14.03.1974
Efri deild: 78. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2833 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

259. mál, skattkerfisbreyting

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Við höfum nú hlýtt á hæstv. fjmrh. fylgja úr hlaði frv. ríkisstj. um skattkerfisbreytingu. Reyndar var það ekki alveg ljóst, hvort hæstv. ráðh. var að fylgja úr hlaði því frv. um skattkerfisbreytingu, sem þessi hv. þd., Ed., hefur fengið í hendur frá Nd. og Nd. gekk frá á fundi sínum í nótt að lokum með samþykki 31 þdm. samhljóða, eða hvort hæstv. ráðh. var að fylgja úr hlaði því frv. ríkisstj., sem var lagt fyrir í Nd. í upphafi þessa máls. Á þessu tvennu er töluverður munur.

Í fyrsta lagi varð það að ráði í Nd., að 5% söluskattauki er felldur burt úr frv. og er ekki í því, eins og það kemur nú til umr. hér í Ed.

Í öðru lagi er 11/2% launaskattur, er rann í ríkissjóð, felldur burtu, en fjáröflun til húsnæðismála viðurkennd með 2% launaskatti í stað 1% áður, þannig að launaskattur lækkar í heild um 1/2 stig.

Í þriðja lagi er samþykktur niðurskurður ríkisútgjalda um 1500 millj. kr., sem ekki var gert ráð fyrir í frv. í upphafi.

Í fjórða lagi er þess svo að geta, að allar aðrar brtt. sjálfstæðismanna og annarra stjórnarandstæðinga fengu jafnmörg atkvæði og till. stjórnarinnar í Nd.

Ég saknaði þess í ræðu hæstv. ráðh., að hann gat ekki um afstöðu sína eða hæstv. ríkisstj. til frv., eins og það nú er. Við þdm. vitum í raun og veru ekki, hvað hæstv. ríkisstj. ætlast fyrir. Það liggur ljóst fyrir, að það stendur í járnum í Nd. fylgi og andstaða til 5% söluskattauka, 31/2% söluskattauka og 2% söluskattauka. Hins vegar liggur það fyrir, að það er skýr meiri hl. í Nd. fyrir afnámi 11/2 % launaskatts, er rennur í ríkissjóð. Og það liggur enn ljósar fyrir, að það er skýr meiri hl. fyrir niðurskurði á ríkisútgjöldum um 1500 millj. kr. Sjálfur hæstv. forsrh. gekk í lið með stjórnarandstöðunni ásamt einum stjórnarþm. öðrum. Og því verður ekki trúað, að hæstv. fjmrh. geri litið úr hæstv. forsrh. og fylgi honum ekki að þessu leyti. Hæstv. forsrh. sagði í grg. sinni með atkv. sínu í Nd., að hann teldi till. okkar sjálfstæðismanna um niðurskurð ríkisútgjalda sérstaka traustsyfirlýsingu á ríkisstj. Látum það liggja á milli hluta. En það var aðeins auk forsrh. einn annar úr stjórnarliðinu, sem var jafngáfaður hæstv. forsrh. og skildi það eins.

Ég held því, að það sé ljóst, að stjórnarliðið er bundið við þessar tvær breyt. á frv., annars vegar afnám 11/2 % launaskatts og hins vegar niðurskurð á ríkisútgjöldum um 1500 millj. kr. Hér byggi ég á raunverulegum úrslitum atkvgr. í Nd., — atkvgr., sem um garð er gengin. Ég er ekki að gera þm. upp neinar skoðanir eða spá fyrir fram um úrslit mála, eins og t.d. eitt stjórnarblaðanna, Tíminn, gerir í morgun, þar sem það er tíundað í einstaka atríðum hvernig atkvæði muni falla t.d. hér í hv. Ed. Það er vitaskuld móðgun og vanvirða við þm. að ganga út frá því, áður en atkvæði falla, hvernig úrslit mála fara, sérstaklega þegar margt er óljóst, eins og raun ber vitni, varðandi þetta mál og menn hafa ekki tjáð sig að öllu leyti. Ég hygg, að gangur þessara mála í Nd. sýni það og sanni, að ríkisstj. brestur algerlega vald á málum og framgangi þeirra. Ríkisstj., sem kemur ekki fram málum með þeim hætti, sem sannast hefur á núv. hæstv. ríkisstj., á auðvitað að segja af sér.

Hæstv. fjmrh. rakti nokkuð aðdraganda þessa máls og gat um samninga við verkalýðsfélögin. Það er athyglisvert, að brtt. ríkisstj. um skattkerfið og sérstaklega þær till., sem lúta að lækkun beinna skatta, eiga undirrót sína annars vegar í fyrri till. okkar sjálfstæðismanna og hins vegar í ábendingum og áskorunum frá launþegasamtökunum í landinu. Þessar áskoranir komu fram frá launþegasamtökunum þegar í ágústmánuði á síðasta ári og voru ítrekaðar í októbermánuði á síðasta ári„ eftir kjaramálaráðstefnu, sem Alþýðusamband Íslands hafði haldið. Þá var það ljóst, að tvennt mundu launþegasamtökin leggja höfuðáherslu á: úrbætur í skattamálum og úrbætur í húsnæðismálum. Ríkisstj. átti þá kost á að sinna þessum tveim málaflokkum og koma þannig í veg fyrir, að slíkir kjarasamningar yrðu gerðir, sem kynntu undir verðbólguna í landinu, eins og því miður hefur orðið eftir gerð og undirritun nýgerðra kjarasamninga.

Með úrbótum annars vegar í skattamálum og hins vegar í húsnæðismálum mátti koma í veg fyrir þetta. Ríkisstj. hafði tímann fyrir sér. Jafnvel þótt hún tryði ekki aðvörunum okkar sjálfstæðismanna allt frá skattalagabreyt. á þinginu 1971–1972 um, að þar væri verið að leggja allt of þungar skattbyrðar á þjóðina, launþega engu síður en aðra, þá hafði hún aðvörun launþegasamtakanna sjálfra, sem var á sömu leið, að engu.

Samningar runnu út 1. nóv. s.l., og samningaviðræður hófust nokkru fyrir þann tíma. Tíminn var látinn líða og ekkert var í rauninni aðhafst. Nokkrir fundir voru haldnir, en í raun og veru lét ríkisstj. ekki neitt til sín taka að gagni fyrr en búið var að boða til verkfalla. En það hafði þær afleiðingar, að samningar ríkisstj. við verkalýðsfélögin voru af launþegum lítils sem einskis metnir, þegar til þess kom að ganga frá raunverulegum kauphækkunum. Hefði ríkisstj. sinnt þessum málum fyrr, hefði verið meiri von til þess, að launþegasamtökin hefðu metið úrbætur í skattamálum meira og því fallist á lægri heildarhækkun í kaupi, sem því miður gengur út í verðlagið og ést upp af sjálfu sér, eins og dæmin sýna og sanna nú undanfarna daga og vikur síðan samningarnir voru gerðir, en verðhækkanir hafa verið að dynja yfir þjóðina dag eftir dag.

Það sama má í raun og veru segja um samningana um húsnæðismál. Þar er verið að gera samkomulag um ákveðið skipulag á húsnæðismálum eða tryggingu fyrir því, að íbúðabygginga í landinu sé byggður á félagslegum grundvelli, sem svo er kallað, á árunum 19761980. Út af fyrir sig er það ekki brýnt úrlausnarefni í sambandi við kjarasamninga í ársbyrjun 1974. En það, sem vekur athygli í sambandi við þá samninga og þá lausn, sem menn skyldu ætla að væri til hagsbóta launþegum í sambandi við húsnæðismálin, er, að venjulegt hámarkslán úr Byggingarsjóði ríkisins, er í raun lækkað frá því, sem áður var. Þótt svo heiti, að það hækki, og fyrirheit sé gefið um hækkun þess í krónutölu úr 800 þús. í 1 millj. 60 þús. kr., þá ætti þessi hækkun að vera a.m.k. upp í 1200 þús. kr., ef fylgt væri byggingarvísitölunni og lánskjör ættu að vera jafnmikill hluti af íbúðarkostnaðarverði og var, þegar hámarkslánin voru í tíð viðreisnarstjórnar 600 þús. kr.

Ég er því þeirrar skoðunar, að þessir samningar við launþegasamtökin, hvort heldur er í skattamálum eða í húsnæðismálum, hafi ekki orðið til þess að greiða fyrir lausn kjaradeilunnar og því miður hafi seinlæti og aðgerðaleysi og kæruleysi hæstv. ríkisstj. á þessum sviðum orðið til þess, að við stöndum frammi fyrir verðbólgusamningum, sem báðir aðilar, því miður, segja, að um sé að ræða í þeim kjarasamningum, sem nýlega hafa verið undirritaðir.

Við skulum þá taka til meðferðar, hvort verið sé með brtt. okkar sjálfstæðismanna að brjóta samkomulagið við verkalýðsfélögin og ganga á bak orða ríkisstj. í þeim efnum. Hverjar eru brtt. sjálfstæðismanna? Þær eru í fyrsta lagi breytingar á tekjuskattsl., sem ganga lengra til lækkunar en þær brtt., sem frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir. Þær eru í öðru lagi um minni hækkun á söluskatti en frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir. Og þær eru í þriðja lagi um lækkun launaskatts. Allar þessar till. eru launþegum til hagsbóta, ýmist með þeim hætti, að þær færa launþegum beinlínis fleiri krónur í vasa þeirra, spara þeim útgjöld eða gera atvinnuvegunum kleift að standa undir launakostnaði vegna starfsmanna síuna. Það getur því ekki verið um það að ræða, að hér sé um brot á slíku samkomulagi að ræða, þótt brtt. sjálfstæðismanna væru samþykktar.

Við sjálfstæðismenn erum þeirrar skoðunar, að hæstv. ríkisstj. hafi með þessu frv. gert tilraun til þess að afla ríkissjóði meiri tekna en tekjutap ríkissjóðs af skattalagabreyt. nemur. Við teljum, að ríkisstj. sé með einum og öðrum hætti að reyna að afla tekna, að vísu til útgjalda, sem til staðar eru, en ríkisstj. horfðist ekki í augu við við gerð fjárl. í des. s.l. Á það hefur verið minnst, að bæði ég og aðrir talsmenn stjórnarandstöðunnar hafi tíundað ýmis þau útgjöld, sem fjárlagafrv. gerði ekki ráð fyrir og samþykkt fjárlög ekki heldur. Það er alveg rétt. Við getum aðeins nefnt sem dæmi, að ef halda á núverandi stigi niðurgreiðslna á neysluvörur og núverandi stigi fjölskyldubóta, þá skortir ríkissjóð um 900 millj. kr. á árinu. Þessum niðurgreiðslum og fjölskyldubótum hefur verið baldið óbreyttum frá samþykkt fjárl., en fjárveiting er ekki til þess allt árið og á það skortir þá upphæð, er ég áðan gat um. Þótt við vekjum athygli á þessari staðreynd, viljum við sjálfstæðismenn ekki, að ríkisstj. komist upp með að afla tekna til slíkra útgjalda án þess að viðurkenna þessa útgjaldaþörf og gera till. um fjáröflun til hennar sérstaklega.

Við viljum því ekki blanda saman tekjuöflun til annarra þarfa ríkissjóðs en til að mæta því tekjutapi, sem ríkissjóður verður fyrir vegna nokkurrar linunar á beinum sköttum. Ég skal ekki fara út í það með mörgum orðum, hvernig það dæmi litur út frá sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna, er felst í skattkerfisfrv. ríkisstj. Deilt hefur verið um það, hvernig dæmið er, annars vegar á ársgrundvelli og hins vegar á grundvelli þess tímabils, sem eftir er af yfirstandandi ári. Ég held, hvort sem staða ríkissjóðs er skoðuð á yfirstandandi ári eða á ársgrundvelli, sé ljóst, að skattbreytingafrv. ríkisstj. gerir ráð fyrir meiri tekjuöflun en tekjutapinu nemur. Samkv. skýrslu, sem sérfræðingar ríkisstj. hafa látið fjh.- og viðskn. í té, kemur fram, að í fjárl. er tekjuskattur einstaklinga áætlaður 5864 millj. kr. samkv. fjárl., en er nú eftir breyt. ríkisstj. áætlaður 4100 millj. Munurinn er rúmlega 1700 millj. kr. Á móti er það viðurkennt, að 5% söluskattauki muni nema 4300 millj. kr. Þótt þarna komi og til athugunar 500 millj. kr. útgjaldaaukning í tekjuafslætti, sjá allir, að hér er verið að afla meiri peninga en aftur eru út látnir.

Við höfum því flutt brtt., sjálfstæðismenn, í samræmi við þá stefnu okkar, að við viljum ganga lengra í lækkun beinna skatta, við viljum, að skorin séu niður útgjöld fjárl. mg við viljum þar af leiðandi ekki viðurkenna eins mikla hækkun söluskatts og frv. gerir ráð fyrir. Þótt við séum kerfisbreyt. sem slíkri meðmæltir, teljum við, að nauðsynlegt sé í því árferði, sem nú er, og því ástandi, sem við mætum hvarvetna í þjóðfélaginu, að draga úr útgjöldum ríkisins.

Ekki verður hjá því komist í tengslum við þetta mál að ræða nokkuð almennt efnahagsmálin og dýrtíðarmálin. Till. okkar um niðurskurð á útgjöldum ríkissjóðs byggist á því, að við teljum nauðsynlegt að draga úr spennunni í þjóðfélaginu. Auk þess sem fjárlög hafa þrefaldast í tíð núv. ríkisstj., hefur fjáröflun til opinberra framkvæmda, ýmist með innlendri eða erlendri lánsfjáröflun, aukist stórlega, eða nú milli áranna 1973 og 1974 um 85%. Þá er og um að ræða stórkostlega aukningu í fjárþörf fjárfestingarlánasjóðanna, sem enn er ekki séð fyrir endann á. Allt þetta gerir að verkum, að peningaveltan í þjóðfélaginu er aukin, peningamagnið, sem í umferð er, er aukið umfram framboð á vinnu, vöru og þjónustu, og sú staðreynd er e.t.v. enn frekar til þess fallin að auka dýrtíðina en þeir kjarasamningar, sem nýlega hafa verið gerðir.

Sem dæmi um þróun mála má geta þess, að í þeirri endurskoðuðu áætlun um fjárhag ríkissjóðs, sem sérfræðingar ríkisstj. létu fjh.- og viðskn.-mönnum í té, er tekjuþörf ríkissjóðs talin hafa vaxið um meira en 3 milljarða kr., frá því að fjárl. voru samþykkt fyrir rúmum 21/2 mánuði. Svo ör er þróun verðbólgunnar. Samt sem áður er í þessari skýrslu mjög varlega spáð um aukningu dýrtíðarinnar á þessu ári. Það er aðeins talið, að kaupgjaldsvísitalan hækki um 23% frá 1. des. s.l. til 1. des. n.k.á móti meðaltalshækkun kaupgjaldsvísitölunnar árið áður um 28%. Hér er vitaskuld um allt of lága áætlun að ræða, enda mun ríkisstj. hafa í höndum áætlun frá öðrum sérfræðingum sínum, sem gera ráð fyrir milli 40 og 50% verðhækkunum frá árslokum 1973 til ársloka 1974.

Það er enn fremur fyrirsjáanlegt, að ekki verður um minni en 8000 millj. kr. viðskiptahalla að ræða á árinu. Í síðasta mánuði hefur gjaldeyrissjóðurinn byrjað að minnka óðfluga, og nemur sú minnkun hans frá áramótum væntanlega töluvert á annan milljarð kr. Því má búast við stórfelldri aukningu erlendra skulda á yfirstandandi ári, um 4–5 þús. millj. kr. til viðbótar þeim 21 milljarði kr., sem erlendar skuldir námu um síðustu áramót, en þær höfðu þá tvöfaldast í tíð núv. ríkisstj.

Þegar á það er svo litið, að 1. júní n. k. stöndum við frammi fyrir ákvörðun nýs fiskverðs, þar sem taka verður með í reikninginn nýgerða kjarasamninga, bæði að því er tekjur sjómanna snertir og tilkostnað fiskvinnslunnar, þá er útlitið ekki bjart.

Herra forseti. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að þessu frv. verði vísað til n. og fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. taki það til meðferðar. En ég sakna þess, að það liggur ekki fyrir við 1. umr. í seinni þd., hver afstaða hæstv. ríkisstj. er til frv., eins og það nú liggur fyrir, og hvað ríkisstj. ætlast fyrir um afgreiðslu þess hér í þessari d., en það á væntanlega eftir að skýrast. Ég beini þeirri áskorun til hæstv. fjmrh., að hann taki tillit til vilja þm. eins og hann hefur birst í Nd., og knýi ekki fram í þessari þd. breyt. á frv. í andstöðu við meiri hl. þm. í Nd. Og ég skora á hv. þdm. að ljá ekki slíkum fyrirætlunum lið, enda liggur það fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki þingstyrk til þess að koma frv. fram, nema hún taki nægilegt tillit til vilja þm.

Í því sambandi vil ég aðeins gera að umtalsefni, áður en ég lýk máli mínu, að að því hefur verið fundið, að 29 þm. geti stöðvað fyrirætlun 31 þm., eins og ég hygg, að hæstv. sjútvrh, hafi komist að orði í Nd. í umr. um þetta mál. Við þessa gagnrýni hæstv. sjútvrh. er það að athuga í fyrsta lagi, að stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir skiptingu þingsins í tvær deildir, og þar af leiðandi gerir stjórnarskráin sjálf þá kröfu, að til þess að mál fái framgang í þingi, sé a.m.k. meiri hl. fyrir málinu í hvorri d. fyrir sig.

Í öðru lagi er rétt, að það komi hér fram, að ýmsar þær breyt., eins og ég gat um, að gerðar hefðu verið á frv. í Nd., voru gerðar með tilstyrk þm. úr stjórnarliðinu, og líkur eru því til að þær hafi meirihluta þingfylgi. Ég vonast til þess, að hv. þdm., hvort heldur í stjórnarliði eða stjórnarandstöðu, líti á þetta mál, lækkun beinna skatta, sem mestu máli skiptir í þessu frv., þeim augum, að nauðsynlegt sé, að slík lækkun komist til framkvæmda, svo að þeirri skattaáþján linni, sem jókst eins og raun bar vitni við tilkomu nýrrar skattalöggjafar hæstv. ríkisstj. á þinginu 1972.