20.03.1974
Efri deild: 84. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2984 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

113. mál, skipulag ferðamála

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að ræða hér um það frv. til l. um skipulag ferðamála, sem hér er til umr., almennt, heldur gera hér lítillega grein fyrir till., sem ég flyt á þskj. 420, um, að á eftir 28. gr. komi ný gr. Í till. minni er ráð fyrir því gert, að þegar og kannske öllu heldur á meðan fram fer hönnun húsnæðis heimavistarskóla, sem ríkissjóður kostar að meira að minna leyti, skuli samráð haft við Ferðamálastofnunina um gerð hússins og innréttingu. Komist Ferðamálastofnunin að þeirri niðurstöðu, að væntanleg heimavistarbygging geti hugsanlega vel hentað til starfrækslu sumarhótels, þá hefði hún rétt til að fara fram á, að teikningum sé hnikað til, svo að húsnæðið fullnægi þeim kröfum, sem gera verður til rekstrar gistihúss ná á tímum, enda liggi þá fyrir, að annað hvort stofnunin sjálf eða viðkomandi byggingaraðili sé viðbúinn að bera ábyrgð á þeim viðbótarkostnaði, sem af breytingunum leiðir. Jafnframt er Ferðamálastofnuninni eða viðkomandi byggingaraðila heimilað að fá lán úr ríkissjóði fyrir milligöngu ferðamálasjóðs, allt að 10 millj. kr. árlega, í þessu skyni.

Till. þessi þarfnast ekki mikils rökstuðnings, en tilefni hennar er vandamál, sem hefur verið að koma upp aftur og aftur á hverju ári og er stöðugt á ferðinni. Skólar eru hannaðir með hliðsjón af þörfum heimavistarnemenda, og ríkið borgar ekki grænan eyri í byggingarkostnað heimavistarinnar umfram það, sem telst nauðsynlegt til rekstrar hennar sem skólahúsnæðis. Aftur á móti eru mörg sveitarfélög það fátæk, að þau hafa ekki efni því að leggja í viðbótarkostnað, sem af því leiðir að gera heimavistarhúsnæðið þannig úr garði, að það sé verulega vel nothæft fyrir hótelrekstur, og er þá sérstaklega um að ræða frágang á snyrtiherbergjum og önnur skyld vandamál. Nú á tímum eru gerðar kröfur um það á fyrsta flokks gistihúsum, að snyrting sé í tengslum við hvert hótelherbergi. Aftur á móti eru aðrar kröfur gerðar varðandi byggingu heimavistarhúsnæðis og aðstöðu nemenda, þannig að þessi tvö sjónarmið rekast á, og málið hefur venjulega strandað fram að þessu vegna þess, að enginn aðili hefur verið reiðubúinn til að taka á sig viðbótarkostnaðinn. Í þeim efnum hefur hver vísað á annan, og jafnvel ef sveitarfélag hefur viljað hafa eitthvert frumkvæði í þessum efnum, þá hefur það hvergi getað fengið neina aðstoð til þess, hvorki frá opinberum fjárfestingarsjóðum, sem ekki hafa talið sig eiga neinum skyldum að gegna í þessum efnum, né frá ríkisvaldinu, þannig að ekkert hefur gerst í málinu.

Till. er sem sagt flutt til þess að höggva á þennan hnút, sem mörgum hefur verið ljóst, að væri fyrir hendi og þyrfti að leysa. Ég tel líka einsýnt af undirtektum undir tillöguflutning þennan, að málið eigi miklu fylgi að fagna, bæði hefur það komið fram í ummælum þeirra, sem rætt hafa málið við 2. umr. málsins hér á undan mér, og einnig kemur það skýrt fram í umsögn ferðamálaráðs, sem hér var áðan gerð að umtalsefni og mun hafa borist á borð hv. þm., þar sem mjög eindregið er skorað á Nd. að samþykkja fram komna brtt.

Mér þykir hins vegar harla illt að heyra, ef þetta mál á nú enn að hrekjast fram og aftur, vegna þess að menn geti af formsástæðum ekki fallist á það, hvar í íslenskum lögum till, af þessu tagi eigi heima. Ég hélt satt að segja, að það væri í þessum efnum komið nóg af formsatriðunum, því að allt hefur þetta strandað á formsatriðum, að ekki ætti nú enn að bætast við, að verið væri að hrekja málið fram og aftur af slíkum ástæðum. En það var ekki unnt að skilja orð hv. þm. Jóns Árnasonar öðruvísi en svo, að hann væri beinlínis mótfallinn till. af þessari ástæðu. Málið er einfaldlega þannig, að hér er um að ræða málefni, sem snertir tvo aðila, annars vegar menntmrn. og þá aðila á vegum þess, sem hanna heimavistarhúsnæði, hins vegar Ferðamálastofnun Íslands, sem heyrir undir samgrn. Það er að vísu bersýnilegt, að um er að ræða mál, sem heyrir undir tvo aðila. En það, hvorum megin hryggjar brtt. lendir, hvort hún lendir í skólakostnaðarlögum eða hvort hún lendir í ferðamálafrv., breytir að sjálfsögðu engu um efni málsins eða meðferð þess í framtíðinni. Ég er sannfærður um það, að ef ég hefði leyft mér að flytja till. af þessu efni við frv. um skólakostnaðarlög, sem væru hér á ferðinni, eða ég hefði flutt sjálfstætt frv. um breyt. á l. um skólakostnað, þá hefði áreiðanlega sprottið upp einhver þm., sem hefði viljað gera svipaða aths., þ.e.a.s. þetta væri þó greinilega mál, sem snerti Ferðamálastofnunina miklu meira en skólana, því að hér væri ætlast til þess, að það væri Ferðamálastofnunin, sem hefði ákveðið frumkvæðið, og henni væri falið að taka lán allt að 10 millj. kr. í gegnum ferðamálasjóð, og það væri fullkomlega óeðlilegt að ætla sér að fara að troða till. af þessu tagi inn í lög um skólakostnað, það væri alveg fráleitt, ég ætti frekar að flytja frv. um breyt. á l. um ferðamálasjóð. — Ég er sem sagt sannfærður um það, að rök af þessu tagi hefðu alveg eins heyrst, þó að málinu hefði verið stillt upp á hinn veginn, vegna þess einfaldlega að málið snertir tvo aðila og svona rök geta því alltaf komið upp. Og í öðru lagi mundu þau ekki síður koma upp í hinu tilvikinu, vegna þess að ef menn skoða till., þá sjá þeir auðvitað, að málið snertir í raun miklu meira Ferðamálastofnunina. Henni er falið að eiga ákveðið frumkvæði og taka á sig ákveðna ábyrgð, og ég býst við, að það sé harla algengt í l., að í einum lagabálki sé vikið að málefni, sem snertir kannske annan lagabálk eða annað rn.

Ég vil sem sagt undirstrika það hér, að rök af þessu tagi geta ekki breytt neinu og verða að teljast algert aukaatriði. Og ég vil sem sagt fastlega vænta þess, að aths. af þessu tagi verði ekki til að rugla dómgreind manna varðandi stuðning við þessa till., sem ég hygg, að flestir geti verið sammála um, að eigi fyllsta rétt á sér.