. Alþ. Með þessum aths., sem ég tel rétt, að komi hér fram, segi ég já.