15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

259. mál, skattkerfisbreyting

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður sagði, að ekki væri deilt um það, hvert tekjutap ríkissjóðs væri eða tekjuávinningur, hvert yrði tekjutap af lækkun beinna skatta, tekjuskatta einstaklinga annars vegar, og hver tekjuaukning ríkissjóðs yrði af 5 stiga söluskattauka hins vegar. Ég vil mótmæla þessu og benda hv. þm. á það, að hvort heldur reiknað er á ársgrundvelli eða á grundvelli þess hluta yfirstandandi árs, sem óliðinn er, þá er ágreiningur við formælendur ríkisstj. um þetta mál og ætti þó ekki að vera. Hv. þm. Ragnar Arnalds segir, að það sé ekki um það deilt, að miðað við ársgrundvöll hafi þetta frv. um skattkerfisbreytingu í för með sér meiri tekjuöflun fyrir ríkissjóð en lækkun beinna skatta, tekjuskatta, nemur. Það er ágætt að fá þessa viðurkenningu hv. þm. Þá erum við sammála um það. Þá er frv. til þess fallið að læðast inn um bakdyrnar að skattgreiðendum í landinu til þess að flá þá enn meira en hingað til hefur verið gert.

Það á að vera einhver sérstök gæska hjá hv. þm. og hans samstarfsmönnum í fjh: og viðskn. að bjóðast til þess, að gildistaka eða gildistími þessara laga sé aðeins til ársloka. En hvernig lítur dæmið út á yfirstandandi ári? Ég vil þá byrja með að taka góða og gilda tölu hv. þm., þá er hann viðhafði hér rétt áðan í sinni ræðu, að tekjuaukning ríkissjóðs, það sem eftir er ársins, af 5 söluskattsstigaauka muni nema 3160 millj. kr. Ég og ýmsir þeir, sem hér hafa talað á undan mér í dag, hafa bent á, að þetta er of lág áætlun og jafnvel allt of lág áætlun. En við skulum taka tölu sjálfs hv. þm. gilda og segja, að tekjuaukning ríkissjóðs verði ekki meiri á þessu ári en 3160 millj. kr. Gott og vel. Hvert er þá tekjutap ríkissjóðs af lækkun beinna skatta og skattaafslætti? Við skulum fletta upp í fjárl. Þar stendur skrifað, að tekjur af tekjuskatti einstaklinga muni nema á yfirstandandi ári 5864 millj., kr. Hver er áætlun ríkisstj. um það, hvað tekjuskattur einstaklinga samkv. þessari skattkerfisbreytingu, sem hér er til umr., muni gefa ríkissjóði í aðra hönd? Sú tala er 4100 millj. kr. Tekjutap ríkissjóðs er þess vegna 1764 millj. kr. vegna þessarar skattkerfisbreytingar. Til viðbótar skulum við svo taka skattaafsláttinn, sem nemur 500–550 millj. kr., og ef við leggjum saman 1764 millj. og 500 eða 550 millj., þá held ég, að fari ekki á milli mála, að út kemur 2250–2300 millj. kr., sem er tekjutap ríkissjóðs á yfirstandandi ári, samanborið við þá tölu, sem hv. þm. gat hér um áðan, að væri tekjuauki ríkissjóðs af söluskattaukanum það sem eftir er ársins, að upphæð 3160 millj. kr., þ.e.a.s. alla vega segir sjálfur hv. þm. Ragnar Arnalds, að ríkissjóður fái um 900 millj. kr. meira í sinn hlut á yfirstandandi ári með þessari skattkerfisbreytingu. Það er aukningin á skattbyrðum á landsmenn. Við sjálfstæðismenn tökum það alls ekki í mál að samþykkja slík lög. Við sjálfstæðismenn teljum það engu meginmáli skipta, þótt þeir meiri hl. fjh: og viðskn. beri nú fram við 3. umr. þá till., að þessi skattránslög skuli þó ekki gilda lengur en til ársloka.

Herra forseti. Ég beindi þeirri áskorun til hv. þdm. við 1. umr. þessa máls í d., að tillit væri tekið til vilja meiri hl. Nd., og varaði við því, ef menn hefðu í huga að færa frv. aftur í sama búning og hæstv. ríkisstj. bjó því upphaflega. Stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. í þessari d. og hæstv. ríkisstj. sjálf hefur hunsað vilja meiri hl. þm. í Nd. og ekkert tillit tekið til gagnrýni og skoðana stjórnarandstöðunnar hér á Alþ. Ég lýsi því ábyrgð á hendur ríkisstj. vegna þeirra afleiðinga, sem svo óbilgjörn og einsýn vinnubrögð hafa. Ríkisstj. hefur stefnt málinu í sjálfheldu. Allt útlit er fyrir, að frv. verði fellt í Nd., og ef ekkert er frekar aðhafst í breytingum á núgildandi lögum um tekjuskatt, þá verður tekjuskattur lagður á landsmenn samkv. skattalöggjöf vinstri stjórnarinnar, sem hún setti á fyrsta valdaári sínu, veturinn 1971–1972, skattalöggjöf, sem vinstri stjórnin hefur hrósað sér af að hafa sett og ber alla ábyrgð á, en hefur í för með sér óbærilegar skattabyrðar á allan almenning í landinu.

Þessi núgildandi tekjuskattslög eru því óbærilegri við álagningu yfirstandandi árs, að hæstv. ríkisstj. ákvað að hækka ekki skattvísitöluna um meira en 20%, þegar tekjur í krónutölu hækkuðu um 30% á milli ára. Lagt verður því á meira en 90% skattgreiðenda samkv. hæsta skattstiga og þeim gert að greiða meira en 55% af tekjum sínum til hins opinbera. Á þessum skattránslögum ber núv. ríkisstj. alla ábyrgð. Það er skattreikningur vinstri stjórnarinnar, kveðja stjórnar, sem hefur sjálf skreytt sig nafninu „stjórn hinna vinnandi stétta“, sem mun birtast Íslendingum, þegar skattseðillinn berst þeim í hendur, ef ekkert verður að gert.

Hafi annað ekki orðið núv. ríkisstj. að aldurtila, þegar skattlagningu er lokið, þá verður skattlagningin samkv. óbreyttum tekjuskattsl. banabiti ríkisstj., því að ábyrgð á þeim getur hún ekki komið yfir á aðra, sem vöruðu við og gerðu till. til úrbóta.

Sjálfstæðismenn hafa flutt frv. til nýrri og betri tekjuskattslaga. Það frv. er nú í n. í Nd. Það er krafa okkar, það er krafa allrar þjóðarinnar, að frv. verði tekið til meðferðar og afgreitt hér á Alþ. þegar í stað og ný tekjuskattslög sett, sem unnt er að beita við skattaálagningu nú í ár, svo að forða megi þjóðinni frá þeirri skattakúgun, sem vinstri stjórnin stendur fyrir.

Meðferð þessa frv. ríkisstj. um skattkerfisbreytingu, aðdragandi þess, efni og afgreiðsla er með þeim endemum, að í ljós er leitt, að ríkisstj. hefur hvorki getu, vilja né vald til þess að koma málum fram, og ber henni því að segja af sér þegar í stað.