20.03.1974
Neðri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2997 í B-deild Alþingistíðinda. (2679)

259. mál, skattkerfisbreyting

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki ætlun mín að ræða þetta frv. hér að neinu ráði. Flest hefur verið sagt, sem segja þarf, en þó er hér einn þáttur, sem ekki hefur komið til umr. eða tals í þessum umr. Það eru ákvæðin í 7. gr. frv. um greiðslur ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Áður en ég kem að því, get ég þó ekki stillt mig um að lýsa undrun minni yfir öllum þeim málatilbúnaði, sem beitt hefur verið. Það hlýtur að vera nokkuð niðurlægjandi fyrir hæstv. fjmrh. að þurfa nú að renna niður flestum sínum ræðum, sem hann hélt hér, þegar verið var að koma á núgildandi skattakerfi. Þá átti það að vera allra meina bót, en nú þarf sem sagt öllu að breyta og gerbylta skattakerfinu.

Það mætti nefna ýmislegt einkennilegt, sem gerst hefur í umr, um þetta mál. Ég læt mér nægja að nefna dæmið um það, þegar við umr.

Í hv. Ed, var breytt gildistíma frv., þ.e.a.s. tekjuskattskaflinn og söluskattsviðaukinn eigi ekki að gilda nema til áramóta. — Það hefur verið haft á orði, að það væru svik við verkalýðinn, ef þetta frv. yrði ekki samþ. óbreytt. Ég veit ekki betur en það hafi verið samið í nýgerðum kjarasamningum til liðlega tveggja ára og þá að sjálfsögðu gengið út frá því, að þessi skattkerfisbreyt, næði fram að ganga, en það eru ekki svik við verkalýðinn, þegar þessum ákvæðum frv. er ætlað að gilda aðeins til áramóta.

Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 538 brtt. við 7. gr. frv. Ég vek athygli á því, að á þskj., sem dreift hefur verið, er villa. Þar segir, að breyt. sé við 6. gr., en á að vera við 7. gr. Brtt. mín er þess efnis, að 3. mgr. verði 2, mgr., en 2. mgr. verði 3. mgr., og við hana bætist orðin: og 2. mgr.

Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga sendi bréf til fjh.- og viðskn. beggja d. Alþ. nú fyrir skömmu, og þetta bréf fjallaði einmitt um þetta mál. Ég hafði vænst þess, að hv. n, mundi taka þetta erindi til afgreiðslu, en svo hefur ekki orðið. Ég vil þess vegna fara um þessi atriði örfáum orðum.

Í 7. gr. frv. er ákvæði um 11% söluskatt, eins og nú gildir og auk þess er ákvæði um 5% söluskattsauka, sem nú er lagt til, að verði 4%. Óbreytt ákvæði eru frá gildandi l. um, að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í söluskatti skuli vera 8%, en varðandi söluskattsaukann er ekkert slíkt ákvæði. Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og þar með sveitarfélögunum er því ekki ætluð nein hlutdeild í 5% eða 4% söluskattsaukanum, hvort heldur sem verður. Sveitarfélögin í landinu hafa litið á það sem grundvallaratriði, að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í söluskatti og aðflutningsgjöldum yrði ekki skert frá því, sem verið hefur. Stjórn sambandsins sendi bréf til félmrh. 15. nóv. s.l., þar sem m.a. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga er kunnugt, að ráðgerð er á næsta ári hækkun söluskatts úr 11% í a.m.k. 13%,“ — þá, á þessum tíma hugsuðu menn nú svona, að hæstv. ríkisstj. mundi nægja að hækka söluskattinn í 13%, en það er nú liðin tíð, — „þá vill stjórnin taka fram, að hún leggur á það megináherslu, að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í söluskatti verði ekki skert frá því, sem hún er nú, og hún hefur verið allt frá árinu 1964, þ.e. 8%, sbr. 1. nr. 61/1964 og 1. nr. 8/1972.

Í ársbyrjun 1967 stóð til, að hlutdeild Jöfnunarsjóðs í söluskattstekjum yrði lækkuð. Þær ráðagerðir stjórnvalda mættu mikilli mótspyrnu, og var frá þeim horfið m.a. fyrir harðorð mótmæli Sambands ísl. sveitarfélaga og fjölmargra sveitarfélaga. Það verður að teljast hreint sanngirnismál. að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í söluskatti lækki ekki frá því, sem nú er. Því til stuðnings má benda á, að með l. nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, voru tekjustofnar sveitarfélaga töluvert skertir, og er fyrirsjáanlegt, eins og rn. er kunnugt, að mörg sveitarfélög munu eiga í miklum erfiðleikum við að koma saman fjárhagsáætlunum fyrir árið 1974. Ef það á að takast með eðlilegum hætti, þurfa að koma til auknar tekjur til að mæta útgjöldum sveitarfélaga, sem þegar er vitað um og fyrirsjáanlegar eru á næsta ári.“

Hér lýkur tilvitnunni í bréfið frá 15, nóv. Það þarf ekki orðum að því að eyða, að hinar geysilegu verðlags- og kauphækkanir, sem þegar eru orðnar og fyrirsjáanlegar eru, hljóta að raska verulega fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna, fjárhagsáætlunum, sem að verulegu leyti byggjast á lögbundnum tekjustofnum. Það verður því að teljast enn meiri nauðsyn nú, en þegar þetta bréf, sem ég vitnaði til, var ritað, að sveitarfélögunum verði séð fyrir auknum tekjum til þess að mæta þessari útgjaldaaukningu. Með hliðsjón af þessu hef ég leyft mér að flytja þá brtt., sem ég hér hef lýst. Ég vænti stuðnings hv. þm. við þessa till. og þá ekki síst stuðnings þingmanna hæstv. ríkisstj., sem hafa lýst yfir stuðningi sínum við sjálfstæði sveitarfélaganna í málefnasamningi ríkisstj. margnefndum, en forsenda fyrir sjálfstæði sveitarfélaganna er að sjálfsögðu, að fjárhagur þeirra sé tryggður. Það var ekki gert með tekjustofnalögunum, sem samþykkt voru 1972.