14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2847 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

201. mál, kosningar til Alþingis

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. hefur verið lagt fram og að það hefur hlotið þá afgreiðslu í Ed., sem raun ber vitni, og vil ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svo skjóta framkvæmd þáltill.

Eins og menn e.t.v. rekur minni til, var lagt kapp á, að frv. af þessu tagi yrði afgreitt á þessu þingi, þannig að það gæti verið búið að rýmka ákvæðin um utankjörfundaratkvgr. fyrir þær sveitarstjórnarkosningar, sem í hönd fara, og mun ég sem formaður allshn. leggja kapp á, að svo megi verða. Í mínum huga er enginn vafi á því, að samþykkja beri þessa breyt. Einnig þótti mér vænt um að heyra, að hæstv. dómsmrh. þótti ekki fráleitt, að skoða bæri aðrar leiðir í framtíðinni. Það voru till. uppi um enn rýmri ákvæði. Kann að vera, að óhyggilegt sé að fara út í það á þessu stigi málsins, að það þurfi frekari athugunar við.

Megingalla á því fyrirkomulagi, sem liggur fyrir nú, tel ég vera þann, að það er algerlega á valdi utanrrn., hversu margir kjörstjórarnir verða og hverjir þeir verða. En ég vildi leggja ríka áherslu á, að jafnframt öðrum sjónarmiðum, sem rn. hlýtur að hafa í huga, sé einnig tekið tillit til þess, hvar íslenskir námsmenn eru fjölmennastir. Ég vil í því sambandi sérstaklega nefna Finnland, en íslenskir námsmenn þar hafa ekki átt þess kost að greiða atkv. til þessa, og staði eins og Þrándheim í Noregi, og hlýt að treysta því að þessi sjónarmið verði höfð í huga jafnframt öðrum.

Ég hef ekki bug á að lengja þessar umr., herra forseti, en mun leggja allt kapp á, að málið fái skjóta afgreiðslu í allshn.