01.11.1973
Sameinað þing: 11. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

4. mál, sjóminjasafn

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mig langar til þess að bæta örfáum orðum við það, sem hv. fyrri flm. þeirrar þáltill., sem hér er verið að ræða, kom með áðan.

Það er rétt hjá honum, að í Hafnarfirði hefur að undanförnu verið mikill áhugi á að byggja sjóminjasafn, og sá áhugi hefur ekki verið bundinn við menn af einum einstökum flokki, heldur hafa þar menn úr öllum flokkum staðið að. Því tel ég, að um flutning þessa máls hefði ekki verið óeðlilegt, að nokkurt samráð hefði verið haft á milli þm. Reykn. til þess að gera líklegra, að það kæmist fram, þm að hér er um þó nokkurt fjárhagsatriði að ræða. En ég stend ekki upp til að benda á þetta sérstaklega, þó að mér finnist það eiga rétt á sér í umr. um þetta mál, heldur hitt, sem kom fram hjá hv. ræðumanni, að hann taldi, að bygging knarrar væri ekki nauðsynlegur þáttur í að koma upp sjóminjasafni í Hafnarfirði. Ég hef talað við nokkra Hafnfirðinga um þetta mál, sem fylgst hafa með því og unnið að því af áhuga, og ég hef fundið það sama hjá þeim öllum, að þeir hafa talið, að veglegasti hluturinn, sem slíkt safn sem þetta gæti geymt, væri einmitt knörr. Ég hef hér í höndunum örstutta lýsingu á málavöxtum í sambandi við þær hugmyndir, sem uppi hafa verið um byggingu knarrar, sem mig langar til — með leyfi hæstv. forseta — að fá að skýra frá. Þær eru stuttar og taka ekki langan tíma hv. Sþ.

Í sambandi við þáltill. á þskj. 4 um Sjóminjasafn Íslands er ekki úr vegi að rifja upp ýmsar staðreyndir um smíði knarrar, en hugmyndir um þá smíð hafa verið uppi hjá áhugamönnum í Hafnarfirði í nokkurn tíma og óneitanlega verið tengdar hugmyndum um sjóminjasafn.

Þorbergur Ólafsson framkvstj. skipasmíðastöðvarinnar Bátalóns í Hafnarfirði fór á árinu 1972 til Hróarskeldu í Danmörku til að afla upplýsinga um smíði knarrar eins og þeirra, sem siglt var á til Íslands á landnámsöld. Leifar af slíkum knerri fundust í Hróarskeldu, og er verið að ná þeim leifum upp um þessar mundir, ef því er ekki lokið. Þær sýna glögglega, hvernig gerð þessara skipa var, en aldursgreining hefur gert auðvelt að ákvarða, að skip þetta hefur verið smíðað á tímum landnámsferða til Íslands. Knörrinn er um margt mjög frábrugðinn víkingaskipum þeim, sem varðveitt eru í Noregi, enda var honum ætluð úthafssigling, en víkingaskipum meira beint í hernað, og voru þau því bæði hraðskreiðari og lengri. Þorbergur Ólafsson fékk góðar móttökur í Hróarskeldu og honum heitið þar allri fyrirgreiðslu varðandi uppdrætti að knerrinum og jafnvel lofað nokkrum forgangi vegna væntanlegs 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar. Aðrar þjóðir höfðu sýnt þessu máli áhuga. M. a. höfðu Kanadamenn spurst fyrir um knörrinn með það fyrir augum að smíða slíkt skip. Þá mun Jón Kr. Gunnarsson framkvstj. í Hafnarfirði hafa athugað efnivið í knörr á ferð um Noreg nýverið, en sérstök tré þarf við knörrinn, þar sem heil tré eru til sniðin.

Knörr sá, sem verið er að grafa upp í Hróarskeldu, mun hafa verið smíðaður yrði á Íslandi, fengi efnivið sinn þaðan. Erfitt er að segja til um kostnaðarverð við smíði skipsins, en talað hefur verið um, að það muni kosta um 7 millj. kr. Ekki hefur fengist nægilegur byr fyrir smíði knarrarins, þótt ekki sé enn þá fullreynt, hver mundu verða viðbrögð ýmissa stofnana á sjávarútvegs- og siglingasviðinu, ef leitað yrði til þeirra um fyrirgreiðslu. Slíkt er ókannað mál að mestu. En hefði Alþ., einhverja forustu um þetta, mundi fljótlega á það reyna, hvort fyrrgreindar stofnanir mundu ekki vilja taka þátt í kostnaði.

Það, sem gerir brýnt nú, að teknar séu ákvarðanir um smíði knarrar, er sú staðreynd, að Sjóminjasafn Íslands og knörrin hafa undanfarið átt samleið í hugum þeirra, sem mestan áhuga hafa sýnt þessum málum. Liggur raunar í augum uppi, að eftirlíking að knerri mundi verða forvitnilegasti gripurinn, sem Sjóminjasafn Íslands gæti boðið upp á. Það er enginn vafi á því, að samkv. þeim upplýsingum, sem fengist hafa við uppgröftinn í Hróarskeldu, er hægt að gera mjög nákvæma eftirlíkingu af knerri. Vegna 11 alda afmælisins mundum við njóta sérstakrar fyrirgreiðslu frá Danmörku og Noregi hvað upplýsingar og efnisútvegun snertir. Það er því sjálfsagt að nota það tækifæri, sem nú gefst, að hefja undirbúning að stofnun Sjóminjasafns Íslands og jafnframt hefja smíði knarrar, sem auk þess að verða höfuðprýði sjóminjasafnsins yrði verðugur minnisvarði um mikla siglingaíþrótt Íslendinga í upphafi landnáms, sem ekki einasta sigldu hingað, heldur fóru á þessum skipum og námu Grænland og fundu ný — lönd í vesturvegi. Það væri því mjög misráðið, ef fiskveiði- og siglingaþjóðin léti 11 alda afmælið líða svo, að ekki yrði sjósóknar, siglinga og landafunda minnst á viðeigandi hátt. Þess vegna á að reisa Sjóminjasafn Íslands þar, sem hinn farsæll farkostur, er flutti hingað fólk og fénað, situr í öndvegi.

Ég hef samkv. beiðni áhugamanna komið þessu áliti hér á framfæri á hv. Alþ. í sambandi við þá þáltill., sem hér er til umr.