15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2909 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

259. mál, skattkerfisbreyting

Jón Árnason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 4, þm. Norðurl. v., sá ástæðu til þess að fara að hefja hér sérstakar umr. um þetta mál — við 3. umr. Hann hefur ekki látið svo lítið í dag að vera yfirleitt nokkuð hér til að hlusta á umr. manna. Samt gat hann tíundað, hvað menn hefðu sagt hér í sinni ræðu við umr. í dag, og kemur manni það kynlega fyrir. Ég fylgdist með því, að það var ekki ljós á hans peru hér í ganginum lengi í dag, þegar verið var að ræða þetta mál, og kom mér það kynlega fyrir, þar sem hann var frsm. í þessu máli fyrir hv. stjórnarliða. (Gripið fram í.) Nú, það kann að vera, að það hafi verið rafmagnsfræðileg mistök, en svona var það, það var svart á perunni og maðurinn sást hvergi. En hvað sem því líður, er ekki nema eðlilegt, að það sé ýmislegt, sem kemur fram í þessari ræðu, sem við erum búnir að ræða í dag og skýtur skökku við.

Hv. þm. er að tala hér um, að við höfum komist að niðurstöðu um ákveðna fjárupphæð í sambandi við það, hverju söluskatturinn muni skila. Það liggur á borðinu, hvað geysilega miklar breytingar hafa átt sér stað á stuttum tíma á þessum tekjustofni, eftir því sem færustu menn hafa upplýst. Þeir hafa upplýst það, að í septembermánuði var gert ráð fyrir því, að söluskatturinn skilaði í ríkissjóð 550 millj. hvert skattstig. Þegar við síðan gengum frá afgreiðslu fjárl., var þessi tekjustofn kominn upp í að skila 610 millj. kr. Í dag liggja hér hins vegar á borðinu upplýsingar um, að hann muni skila á ársgrundvelli 800 millj. kr. Hvort hér er innifalinn, eins og ég sagði fyrr í dag í sambandi við þetta, sá hluti, sem á að ganga til sveitarfélaganna, skal ég láta ósagt, en samt sem áður sjá allir, hve geysilegar breytingar eiga sér stað á þessum tekjustofni á skömmum tíma, og það er ekkert óeðlilegt í því verðbólguþjóðfélagi, sem við lifum í. Það eru slíkar kollsteypur, sem eiga sér stað í verðlagsmálum, og allt verkar það á söluskattinn á sömu leið. Það hækka og hækka tekjurnar, sem renna í ríkissjóð af þessum gjaldstofni. Og hverjum dettur í hug í dag, þó að það sé reiknað nú dæmið, að söluskatturinn gefi 300 millj. kr. á ársgrundvelli, að ef dæmið verður endurskoðað að 3 mánuðum liðnum, að það eigi sér þá ekki stað sama kollsteypan og átt hefur sér stað á undanförnum tímabilum með 3 mánaða millibili. Nei, verðbólgan siglir hraðbyri sömu átt, og allt stefnir í sömu átt með það, að tekjur, tekjuskatturinn, söluskatturinn og aðrir slíkir stofnar, sem byggðir eru á verðlaginu, fara hækkandi og hækkandi og sá hluti, sem rennur til ríkissjóðs eykst að sama skapi.

Hv. ræðumaður sagði hér fyrr í dag, þegar hann hafði framsögu fyrir meiri hl. fjh: og viðskn. um þetta mál: „Við afgreiðslu í Nd. gerðust hins vegar hinir furðulegustu atburðir," sagði ræðumaður. „Að vísu var það bæði til góðs og ills, gerðar breytingar af kostulegu tagi.“ Þar átti hann sjálfsagt við þá afgreiðslu, sem átti sér stað varðandi sparnaðartill., sem Sjálfstfl. flutti í Nd. og hæstv. forsrh. ásamt öðrum þm. úr stjórnarliðinu samþykkti með stjórnarandstöðunni. Það voru hinir furðulegustu atburðir, eins og hv. þm. lýsti hér fyrr í dag í þessum umræðum.

Ég verð að segja það, að það er furðuleg bjartsýni og hreint og beint vantraust á hæstv. forsrh., að stjórnarflokkarnir í þessari hv. deild skuli ætla að knýja þetta atriði hæstv. forsrh. til baka, þannig að hann skuli breyta sinni afstöðu. Vitanlega hljóta þeir að gera það í þeirri meiningu, að hann og hv. þm. Björn Pálsson, sem stóð með honum í atkvgr., éti allt ofan í sig, þegar málið kemur aftur til Nd. (Gripið fram í: Ekki ég.) Nei, ég veit það, að bæði hv. þm. Björn Pálsson og hæstv. forsrh. láta ekki þessa menn segja sér fyrir verkum í þessum efnum, og það á eftir að koma á daginn, að það er þingmeirihl. fyrir hendi í sambandi við afgreiðslu þessa hluta frv., sem samþykktur var í hv. Nd., að fara í sparnaðaráttina til viðbótar við það að bæta nokkru við varðandi söluskattinn til að mæta þeim tekjumissi, sem ríkissjóður verður að sjálfsögðu fyrir í sambandi við tekjuskattslækkunina.

Hitt er svo annað mál. að í sambandi við verðbólguna eru margar aðrar ráðstafanir, sem núv. stjórnarmeirihl. hefur haft afskipti af og leiða til hins sama. Það er t.d. að ætla sér að lækka niðurgreiðslur af nauðsynjavörum til almennings um 500 millj. kr., eins og stefnt hefur verið að. Það kemur hart niður á fjölskyldumönnum að ætla sér að lækka fjölskyldubætur um 250 millj. kr. En þetta er fyrirheit, sem þessir menn hafa boðað þjóðinni, að skuli koma til framkvæmda á yfirstandandi ári. Allt er þetta að sjálfsögðu til þess að auka verðbólguna og gera þyngra undir fæti þeim mönnum í þjóðfélaginu, fjölskyldumönnunum, sem eiga erfiðast með afkomu sína.

Það er að sjálfsögðu margt fleira, sem tala mætti um í sambandi við skattamálin í heild. Nú liggur það á borðinu, að það er eina vonin h,já hæstv. stjórnarflokkum og ríkisstj., að vegna þess, hvað gildandi skattalög séu illræmd, verði hægt að kenna stjórnarandstöðunni um. Ef þau verði látin gilda eftirleiðis og þessi skattalagabreyting ekki samþykkt, muni það hefna sín á þeim, sem koma í veg fyrir, að þetta aukna skattrán, sem hér er lagt til, komi til framkvæmda, að það eigi sér stað. Stjórnarandstöðunni verði kennt um, að hún hafi komið í veg fyrir þær tekjuskattslækkanir, sem felast í þessu frv. — Nei, almenningur mun sjá í gegnum annað eins og þetta. Það er vissulega rétt, að skattránið, sem á sér stað í dag og mun leiða til þess, að 90% af þeim, sem koma til með að borga skatt eftir gildandi skattalögum á yfirstandandi ári, lenda allir í hæsta þrepi skattstigans. Ég hygg, að það sé einsdæmi h,já nokkurri þjóð í allri veröldinni, að slíkur skattstigi og slík skattalög gildi í nokkru landi.

Þessir flokkar og engir frekar hafa talað um, að það þyrfti að láta skattana koma á breiðu bökin. En hver er reynslan af þeirra framferði í sambandi við skattamálin? Reynslan talar skýru máli í þessum efnum. Það hefur farið sífellt í þá áttina, að fleiri og fleiri af skattborgurunum, sem borga tekjuskatt, hafa lent í hæsta skattþrepinu. Það á eftir að sýna sig, að ef þessi skattaleiðrétting nær ekki fram að ganga, sem ríkisstj. hefur lagt fram á þessu þingi, ef hún fellur, vegna þess að ríkisstj. vill ekki sætta sig við það að fá ekki stórauknar tekjur í viðhót í ríkissjóðinn, þá verði látið sitja við það að leggja skatta á þjóðina eftir hinu illræmda skattakerfi, sem í gildi er og þessi hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar beittu sér fyrir að samþykkja og koma í framkvæmd í upphafi síns stjórnarferils.

Nei, ég kvíði því engu, og við þurfum ekki að kvíða neinu í stjórnarandstöðunni í sambandi við það, að okkur verði kennt um, að of þungar byrðar verði lagðar á þjóðina, þó að þessar auknu skattaálögur, sem ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar fara nú fram á, að við samþykkjum henni til handa, verði ekki samþykktar.

Það er auðvelt að skýra það fyrir þjóðinni, að hér er verið að gera allt annað en samið var um við launþegasamtökin. Þegar menn segja, að þeir hafi samþykkt 5% söluskattshækkunina, þá byggðist það vitanlega á því, að það voru ekki fyrir hendi nægilega greinargóðar og skýrar upplýsingar um það, hvað tekjurnar í ríkissjóð mundu aukast við þá skattalagabreytingu, sem lagt er til. að gerð verði með þessu skattalagafrv. eða skattkerfisbreytingu, eins og það er kallað af hæstv. ríkisstjórn.

Ég er ekki í neinum vafa um, að það mun koma skýrar og skýrar í ljós með hverjum mánuðinum sem líður, hvað tekjurnar í ríkissjóð muni aukast við þá verðbólguþróun, sem á sér stað. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 1973 fóru tekjur ríkisins fram úr áætlun um 1630 millj. kr., fram úr því, sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Á yfirstandandi ári liggja þessar tölur ekki til fullnustu fyrir enn þá, en það er nokkurn veginn víst eftir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir núna varðandi tekjur ríkissjóðs á árinu 1973, að þær muni a.m.k. verða um 2000 millj. kr. umfram það, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Hér er um að ræða á þessum tveimur árum hvorki meira né minna en nokkuð hátt á fjórða milljarð, hátt á fjórðu þúsund millj. kr., sem ríkisstj. hefur haft meiri tekjur en samþykkt hefur verið og gert ráð fyrir í fjárlögum. Þetta er ákaflega eðlileg afleiðing af þeirri verðlagsog verðbólguþróun, sem á sér stað í landinu. Við það, að verðlagið hækkar eins ört og átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum og árum, þá leiðir það að sjálfsögðu af sér, að tekjustofnar, sem byggðir eru á beinu sambandi við verðlagið, hljóta að vaxa að sama skapi ört. Og það er það, sem átt hefur sér stað um þessa geysilegu hækkun á tekjum ríkissjóðs umfram það, sem gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum, að það er fyrst og fremst vegna þess, að verðbólguþróunin er svo ör í landinu.

Sannleikurinn er sá, að það er það eina, sem þessi ríkisstj. getur tryggt þjóðinni, það er verðbólguþróunin, það er óðaverðbólgan. Það er það eina, sem henni tekst að tryggja þjóðinni. Samt sem áður lásum við það í stjórnarsáttmálanum, sem hæstv. forsrh. og aðrir í ríkisstj. eru nú alveg hættir að minnast á, að þeir lofuðu þeirri þróun, að verðbólgan mundi ekki verða meiri en sem næmi því, sem væri hjá nágrannaþjóðunum. Hver er svo reynslan og staðreyndin í þessum efnum? Verðbólgan hefur verið þrisvar sinnum meiri á undanförnum árum hjá okkur Íslendingum heldur en hjá nágrannaþjóðunum. Samkv. þeirri töflu, sem alþjóðastofnun gerir, komumst við í næsthæsta þrepið í þeim efnum á s.l. ári. Ég held, að Grikkland hafi verið eina landið, sem var fyrir ofan okkur í sambandi við verðbólguþróunina. Nú er það öruggt, að við sláum Grikkland út og allar hinar þjóðirnar. Það má telja alveg fullvíst með þeirri þróun, sem á sér stað í öllum verðlagsmálum í okkar landi. Við þurfum ekki annað en að lesa í blöðunum og heyra þær tilkynningar, sem berast núna daglega í sambandi við nauðþurftir almennings, landbúnaðarvörurnar og aðrar slíkar vörur, sem almenningur þarf að kaupa daglega, hvað þar er um gífurlega hækkun að ræða. Og það segir sig sjálft með því kerfi, sem við lifum eftir í sambandi við verðlagsmálin, að kaupskrúfan og verðlagsskrúfan er í svo miklum gangi, að það hefur aldrei nokkurn tíma fyrr átt sinn líka í sögunni á þessu landi, að slík óðaverðbólga hafi átt sér stað. Svo koma þessir menn hér og eru undrandi á því, að við viljum ekki samþykkja, að svo og svo lítil upphæð muni koma út úr söluskattinum, miklu minna en á borðinu liggur, að hann muni gefa. Við vitum, að þegar áhrifanna af þessari verðlagsþróun, af hækkuðu verði, fer að gæta meira, þá fer skriðan á ný á meiri og meiri ferð. Hvar hún endar, það verður ekki séð fyrir endann á því í dag.

Hv. 4. þm. Norðurl. v., sagði í ræðu sinni í dag: Ríkisstj. hefur lofað að beita sér fyrir lagasetningu, — það mátti eiginlega skilja það svo, að skattaránið, sem þeir hafa haft, þessir skattar, sem gilda í dag og þeir eru að hóta, að gildi áfram, ef stjórnarandstaðan vill ekki leggja blessun sina yfir þær auknu skattatekjur, sem þeir fara fram á í dag, þá muni þeir að öðrum kosti halda áfram og þar sé engum nema stjórnarandstöðunni um að kenna. Ég er sannfærður um það, eins og ég sagði hér áðan, að það verður auðvelt að sannfæra þjóðina um, að stjórnarsinnar fara hér ekki með rétt mál og að þær upplýsingar, sem þeir gáfu verkalýðsleiðtogunum í sambandi við samningana og í sambandi við þann þátt í samningunum, sem skattalækkunin átti að búa, að þeir munu komast að raun um, að þar var ekki farið með réttar tölur, og þess vegna er það tilgangslaust fyrir hæstv. ríkisstj. og hennar stuðningsflokka að ætla að hóta stjórnarandstöðunni, að ef hún samþykki ekki frv. eins og það upphaflega var lagt fram hér á Alþingi, þá skuli þeir fá að kenna á því, þá skuli gömlu lögin gilda. (Gripið fram í: Þeirra eigin lög.) Þeirra eigin lög eiga að gilda, og það er hótunin til okkar stjórnarandstæðinga í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Það er illt að hafa ekki önnur handhægari ráð til þess að ógna með heldur en sín eigin lög, sem þessir hv. alþm. voru búnir að hrósa svo mjög sem þeir gerðu á sínum tíma, þegar þau skattalög, sem nú eru í gildi, voru sett.

Þrátt fyrir það að þessi hv. þm. hafi gefið ærið tilefni til að fara enn víðtækar inn á þessi mál og þetta frv., þá vil ég það ekki, vegna þess að mér er kunnugt um það, varð var við, að það voru ýmsir aðrir þm., sem báðu um orðið um leið og ég og tala hér á eftir, svo að það á ábyggilega eftir að standa langur fundur enn um þetta mál, það er alveg sýnilegt. Enda eru ýmis atriði í sambandi við þann málflutning, sem stjórnarsinnar hafa haldið hér uppi varð andi þetta mál, sem væri mjög brýn ástæða til að taka til frekari umræðu og endurskoðunar.

Fullyrðingar þeirra í sambandi við tekjuöflunina eru að meira eða minna leyti út í hött og eiga ekki við nein rök að styðjast, þegar farið er að skyggnast betur inn í þetta dæmi og sérstaklega í sambandi við það, sem framtíðin ber í skauti sér. Við sögðum í des., að söluskatturinn gæfi 610 millj. kr. hvert söluskattsstig. Nú segjum við, að söluskattsstigið er komið upp í 800 millj. Hvað verður eftir einn eða tvo mánuði í slíku verðbólguþjóðfélagi sem er í dag. Það er ekki hægt að segja stundinni lengur, hverjir tekjustofnarnir endanlega verða, fyrr en ríkisreikningurinn kemur á borðið hjá alþm. Enda er reynslan sú, eins og ég hef hér sagt fyrr í þessari ræðu minni, að á hverju ári, sem þessi ríkisstj. hefur setið við völd, hafa ríkistekjurnar farið langt fram úr því, þúsundir mill,j. fram úr því, sem fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Það þarf enginn að efast um það með þeirri þróun, sem er í dag í verðlagsmálum og verðbólgunni, að þá eiga tekjur ríkissjóðs eftir að fara enn meira fram úr áætlun en nokkurn tíma fyrr í sögu þingsins. Það er enginn vafi á því, að þegar við fáum ríkisreikninginn fyrir árið 1974, þá verður mismunur á niðurstöðu fjárlaga og ríkisreiknings meiri en hefur átt sér stað nokkurn tíma í sögu þingsins fyrr á árum. Það, sem ég segi nú í sambandi við þetta, er ekki sagt út í loftið, og ég skal minna hv. þm. Ragnar Arnalds á það, þegar reikningurinn kemur hér á borðið hjá þm. fyrir árið 1974, ef við verðum báðir lifandi. Þá mun þessi mismunur koma í ljós, sem ég hef hér skýrt frá.