19.03.1974
Sameinað þing: 68. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

236. mál, framkvæmd iðnþróunaráætlunar

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir þetta mál, sem hér hefur verið hreyft varðandi iðnþróunaráætlunina og þau mál. Og mér finnst satt að segja, að það væri full ástæða til þess að taka til umræðu mál iðnaðarins meira en gert er hér á hv. Alþ. Einn þátturinn í þessum iðnþróunarmálum er lagmetisiðnaðurinn. Það var lögð á það áhersla í stjórnarsáttmálanum, að það skyldi að því stutt, að sá iðnaður skyldi fá ríflegan stuðning til uppbyggingar og það skyldi marka tímamót í sögu þess iðnaðar. Nú er það svo, að segja má, að þessi atvinnugrein hefur ekki haft neina ákveðna bankastofnun til að leita til í sambandi við uppbyggingu. Það má þó nefna Iðnþróunarsjóðinn, hinum norræna Iðnþróunarsjóð, sem var komið á, um leið og aðild okkar að EFTA átti sér stað, svo sem kunnugt er. Þá var — þar um myndarlegan sjóð að ræða. En skipulagsreglur þess sjóðs eru á þann hátt, að það liggur ekki á borðinu fyrir hvern sem er, sem vill fara út í slíkan atvinnurekstur eða byggja upp iðnað í einu eða öðru formi, að eiga aðgang að þessum sjóði, nema fylgt sé vissum skilyrðum, sem í mörgum tilfellum eru nokkuð fjárfrek, og gert er ráð fyrir, að aðilar geti lagt fram verulega mikið fjármagn í þá framkvæmd, sem um er að ræða í iðnaðinum.

Vitanlega er það rétt út af fyrir sig, að það er æskilegt, að ekki sé farið út í neinn atvinnurekstur, nema sé um nokkuð verulegt framlag að ræða frá þeim, sem ræðst í framkvæmdina. En því miður er það svo með flestar okkar atvinnugreinar, ekki síst t.d. í sjávarútveginum, þar sem okkur er kunnugt um það, að þar eru keypt skip fyrir hundruð millj., án þess að til komi nema tiltölulega lítill hluti frá þeim, sem eru að kaupa atvinnutækið.

Það mun hafa verið núna rétt nýlega, að ríkisstj, tók ákvörðun um það, að lagmetisiðnaðurinn skyldi sækja sínar fyrirgreiðslur til Iðnlánasjóðs. Fyrr hafði ekki verið ákveðið, að nein ákveðin lánastofnun veitti fyrirgreiðslu í sambandi við þann atvinnuveg. En það er út af fyrir sig ekki nægjanlegt, þó að sé vísað á þessa lánastofnun, nema sé þá fyrir hendi fjármagn í henni til þess að koma til móts við þá, sem á fjármagninu þurfa að halda. En það vantar mikið á, að Iðnlánasjóður, þó að hann hafi verið lítið eitt efldur á síðari tímum, hafi nægilegt fjármagn til að sjá fyrir því, sem fyrir er og honum er ætlað að fjármagna, hvað þá að taka á sig nýja og stóra atvinnugrein, sem er mjög fjárfrek. Það er ekki nóg að láta gera áætlanir, sem líta vel út á pappírnum. Það er góðra gjalda vert út af fyrir sig að leggja málið niður fyrir sér, gera áætlanir um eitt og annað. En það þarf meira til að koma, eins og hér hefur verið bent á, og ég tek undir það með flm. þessarar till., að það væri æskilegt, að ríkisstj, léti sem fyrst heyra frekar frá sér um, hvað hún hygðist fyrir um framgang þeirrar iðnþróunaráætlunar, sem unnið hefur verið að.