15.03.1974
Neðri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2948 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég hafði áskilið mér rétt í nál. til að flytja brtt. í sambandi við þetta mál, en það var ekki vegna þess, að ég væri með í huga neinar hugmyndir um breytingar. Ég hef ekki haft aðstæður til að afla mér þeirra upplýsinga í sambandi við málið, sem ég taldi nauðsynlegt, hafði ekki aðstöðu til að mæta á nefndarfundum, þegar málið var rætt þar, en ég átti síðar viðtal við þann aðila, sem mest hefur fjallað um þessi mál fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, Hans G. Andersen, um það, sem í mínum huga var, hvort það væri ekki óeðlilegt, að í 3. gr. l. frá 1969 um yfirráðarétt íslenska ríkisins yfir landgrunninu umhverfis Ísland væri miðað við hagnýtingarmörk, en í landgrunnslögunum varðandi afnot af hafinu yfir landgrunninu væri miðað við 200 mílur. Eftir viðræður mínar við þennan aðila, sem ég hér minntist á, sé ég ekki ástæðu til að vera með neinar breytingar við frv., tel mjög eðlilegt, að frv. verði samþ., eins og það var lagt fyrir. Telur Hans G. Andersen, að þessi tvö atriði þurfi ekki að stangast neitt á. Af þeirri ástæðu og af þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér hjá þessum aðila í sambandi við málið, mun ég greiða atkvæði með því.