20.03.1974
Neðri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

259. mál, skattkerfisbreyting

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Þegar frv. um skattkerfisbreyt. hafði gengið í gegnum báðar hv. deildir þingsins, var ljóst, að ekki voru möguleikar á því að koma frv. í gegnum Alþ. óbreyttu. Það hafði þá þegar sýnt sig, að ekki var þingmeirihl. fyrir því, að 5 söluskattsstig fengjust samþykkt hér á hv. Alþ. til þess að mæta því tekjutapi, sem ríkissjóður yrði fyrir vegna skattahreytingarinnar. Ég hef því leyft mér á þskj. 532 í samráði við stjórnarflokkana að bera fram brtt. við þetta frv.

Ég vil taka það skýrt fram, að þeir útreikningar, sem sýndir eru með þessu frv., eins og það var lagt fram hér á hv. Alþ., eru af hálfu beggja aðila, bæði hagrannsóknadeildar og starfsmanna fjmrn. og viðsemjenda okkar starfsmanna Alþýðusambandsins og fulltrúa þeirra, sem að þessu hafa unnið, gerðir af hinni mestu samviskusemi. Ég er sannfærður um það, að báðir þessir aðilar voru þess fullvissir, enda þótt t.d. Alþýðusambandsmennirnir hefðu kosið að hafa söluskattinn lægri, þá var samkomulagið byggt á þeirri vinnu, sem báðir aðilar höfðu unnið, og þeim gögnum, sem fyrir lágu og sannfærðu þá um nauðsyn á því, að þetta þyrfti til að mæta því tekjutapi, sem ríkissjóður yrði fyrir.

Hins vegar var það alltaf tilgangur okkar og ríkisstj. í heild að reyna að koma þessu máli í höfn, vegna þess að það var vilji fyrir því, bæði hjá þeim, sem við var samíð, og það hefur einnig sýnt sig hér á hv. Alþ., að það er vilji fyrir þessari skattkerfisbreytingu. Þess vegna er það nú ljóst, að það þýðir ekki að vera að deila um keisarans skegg, þegar hætt er að deila um keisarann sjálfan, þ.e. kerfisbreyt., sem allir flokkar eru sammála um og ríkisstj. og þeir, sem sömdu fyrir Alþýðusambandið, voru sammála um einnig. Ég er líka sannfærður um það, að ef ríkisstj. gerði ekki sitt ítrasta til þess að koma þessu máli í gegn hér á hv. Alþ., mundi það reynast þeim, sem síðar ættu eftir að semja við alþýðusamtökin í landinu, Þrándur í götu, því að það mun fara svo, hverjir sem stjórna hér á landi, að þeir verða að eiga gott samstarf við vinnustéttirnar og njóta trausts þeirra. Þess vegna er það mat ríkisstj. og mitt, sem hef staðið í þessum samningum, að þrátt fyrir það, þó að ég hafi ekki skipt um skoðun á því, að 4 söluskattsstig muni ekki nægja til þess að bæta ríkissjóði tekjutapið af tekjuskattsmissinum, sé samt betra að freista þess að koma málinu í gegnum hv. Alþ., svo að þessu trausti sé ekki tapað. Mér er það fullkomlega ljóst, að hér getur orðið um verulega erfiðleika fyrir ríkissjóð að ræða, sem gætu leitt til greiðsluhalla, en þrátt fyrir það hefur það orðið niðurstaðan að meta meira það samkomulag, sem gert var, og reyna að koma því í höfn, enda þykist ég vera þess fullviss, að þingfylgi er fyrir þessari hugsun að virða þetta samkomulag, þó að út af þessu hafi orðið að breyta á þann hátt, sem hér er lagt til. Ég mun því treysta því, að þessi lokatilraun til þess að bjarga málinu muni nægja til þess að skila því heilu í höfn.

Um aðrar breytingar á þessu frv., sem till. eru um á þskj. 532, er það eitt að segja, að þar er miðað við það, að sú tilraun, sem reynd var, að frv. fengi frekar byr með því að binda gildistöku þess aðeins við næstu áramót, sýndi sig ekki hafa byr, og því ekki ástæða til að vera með það í l., heldur láta þau gilda, þar til Alþ. kann að breyta þeim síðar, ef þau verða samþ. Við það eru a- og b-liðir þessarar till. miðaðir, að gildistakan sé ótakmörkuð, þangað til önnur lög taka gildi. Síðasti liðurinn er aðeins leiðrétting á fyrri upptalningu um þau lög, sem úr gildi þurfa að falla, ef þetta frv. verður samþykkt.

Ég skal ekki fara hér út í neinar umr. um málið, því að það er búið að þreyta þær það mikið, að ekki er nein ástæða til þess. Ég vil bara endurtaka að lokum, að hér er gerð tilraun til þess að sveigja málið inn á þá braut, að meiri hl. fáist fyrir því á hv. Alþ., að það geti orðið að lögum og þeir, sem við okkur sömdu í góðri trú um, að svo mundi takast, þurfi ekki að verða fyrir vonbrigðum. Ekki síst er ástæða til að undirstrika það, þar sem það hefur komið fram í umr. á hv. Alþ., að stefnubreytingin sjálf hefur fylgi.