15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2598)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. 1. minni hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er greinilegt, að hv. 4. þm. Norðurl. v. vill heldur halda uppi umr. við 3. umr. en við 2. umr., og er sjálfsagt að verða við þeirri beiðni hans. Hann kom hér upp í ræðustólinn áðan heldur kotroskinn og brigslaði okkur stjórnarandstæðingum um bað, að við vildum ekki ganga til samkomulags í þessu máli, og komst m.a. svo að orði, að það væri óskiljanlegt, að ekki skyldi nást samkomulag, þegar svona lítið ber á milli. Ég vísa þessu algjörlega heim til föðurhúsanna. Ef svona lítið ber á milli, af hverju reynir þá ekki þessi hv. þm. að koma með einhverja till. til samkomulags? Af hverju er hann þá ekki samningaliprari? Hvað er það eiginlega, sem hamlar honum í því efni? Hann kom hér upp með till., að það væri einhver samkomulagstill., að allar skattalækkanirnar, sem felast í þessu frv., eigi bara að gilda til ársloka. Það var samkomulagsgrundvöllurinn.

Það er skýrt fram tekið í frv. því, sem lagt var fram, í grg. þess, og það var innifalið í því samkomulagi, sem náðist milli Alþýðusambandsins og ríkisstj., að söluskatturinn skyldi koma til endurskoðunar á þessu ári. Það var skýrt fram tekið í þessu samkomulagi. Þess vegna er það algerlega út í bláinn og sagt af hreinni fákunnáttu að halda, að það sé eitthvað boð að bjóða það núna, enda man ég ekki betur en það boð hafi komið strax fram við 1. umr. frá hæstv. fjmrh. og er ekkert nýtt í þessu máli. En í þessu plaggi segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Endurskoðun tekjuöflunar ríkisins. — Haft verði samráð við fulltrúa launþegasamtakanna um endanlega gerð lagafrv. þess (eða þeirra), sem ríkisstj. hyggst flytja til þess að framkvæma 1.–4. lið hér að framan. Með till., sem lýst er hér að framan, er mikilvægt skref stigið í þá átt að lækka beina skatta og taka upp almennt skattafsláttarkerfi. Við framhaldsendurskoðun yrði unnið að því að einfalda tekjuskattinn og e.t.v. sameina algengustu bætur almannatryggingakerfisins (einkum fjölskyldubæturnar) þeim vísi að skattaafsláttarkerfi, sem hér er ráðgerður. Þar með væri stefnt að því að sameina og samræma tekjuskiptingarafskipti ríkisins í almennt tekjujöfnunarkerfi. Við þessa endurskoðun yrði tryggt, að byrði beinna skatta þyngdist ekki frá því, sem að er stefnt með till. í 1. og 2. lið hér að framan. Endurskoðun söluskatts með upptöku virðisaukaskatts í hans stað á næstu árum fyrir augum yrði einnig liður í þessu samráði. En með þeim breytingum yrði m.a. stefnt að því að létta óbeinum sköttum af framleiðslunauðsynjum.“

Hér er sem sagt því slegið föstu í þessu frv., í grg. þess, og það liggur fyrir, að því er heitið, að áframhaldandi endurskoðun skattal. eigi að fara fram. Enn fremur segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Fulltrúar ASÍ leggja á það áherslu, að með því að fallast á 5%-stiga hækkun söluskatts sé tekið mið af skertri álagningu á árinu 1974. Á árinu 1975 verði því að taka tillit til þess við skattaákvarðanir, þannig að þá verði metið, hvað 5%-stiga hækkun á söluskatti nemi yfir árið, og jafnframt, hve skattalækkun þá nemi miklu samkvæmt nýja skattstiganum, og að því leyti sem söluskatturinn verður talinn nema hærri upphæð, þá verði sá hluti, sem umfram er, metinn inn í kaupgjaldsvísitölu.“

Þarna kemur það fram, sem hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson sagði hér áðan, að það er greinilegt þegar á því, sem þarna stendur, að aldrei var meiningin að falla frá 5 stiga hækkuninni á söluskattinum hjá hæstv. ríkisstj. Þarna er því beinlínis slegið föstu, að söluskattinum eigi að halda áfram. Það er að vísu sleginn sá varnagli, að hluti ef þeirri hækkun eigi að koma inn í kaupgjaldsvísitöluna, það er ýjað í þá átt. En ætli efndirnar yrðu miklar? Ætli það yrði þá ekki komið með einhverjar aðrar eins reikningskúnstir, eins og núna eru hafðar í frammi, eins og þessi hv. þm. hafði hér áðan, þegar hann var að halda því fram þvert ofan í það, sem hann veit, að er rétt, að tekjumissir ríkissjóðs samkv. þessu skattalagafrv. muni nema 3.6 milljörðum kr. eða hvað hann sagði. Sannleikurinn í málinu er sá, eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan, að tekjumissirinn samkv. þessu frv. af tekjuskatti nemur 1 milljarði 764 millj. kr. Þar á móti mun hins vegar tekjuskatturinn samkv. því, sem stendur í grg, meiri hl. fjh: og viðskn. Nd., hækka um 3.4 milljarða kr. Til þess að sýna fram á það, að þetta eru ekki einu liðirnir í tekjuáætlun ríkissjóðs, sem munu hækka, ætla ég að lesa hér endurskoðaða áætlun um innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1974. Þar segir:

Tekjuskattur samkv. fjárlagafrv. 5 milljarðar 864 millj. kr. Samkv. frv. yrði það 4.1 milljarður, mismunur 1764 millj. kr. Almenn aðflutningsgjöld munu hækka úr 6 milljörðum 914 millj. í 7 milljarða 135 millj., hækkunin nemur 221 millj. Söluskattur mun hækka úr 6 milljörðum 702 millj. kr. í 10 milljarða 780 millj., mismunur 4 milljarðar 78 millj. Launaskattur mun hækka úr 1200 millj. í 1640 millj., mismunur 440 millj. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins mun hækka úr 2 milljörðum 958 millj. í 3 milljarða, hækkun 42 millj. Aðrir óbeinir skattar munu hækka úr 1151 millj. í 1220 eða hækkun 69 millj. kr. Samtals nemur hækkunin, þegar búið er að draga frá lækkun tekjuskattsins samkv. fjárl., 3 milljörðum 88 millj. kr.

Samt sem áður, þótt þessi upphæð sé svo há, lýstu þeir því yfir, bæði forstöðumaður hagrannsóknadeildarinnar og sá hagfræðingur, sem honum var til aðstoðar í þessu máli, að allar áætlanir um hækkun á tekjustofnum ríkissjóðs væru í algeru lágmarki, og létu þess getið enn fremur, að ef verðbólgan yrði nógu mikil, mundi greiðsluhallinn hjá ríkissjóði snúast upp í greiðsluafgang. Það má kannske segja, að horfurnar í þjóðfélaginu séu þannig núna, að það geti vel farið svo að óbreyttu.

Svo er annað í þessu máli. Þessi hv. þm. er að gera sig hér digran, og hann er að tala um, að það sé verið að setja okkur einhverja úrslitakosti. En hvað er það, sem hann er að bjóða? Hvað er það, sem ríkisstj. er að bjóða með því frv., sem hér er lagt fram? Eigum við aðeins að líta á það.

Á árinu 1959 voru skattgreiðendur í landinu 61900. Af þeim greiddu ekki skatt 20.8%. Árið 1960 fækkaði skattgreiðendum í 15080. Það var eftir að viðreisnarlöggjöfin var samþ., þá fækkaði þeim á þessu eina ári úr 61900 í 15080. Það ár voru skattgreiðendur aðeins 20.84%. Af þeim greiddu ekki skatt 79.16%. Árið 1973, þegar áhrifa af skattalagabreytingu núv. ríkisstj. fór að gæta, voru skattgreiðendur í landinu orðnir 57 987, eða 57.5%, og af þeim greiddu ekki skatt 42.5%. En það er ekki aðeins að þeim hafi fjölgað, þeir hafa hlutfallslega meira en tvöfaldast, sem borga skatt núna, miðað við þá skattalöggjöf, sem viðreisnarstjórnin setti á sínum tíma, heldur kemur í ljós, að af þessum 57 987, sem greiddu skatt á s.l. ári, eru 72% í hæsta skattflokki og mun hækka á þessu ári upp í 90%. Sem sagt, 90% af skattgreiðendum landsins eiga að greiða samkv. núgildandi skattal. 44% tekjuskatt, og álögurnar á þeim munu þá nema samtals milli 54 og 55% í beinum tekjusköttum. Og svo er þessi hv. þm. að gera sig digran hérna, þegar hann með sinni framkomu hér er að stuðla að því, að svona verði þetta áfram. Og hann er að gera því skóna, að honum verði eitthvað sérstaklega þakkað fyrir það og þessari ríkisstj. að hafa umturnað skattkerfinu í landinu með þessum hætti, sem hefur valdið því á þeim árum, sem nú eru liðin, að það er orðin aðalkrafa allra launþegasamtakanna í landinu að fá leiðréttingu á þessum málum.

Það eru allir menn fyrir löngu búnir að gera sér það ljóst, að það felast engar kjarabætur í beinum kauphækkunum, vegna þess að þær eru étnar upp í verðlaginu þegar í stað. Við sáum, hvernig fór núna 1. mars, og við vitum, að það er búið að lofa atvinnurekendum gengisfellingu. Það liggur beint fyrir, og það er augljóst, ef maður skoðar samningana, sem voru gerðir við Japani, að það er eitthvað því um líkt á döfinni, og ekkert leyndarmál. Og ég vil gjarnan rifja upp, úr því að hv. þm. gefur mér tilefni til að endurtaka það, að í þeim ályktunum, sem Alþýðusamband Íslands gerði nú í okt., var gert ráð fyrir því, að persónufrádráttur til skatts fyrir einstakling yrði ekki lægri en 300 þús. kr., og það er einmitt þessi upphæð, sem við höfum miðað við okkar till. í Sjálfstfl. Hjá okkur er persónufrádrátturinn 310 þús. kr., þar sem taka verður tillit til þess, að brúttótekjur eða tekjuaukning á s.l. ári var meiri en ætlað hafði verið, þannig að við tökum einmitt upp þessi ákvæði og þessar óskir, sem Alþýðusambandið setti fram. Ég vil einnig minna á annað atriði, sem við tökum upp af þeirra till., en þar er sérstaklega farið fram á það, að auk þess fái verkafólk, sem vinnur við fiskvinnslu, sérstakan frádrátt, þannig að þeir, er vinna í allt að 20 vikur á ári, fá 9% og þeir, er starfa 20 vikur á ári eða lengur 18%. Samkv. 2. till. okkar, sem þessi hv. þm. var að taka þátt í að fella hér áðan, er einmitt lagt til, að fjmrh. skuli vera heimilt að veita þeim, er við fiskvinnslu starfa, sérstakan frádrátt samkv. nánari ákvæðum í reglugerð.

Ég vil út af þessu segja það, að það hefur ekki vantað núna á undanförnum vikum og undanförnum mánuðum, að þeir menn, sem nú eru í stjórnarandstöðu, hafi verið að sleikja sig upp við verkamennina og við fólkið í fiskvinnslunni. Það hefur ekki vantað. En við sjáum núna, hvernig efndirnar eru. Það er á engan hátt komið til móts við óskir þeirra, og það er gengið svo langt, að nú er því hótað hér í hinu háa Alþ. að demba yfir þá aftur skattal. eins og þau eru, –skattal., sem fólkið sjálft er búið að neita að taka sig saman um, að ef þessi skattalög eigi að gilda áfram, þá muni fólkið á Snæfellsnesi neita að vinna eftirvinnu og næturvinnu til þess að bjarga verðmætum á vertíðinni í verstöðvunum þar. En þetta fólk hefur haldið áfram að vinna að framleiðslunni í krafti þess, að ríkisstj. muni standa við það að koma fram með þær tekjuskattslækkanir, sem hún var búin að lofa að koma fram með í samningaviðræðunum við Alþýðusambandið. Svo kemur þessi hv. þm. hér upp og segir: Það munar svo sem ekki neinu. — Það munar bara því, sem er aðalatriðið. Það munar því, að þetta fólk fær ekki leiðréttingu, eins og nú standa sakir. Hótunin er sú við fólkið í landinu, við launþegasamtökin, okkur alla, að ef þið fáið ekki að stela á annan milljarð á þessu ári í hærri sölusköttum en nauðsynlegt er, þá eigi að demba gömlu tekjuskattsl. aftur yfir fólkið í landinu.

En þið skuluð ekki ímynda ykkur, að fólkið viti ekki, hver setti þessi lög. Það er fólkinu vel kunnugt um, að með skattalagabreytingunum 1972 var horfið frá þeirri stefnu viðreisnarstjórnarinnar að láta meiri hl. af tekjuöflun ríkissjóðs vera í óbeinum sköttum. Þá var horfið inn á þá braut að leggja 44% tekjuskatt á lágtekjufólkið. Og nú er ástandið orðið þannig, að það er 90% af skattþegnunum, sem lendir í hæsta skattþrepi. Og það má gjarnan minna á það líka, að það er svo sem ekkert gefið í þeim persónufrádrætti, sem lagður er til í því frv., sem hér liggur fyrir. Það er ekki eins og sé verið að gefa eitthvað nýtt og eitthvað mikið. Þetta er rétt svipað því, sem persónufrádrátturinn ætti að vera miðað við s.l. ár, ef í skattvísitölunni væri tekið tillit til þeirrar tekjuaukningar, sem orðið hefur á milli þessara tveggja ára. Það þarf sem sagt enga lagabreytingu til að gera þetta, til þess að veita þennan persónufrádrátt, það þarf ekki annað en einfalda ákvörðun. Það þurfti ekki annað.

En ríkisstj. gat ekki hugsað sér það. Og ríkisstj. hefur svikið fleiri heldur en Alþýðusambandið. Ríkisstj. hefur einnig svikið Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, opinbera starfsmenn, því að það lá einnig fyrir þá, þegar samið var við þá, þá lá í loftinu og hefur áreiðanlega verið heitið, að um leiðréttingu á tekjuskattinum yrði að ræða. Við þurfum ekki annað en fletta upp í skattskrá s.l. árs til þess að sjá, hverjir það eru, sem borga hæstu skattana. Það er launafólkið. Við skulum bera saman í skattskránni launafólkið og þá, sem hafa mest um sig, og sjá, hvað kemur út úr því. Við vitum, að það mun halla á launafólkið í landinu. Það á að níðast á fólkinu, sem ekki getur svikið undan skatti. Það á að halda áfram að níðast á því, og sú er hótunin, sem hv. stjórnarandstæðingar eru nú að láta glymja á okkur, að það eigi að halda áfram að níðast á þeim, sem telja rétt fram. Það er von, að þessir menn tali digurbarkalega, og það er von, að þeir þurfi að æsa sig upp við 3. umr.

Hæstv. fjmrh. var að gera því skóna hér í gær, að það væri best að halda áfram baráttunni og það væri best að láta fólkið í landinu knýja fram breytingar á skattalöggjöfinni. Ég held, að þetta sé best. Það er greinilegt, að sú ríkisstj., sem nú situr, hefur ekki vilja til þess. Hún vill ekki lækka skatta á þjóðinni. Ég vissi ekki, hvort ég átti að taka orð hæstv. fjmrh. svo sem hann væri að gefa í skyn, að það yrði þingrof o nýjar kosningar, ef þetta frv. yrði ekki samþ. Ég vona, að hæstv. ríkisstj, hafi manndóm í sér til þess. Ég vona, að næstu kosningar snúist um skattamálin og snúist um verðbólguþróunina í landinu, og það mun þá sýna sig, að þeir menn, sem nú eru í valdaaðstöðu, munu tapa ögn fleiri þm. heldur en þessum fjórum, sem þeir unnu í síðustu kosningum.

Ég var að tala við mann utan af landi áðan, og hann var að undrast, var að spyrja mig um það, hvernig atkvgr. hefði farið í dag. Og þegar ég sagði honum það, að till. um niðurskurð á fjárl. ríkisins hefði verið felld, þá varð hann mjög undrandi yfir því og sagði, að það liti svo út sem hæstv. forsrh. yrði að ganga í Sjálfstfl. til þess að geta beitt sér fyrir því, að það yrði skynsamlega staðið að fjárl. og hann gæti unnið að því að lækka fjárl. Hv. stjórnarsinnar, sem eru í þessari hv. d., létu sig hafa það hér áðan að fella allir sem einn maður till., sem hæstv. forsrh. hafði greitt atkv. með við umr. í hv. Nd. Ætli það verði ekki jafn þung spor og önnur, sem þessi hæstv. forsrh. hefur orðið að stiga til þess að bjarga þessari ríkisstj., — ætli hann verði nú ekki að stiga það spor hér á eftir að falla frá því, að fjárl. verði skorin niður? Ætli það verði ekki gert að skilyrði, að hann megi ekki einu sinni hafa þá skoðun, að það eigi að reyna að takmarka ríkisútgjöldin til þess að draga úr verðbólgunni?

Þessi hv. þm. sagði hér í dag, eins og búið er að rifja upp nokkrum sinnum, að það hefðu ýmsir furðulegir hlutir gerst í Nd. og frv. tók ýmsum kostulegum breytingum. Þessi hv. þm. kallar það kostulegar breytingar, þegar vilji kemur fram um það á Alþ. að skera niður ríkisútgjöldin. Og þessi hv. þm. kallar það kostulegar breytingar á frv., að bað skyldi vera meiri hl. fyrir því í Nd. að afnema 11/2% launaskattinn, sem á sínum tíma var samþykktur til þess að halda niðri verðlagi í landinu. Það eru forsendur 11/2% launaskattsins. En það er fyrir löngu liðin sú tíð, að þessi ríkisstj. reyni að halda niðri verðlagi í landinu, fyrir löngu liðin. Þessari ríkisstj. er því sæmst að skila aftur þessum 11/2% launaskatti eða reyna að taka sig á. En eins og ég sagði áðan, virðist ekki sem það hafi fengið byr eða hljómgrunn hjá hv. stjórnarsinnum. Þessi viðleitni hæstv. forsrh. að reyna nú loksins að hægja ferðina, virðist ekki hafa byr.

Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Árm. Héðinssyni, að það er nógur tími, það er langt til morguns, og ef ástæða þykir til af hv. stjórnarsinnum að lengja enn þessar umr., þá erum við alveg reiðubúnir til þess. Það er hægt að tala um ýmislegt fleira, það er hægt að rifja upp stöðu atvinnuveganna, það er hægt að rifja ýmislegt upp. En ég læt þetta nægja í bili, en tek undir það, sem hv. þm. Jón Árm. Héðinsson sagði, að ég er hræddur um, að það skaðist ýmsir aðrir en stjórnarandstæðingar, ef farið verður að veifa frekar en orðið er þeim skattal., sem núv. hæstv. ríkisstj. setti á árinu 1972 og áttu þá að færa launþegum í landinu miklar kjarabætur. Þá áttu þau að vera ógurlega góð fyrir alla launamenn í landinu. Nú eru þeir að reyna að hræða okkur með því að vitna til þessara sömu laga. Ég held, að þeir verði að eiga það, sem þeir hafa samþykkt. Alþfl. hefur boðið það og við greiddum atkv. með því í Nd. og einnig hér, að söluskatturinn yrði miðaður við 31/2%. Við teljum, varðandi þann milljarð, sem ríkisstj. ætlar að fá þar umfram það, sem hún þarf að fá, til þess að króna komi á móti krónu, það sé óþarfi að ráðskast meira með hann.