01.11.1973
Sameinað þing: 11. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

4. mál, sjóminjasafn

Flm. (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Full 27 ár eru nú liðin síðan ég gekk í fyrsta sinn um sali sjóminjasafns. Þá átti ég þess kost að skoða allrækilega sjóminjasafn Dana í Krónborgarkastala, svo og hið glæsilega skipa- og siglingasafn Svía í Gautaborg. Það var svo ekki fyrr en löngu síðar, sem mér gafst tækifæri til að skoða bátahöfn Færeyinga í Þórshöfn og enn síðar sjávarútvegs-, siglinga- og skipasöfnin í Osló, þar sem ýmsir víðfrægir farkostir, fornir og nýir, eru varðveittir. En allt frá þeirri stundu, er ég sumarið 1946 horfði á danskan og sænskan æskulýð virða fyrir sér skip og skipslíkön og spyrja um margvíslega hluti af brennandi áhuga, hef ég verið sannfærður um, að það væri bæði skylda okkar Íslendinga af sögulegum ástæðum og nauðsyn vegna samtíðar og framtíðar að koma hér upp veglegu sjóminjasafni. Fyrst slík söfn voru Dönum og Svíum mikils virði og sjálfsagður liður í varðveislu menningarsögulegra heimilda, hversu mikilvægara væri það ekki Íslendingum að efna til sjóminjasafns, — þjóð, sem byggði tilveru sína fyrst og fremst á sjónum og auðlindum hans. Og sé einhver í vafa um fjárhagslega getu okkar til þess að reisa slíkt safnhús, liggur beinast við að benda á frændur okkar í Færeyjum, sem fyrir allmörgum árum komu sér upp einkar snyrtilegu og fallegu safni, þar sem öllu er prýðilega fyrir komið.

Hugmyndin um íslenskt sjóminjasafn er orðin gömul, a. n. k. 75 ára, eins og frá er sagt í grg. þessarar þáltill. Í grg. er einnig rakið í stórum dráttum, hvað gerst hefur í málinu fram til þessa, og skal það ekki endurtekið.

Þegar ég ritaði um sjóminjasafnshugmyndina árið 1946, komst ég m. a. svo að orði:

„Það, sem einkum er aðkallandi og vinda þarf að bráðan bug, er þetta: Leita þarf vandlega og skipulega í verstöðvum landsins að gömlum sjóminjum og bjarga því frá glötun, sem gildi hefur fyrir sjóminjasafn. Einnig þarf að athuga, hvað horfið er með öllu af gömlum áhöldum og tækjum, og kynna sér, hvort ekki séu tök á að gera af þeim eftirmyndir. Enn kunna að vera til menn, sem gætu sagt fyrir um það með öruggri vissu, hvernig slíkir hlutir ættu að vera, en allir þeir menn eru gamlir orðnir og ekki líklegt, að þeirra njóti lengi við. Þess er því að vænta, að mál þetta dragist ekki öllu lengur úr hömlu. Hvert ár, sem líður, getur orðið dýrt og grafið margt merkilegt í sand gleymskunnar.“

Þegar þessar línur voru ritaðar að heimastyrjöldinni síðari nýlokinni, reyndist ekki nægur áhugi fyrir hendi til að gera sjóminjasafnshugmyndina að veruleika. Menn höfðu þá í mörg horn að líta, og svo fór, að aðrar framkvæmdir sátu í fyrirrúmi. Óneitanlega hefur margt glatast á þessum árum, sem mikil eftirsjón er í og sómt hefði sér vel í sjóminjasafni. En þess ber að geta, sem gert hefur verið, og þrátt fyrir allt hefur mikið verk verið unnið undanfarna áratugi í söfnunar- og varðveislusviði. Þjóðminjasafni hefur miðað við aðstæður orðið býsna gott til fanga. Það á nú allmarga báta og töluvert stórt sýnishorn gamalla veiðarfæra og áhalda. Þá hafa byggðasöfnin mörg, sem upp hafa risið á síðari tímum, unnið ómetanlegt söfnunarstarf og eiga sum hver mikið af sjóminjum. Og þau munu að sjálfsögðu halda áfram sínu björgunar- og sýningarstarfi, enda þótt upp risi stórt og sjálfstætt sjóminjasafn fyrir þjóðina alla.

Þá vil ég ekki láta þess ógetið, sem hvað merkilegast hefur gerst á varðveislusviði sjóminja undanfarna áratugi. Ég á þar við hið mikla ævistarf Lúðvíks Kristjánssonar rithöfundar í Hafnarfirði, sem hefur af óþrotlegri elju og vandvirkni safnað efni í mikið rit um íslenska þjóðhætti til sjávar. Þar er um að ræða söfnun og skráningu hvers kyns vitneskju, sem snertir sjóferðir og fiskveiðar á liðnum öldum, jöfnum höndum um farkostina sjálfa, seglabúnað, veiðarfæri og allt annað, sem skipum og bátum átti að fylgja, sem og um verbúðir, vinnubrögð á sjó og við nýtingu afla. Má óhætt fullyrða, að með starfi sínu hefur Lúðvík Kristjánsson bjargað frá tortímingu margvíslegri vitneskju og fróðleik, sem annars væri nú með öllu glataður. Ég er ekki í vafa um, að hið mikla eljuverk hans á eftir að koma íslensku sjóminjasafni að ómetanlegum notum, hvenær svo sem það verður stofnað. Og þar sem ég hef að sjálfsögðu vikið hér að verki Lúðvíks Kristjánssonar, sem einnig hefur samið ágætt rit á öðrum sviðum íslenskrar sögu og menningarsögu, langar mig til að bæta þessu við: Svo merkilegt hygg ég lífsstarf þessa ágæta vísindamanns, að það væri Háskóla Íslands mikill heiður, ef Lúðvík Kristjánsson vildi þiggja þaðan doktorsgráðu fyrir fágætlega mikið og gott framlag í þágu íslenskra sagnvísinda.

Þáltill. okkar Geirs Gunnarssonar, hv. 10. landsk. þm., sem hér er til umr., felur í sér stefnumörkun í þessu máli, og í till. sjálfri er lögð áhersla á tvö atriði. Hið fyrra og það, sem meginmáli skiptir, er að taka ákvörðun um, að Alþ. fell ríkisstj. í samráði við þjóðminjavörð að hefja nú þegar undirbúning að stofnun sjóminjasafns. Síðara atriðið, sem við flm. teljum einnig skipta verulegu máli, er að fela stjórnvöldum að leita samvinnu við Hafnarfjarðarkaupstað um hentugt land fyrir slíkt safn, svo og um byggingu þess og rekstur. Yrði þá, ef samningar tækjust, gerður sérstakur samningur milli ríkisins annars vegar og Hafnarfjarðarbæjar hins vegar um öll þessi atriði og skiptingu kostnaðar í því sambandi, þar sem meginþunginn hlyti eðli málsins samkv. að hvíla á ríkisvaldinu, því að hér er um safn allrar þjóðarinnar að ræða.

Ástæðurnar til þess, að við flm. bendum á Hafnarfjörð sem æskilegan stað fyrir safnið, eru einkum þrjár:

Í fyrsta lagi virðist okkur Hafnarfjörður eiga yfir að ráða einkar hentugu landssvæði undir slíkt safn, og kynnu jafnvel fleiri en einn staður að koma til greina, þótt einna álitlegast sé að koma til greina, þótt einna álitlegast sé um að litast í þessu skyni við sjóinn vestarlega íbæjarlandinu, skammt þar frá, sem dvalarheimili aldraðra sjómanna mun væntanlega rísa bráðlega af grunni. Þykir okkur flm. fara einkar vel á slíku sambýli, og mætti vænta þess, að báðir aðilar gætu notið þess í ýmsu. Virðist einkar hentugt og æskilegt, að aldraðir sjómenn af dvalarheimilinu, sem góða heilsu hefðu, ættu þess kost að starfa að einhverju leyti sem eftirlits- og leiðsögumenn við safnið þann tíma, sem það væri opið almenningi.

Í öðru lagi teljum við Hafnarfjörð vel að því kominn sem gamlan siglinga- og útgerðarstað, að Sjóminjasafn Íslands rísi þar af grunni. Hafnarfjörður skipar veglegan sess í útgerðarsögu þjóðarinnar. Þaðan hófust þorskanetaveiðar um miðja 18. öld. Þar hófust íslenskar þilskipasmíðar að marki með skipasmiðastöð, sem Bjarni riddari Sívertsen kom þar á fót um aldamótin 1800. Siglingar íslenskra skipa til annarra landa hófust ekki heldur á nýjan leik fyrr en með tilkomu Bjarna Sívertsen, og þá frá Hafnarfirði. Frá Hafnarfirði var gerður út fyrsti togarinn í eigu Íslendinga. Þar er og að finna elsta starfandi útgerðarfyrirtæki á landinu, útgerð Einars Þorgilssonar, sem stofnuð var 1906. Og enn er þess að geta, sem að vísu var áður nefnt, að búsettur er í Hafnarfirði sá maður, sem aflað hefur sér meiri vitneskju um íslenskar sjóminjar, fornar og nýjar, en nokkur annar fyrr og síðar. Ég á þar að sjálfsögðu við Lúðvík Kristjánsson, og teldi ég ómetanlegt, að safnið fengi að njóta ráðgjafar hans og forsagna um ýmsa hluti, einkum meðan það væri í mótun.

Þriðja og mikilvægasta ástæðan til þess, að við flm. bendum á Hafnarfjörð sem æskilegan stað fyrir Sjóminjasafn Íslands, er sú, að þar í bæ er nú vaknaður verulegur og að því er virðist almennur áhugi á því, að slíkt safn megi rísa þar, enda þótt það yrði eign þjóðarinnar allrar. Um staðarvalið hef ég rætt við þjóðminjavörð, og telur hann því ekkert til fyrirstöðu og jafnvel að mörgu leyti æskilegt, að safnið rísi í Hafnarfirði. En verði till. okkar samþ., er það mjög undir Hafnfirðingum sjálfum komið, bæði áhuga bæjaryfirvalda og almennra borgara, hvort samningar við ríkisvaldið takast, svo að Hafnarfjörður verði fyrir valinu.

Eins og að er vikið í grg. þessarar till., átti Ólafur Þ. Kristjánsson, fyrrv. skólastjóri Flensborgarskóla, viðtöl við allmarga áhugamenn um sjóminjasafnsbyggingu, og birtust þau í des. s. l. í Alþýðublaði Hafnarfjarðar. Þar kemur m. a. fram, að eitt þeirra mála, sem ýtt hefur undir umr. um sjóminjasafnshús í Hafnarfirði. er hugmyndin um smíði knarrar, sem væri í öllu sem líkastur þeim farkostum, er íslenskir landnámsmenn komu á hingað til lands í öndverðu og notaðir voru til siglinga landa á milli á þjóðveldistímanum. Eins og kunnugt er, fannst fyrir nokkrum árum víkingaaldarknörr í Hróaskeldufirði í Danmörku. Hafa danskir fornleifafræðingar unnið mikið og vandasamt. þolinmæðisverk við að ná knérrinum upp af botni og setja hann saman á ný, ekki borð fyrir borð eða spýtur fyrir spýtu, heldur ef svo mætti segja flís fyrir flís. Telja þeir sig nú geta látið í té nákvæm mál af skipi þessu, svo og gefið upplýsingar um, hvers konar viður var í það notaður, og hafa tjáð sig reiðubúna að láta þessa vitneskju íslenskum aðilum í té gegn því skilyrði fyrst og fremst, að ef til smíði eftirmyndar kæmi, yrði hún að vera sem allra nákvæmust og háð eftirliti kunnáttumanna. Knörrinn í Hróaskeldu er talinn frá því um árið 1000, en vísindamenn telja, að á 200–300 ára bili, þ. e. frá því um 800 og fram á 11. öld, hafi skip norrænna víkinga verið af þessari gerð og litlum breytingum tekið allan þann tíma. Er Hróarskelduknörrinn eina varðveitta skip sinnar tegundar í heiminum, og hefur enn sem komið er ekkert skip verið smíðað í líkingu við hann. Knörr þessi er talinn gefa fullkomlega rétta hugmynd um skip þau, sem landnámsmenn sigldu á til Íslands og Íslendingar einni öld síðar til Grænlands og Vínlands. Samkv. mælingum telja skipaverkfræðingar, að hér sé um að ræða skip, sem eru um það bil 30 smálestir að stærð.

Ýmsir menn undir forustu nokkurra áhugasamra Hafnfirðinga hafa nú bundist samtökum um að kanna þetta knarrarmál nánar á þeim grundvelli, að aðilar, sem áhuga kynnu að hafa á smíði slíks skips, legðu fram þá fjármuni, sem þarf til smíðinnar. Hins vegar er þetta mál ekki í beinum tengslum við sjóminjasafnshugmyndina sjálfa að öðru leyti en því, að reynist áhuginn nægur og verði knörrinn smíðaður, þykir mönnum einsætt, að honum verði valinn staður í víkinga- og sögualdardeild væntanlegs sjóminjasafns og setti þá hvað mestan svip á hana. En eins og ég áður sagði, er það ætlun þeirra, sem að framgangi þessa máls vinna, að framkvæmdir standi og falli með því, hvort nægur reynist áhugi einstaklinga og fyrirtækja, sem tengd eru sjávarútvegi og siglingum, til að fjármagn fáist til smíðinnar. Hefur og verið á það bent, að einstaklingum verði ekki skotaskuld úr að láta smíða 30 smálesta bát og þótt stærri sé, svo að hér er ekki um fjárhagslegt stórvirki að ræða, enda þótt ljóst sé, að smíði slíks knarrar hlýtur að vera mun seinlegri og trúlega allmiklu kostnaðarsamari en smíði venjulegs 30 smálesta báts.

Ég hef gert hér grein fyrir þessu, þar eð áhugi manna á knarrarmálinu hefur átt sinn ríka þátt í því að vekja upp sjóminjasafnshugmyndina enn á ný og tengja hana Hafnarfirði. En hitt vil ég endurtaka, að þarna er ekki að öðru leyti samband á milli, og þeir, sem kynnu að hugsa sem svo, að knarrarsmíðin megi vel farast fyrir eða bíða, ættu ekki að láta það mál aftra sér frá því að taka jákvæða afstöðu til stofnunar sjóminjasafns. Ég get hins vegar lýst því yfir sem minni skoðun, að ég styð knarrarhugmyndina, ef hægt er að leysa málið á áhugaaðilagrundvelli, og tel, að varðveisla slíks skips yrði góður stuðningur og mikill fengur fyrir nýtt sjóminjasafn.

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum átti ég þess kost ásamt þjóðminjaverði og fleirum að sitja fund áhugamanna í Hafnarfirðinum um stofnun sjóminjasafns. Á þeim fundi ríkti mikill áhugi og einhugur um framgang málsins. Þar gerði þjóðminjavörður einkar glögga grein fyrir afstöðu sinni og eggjaði menn til skeleggrar framgöngu. Í ræðu hans kom fram, að hann telur Hafnarfjörð einkar vel til þess fallinn að hýsa slíkt safn, sem yrði þó í þess orð fyllstu merkingu safn þjóðarinnar allrar, en ekki Hafnfirðinga sérstaklega. Þá lét hann og þá skoðun í ljós, að auðvelt ætti að vera að byggja Sjóminjasafn Íslands í áföngum. Að lokum benti hann á, að árið 1944 hefði ákvörðun verið tekin um byggingu þjóðminjasafnshúss og það orðið vegleg gjöf þjóðarinnar til hins unga lýðveldis. Færi vissulega vel á því, sagði þjóóminjavörður, að stofnun sjóminjasafns yrði ákveðin afmælisárið 1974 og undirbúningur hafinn að framkvæmdum. Undir þessi orð vil ég heils hugar taka.

Við flm. væntum þess, að till. okkar njóti öflugs stuðnings hér á hv. Alþ. og fái góðan og skjótan framgang. Ég legg til, herra forseti, að till. verði vísað til allshn.