14.03.1974
Neðri deild: 83. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2856 í B-deild Alþingistíðinda. (2559)

24. mál, kaupstaðarréttindi til handa Seltjarnarneshreppi

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér í efnisumr. um þetta mál. Ég hygg, að menn séu almennt sammála um, að það fái framgang eins og hin, sem á eftir munu koma, að því er upplýst hefur verið. En ég get ekki stillt mig um það að segja hér aðeins örfá orð, vegna þeirra umr., sem fram hafa farið um störf í hv. félmn. Það vill svo til, að ég varð heyrnarvottur að því fyrir nokkrum dögum, að hv. 3. þm. Norðurl. e. hafði uppi allharkalega gagnrýni á störf þessarar n. og þá fyrst og fremst á formanninn fyrir það, að tiltekið mál hafði ekki verið tekið þar fyrir í langan tíma. Nú upplýsist það, að þessi hv. þm. hefur mætt á helmingi af þeim fundum, sem haldnir hafa verið í þessari n., þ.e.a.s. hann hefur getað mætt á 4 af 8. Mér þykir það skrýtið og einkennilegt, ef þeir nm. í hv. nefndum þingsins, sem bera tiltekin mál fyrir brjósti og sitja í viðkomandi n., geta ekki krafist fundar um viðkomandi mál og fengið það tekið til umr. Ég verð að segja það fyrir mig, að mér finnst ekki mikill áhugi inni fyrir hjá þessum einstaklingum, hvað sem þeir hafa á vörum, ef það er ekki í þeirra valdi að krefjast funda og fá mál tekin fyrir í n., ef ástandið er þannig, að form. tiltekinnar n. heldur ekki fundi, þannig að mér finnst þessi gagnrýni út í hött. Ef tilteknir nm. bera ákveðin mál fyrir brjósti og vilja, að þau nái fram að ganga, en þau eru ekki rædd í n. eða tekin fyrir, þá hafa þeir þann rétt hver um sig að krefjast fundar og fá málið tekið fyrir. Ef þeir gera það ekki, er slík gagnrýni eins og hér hefur komið fram frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni út í hött og að engu hafandi.