15.03.1974
Efri deild: 81. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (2603)

259. mál, skattkerfisbreyting

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs, þegar hæstv. forsrh. var að tala hér áðan. Síðan hefur flutt hér ræðu og var að enda við að tala, hæstv. fjmrh. Mér kom í hug undir ræðu hans, hvort þessi ágæti ráðh. hefði verið kennari. Kom mér í hug barnakennari á sínum fyrri árum. Mér kom það í hug, því að mér fannst hann vera að kenna gerð fjárl. eins og hæfði kannske frekast börnum í barnaskóla. Allt sem hæstv. ráðh. sagði í þessum efnum, held ég, að öllum hv. alþm. eigi að vera kunnugt. Ég er ekki að lasta þetta út af fyrir sig.

En ég verð að vekja athygli á því, að hæstv. ráðh. tókst að víkja sér undan því að svara spurningu, sem ég beindi gagngert til hans við 2. umr. þessa máls í dag. Ég óskaði eftir því að fá svör um það, hvort það hefðu verið gerðir samningar við lífeyrissjóði stéttarfélaga um fjármögnun þeirra til félagslegra bygginga að upphæð 20% af árlegu ráðstöfunarfé þeirra, eins og getið er um og tekið fram í yfirlýsingu um húsnæðismál, sem fylgir grg. þeirri, sem er með frv. því, sem hér er til umr. Hér er um mjög veigamikið atriði að ræða varðandi húsnæðismálin, og ég tel, að hv. d. eigi rétt á því að fá svar hæstv. ráðh. við þessu. (Fjmrh.: Ég tel, að það hafi verið gert. Það var sérstök n., sem annaðist það verk, gerði samninga þar um, og margir lífeyrissjóðir hafa þegar svarað.) Hæstv. ráðh. segir úr sæti sínu, að hann telji, að þessir samningar hafi verið gerðir, og er ekki nema gott um það að segja. Ég vona, að það séu góðir samningar fyrir veðlánakerfið. Það er tekið fram í þessari yfirlýsingu, sem ég vitnaði í áðan, að þátttaka lífeyrissjóða í fjármögnun Húsnæðismálastofnunar ríkisins sé miðuð við kaupverð verðtryggðra skuldabréfa með ríkisábyrgð og skulu verðtrygging og vextir jafngilda hagstæðustu ávöxtunarkjörum, sem í gildi verða á hverjum tíma á verðskuldabréfum; sem út eru gefin á vegum ríkisins. Hér er ekki um nein smáræðiskjör að ræða fyrir lífeyrissjóðina. En mér er spurn, og það væri fróðlegt að fá svar við þeirri spurningu: Hvernig á að samræma fjármagn, sem kostar svona mikið og er keypt svona dýru verði, hagstæðum lánum Byggingarsjóðs ríkisins með lægstu vöxtum, sem við þekkjum? Er það meiningin að fara þá leið að ætla Byggingarsjóði ríkisins að greiða vaxtamuninn, eða ætlar ríkissjóður að veita sérstaka fjárveitingu í veðlánakerfið til þess að standa undir þessum mun? Hér er um ákaflega þýðingarmikið atriði að ræða, vegna þess að ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að verja Byggingarsjóð ríkisins áföllum af þessum ástæðum, þá verður hann étinn upp og gerður meira og minna óvirkur á tiltölulega skömmum tíma. Er það meining hæstv. núv. ríkisstj. að nota í þessu efni Framsóknar-aðferðina, sem heitt var við landbúnaðarsjóðina á sínum tíma, þegar þeim var gert að kaupa fjármagn miklu dýrara verði en sjóðirnir höfðu heimild til þess að lána út á móti? Við vitum öll, hvaða afleiðingar þetta hafði fyrir veðlánakerfi landbúnaðarins. Á tiltölulega skömmum tíma var þetta kerfi lagt í rúst, og það kom í hlut viðreisnarstjórnarinnar að endurreisa það á ný. Ég vona, að aðgerðir hæstv. ríkisstj. í húsnæðismálunum nú verði ekki sama marki brenndar og var um aðgerðir framsóknarmanna gagnvart veðlánasjóðum landbúnaðarins, svo að ekki þurfi að koma til þess, að næsta ríkisstj. verði að reisa líka algerlega úr rústum í þessu efni. Ég skal ekki víkja frekar að ræðu hæstv. fjmrh.

Ég sagði hér áðan, að ég hefði kvatt mér hljóðs, þegar hæstv. forsrh. hélt sína ræðu. Það væri ósköp ánægjulegt, þegar hæstv. forsrh. er búinn að halda slíka ræðu sem hann hélt hér í kvöld, að þá væri hann hér viðstaddur, þegar að sjálfsögðu hljóta að fara fram umr. um ræðu hans. Ég vildi stinga því að hæstv. forseta, hvort ekki er hægt að athuga, hvort ráðh. er hér staddur í húsinu enn.

Hæstv. forsrh. hélt hér ákaflega einkennilega ræðu. Hv. 2. þm. Reykv. hefur vikið að og svarað ræðu forsrh. að ýmsu leyti, og það sparar mér því að segja ýmislegt, sem ég ella mundi hafa sagt. Eitt af því, sem hæstv. forsrh. sagði, var það, að till. okkar sjálfstæðismanna um niðurskurð ríkisútgjalda væri minnisvarði, sem mundi standa. Og hann hélt því fram, að slík till. væri algert einsdæmi í nokkru ríki, — ég ætla, að hann hafi meint í lýðræðisríkjum, — að slíkt hafi komið fram. Mér þykir hæstv. forsrh., þótt fróður maður sé, harla fróður um þessi efni. Ég leyfi mér að efast fullkomlega um, að þetta sé rétt. Hins vegar mætti segja, að sá minnisvarði, ef það er hægt að tala um minnisvarða í sambandi við þessa till., sem standi og eigi eftir að standa, sé sá viðburður, að forsrh. greiddi atkv. með stjórnarandstöðu, en gegn sínum fylgismönnum, og breytir þó engu, þó að hv. þm. Björn Pálsson hafi fylgt honum og verið sá eini.

Hæstv. forsrh. sagði, að hann hefði treyst sér vel til þess að framkvæða niðurskurðartill. okkar sjálfstæðismanna. Hann treysti sér vel. En hann tók það ekki fram, að 18 stuðningsmenn hans í Nd. treystu honum ekki, og 11 stuðningsmenn hæstv. forsrh. hér í þessari d. treysta honum ekki. Og þó að það sé mikið atriði, að hæstv. forsrh. hafi trú og traust á sjálfum sér, er það þá ekki nokkurt atriði, að stuðningsmenn hans hafi trú á honum sjálfum?

Hæstv. forsrh. sagði, að hann kynni að meta till. okkar sjálfstæðismanna um niðurskurð ríkisútgjalda sem stefnuyfirlýsingu og það væri ástæðan til þess, að hann hefði greitt henni atkv. Og hann lét þess getið, að hann hefði talið það hyggilegt upp á seinni tímann, og það mundi reyna á það innan skamms. Allt er nú þetta eins og hér séu ummæli frá véfréttinni í Delfi. Það er hægt að leggja allt í þessi ummæli hæstv. forsrh. En ég hygg, að hann ætti að geta dregið þá ályktun af því, sem gerst hefur, ef hann vill vinna í anda till. okkar sjálfstæðismanna, þá verði tryggasta leiðin til slíks fyrir forsrh. að leita inngöngu í Sjálfstfl. til þess að vera ekki á slíkum hrakhólum um framgang þeirra mála, sem hann telur, að rétt séu, eins og á daginn hefur komið.

Þá ræddi hæstv. forsrh. um till. þær, sem hér liggja fyrir um skattalagabreyt., í því sambandi, að þær till. voru gerðar til lausnar kjaradeilum, eins og við allir vitum. En það var eitt nýtt, sem hæstv. forsrh. sagði þessu viðvíkjandi. Hann sagði, að verkalýðssamtökin hafi vitað, hvernig staða ríkisstj. var á Alþ., og það lá í orðum hæstv. forsrh., að þau hefðu aldrei þurft að taka neitt mark á ríkisstj. í þessu efni. Hvers konar ríkisstj. er þetta, og hvers konar röksemdafærsla er þetta? Er hægt að bjóða hv. Alþ. upp á rök sem slík, að verkalýðssamtökin í landinu taki ekkert mark á viljayfirlýsingum og loforðum ríkisstj., hver sem hún er? Það er eins með mig og marga aðra, að við höfum ekki gert okkur háar hugmyndir um hæstv. ríkisstj. En það verður þó að segjast eins og er, að ekki höfum við talað af annarri eins lítilsvirðingu um hæstv. ríkisstj. og liggur í þessum orðum hæstv. forsrh. sjálfs.

Hæstv. forsrh. sagði annað í þessu sambandi, sem er líka vert að hafa í huga. Hann sagði, að ríkisstj. væri ekkert verr sett, ekkert verr í stakk búin, eins og hann orðaði það, þó að hún geti ekki efnt loforð sín gagnvart verkalýðshreyfingunni, vegna þess að þá haldi gildi áfram núgildandi skattalög. Þetta segir hæstv. forsrh. Það hefði verið sagt, að það væri níð af hálfu okkar stjórnarandstæðinga um hæstv. ríkisstj., ef við töluðum um ríkisstj. í þessum anda, ef við héldum því fram, að það væri ekkert mark takandi á loforðum hæstv. ríkisstj. og að ríkisstj. væri ekkert verr sett, þó að hún gæti ekki staðið við loforð sín. Hvað er hér að ske? Er það að ske, sem hlýtur að koma upp í huga manns, að allt þetta mál sé í raun og veru eitt sjónarspil, sett á svið af ábyrgðarlausri ríkisstj. til þess að sýnast, til þess að þykjast? Og ef við hugsum frekar um þetta mál og skoðum það niður í kjölinn, þá auðvitað sjáum við það, að ríkisstj. er það ekkert fagnaðarefni að bera fram þær skattalagatill., sem hér liggja fyrir. Hæstv. forsrh. sagði hér í kvöld, að hann væri ekki heldur ánægður með þessar till. og vildi hafa haft þær öðruvísi. Það var aðeins vegna þess, að ríkisstj. varð að lofa verkalýðssamtökunum þessu, sem till. voru bornar fram í þessari mynd.

Já, hæstv. forsrh. hefði viljað hafa þetta öðruvísi. Og ætli hæstv. forsrh. hafi ekki viljað hafa skattal. óbreytt? Og er það ekki þar, sem hundurinn liggur grafinn, að hæstv. ríkisstj. vill í raun og sannleika hafa skattalöggjöfina óbreytta? Og hvers vegna skyldi hún ekki vilja hafa hana óbreytta? Hún hefur haldið því fram á undanförnum árum, að þetta væri sú besta skattalöggjöf, sem við hefðum reynt í manna minnum. Þessi löggjöf væri það albesta, sem þjóðin hefði búið við. Hvers vegna skyldi ríkisstj. þá vilja breyta hér um? Hún gerði sér grein fyrir því og treysti sér ekki til þess að standa gegn kröfum verkalýðssamtakanna, uppreisn verkalýðsins í landinu gegn hinni óhóflegu skattpíningu og óréttlátu skattalöggjöf. Hún treysti sér ekki til þess að standa gegn þrýstingi almenningsálitsins. Hún varð að gera það, sem hún hefur gert. En hún meinti ekki, að hún ætlaði að gera það. Hún gerði það til þess að sýnsat. Og þarf það þá að koma yfir okkur hv. alþm., yfir almenning í landinu, yfir íslensku þjóðina að þurfa að búa við slíkt stjórnarfar, sem lýsir sér í þessari ráðsmennsku? Er ekki mælirinn einhvern tíma fullur? Og nú er ríkisstj. þess albúin að sjá fram á það, að þessu fóstri hennar, þessu frv. um skattalagabreytingar verði komið fyrir kattarnef. Hún segir, að svo verði að vera, vegna þess að ekki megi hnika neinu til, þá missi ríkissjóður af meiri tekjum við þessa skattalagabreyt., en hann fær á móti af öðrum tekjum.

Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram, að ríkisstj. hafi ekki verið fær um að hrekja það, að með þessu frv. séu skattbyrðar á þjóðina auknar stórlega. Ég vék ákveðinni spurningu að hæstv. fjmrh. í dag viðvíkjandi þessu atriði. Honum tókst hér áðan að víkja sér undan að koma að því atriði. En ég vil nú á elleftu stundu leyfa mér að víkja aftur að þessari sömu spurningu að hæstv. fjmrh.: Getur hæstv. fjmrh. ekki verið mér sammála um, að það sé harla óeðlilegt, að við séum hér á hv. Alþ. að deila um staðreyndir? Er ekki hugsanlegt, að það sé hægt að finna þá leið, að það sé hægt að komast að réttri reikningslegri niðurstöðu í tölulegu dæmi? Ég spyr hæstv. forsrh. enn, hvort honum hafi ekki komið til hugar, að í þessu efni gæti verið rétta leiðin að hlíta mati hlutlausra manna, sem stjórn og stjórnarandstaða kæmu sér saman um? — Ég spyr því hæstv. fjmrh., hvort hann geti ekki hugsað sér þessa leið út úr ágreiningi þeim, sem risinn er um þýðingu till. ríkisstj. fyrir hag ríkissjóðs. Og ég vil segja það, sem ég sagði í dag, og leggja á það aukna áherslu, að ef hæstv. fjmrh. vill ekki hlíta slíku mati, þá sýnist mér augljóst vera, að ráðh. hafi ekki sjálfur trú á þeim útreikningum, sem hann byggir á málflutning sinn í þessu máli. Og ég verð að segja það, að ef þögnin ríkir enn hjá hæstv. fjmrh. um þetta efni, þá er það enn ein stoðin undir þá skoðun, að allt það, sem hér hefur verið um að ræða í dag, sé ómerkilegur sýndarleikur, settur á svið af ábyrgðarlausri ríkisstj. sem ætti ekki að vera við völd stundinni lengur.