15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2915 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Það var eins og fyrri ræðumaður sagði hér áðan, að það var undarlegt að heyra formann meiri hl. n. og frsm. koma hér allt í einu inn og fara að tala um það mál, sem við vorum að ræða þér í dag, — mann, sem lagði það ekki á sig eftir sína framsöguræðu að hlusta á það, sem við sögðum, og fara svo að gagnrýna það núna. Hann sagði, að það hefði ekki kviknað á perunni hjá sér á borðinu. Ég varð ekki var við, að hefði kviknað á perunni ennþá, því að það var alveg sýnilegt, að maðurinn kom af fjöllum, alveg gjörsamlega af fjöllum, hafði ekki einu sinni lesið þingskjölin, ekki mátt vera að því. En ég get alveg tekið undir orð fyrri ræðumanns, að það er okkur ekkert nýtt, að maðurinn hafi ekki tíma til að sitja í stól þér í hv. deild, enda er hann formaður stjórnar þeirrar stóru stofnunar, sem á að hafa efnahagskerfi — landsmanna í böndum og hafa stjórn á því. En þau bönd hafa brostið beggja vegna. Og ef hann fylgist ekki betur með því, sem sú stofnun getur sett á blað handa okkur þm., skal ég lesa upp úr plaggi frá stofnuninni, sem ég treysti, að sé rétt, því að okkur liggur ekkert á. Við skulum bara taka þetta rólega. Það er dagsett 5. mars 1974, og ég fékk þetta plagg til að fá yfirlit yfir, hversu söluskatturinn hefur vaxið 1973 og raunar líka 1972. En jafnvel þó að okkur liggi ekkert á, ætla ég bara að lesa breytinguna árið 1973. Ég minntist á það í dag, en af því að hann var ekki við þá, hefur hann gott af því að heyra það, því að það eru engin einkenni þess, að verðbólgan fari minnkandi, ekki vottur, alls ekki vottur af því. Þá getur hann aðeins dregið rökrétta ályktun af því og sett það upp í kúrfu, ef hann áttar sig betur á myndrænni framsetningu en í tölulegum upplestri, hvert stefnir. Sú kúrfa mundi rísa meira en 45 gráður.

Í febrúar 1973 var skilað söluskatti 314 millj., í mars 390 millj., síðan aftur minna í apríl. 337 millj., í maí 384 millj., í júní 462 millj., í júlí 509 millj., í ágúst 519 millj., í sept. 502 millj., í okt. 509 millj., í nóv. 545 millj. Ég hef ekki fengið töluna fyrir desemberskil, sem kemur fram í janúar, en mismunurinn á þessu 10 mánaða tímabili í skilum kemur fram 231 millj. Um 231 millj. hefur það vaxið.

Eins og fjvn.- maður Jón Árnason nefndi hér áðan, fengum við, sem vorum í fjvn., tölurnar í haust, og þá var gert ráð fyrir rúmum 600 millj. af hverju söluskattsstigi, Svo heldur verðbólgan áfram, og nú reiknar Framkvæmdastofnunin út sjálf dæmið minnst á 800. Og ég margtók það fram í dag, að hún reiknar varlega. Hún reiknar varlega með verðbólgunni, og það kemur fram í frv., ef hv. þm. hefur haft tíma til að lesa frv., að hér er varlega reiknað. Það kemur líka fram í nýrri áætlun, sem ég vænti, að hann hafi undir höndum, hann fékk a.m.k. sem nm., ef hann hefur haft tíma til að lesa. Á b1s. 9 í frv. er reiknað með 25–26% aukningu og að innheimta sé með svipuðum hætti og verið hefur. Ef innheimtuaðgerðir eru nú harðari, sem vonir standa til og lýst hefur verið yfir að eigi að vera, þá kannske hækkar þetta hlutfall, en hin nýja áætlun sýnir, að þeir reikna með a.m.k. 30% tekjuauka á milli áranna. Og varlega metið gefur þetta ríkissjóði hreinar 400 millj. minnst.

Það er ekkert, sem bendir til þess, að úr verðbólgunni verði dregið, því miður. En það væri ánægjulegra, ef það yrði samstaða á Alþ. um að gera myndarlegt átak til að draga úr verðbólgunni og minnka þensluna. Ég minntist á það í dag, að hæstv. forsrh. hefði oft talað um, að það þyrfti að draga úr spennunni og það mjög verulega, og það mun sennilega hafa verið þess vegna, sem hann stóð að því með okkur í stjórnarandstöðunni ásamt öðrum þm. Framsfl., sem þegar hefur kallað hér fram í, þó að hann sé í Nd., að hann muni standa við fyrri gerðir í þessu efni, þ.e. að heimila ríkisstj. að draga úr fjárl. allt að 1500 millj. kr. til að minnka spennuna í landinu, til að minnka eftirspurn eftir vörum og þjónustu og hafa ekki mannskapinn á sprengdu uppboði í vinnu yfir stuttan tíma, þegar framkvæmdirnar eru svona miklar og þær hrannast svona upp, heldur að atvinnulífið geti verið í jafnvægi, sem öllum er fyrir bestu, þegar fram í sækir, og það ætti hv. þm. að vita.

Hverjir græða mest á þessari verðbólgu? Hvaða flokkur manna skyldi það vera? Ætli það sé fólkið innan ASÍ? Ætli það séu mennirnir, sem eiga spariféð? Á ég að búa til einfalt dæmi hérna skyndilega? Hugsum okkur tvo menn, annan eldri, sem á 1 millj. kr. á sparisjóðsbók, og hinn ungan, segjum 25–30 ára, sem er að koma úr skóla, og hann þarf að fá lán. Hann fer niður í banka, og hann fær þessa millj. lánaða. Hann byggir fyrir það fé, og hann getur selt það, segjum eftir eitt ár eða 12 mánuði, og miðað við verðbólgu undanfarins árs getur hann selt það með 25% hagnaði a.m.k. Þó kom fram í sjónvarpinu um daginn í Landshorni, að sú verðþróun mundi líklega verða mun meiri. En segjum nú 25%. Þá seldi hann eignina, sem hann hóf að reisa í ársbyrjun, í árslok fyrir 1250 þús. kr. En maðurinn, sem átti spariféð, hvað hefur hann fengið? Segjum, að það hafi verið á bundinni bók og hann hafi fengið 11%, þá fær hann 1100 þús. Sá, sem tók lánið, hagnast um 250 þús. Sá, sem átti féð og slappaði möguleika, svo að atvinnulífið gæti starfað í þjóðfélaginu, tapar 150 þús. Ef nú allir alþm. hefðu dug í sér til að verðtryggja spariféð eða setja vísitöluna að hluta a.m.k. á lánin, segjum að hálfu á móti verðbólgunni, þá er hugsanlegt, að maðurinn, sem átti fjármagnið, hefði fengið 75 þús. kr. Það þýðir, að hann hefði þá fengið 1100 þús. + 75 þús., þ.e.a.s. náð hálft upp í það, sem hinn tapaði. Þess vegna væri nokkur jöfnuður á. Það væri myndarlegra að standa að slíku fyrir alla þm. og reyna þannig að draga úr þessari óhemjueftirspurn, sem þeir hafa og vilja, sem hafa tök á því að standa í stórframkvæmdum.

Þetta er einfalt dæmi, sem ég bý til hér úr stólnum, en ég held, að það sé ekki langt frá raunveruleikanum, eins og maður heyrði rætt um í Landshorni fyrir skömmu í sjónvarpinu. Og þar voru taldar miklu, miklu meiri breytingar, á strætisvögnum 40% verðhækkun og í margs konar þjónustu frá 25 upp í 50%. Og enn hefur ekki verið gengið frá útsölu á sumum verkstæðum, en hún er komin upp í 500–700 kr. eftir því, í hvaða flokki mennirnir eru, sem almenningur er að kaupa þjónustu af. En ég man það, að á vélaverkstæðum var útseld vinnustund 53.60 kr. 1. mars 1963 fyrir almenna keypta þjónustu, fyrir 11 árum. Þannig sjáum við, hversu óhemju stjórnlaus verðbólga hefur ríkt á Íslandi, bæði í tíð fyrri stjórnar, en þá var verðbólga, sífelld verðbólguþróun, þó að hún sé mun meiri núna og engin skipulögð átök til þess að hamla á móti henni, öðru nær, bara nógu háan söluskatt og láta kynda undir bálinu. Og svo brigslar hv. frsm. manni um það, að maður skuli ekki kyngja öllu dæminu, einfalt og búið og hallelúja eiginlega. En ég sagði það hér fyrr í dag og greip fram í ræðuna, að forðum var 15. mars kominn, en ekki liðinn, og það ætlar áð fara eins og einu sinni, að það getur haft alvarlegar afleiðingar.

Það er staðreynd, að á bls. 9 í frv. hæstv. ríkisstj. stendur þannig, með leyfi forseta: „Hér er þannig um að ræða lækkun álagðs tekjuskatts um 2700 millj. kr. eða um 42%“ Nokkru neðar stendur: „Kostnaður ríkissjóðs af skattafsláttarkerfinu á árinu 1974 er áætlaður 550 millj. kr., en megintilgangur þess er að tryggja hag hinna tekjulægri.“

Hv. ræðumaður lagði þessar tölur saman áðan eða hefur fengið einhverjar nýjar, því að hann komst að þeirri niðurstöðu í einni tölu sagt, að hér væri a.m.k. um 3400 millj. að ræða. Ef ég legg þetta saman á puttunum hérna í ræðustól, þá fæ ég út 3250 millj. En þetta er kannske venjuleg nákvæmni og það skakki ekki mjög miklu, þó að það muni þarna um 150 millj. En frv. sjálft segir þessa tölu, og við í Alþfl. höfum ekki vefengt það, eins og það er sett fram, að það mætti ganga út frá því, sem í þessum plöggum stæði, og miðað okkar afstöðu við það.

Það er varlega áætlað, svo að ég endurtaki það enn einu sinni, að söluskattsstigið muni gefa um 800 millj. á ári, og því ekkert því til fyrirstöðu að ganga út frá því, að 31/2 stig í söluskatti nægi fyrir þessari tekjuöflun, sem hér segir á bls. 9, að nemi 2700 millj. kr. Við í Alþfl. deilum hins vegar á það að afla tekna í þessar 500 millj., sem eiga að fara í þetta sérstaka kerfi, með því að láta þá, sem eiga að fá peningana, borga þá fyrst. Það teljum við alveg fjarstætt. Þó að fleiri komi hér inn í, er fjarstæða að leggja á þetta fólk líka aukaálögur. Kannske vill hann leggja á þessi margumræddu breiðu bök gamla fólksins viða úti um landsbyggðina, verkamanna, sjómanna og ýmissa iðnaðarmanna, sem nú eru yfir sjötugt? Hæstv. ríkisstj. var nauðbeygð á sínum tíma til að gefa út brbl.- því að ráðh. skömmuðust sín svo fyrir þá skatta, sem þetta fólk bar þá, þegar skattalagningin kom út eftir þeirra eigin lögum á sínum tíma. Og svo heldur hann, að hann geti ógnað okkur með svipu vegna afleiðinga af þeirra eigin löggjöf. Hann má veifa þeirri svipu yfir höfðinu á mér, það skiptir mig engu máli, ekki minnsta máli. Þetta eru þeirra eigin verk, og þeir hlustuðu ekki á eina einustu brtt., sem kom fram á sínum tíma. Þetta var allt sögð fjarstæða, sem við sögðum. Reynslan varð bara önnur, og þeir neyddust til að gefa út brbl. á sínum tíma. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu hér, þó að það væri fróðlegt út af fyrir sig, fyrst þeir hafa svo mikinn tíma, að þeim liggur ekkert á að koma þessu máli áfram, — ekki nokkurn skapaðan hrærandi hlut.

Það er undarleg glámskyggni að halda sér dauðahaldi í þessa tölu, 5 stig, vegna þess að forsendurnar fyrir þessum 5 stigum eru gerbreyttar. Ég spurði að því í dag og hef ekki fengið svar við því enn þá, hvers vegna BSRB voru boðin 5 stig í haust, mér er sagt í nóv. Það er gefið mál, að hafi þeir boðið þetta í byrjun nóv. eða í októberlok, þá var ekki forsenda til, að þessi stig væru 800 millj. kr. hvert, heldur rúmlega 600 millj. kr., þannig að það er gersamlega eðlilegt, að í dag við breyttar forsendur og breytta þróun verðlagsmála, eins og við sjáum, þá lækka prósentustigin, og því hefur ekki verið á móti mælt, að ég færi hér með rétt mál.

Ég spurði líka um greiðslustöðu ríkissjóðs 1973 í fyrstu ræðu minni hér og óskaði eftir, að við fengjum upplýsingar um það á nefndarfundi. Við í stjórnarandstöðunni vorum ekki virtir svars, alls ekki, ekki undir neinum kringum stæðum. Og ég spyr um það enn þá, og ég vil líka minna á það, að heildarinnflutningur jókst úr 20.4 milljörðum 1972 upp í 31.8 milljarð 1973. Og þetta gefur ekki lítið auknar tekjur skyndilega fyrir ríkissjóð. Ég vil líka minna á það, þó að ég muni það ekki nákvæmlega, að það voru rúmir 900 bílar fluttir inn aðeins nú í jan. á móti 229, held ég, 1973. Af hverju er þetta? Fólkið þorir ekki að eiga krónuna lengur. Það er glatað að geyma krónuna í þessari verðbólguþróun, eins og fram undan er, og þjóðfélagið verður allt stjórnlaust fyrr eða síðar. Atvinnuvegirnir, sem þurfa að flytja verðbólguna út, geta ekki heldur selt hana á erlendum markaði, það er engin leið. Það er ekki einu sinni, að vinir hv. ræðumanns fyrir austan hafi áhuga á að kaupa hana, þó að með góðum kjörum sé kannske.

Það er merkilegt, að menn skuli ekki geta komið sér saman um prósentustigin, þegar liggja á borðinu þær tölur, sem við höfum gengið út frá, um 800 millj. á ársgrundvelli, ríkissjóður hefur tekjumöguleika til að jafna á móti öðrum útgjöldum og menn reikna með, að aukin verðbólga, eins og kemur fram í nýjustu áætlunum hjá hagrannsóknadeild og einnig frá rn. sjálfu, skapi betri stöðu ríkissjóðs. Þá er það merkilegt, að þetta skuli vera slík bitbein eins og reyndin er nú orðin á Alþ.

Því er líka haldið fram mjög ákveðið, að það hafi verið mikil samstaða í ASÍ um þetta mál. Ég spurði um þetta í dag, og hæstv. fjmrh. svaraði mér ekki hér úr ræðustóli, hins vegar rétti hann mér miða, sem ég hef hér fyrir framan mig, og rithönd hans á, og þar stendur, að 19 manns hafi verið með samkomulaginu á þessari dagstund, þegar það var kynnt, 3 á móti og 6 sátu hjá. Þetta mun vera hið rétta um afstöðu ASÍ. Það hafði verið þriggja manna undirbúningsnefnd áður, sem hafði fylgst lengur með embættismönnum, bæði úr rn. og Framkvæmdastofnuninni, og ég geri ráð fyrir, að þeir hafi haft mjög glögga og góða yfirsýn yfir vandamálið, eins og það lá fyrir. En það þarf ansi skarpa menn á stuttum fundi, þar sem tugir manna eru saman komnir, til þess að glöggva sig á svona flóknu máli og taka slíka afstöðu, sem er svo bindandi, að óhugsandi er að endurskoða slíkt. Það þarf mjög skarpa menn til þess. Ég veit ekki, hvaða menn sátu þennan fund, en það hefði verið fróðlegt að vita það, án þess að ég ætli að fara að merkja þá eftir greind. En skarpir mega þeir vera, ef þeir álíta, að það sé engin forsenda fyrir því að endurskoða söluskattsstigin þeim í hag til þess að minnka álögur á launþegana.

Ég held, að þegar hv. ræðumaður hugleiðir þetta í rólegheitum, sem við höfum verið að takast á um núna, gæti afstaða okkar nálægst. Þegar hann gefur sér tíma til að sitja í stólnum og hugleiða málið í rólegheitum, sinnir ekki öðru utan þingsala, þá sér hann, að till. um 31/2 stig er raunhæf, hún er ekkert glæfraleg, og hún setur ríkissjóð ekkert úr jafnvægi, alls ekki. Og þegar það er ljóst, að á tveimur árum hefur ríkissjóður haft hátt í 4 milljarða umfram tekjur frá því, sem fjárlög reiknuðu með, þá má vel búast við því, að árið í ár gefi ríkissjóði talsverðar umframtekjur, með einföldu líkingadæmi. Ég er ekki að segja það, en það má vel reikna með því, og áhættan er ekki mikil, þegar komið er inn í frv., eins og það kom til okkar, að — heimilt sé að lækka útgjöld ríkisins og þar með minnka þensluna í þjóðfélaginu og skapa aukið jafnvægi, um allt að 1500 millj. kr. Einhvern tíma hefði það verið talin skynsamleg ráðstöfun að standa að því að draga úr þenslunni, þó að það sé ekki talið skynsamlegt í dag nema af stjórnarandstöðunni og sjálfum forsrh. og besta heila Framsfl.

Ég vænti þess, að bara við rólega yfirvegun spekist nú formaður fjh: og viðskn. svo, að hann dragi nú þessa till. til baka og frv. fái þá mynd, sem við teljum rökrétta og eðlilega, að þetta geti verið öllum til hagsbóta. Ég veit ekki, af hverju þeir eru svona þversum í því að meta þetta. Hann viðurkennir meira að segja, að á árinu 1975 sé 31/2 stig vel nægilegt, og talar um, að ríkissjóður mundi hagnast það ár á að halda 31/2 stigi. Auðvitað byggir hann það á því, að verðþenslan í þjóðfélaginu sé það mikil, að söluskattsstigið skili inn verulega auknum tekjum frá því, sem við göngum út frá í dag, þ.e.a.s. langt fram yfir 800 millj. kr. á ársgrundvelli.

Við í stjórnarandstöðunni teljum, að það sé ekki verið að tjalda hér til einnar nætur. Það er ekki réttlætanlegt, hreinlega sagt. Svona umfangsmikið mál er ekki sett fram til einnar nætur, og það er alveg óraunhæft að gera því skóna, að það eigi að gilda aðeins til áramóta. Miklu raunhæfara væri, að það gilti til 30. okt. og það væri þá endurskoðað, rétt þegar Alþ. kemur saman, og þá hefðum við reynt að sjá, hvað 31/2 stig gerðu. Það væru miklu skynsamlegri vinnubrögð, og þau væru rökrétt. Þá sýndi það vilja Alþ. í heild til þess að leggja ekki meira á þjóðina en lífsnauðsynlegt væri. Það væri allt annað. En svona till, er út í hött, gersamlega út í hött og leysir engan vanda. Og að ætla svo að segja fólkinu, að um áramót komi bara gömlu, góðu eða illu lögin, hvað menn vilja kalla það, og allt sé í lagi, það gengur alls ekki. Verðbólgan er svo ótrúlega mikil s.l. tvö ár, að ég veit dæmi um ákveðinn mann, sem keypti 150 tonna skip norður á Akureyri fyrir rúmum tveimur árum. Það gekk misjafnlega vel hjá honum að halda þessu skipi úti, — skipið kostaði 35 millj. kr., — en verðbólgan rétti honum endursölu nú fyrir áramótin upp á 55 millj. kr. Ef maðurinn hefði vitað þetta með fyrirvara, hefði verið langbest að geyma skipið í tvö ár í slippnum á Akureyri og setja það aftur á flot núna. Það var sá besti útgerðarháttur, sem hugsanlegt var. Slík er verðbólgan, slík er vitleysan í þjóðfélaginu. Og önnur þjónusta hreyfist eftir því. Söluskattur reiknast af þessari verðþróun, þar sem hann er bundið stig af brúttóveltu, og eykur upp á sig alveg eins og snjóbolti, jafnvel þó að nú sé búið að taka þá ákvörðun að hafa þessi viðbótarstig, hver svo sem þau verða, ekki í vísitölunni. Er það sérstakur áfangi út af fyrir sig. En það þótti illa mælt og illa hugsað, þegar við vorum hér í viðreisn að tala um miklu minni tölu, bæði varðandi vin, tóbak og aðra hluti. Þá þótti það ganga glæpi næst og meira en það fyrir rúmum þremur árum að hugsa slíkt, hvað þá að reyna að framkvæma það. En nú þykir það sjálfsagt, enda eru það svo góðir menn, sem sitja í stólunum í dag, það eru vinir ASÍ-forustunnar og fleiri ágætra manna, og þá þykir sjálfsagt að hjálpa þeim með þessi atriði. Sjálfsagt er þetta skynsamlegt og raunhæft, miðað við ríkjandi ástand í þjóðfélaginu, en menn verða þá líka að vera þess minnugir, að þetta er ekki einhlítt. Það þarf að draga úr spennunni með öðru móti, og það er rökrétt, þó að það sé búið að breyta því núna við atkvgr. við 2. umr., að opna heimild fyrir hæstv. fjmrh. í samráði við fjvn. að draga úr fjári. og hafa það opið, þó að ekki væri nema 500 millj. eða hátt í þúsund millj. til þess að draga úr þenslunni, ef verðbólguhjólið heldur svo ört áfram að snúast eins og allt bendir til. Þetta var gert á erfiðleikaárum, þetta var gert með 15% almennri heimild af núv. ríkisstj., og ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að þetta sé gert áfram, alls ekki neitt.

Ég taldi eðlilegt að standa hér upp og mótmæla þessari till. afdráttarlaust og einnig nokkrum aths., sem ræðumaður kom inn á, þar sem hann virti okkur ekki þess að sitja hér og hlusta á okkar málflutning fyrr í dag, sem honum bar þó sérstaklega skylda til sem frsm. meiri hl.