19.03.1974
Sameinað þing: 68. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2966 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

254. mál, íþróttahús Menntaskólans við Hamrahlíð

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Við höfum nokkrir þm. úr öllum flokkum leyft okkur að flytja till. til þál. um, að hafinn skuli undirbúningur að byggingu íþróttahúss fyrir Menntaskólann við Hamrahlíð. Tildrögin til flutnings þessarar þáltill. eru þau, að fyrir nokkrum vikum kom foreldraráð Menntaskólans við Hamrahlíð saman til fundar, og þar lét rektor menntaskólans það álit sitt í ljós, að stærsta óleysta vandamál, sem þessi stóri skóli á við að etja núna, væri fólgið í því, að þar skortir algjörlega aðstöðu til leikfimiiðkana nemenda.

Fyrir tveimur árum stóð svo á, og gerir raunar enn, að tvo skóla, sem liggja svo að segja hlið við hlið við sömu götu hér í borginni, vantaði íþróttahús. Ég leyfði mér þá að gera það að till. minni, að þarfir beggja þessara skóla væru leystar samtímis með því að reisa eitt íþróttahús fyrir þá báða. Mér virðist í minni einfeldni á sviði byggingamála, að það hlyti að vera ódýrara og betri hagnýting á almannafé, að láta báða þessa skóla nota sama leikfimihúsið, það hlyti að vera hægt að spara einhverja hluti á því að nýta stærra hús betur, en hafa tvö leikfimihús, sem e.t.v. væru ekki eins mikið nýtt. En við athugun þess máls kom í ljós, og það var sameiginlegt álit bæði þeirra, sem málum þessum stjórna af hálfu menntmrn, og af hálfu fræðsluráðs Reykjavikurborgar, að íþróttahús fyrir báða þessa skóla yrðu fullnýtt og það mundi ekki sparast neitt að ráði við það að reisa sameiginlegt hús fyrir báða skólana, vegna þess að hvor um sig væri svo stór, að ekkert veitti af leikfimisal af fullri stærð eða sölum fyrir hvorn skóla um sig. Þess vegna var það, að ekki var horfið að því ráði.

En þá þótti mönnum liggja beint við, að hafinn yrði undirbúningur að byggingu beggja þessara íþróttahúsa. Svo var gert á vegum Reykjavíkurborgar, og nú eru fullbúnar, að heita má, teikningar að íþróttahúsi fyrir barnaskólann, Hlíðaskólann, og verður væntanlega útboð gert nú alveg á næstunni. Hins vegar er það svo, að því er varðar Menntaskólann við Hamrahlið, að þar hefur ekki, svo að vitað sé, verið neitt gert af hálfu rn. til þess að undirbúa þessa byggingu. Teikningar munu ekki liggja fyrir, og till. okkar miðar að því á þessu stigi, að það verði nú hafist handa um að gera teikningar að húsi, þannig að unnt verði að leggja í framkvæmdir á næsta ári.

Mér er ekki ljóst, hvernig á því stendur, að ekki hefur verið hafist handa um þetta mál. Mér þykir líklegt, að þar sé því um að kenna, að ýmsar þarfir séu óleystar hjá menntaskólum víða um land og að einhvern veginn hafi það vafist fyrir hæstv. ráðh., hvar ætti helst að drepa niður hendi til þess að byrja að leysa úr þeim vanda, sem víða er fyrir hendi. En að því leyti gegnir öðru máli um Menntaskólann við Hamrahlíð en ýmsa aðra menntaskóla, að þar stunda mjög margir nemendur nám, í allt eru það um 1200 nemendur. Um 830 eru reglulegir nemendur, og við þann skóla starfar, eins og kunnugt er, líka fjölmenn deild að kvöldinu til, svonefnd öldungadeild, þar sem fólk á öllum aldri stundar nám. Auk þess er þetta eini menntaskólinn í borginni, sem hefur alls enga aðstöðu fyrir sína nemendur til leikfimiiðkunar. Auðvitað er augljóst, að það er fullkomið áhyggjuefni, að við svo búið skuli standa, að mörg hundruð nemendur á þroska- og vaxtaraldri skuli vera látnir stunda skólanám jafnlangan tíma dagsins og gert er í menntaskólum, án þess að hafa nokkur skilyrði til þess að njóta þeirrar heilsuverndar og hressingar, sem fólgin er í hóflegri íþróttaiðkun.

Rektor Menntaskólans við Hamrahlíð hefur skýrt frá því, að hann hafi gert miklar tilraunir til þess að fá inni fyrir nemendur skólans í öðrum íþróttahúsum borgarinnar. Þær tilraunir hafa ekki borið árangur, vegna þess að þau eru fullnýtt, þannig að eina lausnin virðist vera að byggja sérstakt leikfimihús fyrir þennan skóla.

Þannig er mál með vexti, að auk hinna almennu raka, sem liggja til þess, að ungum skólanemendum sé nauðsyn á því að geta styrkt heilsu sína með leikfimiiðkunum, þá stendur svo á þessum skóla, að þar er námið stundað eftir sérstöku, allnýstárlegu kerfi, svonefndu áfangakerfi, sem verður þannig í framkvæmd, að námstími nemenda dreifist oft yfir allan daginn frá því kl. 8 að morgninum til kl. 6 á daginn, stundum með klukkutíma hléi eða tveggja tíma hléi á milli kennslustunda. Það vill oft verða svo, að þessi tími milli kennslustunda nýtist ekki sem skyldi. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum, að það er enn meiri nauðsyn að hafa íþróttahús skólans í næsta nágrenni hans, eins og raunar er gert ráð fyrir á upphaflegri áætlun í sambandi við byggingu hans.

Nú eru hér um bil 8 ár síðan skóli þessi var tekinn í notkun, og ég veit, að það er einlæg ósk stjórnar þessa skóla og nemenda hans, að íþróttahús verði reist við skólann sem fyrst. Því til staðfestingar vil ég leyfa mér að lesa tvö bréf, sem ég hef hér í höndum. Annað er frá rektor Menntaskólans við Hamrahlíð oft hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það vekur óblandna ánægju mína að sjá þessa till. studda af þm. úr öllum flokkum. Menntaskólinn við Hamrahlíð er kominn hátt á 8. starfsár sitt og senn liðinn áratugur frá því, er bygging skólahússins var hafin. Allan þennan tíma hefur það verið eitt af alvarlegri áhyggjuefnum mínum, að skólinn skuli ekki geta boðið nemendum sínum aðstöðu til líkamsræktar af neinu tagi. Á þeim aldri, sem fólkið sækir menntaskóla, er það á viðkvæmu þroskaskeiði, líkamlega sem andlega, og það er ábyrgðarhluti að halda því við kyrrsetur langan vinnudag án þess að veita því færi á og hvetja það til að stæla líkama sinn og styrkja. Mér finnst ég stundum sjá það á nemendum skólans, líkamlegri reisn þeirra, að þeir hafa ekki fengið þau tækifæri til heilsuverndar og líkamsræktar, sem þeir hefðu þurft á að halda. Það hefur komið fyrir fyrr, að skólar hafa þurft að þrauka alllengi án íþróttahúss, en ég hygg þess engin dæmi, að jafnstór skóli hafi þurft að biða jafnlengi án þess að eiga nokkurs staðar innhlaup í íþróttahús, því að nú er svo komið, að öll íþróttahús borgarinnar eru fullsetin. Skólinn hefur því enn ekki getað ráðið sér fastan íþróttakennara. Þessi till. á sér því mikil rök. Ég fagna henni og vona, að hún marki þau tímamót í byggingarmálum skólans, að nú verði hafist handa um undirbúning að byggingu íþróttahúss og málum hrundið það rösklega áleiðis, að framkvæmdir geti hafist fyrir áratugsafmæli skólabyggingarinnar.

Guðmundur Arnlaugsson.“

Og síðan er annað bréf frá Nemendafélagi Menntaskólans við Hamrahlíð, dags. 7. mars s.l.:

„Nemendastjórn MH lýsir ánægju sinni með framkomna till. á Alþ. um byggingu íþróttahúss fyrir skólann. Íþróttir og öll hreyfing er það, sem um 800 reglulegir nemendur fara á mis við, og er það vafalaust ekki til eflingar afkasta á öðrum sviðum, því að öllum mun kunnugt um, hve líkamleg hreysti og gervileiki hefur áhrif á almenna líðan þjóðfélagsþegnanna. Því vonum við, að hið ævaforna spartverska orðatiltæki: „heilbrigð sál í hraustum líkama“ — sé enn í fullu gildi.“ Og þeir hafa nú skrifað hér „enn í fullu (verð)gildi“ innan sviga, stjórnendur Nemendafélagsins. Bréf þetta undirritar Bolli Héðinsson, forseti nemendaráðs.

Herra forseti. Ég tel, að rökin fyrir þessari till. séu svo augljós, að ekki þurfi að tíunda þau frekar. Ég hygg raunar, að það eina, sem á vantar, sé, að það komi allþungur þrýstingur frá Alþ. til menntmrn., til þess að látið verði til skarar skríða um að hefja nú teikningar að þessu húsi, þannig að nemendur þessa skóla, þessi mikli fjöldi, þurfi ekki öllu lengur að fara á mis við þessa heilsuvernd, sem nemendur flestra annarra skóla þessarar borgar njóta. Mér finnst satt að segja, að einmitt þessa dagana, þegar allir virðast vera að fyllast af vorhug og umhverfi okkar birtist svo bjart og fagurt svona snemma vors, hljótum við líka að vilja stuðla að því, að hið unga fólk, sem stundar nám í skóla hér í horginni, verði svo heilsuhraust, að orka þess nýtist til fulls til hinna erfiðu starfa, sem það verður að teljast að stunda menntaskólanám og síðar háskólanám, svo að í lagi sé.