20.03.1974
Efri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2970 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

176. mál, jarðgufuvirkjun við Kröflu eða Námafjall

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður, enda er ekki rétt að vera að tefja tímann hér í þessari hv. d. með því að svara þeim furðulegu fullyrðingum, sem fram komu hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, sem er nú ekki viðstaddur. Hann svaraði ekki fsp. minni þess efnis, hvar hann hefði fengið þær upplýsingar, að meðferð Alþingis á þessu máli tefði eðlilegan undirbúning, enda er það ekki von, því að það er uppspuni einn. Í staðinn kennir hann mér það nú, að ég hafi tafið Kröfluvirkjun um eitt heilt ár. Ég verð að segja, að meiri er minn máttur en ég gerði mér grein fyrir.

Ég mun láta nægja að leiðrétta það, sem kannske má telja, að byggist á einhverjum misskilningi hjá þessum hv. þm., þó að ætla megi, að þar sé jafnvel um staðlausar fullyrðingar einnig að ræða.

Ég las upp úr orkuspá, sem verið er að vinna að, ítarlegri orkuspá, sem fljótlega verður birt, taldi það vera upplýsingar, sem hv. þm., m.a. þessi hv. þm., hefðu fróðleik af að heyra. Þar gat ég um samanlagða orkuvinnslugetu Norðurlandsvirkjana og virkjana á núv. svæði Landsvirkjunar, og ég gat þess, að árið 1978 væri umframorkugeta þeirra virkjana, sem nú eru komnar í gang, þar með talin Sigölduvirkjun, á þessu svæði samtals 82 gwst., en 1979 yrði hún 134 að meðtalinni Kröflu, sem þá yrði þar með að vera komin í gagnið. Án Kröflu yrði orkuskortur. Vitanlega segir þetta ekki nokkurn skapaðan hlut um það, að Krafla geti ekki verið komin fyrr í orkuframleiðslu. Ég sagði ekkert um það. Ég efast persónulega um, að það geti orðið 1976, og met það fyrst og fremst af þeim langa afgreiðslufresti, sem er á vélum. Ég held, að 1977 sé það fyrsta, og það væri ágætt, ef hún yrði tilbúin 1977.

Ég get fullyrt, þó að aðrir geti betur um það upplýst, að af hálfu stjórnvalda er ekki nokkur minnsta tilraun gerð til þess að tefja þetta mál, enda trúi ég því satt að segja ekki, að hv. þm. hafi mælt það af alvöru frekar en flest annað, sem hann lét sér um munn fara hér í þessari d. um þetta mál. Það er unnið að þessu af öllum þeim krafti, sem hægt er. Það verður borað í sumar. Ákveðið er, hvaða bor það verður, og það er unnið að kaupum á nýjum jarðbor til landsins. Það er vitanlega orðin langtum meiri spenna í þessu heldur en áður var, það vita allir, vegna þeirrar skyndilegu olíuhækkunar, sem orðin er um heim allan. En það hafa einnig verið veittar meiri fjárveitingar til slíkra framkvæmda en áður hefur þekkst í okkar landi, og ég veit, að þeir sérfræðingar, orkumálastjóri og hans menn og aðrir, vinna að þessu máli með forgangshraði, ef ég má orða það svo, með þeirri þekkingu og þeim krafti, sem þeir geta. Þetta hefur verið upplýst í viðræðum við orkumálastjóra, svo að allar fullyrðingar um allt annað eru úr lausu lofti gripnar, eins og það, sem hann hefur látið sér fleira um munn fara, m.a. fsp. í síðustu viku utan dagskrár.

Hann spyr um það, hvort bændur í Þingeyjarsýslu ættu að fá orku o.s.frv. Orkuspá eins og sú, sem ég hef hér rætt um, fjallar að sjálfsögðu ekki um einstaka bændur, en ég get sagt honum það, að í þessari orkuspá er gert ráð fyrir nákvæmlega sömu aukningu, sama hraða á húshitun með rafmagni á Norðurlandi eins og Suðurlandi, nákvæmlega sama. Gert er ráð fyrir 6.35% árlegri aukningu almennrar notkunar, bæði á Norðurlandi og Suðurlandi, og gert er ráð fyrir því í báðum landshlutum, að húshitunarmarkaðurinn mettist að 80% árið 1981. Ég sel þetta að sjálfsögðu ekki dýrara en ég keypti það. Þetta eru auðvitað allt vondir menn, sem þetta gera, og vilja hv. þm. og hans kjósendum hið versta. þannig má helst skilja orð hans. En svona hafa þeir lagt þetta fyrir okkur, og ég sé ekki sjálfur ástæðu til að vefengja það. Ég held, að þetta sé unnið vel og af fullkominni vandvirkni.

Sem sagt, ég vildi fyrst og fremst leiðrétta, að í þessu felist nokkur tilraun til þess að fresta Kröfluvirkjun, alls ekki, og ég vil sömuleiðis enn ítreka það, sem fram kom í umr. við orkumálastjóra, að meðferð þingsins á þessu hefur ekki á nokkurn máta tafið þetta mál. $g vil benda hv. þm. á að tala við flokksbróður sinn, hv. þm. Ingólf Jónsson, um þetta, sem sagði á fundi nýlega, að raunar mætti helst gagnrýna þetta frv. fyrir það að sækjast eftir heimild til virkjunar, áður en nauðsynlegum rannsóknum væri lokið, því að venjulega ættu rannsóknir að vera á undan og heimildin síðan að koma á eftir. Það var hins vegar vilji stjórnvalda að gera þetta á þennan máta, til þess að þarna þyrfti engin töf á að verða og panta mætti vélar þegar á næsta hausti, jafnvel áður en þing kemur saman að nýju.