18.03.1974
Neðri deild: 86. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2956 í B-deild Alþingistíðinda. (2628)

115. mál, heimilishjálp í viðlögum

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Sem flm. þessa frv. vil ég þakka hv. n. fyrir afgreiðslu hennar á málinu. Það er hárrétt sem frsm. sagði, að það gat orkað tvímælis, hvort lagabreyt. væri þörf, en frv. var einmitt borið fram vegna þess, að rn. og sveitarstjórnir höfðu ekki talið sig hafa nægilega lagaheimild til þess að framkvæma slíka heimilisaðstoð samkv. núgildandi lögum.

Það er mætavel kunnugt, að það er oft mjög erfitt fyrir konur að stunda vinnu sína vegna heimilisástæðna, og því hefur í æ ríkara mæli þurft að leysa vandamál, sem af þessu spretta, á félagslegan hátt. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á, að frv. nær ekki eingöngu til heimilisaðstoðar vegna einstæðra mæðra. Þar er ekkert tekið fram um hjúskaparstétt, og samkv. frv. eiga giftar sem ógiftar konur að geta notið hennar.

Ég hef ekki fleira um þetta að segja, en vil í lokin ítreka þakkir mínar til n. og þakka skilning hennar á þessu máli.