15.03.1974
Efri deild: 80. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (2582)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, klofnaði hv. fjh.- og viðskn. við afgreiðslu málsins. Hefur nú þegar verið gerð grein fyrir máli meiri hl., og tekur hann upp veigamiklar brtt., — vegna þess að í frv. í Nd. voru gerðar á því ýmsar breyt., sem nefndarmeirihl. flytur að ósk fjmrh. til að tryggja því upphaflegan tilgang sinn. Við í stjórnarandstöðu skilum tveimur nál., og fyrri minni hl. skilar einnig víðtækum brtt., en ég flyt á þskj. 511 eina brtt, um hækkun á söluskatti um 31/2%. Kemur fram í nál. mínu, að við í Alþfl. erum reiðubúnir að fallast á þetta og teljum, að með því sé séð fyrir svipuðum tekjum og skattkerfisbreyt. sjálf hefur í för með sér, og reiknum þá með því, að þetta kerfi standi meira en út árið, það verði sem sagt nokkur framtíð í því. Hins vegar erum við á þeirri skoðun, sem hæstv. fjmrh. lýsti, að rétt væri að stefna að því, að hér yrði tekinn upp virðisaukaskattur.

Það er nú búið að tala mikið um þetta mál og fundartími orðinn langur hér í hv. d., og get ég í sjálfu sér verið stuttorður um okkar afstöðu. Form. fjh: og viðskn. meiri hl. er ekki hér viðstaddur, og hefði ég haft áhuga á að beina nokkrum orðum til hans, en hann er nú oft ekki viðstaddur í d., þó að mikilvæg mál séu rædd, svo að það bregður ekki út af venju, enda form. stórrar stofnunar og þarf víða að að huga. En þegar hann talaði um það, að við vildum eyða miklu fé og fara gálauslega með fé, vildi ég aðeins minna bann á það, að við margaðvöruðum um það við gerð fjárl. og víðar, að rétt væri að hamla á móti. Og ég vil undirstrika það, að það er ekki lítil viðurkenning í því, að við höfum farið hér með nokkuð rétt mál, þegar það er samþykkt í Nd. að opna heimild fyrir hæstv. fjmrh, til útgjaldaminnkunar frá fjárl. allt að 1500 millj. kr. Sjá menn og m.a.s. hæstv. forsrh., að þetta er nauðsyn, og ég efast um, að nokkur annar maður nú á þessu þingi hafi talað sterkar um það en sjálfur forsrh., hversu nauðsynlegt væri að hamla á móti verðbólgunni og við værum komnir fram á ystu nöf.

Það er vel þekkt hugtak frá fyrri vinstri stjórn, þegar þáv. forsrh. horfði fram af hengifluginu og dró sig til baka með öllu sínu stuðningsliði, en núv. forsrh. hefur ekki séð ástæðu til þess enn þá. Þó varð mér á að minna form. fjh: og viðskn., Ragnar Arnalds, á hið gamla, sem Sesar sagði, — þegar hann var að tala um það, að stjórnin væri nú ekki aldeilis dauð, — að nú væri þó eins og forðum 15. mars kominn, en ekki liðinn. En mér segir svo bugur um, að þessi 15. mars geti skipt sköpum fyrir hæstv. ríkisstj., eins og hann gerði fyrir annað mikið veldi á sínum tíma. Spurningin er aðeins um það, hvort hið síðara fall verði mikið á svipaðan hátt og Rómarveldisfallið var mikið. Það tel ég varla verða. Ég held, að ríkisstj. sé komin af fótum fram og því muni fallið ekki verða mikið né hennar saknað.

Það er mjög athyglisvert, þegar meiri hl. fæst fyrir því að draga svo mjög úr útgjöldum eins og gert var í Nd. með heimildinni um allt að 1500 millj. kr., jafnvel þótt sumir gagnrýni það, að sú heimild sé um of opin. En þá mætti bæta úr því með því að koma með viðbótartill., sem kvæði svo á, að þetta skyldi gert í fullu samráði við fjvn. Það gerði reyndar frsm. fyrir till., hann undirstrikaði, að þetta væri svo í framkvæmd eins og verið hefur, þegar um slíkar heimildir hefur verið að ræða áður í sambandi við minnkun útgjalda á gildandi fjárl. Þá hefur jafnan verið unnið í samráði við fjvn.till. til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, og er rétt að hafa það einnig í þessu tilfelli.

Við höfum ekki rengt útreikninga Framkvæmdastofnunarinnar eða hagdeildarinnar þar um, að hvert stig gæti gefið 800 millj. á yfirstandandi ári. Við vitum það frá fyrri reynslu, að þetta er varlega metið. Það sýnir yfirlitið frá árinu 1973. Ég drap á það hér í gær, að innheimtur söluskattur í febr. þá gerði 314 millj., en í des. var hann orðinn 545 millj. eða mismunur upp á 231 millj. kr. Þessi gífurlega verðþensla, sem á sér stað í þjóðfélaginu, bætir stöðu ríkissjóðs verulega, og það kom einnig fram hjá frsm. meiri hl., að hann reiknaði með því, að þessi skattkerfisbreyt. mundi gefa ríkissjóði jákvæðari stöðu þegar á næsta ári. Hins vegar taldi hann það ábyrgðarleysi hjá okkur að tefla svo djarft núna, að við ættum það næstum öruggt, að hallinn væri 500–600 millj. á yfirstandandi fjárl. En hann gleymdi alveg að minnast á heimildina, sem ég hef drepið á hér áðan og er það mikilvægt, að vandalaust er að draga út útgjöldum, er hugsanlegum halla næmi, eins og þeir leggja dæmið fyrir. Ég fæ því ekki annað séð en fullkomið jafnvægi geti verið fyrir ríkissjóð, ef hann fær 31/2 stigs hækkun á söluskatt.

Við fengum ekki neitt um það að vita í fjh.og viðskn., hver greiðslustaða ríkissjóðs var árið 1973, þó að ég impraði á því hér í gær, að okkur yrðu gefnar upplýsingar um það, þegar vitað var, að tekjur ríkissjóðs fyrir árið 1973 voru hátt í 3 milljörðum kr. meiri en reiknað var með. Innflutningur á árinu 1973 var 31.8 milljarðar og jókst úr 20.4 milljörðum, þannig að ríkissjóður fékk aðeins á þessum eina lið gífurlega auknar tekjur. Einnig vegna tekjuhækkunar manna á milli ára gaf tekjuskatturinn mun meira en reiknað var með. Og það hefur komið fram núna, að búast má við, að tekjur manna árið 1973 nemi a.m.k. 30% hærri tölu en var árið 1972. Þó að við lækkum núna beina skatta nokkuð, er skattstofninn mun hærri og mun gefa ríkissjóði auknar tekjur. Hefur það verið áætlað a.m.k. um 400 millj. kr. Það ber því allt að sama brunni, að ríkissjóði er sæmilega vel séð fyrir tekjum þrátt fyrir þessa skattkerfisbreyt., enda væri óeðlilegt annað en að tryggja honum eðlilegar tekjur á móti svo viðamiklum útgjöldum sem Alþ. hefur samþ. við gerð fjárl. Hins vegar teljum við ástæðulaust, eins og verðbólgan er í landinu í dag, að spenna bogann hærra en lífsnauðsynlegt er, og þess vegna viljum við í stjórnarandstöðunni fara eins varlega og framast er unnt.

Það er misskilningur, að það sé betra að hafa söluskattinn hærri og veita þá eilítið hærri afslátt á sköttunum. Mín skoðun er sú og margra annarra, að með mun hærri söluskatti, jafnvel þótt ekki sé í vísitölunni, vaxi verðbólgan meira. Það, sem við eigum að gera hér á hv. Alþ., er að leggja til þær till., er draga úr verðbólgunni eins og framast er unnt. Sú gífurlega eyðsla, sem allir verða varir við í dag, stafar fyrst og fremst af því, að fólk þorir ekki að leggja sparifé sitt inn á banka, og menn finna það hjá sjálfum sér, að glötuð er geymd króna. Það er um að gera að kaupa bíl, og það gengur svo langt núna, að jafnvel sumir einstaklingar kaupa timbur og geyma það bak við hús sitt til endursölu síðar á árinu. Þetta sýnir það vanmat, sem ríkir í dag á íslensku krónunni og er undirrót þessarar þenslu, sem skapar aukin vandræði fyrir allt atvinnulíf í landinu og þá sérstaklega útflutningsatvinnulífið.

Það hefur komið fram viða, að iðnaðurinn á nú í vaxandi erfiðleikum, og heyrst hefur sú hugmynd, að nauðsyn sé að hjálpa iðnaðinum og þá sérstaklega niðursuðuiðnaðinum með útflutningsuppbótum og það fyrr en síðar. Sjá menn þá, að hér er að hefjast nýtt tímabil útflutningsuppbóta, þar sem enginn veit, hvar endað verður.

Nú hefur svo atvikast, að bæði mjöl hefur lækkað í verði og frystur fiskur, og þarf ekki að fara mörgum orðum um, hvaða afleiðingar það hefur, sérstaklega fyrir togaraútgerðina, þegar það var viðurkennt hér fyrir nokkrum dögum af hæstv. sjútvrh. í umr. um skatt af loðnu, að það væri lífsnauðsyn fyrir togaraútgerðina að fá þessa fjármuni, þar sem hún gæti ekki staðið undir sér einhliða. Þrátt fyrir góða afkomu frystihúsanna hefur það ekki hrokkið til, sem þau hafa getað lagt togaraútgerðinni fram, og þarf meira til. Fari svo innan skamms, að frystihúsin sjálf verði ekki aflögufær, sortnar skyndilega í álinn fyrir þessi nýju og afkastamiklu skip, og það er vandamál. sem verður að horfast í augu við sem fyrst og finna lausn á.

Hærri söluskattur þýðir hærra útsöluverð á vinnu og þjónustu, og almennt mun söluverð á þjónustu á vélaverkstæðum og netaverkstæðum og ýmsum öðrum aðilum, er þjóna sjávarútveginum, vera komið í rúmar 500 kr. í dagvinnu, og þeir, sem eru með sérfræðinga í sinni þjónustu, hafa útselda vinnustund á sjöunda hundrað kr. í dagvinnu. Ef menn þurfa á skyndilegri viðgerð að halda í eftirvinnu eða næturvinnu, er útkallið fyrir minnst 4 tíma, en ein vinnustund er nú komin yfir 800 kr. undir slíkum kringumstæðum.

Menn sjá, að þegar slík verðbólgualda ríður yfir, er stutt í það, að framleiðslugreinarnar lendi í greiðsluvandræðum. Allir kvarta undan rekstrarfjárskorti. Það er alveg sama, um hvaða starfsgrein maður ræðir, hvort það er verslun, iðnaður, þjónusta eða útgerð, allir þjást af rekstrarfjárskorti.

Eins og ég gat um hér í gær, er eitt alvarlegt vandamál við að auka söluskattinn að fá svo mikið fjármagn í hendur svo geysilega mörgum innheimtuaðilum, og væri fróðlegt, ef hæstv. fjmrh. gæti upplýst okkur, hve margir aðilar á Íslandi gera skilagrein um söluskatt. Ég hef ekki séð till. um það, að við ættum að taka þessa fjárhæð á öðru stigi í versluninni. Það væri þó vel hugsanlegt, finnst mér, að við ræddum það að taka þetta sem gjald í tolli, sem gjald við framleiðslu á landbúnaðarvörum og sem gjald við umboðssölu og fækka þá þeim aðilum, er innheimta þetta gjald fyrir ríkissjóð, — ég reikna með, svo að næmi jafnvel þúsundum, — og við gætum með því tryggt örugga og góða skilagrein á svona stórum upphæðum, sem verða nú brátt yfir 10 milljarðar á ársgrundvelli. Þetta er gífurlega mikið, ef við óttumst, að 23% komi ekki til skila. Ég tala nú ekki um, ef er eins og sumir segja, að a.m.k. 5% vanti upp á. Einnig vil ég undirstrika nauðsyn þess, að eftirlitið sé samtímaeftirlit og menn framfylgi bókhaldslögunum varðandi það, ef þeir gefa út nótur, að hvert fyrirtæki hafi prentaðar nótur og með hlaupandi númerum, þannig að ekki verði um villst og þægilegt sé að koma á staðinn og sjá útskrift hjá þessum fyrirtækjum, það sé ekki bara einfaldlega prentaður reikningur og svo standi á honum: Staðgreiðsla — og ekkert meira, eins og tíðkast í dag. Þetta er brot á gildandi bókhaldslögum, og miklu árangursríkara að mínu viti er að tryggja það, að hvert einasta fyrirtæki hafi prentaðan reikning og framkvæmi sína reikningsskrift, eins og lög gera ráð fyrir, og það komi skýrt fram, hver innheimta á söluskattinum er.

Ég fagna því, að í frv. er gert ráð fyrir, að viðurlög við brotum séu hert og allt eftirlit sé tryggt. Það er brýn nauðsyn, þegar menn fara með svona mikla fjármuni fyrir ríkið og eiga að gera skil á því innan ákveðins tíma, sem hefur nú verið styttur, þannig að mánaðarskil eiga sér stað. Það var jákvætt spor. En það er líka mikið atriði, að allir sitji við sama borð, eins og ég drap á áðan, í því efni.

Það hefur verið talað um það, að þetta sé samkomulag við verkalýðshreyfinguna og það hafi verið, eins og form. fjh.- og viðskn. orðaði það, samþ. með yfirgnæfandi meiri hl. Eftir því sem ég hef heyrt, voru 30 manns mættir á fundinum og 18 samþykktu þetta, en hinir 12 höfðu fyrirvara eða sátu hjá eða greiddu atkv. á móti. Ég hef ekki fengið þetta nákvæmlega sundurliðað, en þetta er það, sem ég hef frétt um afgreiðslu mála á þessum fundi, er 30 menn sóttu. Það má kalla þetta allgóðan meiri hl. En á þessum stað voru samt skiptar skoðanir um þetta samkomulag. Ég hef einnig heyrt, að þessari hugmynd hafi verið hreyft á sínum tíma við BSRB, og þá hefur verið sett fram hugmyndin um 5% söluskatt þegar í nóv., en því hafi verið hafnað þá. Ég veit ekki, með hvaða hætti það var gert né á hvaða grundvelli það var rætt innan þeirra samtaka, en það væri fróðlegt að fá viðtækari upplýsingar um málið þá, því að það munu hafa verið aðrar forsendur þá fyrir að nefna töluna 5%, þegar það kom fram, því að í haust gaf söluskattsstig aðeins 630 millj. kr., en eftir athugun, sem nýlega fór fram, má ætla, að það verði um 800 millj., miðað við sæmilega þróun í verðlagsmálum, en mun auðvitað hækka, ef verðbólgan verður meiri, eins og margir hverjir óttast og því miður er sennilega unnt að ganga út frá, að verði.

Ég tel, að það sé ekki brot á neinum samningum eða samkomulagi við verkalýðshreyfinguna, ef hægt er að sýna fram á það, að þörfin fyrir 5% hækkun á þessu skattgjaldi sé ekki eins brýn og menn mátu fyrir 3–4 eða 5 vikum. Ég tel, að verkalýðshreyfingin ætti að vera ánægð með að fá það nú vel staðfest, að þörfin sé ekki svona mikil og ef við föllumst á það, sem ég vil halda fram, að sé sá eini rétti skilningur, að skattkerfisbreyt. sjálf kalli aðeins fram 2700 millj. kr. lækkun á beinum sköttum, þá er nauðsyn á söluskatti, sem má reikna á 800 millj. á ársgrundvelli hvert stig, ekki meiri en svo, að 31/2 stig eiga að gefa þessa tölu.

Það er svo annað mál, hvort við föllumst á, að ríkissjóður eigi í slíkum greiðsluerfiðleikum sem sagt er, að eigi sér stað. Við höfum enn ekki fengið þau gögn á borðið, er sannfæra okkur um, að svo sé að öllu leyti. Við nm. höfum séð margumrædda áætlun frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, og þar er sett upp dæmi, er sýnir erfiða greiðslustöðu ríkissjóðs, en þó betri með vaxandi verðbólgu. Hins vegar vitum við fyrir fram, að þessir embættismenn áætla ævinlega varlega. Er það mjög eðlilegt og fengin reynsla fyrir því s.l. 3 ár, að veltan í þjóðfélaginu hefur verið mun örari, bæði varðandi innflutning og útflutning og allt peningamagn, en þeir hafa þorað að áætla. Þess vegna hefur ríkissjóður fengið mun meiri tekjur en jafnan er reiknað með við afgreiðslu fjárlaga eða þótt endurmat komi fram hjá þessum aðilum. En sem sagt, það er mjög skiljanlegt, að þeir meti tekjutap ríkissjóðs mjög varlega. Það væri hægt að segja, að annað væri óábyrgt hjá þessum embættismönnum, sem verða að taka tillit til margs í sínum áætlunum, og ógerningur er annað en að meta flesta eða alla þætti mjög varlega.

Ég tel, að ríkisstj. ætti að sjá að sér í þessu, ef svo má að orði komast, meta stöðuna eins og hún er núna. Það er vilji mikils meiri hl. Alþ., — ég vil segja mikils meiri hl., — að opna þann möguleika, að hæstv. fjmrh. geti dregið úr útgjöldum fjárl. Það er líka vilji fyrir því, að söluskatturinn verði ekki hærri en 31/2 stig. Það færi ekki svo illa með ríkissjóð, að hann kollsigldi sig, þótt slíkt yrði samþ. Þá gæti málið haldið áfram, og þá væri ekkert samkomulag rofið, sem setti launþegasamtökin upp við vegg. Það mundu allir fagna því, að söluskattur yrði eilítið lægri en menn reiknuðu með fyrst og málið fengi góðan endi á þessum merka degi, sem er 15. mars. Annars getur fall þessa frv. verið upphaf að falli hæstv. ríkisstj. Það er svo annað mál, hversu margir mundu óska eftir því úti um landsbyggðina. Ég held, að sá meiri hl. sé verulega mikill í dag. En ef hún hefur einhvern dug í sér, eins og ég skildi hæstv. fjmrh. í gær, þá mundi hún láta kjósa um málið í flýti og sjá, hvor hefði rétt fyrir sér, stjórnarandstaðan eða þeir. Þá gætu þeir fagnað sigri, ef þeir bera meiri hl. úr býtum, annars mundum við hinir fagna sigri, og verkalýðssamtökin mundu ekki áfellast okkur fyrir það að hafa sannfært hæstv. ríkisstj. um, að 31/2 stig væri sú tala, er gæfi ríkissjóði nægilega miklar tekjur til að mæta skattkerfisbreytingunni.