18.03.1974
Efri deild: 82. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. þessarar hv. d. hefur haft til meðferðar frv. til l. um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu, og eins og fram kemur á þskj. 503, nál., er n. sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. með þeirri breytingu, sem þar greinir, og á hreyting þessi við 1, gr. frv., eins og ég mun nú skýra frá.

N. tók málið fyrir, strax eftir að því hafði verið vísað til hennar af d. Ákveðið var að senda það til umsagnar þriggja aðila: Laxárvirkjunar, Fjórðungssambands Norðlendinga og sýslumanns Þingeyjarsýslu. Umsagnir þessara aðila bárust um síðustu mánaðamót, og var málið endanlega afgr. á fundi 13. þ.m. Ég get þessa sérstaklega, þar sem hv. þm. Halldór Blöndal gerði hér aths. við drátt á afgreiðslu þessa máls. Ég get ekki samþykkt það, og sýnist mér satt að segja, að málið hafi haft þarna eins skjóta afgreiðslu og hægt var að gera ráð fyrir. Í þessum þremur umsögnum, sem borist hafa, er mælt með samþ. frv. Í einni þeirra, frá Fjórðungssambandi Norðlendinga, er gerð aths. við 1. gr., og er hún á þá leið, að Fjórðungssambandið telur, að aðgang að væntanlegri Norðurlandsvirkjun eigi að hafa fleiri sveitarfélög en um er getið í grg. með frv., þar sem Laxárvirkjun og Siglufjörður eða virkjun þeirra Siglfirðinga, Skeiðsfossvirkjun eru aðeins nefndar. N. taldi rétt að verða við þessu og hefur því skotið inn í 1. gr. frv. innskotssetningu, sem er þannig:

„Ríkisstj, er heimilt að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun, sem yrði sameignarfélag ríkis og sveitarfélaga á Norðurlandi, eða öðrum aðila“ o.s.frv. óbreytt.

N. taldi einnig rétt að líta á brtt. þá, sem tveir hv. þm. hafa lagt fram á þskj. 468. Sú brtt. er í því fólgin að gera ráð fyrir tengilínu einnig til Austurlands frá væntanlegri Kröfluvirkjun. N. varð sammála um að taka þessa brtt. upp í nál. og þá breytingu, sem n. leggur til, og bætir því við í lók gr.: „til tenginga við aðalorkuflutningskerfi Norðurlands og Austurlands.“

Ég vil geta þess, að í umsögn stjórnar Laxárvirkjunar kemur fram nokkur aths. við frv., þó að ekki sé lagst gegn því, og sýnist mér rétt, að ég lesi þá aths. Svo segir í bréfi, sem iðnn. var skrifað 10. jan. s.l.; ályktun í bréfinu er þannig:

„Í tilefni af fram komnu stjfrv. um lagaheimild til virkjunar gufu víð Kröflu til raforkuframleiðslu vill stjórn Laxárvirkjunar lýsa því yfir, að hún telur eðlilegt, að umrædd virkjun verði reist og rekin af Laxárvirkjun, þar eð Krafla er á orkusvæði Laxárvirkjunar.“ N. taldi sér ekki fært að fallast á þetta sjónarmið, hins vegar sjálfsagt og eðlilegt, að Laxárvirkjun geti orðið aðili að væntanlegri Norðurlandsvirkjun eða því fyrirtæki öðru, er falið yrði að reisa og reka jarðgufuvirkjun við Kröflu.

Ég vil að gefnu tilefni af orðum hv. þm. Halldórs Blöndals hér í d. nýlega geta þess, að ég sat s.l. fimmtudag fund með orkumálastjóra, og voru þar ýmsir aðrir þm. mættir. Þar spurðist ég fyrir um það, hvort nokkuð væri hæft í því, að undirbúningur að Kröfluvirkjun hefði tafist vegna meðferðar málsins hér á Alþ. Orkumálastjóri fullvissaði mig og aðra, sem þar voru, um, að það væri algerlega úr lausu lofti gripið, undirbúningurinn væri í þeim gangi, sem hann gæti frekast verið, og alls engin töf væri af þeim sökum fram komin. Satt að segja væri fróðlegt að vita, hvaðan hv. þm. hefur haft þessar upplýsingar.

Orkumálin öll hafa verið mjög til athugunar hjá okkur Íslendingum, upp á siðkastið, sem von er vegna þeirrar kröfu, sem nú er gerð til vaxandi notkunar raforku til upphitunar húsa. Mér þykir rétt að koma hér á framfæri mjög nýlegum upplýsingum, sem ég hef fengið um þessar athuganir. Áætlað er, að á væntanlegu orkusvæði Laxárvirkjunar og væntanlegrar Norðurlandsvirkjunar, þ.e.a.s. Suðurlandi og Norðurlandi, séu um 440 gwst., sem þarf að ráðstafa til upphitunar húsa. Fróðustu menn telja, að þetta verði ekki gert á skemmri tíma en 6–7 árum og á þeim tíma verði þó aðeins náð um það bil 80% mettun þessa markaðar. Þetta kom greinilega fram á fyrrnefndum fundi, þar sem orkumálastjóri var, fulltrúar Laxárvirkjunar og einnig fulltrúar Verkfræðiskrifstofu Sigurðar Thoroddsens, sem fjallar sérstaklega um þessi mál fyrir iðnrn. Sú orkuspá, sem að er unnið og gerir ráð fyrir að ná til þessarar upphitunar með þeim hraða, sem ég hef nefnt, gerir einnig ráð fyrir fullri orku til Áburðarverksmiðju ríkisins, gerir jafnframt ráð fyrir 140 MW til ÍSALS, eins og nú er samið um, og gerir einnig ráð fyrir 282 gwst, til ferrosiliconbræðslu í Hvalfirði, ef úr verður. Kemur fram, þegar orkuvinnslugeta þessara tveggja svæða, Norðurlands og Suðurlands, er skoðuð og gert er ráð fyrir því, að lína geti verið komin 1976, að það ár skortir 14 gwst. til þess að fullnægja þessari spá. En á árinu 1977, þegar Sigalda er komin í gagnið, yrði umframorkuvinnslugeta 199 gwst., lækkaði síðan 1978 í 82 gwst., en hækkaði síðan í 134 gwst. Til þess yrði a.m.k. ein vél Kröfluvirkjunar að verða komin í gang. Árið 1980, þegar Kröfluvirkjun væri örugglega öll komin í framleiðslu yrði umframorkuvinnslugetan skv. þessari orkuspá 180 gwst., lækkaði síðan 1981 í 45, 1982 væri hún aftur orðin negatív, þ.e.a.s. þá skorti 68 gwst. Af þessu má læra það, að nauðsynlegt er að ákveða fljótlega næstu virkjun og gera þá ráð fyrir því, að hún verði fullbúin eða a.m.k. hluti af henni kominn í starfrækslu í kringum 1981–1982.

Ég vil geta þess einnig til fróðleiks hér, þar sem þetta mál er mjög á dagskrá, að sérfræðingarnir voru allir sammála um, að það væri meira fyrirtæki að tengja þessa upphitun húsa raforkukerfinu en margir hafa viljað vona. Er talið, að það kosti um 70–90 þús. kr. fyrir hvert íbúðarhús að breyta yfir í raforkuhitun, og er áætlað, að kostnaðurinn við að styrkja dreifikerfin í bæjum og sveitum yrði ekki undir 2000 millj. Reyndar hefur hærri tala verið nefnd, allt upp í 4000 millj. við þennan kostnað. Þetta er því gífurlega mikið fyrirtæki, og satt að seg,ja kemur í ljós, að miðað við þennan mikla kostnað þarf að skoða vandlega, hvort rafhitun er í öllum tilfellum ódýrari en olíuhitun, e.t.v. með einhverri niðurgreiðslu.

Mér þótti rétt að koma þessum upplýsingum á framfæri, m.a. til þess, að hv. þm. sjái, að þessi mál eru nú í ítarlegri skoðun og að þeim unnið af ýmsum sérfræðingum. Skýrslur þeirra munu fljótlega koma fram. En það, sem mér þótti einna fróðlegast við þann fund, sem ég nefndi áðan, er það, að sérfræðingar þessir eru allir mjög sammála um þær bráðabirgðaniðurstöður, sem ég hef nú nefnt. Þetta sýnir okkur einnig, að það þarf að hraða virkjunum m.a. Kröfluvirkjun að sjálfsögðu. Telja sérfræðingarnir aðspurðir, að ekkert eigi að vera því til fyrirstöðu, að hún geti hafið starfrækslu 1979 í síðasta lagi, jafnvel fyrr. Á það er bent, að erfiðleikar, sem kynnu að koma í ljós á Kröflusvæðinu, gætu orðið til þess, að talið yrði hyggilegra að reisa slíka virkjun við Námaskarð, en sérfræðingarnir fullyrða, að á því séu ákaflega litlar líkur, ef meta má af þeim mælingum og upplýsingum, sem þeir hafa þegar safnað.

Ég endurtek, að n. mælir eindregið með því, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem fram kemur á þskj. 503.