20.03.1974
Neðri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2993 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

259. mál, skattkerfisbreyting

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þingflokkur Alþfl telur sig hafa sýnt fram á, að vegna skattkerfisbreyt. þeirrar, sem í þessu frv. felst, sé ekki nauðsynlegt að hækka söluskatt nema um 31/2 stig. Um þetta hefur þingflokkurinn flutt till. í báðum d. þingsins, en fulltrúar stjórnarflokkanna hafa fellt þær. Af þessum sökum hefur þingflokkur Alþfl. greitt atkvæði gegn ákvæðum frv. um hækkun söluskatts um 5 stig, og hann hefur lýst því yfir, að hann mundi greiða atkv. gegn frv. í heild, ef í því væru ákvæði um 5 stiga hækkun söluskattsins. Nú hefur hæstv. fjmrh. flutt till. um, að hækkun söluskattsins nemi aðeins 4 stigum, og þannig gengið verulega til móts við sjónarmið Alþfl. Samkv. þessari till. verður sú söluskattshækkun, sem ekki á að bæta í kaupgjaldsvísitölu, 800 millj. kr. lægri en upphaflega var gert ráð fyrir.

Í gildandi fjárl. er gert ráð fyrir því, að niðurgreiðslur landbúnaðarafurða eigi að lækka um 400 millj. kr. á þessu ári, og verð landbúnaðarafurða þannig að hækka sem því svarar. Hér er um að ræða fjárhæð, sem svarar til hálfs söluskattsstigs. Ef því væri lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj., að þessi hækkun landbúnaðarafurða skuli ekki koma til framkvæmda, sparar það neytendum útgjöld, sem jafngilda hálfu söluskattsstigi.

Í umr. um frv. hefur af hálfu þingflokks Alþfl. verið lögð rík áhersla á nauðsyn þess, að dregið verði úr útgjöldum ríkissjóðs, og hefur þingflokkurinn greitt atkvæði með till. um lækkun þeirra um 1500 millj. kr. Á tímum jafn alvarlegrar verðbólgu og nú er um að ræða er það meginnauðsyn, að dregið sé verulega úr útgjöldum ríkissjóðs. Þingflokkur Alþfl. leggur því ríka áherslu á, að annaðhvort verði sett í frv. ákvæði um lækkun ríkisútgjalda eða því verði lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj., að slík lækkun útgjalda verði framkvæmd. Ef af hálfu hæstv. ríkisstj. verða gefnar skýlausar yfirlýsingar um þessi tvö atriði, telur þingflokkur Alþfl., að fallist hafi verið á meginröksemdir hans varðandi frv., og hefur samþ. að greiða atkv. með till. hæstv. fjmrh. um 4 söluskattsstig. Jafnframt mun hann fylgja till. þingflokks Sjálfstfl. um frekari lækkun tekjuskattsins en frv. gerir ráð fyrir.

Þingflokkur Alþfl. hefur frá upphafi umr. um þetta mál lagt megináherslu á, að almenningur yrði ekki látinn greiða meira til ríkisins í sambandi við skattkerfisbreyt. en svaraði til þeirrar upphæðar, sem hann sparaði, þannig að króna kæmi á móti krónu, en skattgreiðendur nytu góðs af heilbrigðari skattheimtu. Þetta sjónarmið mun ráða endanlegri afstöðu þingflokksins.