14.03.1974
Neðri deild: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

259. mál, skattkerfisbreyting

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Út af síðasta frammígripi hæstv. sjútvrh. um, að þm. hafi verið of veiðibráðir, vil ég aðeins taka það fram, eins og hv. 1. þm. Reykn. sagði, að auðvitað var alveg ljóst, að það þyrfti að gera nokkra breytingu hér á, ef 7. gr. yrði felld. Þess vegna er eðlilegt að fallast á brtt. hæstv. fjmrh. En ástæðan til þess, hvernig komið er um þetta atríði, 11% söluskattinn, er auðvitað eingöngu sú, að ríkisstj. hefur sýnt fullkomna óbilgirni í þessu máli, sett Alþingi úrslitakosti, neitað gersamlega, — þó að hún vissi, að hún hafði ekki vald til að koma sínu máli fram hér í hv. Nd., þá hefur hún neitað öllum samkomulagstilraunum, svo að þetta er bein afleiðing af óbilgirni hennar og engu öðru.