05.11.1973
Efri deild: 12. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

66. mál, Norðurlandasamningur um skrifstofur Ráðherranefndar og skrifstofu Norðurlandaráðs

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Hinn 12. apríl s. l. var undirritaður í Osló samningur milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um skrifstofur ráðherranefndar Norðurlanda og réttarstöðu þeirra ásamt viðbótarbókunum skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og réttarstöðu hennar. Þessar skrifstofur eru stofnaðar til að efla norrænt samstarf, og skal í því skyni koma á fót skrifstofu fyrir norræn samstarfsmál með aðsetri í Osló, og áður hefur verið stofnsett skrifstofa fyrir norrænt menningarmálasamstarf í Kaupmannahöfn í þeim tilgangi að aðstoða ráðherranefnd Norðurlanda. Samningurinn fjallar um gildissviðið, réttarstöðuskrifstofanna, friðhelgi og sérréttindi þeirra, réttarstöðu starfsfólksins og um það, hvað gera skuli til að segja samningnum upp. Frv. þetta er flutt til þess að afla heimildar fyrir ríkisstj. til að fullgilda samning þennan fyrir Íslands hönd. Því fylgja þessar aths.:

„Ráðherranefnd Norðurlanda samþykkti á fundi sínum í Helsinki 18. febr. 1972 að stofna fasta skrifstofu fyrir norræn samstarfsmálefni, og skyldu starfa þar embættismenn, sem óháðir væru ríkisstj. heimaríkja sinna. Ráðherranefndin setti eftirfarandi rammaákvæði um starfsemi skrifstofanna. Þær skulu aðstoða Ráðherranefndina um meðferð norrænna samstarfsmálefna. Þær skulu vera til aðstoðar við framkvæmd á þeim rannsóknum, sem Ráðherranefndin óskar eftir að gerðar séu, og framkvæma þær umfangsminni athuganir, sem liggja þurfa til grundvallar við ákvarðanatökur Ráðherranefndarinnar.

Á fundi sínum í Osló hinn 17. og 18. febr. 1973 samþykkti Ráðherranefndin reglur um starfssvið skrifstofanna, sem eru í samræmi við framangreind rammaákvæði. Auk þess veita þessar reglur skrifstofunum svigrúm til að eiga sjálfar frumkvæði að nýjum samstarfsverkefnum.

Samningur þessi tekur til skrifstofu Ráðherranefndarinnar í Osló, sem hóf starfsemi sína til bráðabirgða hinn 1. júní 1972 með einum starfsmanni frá hverju Norðurlandanna. Ennfremur tekur hann til skrifstofunnar í Kaupmannahöfn fyrir norrænt menningarmálasamstarf, sem áður hafði verið komið á fót, og öðlast þessar skrifstofur þar með báðar sömu réttarstöðu. Svipar henni að mörgu leyti til þeirrar réttarstöðu, sem alþjóðastofnanir njóta. Að því er starfsfólk skrifstofanna varðar hefur þessi skipan þau áhrif, að launagreiðslur og skattgreiðslur fara eftir sérstökum reglum, þar sem m. a. gjald það, sem starfsfólk greiðir í stað venjulegra skatta, rennur í sjóði Ráðherraráðsins og myndar sérstakan tekjulið á fjárhagsáætlun þess.

Á grundvelli fjárhagsáætlunar, sem staðgenglanefnd Ráðherranefndar Norðurlanda hefur gert, má áætla, að stofn- og rekstrarkostnaður skrifstofunnar í Osló verði alls 3.4 millj. norskra kr. á fjárhagsárinu 1973–74, þar af verði kostnaður við bráðabirgðaskrifstofuna u. þ. b. 0,3 millj. kr. Skv. ákvörðun Ráðherranefndarinnar er útgjöldum skipt með hliðsjón af vergri þjóðarframleiðslu hvers ríkis og verða hlutfallstölur þá sem hér segir: Ísland 1%, Danmörk 22%, Finnland 16%, Noregur 16% og Svíþjóð 45%. Skv. þessu verður hlutur Íslands 34 þús. norskar kr. á fjárhagsárinu 1973–1974. Gert er ráð fyrir, að skrifstofan fái aukið starfslið um áramótin 1974–1975, og verður hlutur Íslands þá u. þ. b. 41 þús. norskar kr. á ári auk launa- og verðlagshækkana.

Breyting á stöðu skrifstofunnar fyrir norrænt menningarmálasamband við Khöfn í líkingu við alþjóðastofnanir mun ekki hafa í för með sér aukin útgjöld. Árið 1973 er rekstrarkostnaður áætlaður 3 millj. 480 þús. danskar kr., og er hluti Íslands skv. framansögðu því 34800 d. kr. Þar eð starfsmenn munu eftir þessa breytingu greiða gjald til skrifstofunnar í stað venjulegra skatta, er áætlað, að útgjöld skrifstofunnar lækki í 3 millj. 210 þús. d. kr. árið 1974. Næstu árin má síðan gera ráð fyrir 5–10% árlegri útgjaldaaukningu auk launa- og verðlagshækkana. Ráðherranefndin hefur ekki enn tekið afstöðu til þess, hvort auka þurfi starfsemi skrifstofunnar umfram það, sem hér er áætlað, en varlega reiknað er varla unnt að áætla árlega aukningu minna en 10%.

Að beiðni stjórnarnefndar Norðurlandaráðs hafa ríkisstj. Norðurlanda gert viðbótarbókun um skrifstofu stjórnarnefndar Norðurlandaráðs og réttarstöðu hennar. Var sú bókun undirrituð í Osló hinn 15. maí 1973. Af henni leiðir, að skrifstofa stjórnarnefndarinnar í Stokkhólmi hlýtur sömu réttarstöðu og framangreindar skrifstofur í Osló og Kaupmannahöfn.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.