21.03.1974
Efri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3017 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

255. mál, lántökuheimildir erlendis

Frsm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh: og viðskn, hefur haft til athugunar frv. til l. um lántökuheimildir erlendis, en frv. þetta veitir fjmrh. heimild fyrir hönd ríkissjóðs til að taka erlent lán að jafnvirði allt að 494 millj. kr. Samkv. fskj. því, sem fylgir frv., er gerð grein fyrir lánsfjáröflun, bæði innlendri og erlendri, til opinberra framkvæmda á árinu 1974 og hún borin saman við lánsfjáröflun á s.l. ári.

Hin innlenda fjáröflun er fólgin í því, að fyrir endurgreiðslur erlendra spariskírteinalána, útgáfu spariskírteina og útgáfu happdrættisskuldabréfa er áætlað, að fáist 1405 mill,j. kr., sem er nánar sundurliðað í fskj. Þessum 1405 millj. er ætlað að verja í fyrsta lagi til Skeiðarársandsframkvæmda 400 millj., til Rafmagnsveitna ríkisins 439 millj., til stofnlínu milli Norður- og Suðurlands 200 millj., til sveitarafvæðingar 110 millj., til vega á vegáætlun 100 millj., til Hafnarfjarðarvegar 80 millj. til hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn, Grindavík og Höfn í Hornafirði 20 millj. og til endurlána í sambandi við hafnarframkvæmdir 56 millj., en samanlagt gerir þetta 1405 millj. kr.

Ef svo aftur á móti er litið á erlendu fjármögnunina, þá er þar fyrst til að taka 18 millj. kr. lánsfjármögnun til landshafna. Í öðru lagi er viðbótarfjármögnun til Rafmagnsveitna ríkisins, til viðbótar þeim 439 millj., sem koma af innlendri fjármögnun, þ.e.a.s. 159 millj. Til Landsvirkjunar er útvegað af erlendri fjármögnun 100 millj. og til stofnlinunnar, svokallaðrar byggðalínu, 100 millj.

Í n. var nokkuð rætt um fjárveitingar til orkurannsókna, en þær nema samtals 127 millj. kr., og einnig var rætt um svokallaða byggðalínu. Vegna þess að ekki er gerð grein fyrir þessum kostnaðarliðum í frv. eða grg., sem því fylgir, þykir mér rétt að gera hér grein fyrir því, t hverju þessar fjárveitingar til orkurannsókna að upphæð 127 millj. eru fólgnar, en orkumálastjóri gaf upplýsingar um það á sérstökum fundi, sem n. átti með honum.

Orkurannsóknir þessar skiptast í 5 liði.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða áætlanir um rafhitun að upphæð 2 millj., línurannsóknir 5 millj., virkjunarrannsóknir á Norðurl. v. 4 millj. og svo sérstakar hækkanir á rekstrarútgjöldum við raforkurannsóknir 6.2 millj., eða samanlagt 17.2 millj. Jarðhitarannsóknir eru eftirtaldar: Það eru boranir í Svartsengi 13.6 millj. og aðrar framkvæmdir í Svartsengi 2 millj., boranir við Kröflu 24 millj., forhönnun við Kröflu 10 millj. og frumáætlanir um hitaveitulagnir 3 millj. og því til viðbótar aukin rekstrarútgjöld við jarðhitarannsóknir umfram það, sem fjárlög gerðu ráð fyrir að upphæð 2.6 millj. Samanlagt gera þetta 55.2 millj. kr. Í þriðja lagi er um að ræða aukin rekstrarkostnað við hagdeild Orkustofnunarinnar að upphæð 1.6 millj., í fjórða lagi kaup á jarðborum að upphæð 47 millj. og í fimmta lagi jarðhitaleitarlán til sveitarfélaga að upphæð 6 millj. Samanlagt gerir þetta 127 millj. kr.

Hér hafa sem sagt verið raktir þeir útgjaldaliðir, sem felast í þessum sameiginlega útgjaldalið undir heitinu orkurannsóknir, 127 millj., sem reiknað er með, að aflað verði erlends lánsfjár til.

Á fundi fjh: og viðskn. var spurt allítarlega um lagningu byggðalínunnar frá orkuframleiðslusvæði Búrfells og Sigöldu til Norðurlands, og eins og ég tók fram áðan, fékk n. orkumálastjóra, Jakob Björnsson, til að veita upplýsingar um þessa línulögn, og þykir mér rétt að láta þær upplýsingar koma hér fram við 2. umr. málsins. N. fékk þær upplýsingar, að hér væri um að ræða linu, sem yrði 132 kw. að spennustyrkleika og gæti flutt allt að 50 mw. Hún yrði reist að mestu leyti á trémöstrum, en þó hugsanlega á stálmöstrum, þar sem von væri á verstu veðrum og þá einkum yfir Holtavörðuheiði.

Tvær leiðir munu vera hugsanlegar í sambandi við linu þessa. Í fyrsta lagi, að línan liggi frá svonefndum Grundartanga í Hvalfirði, ef til þess kæmi, að þar yrði reist málmblendiverksmiðja, og línan frá Sigöldu til Grundartanga yrði þá að sjálfsögðu 220 kw. a.m.k., en síðan yrði þá línan 132 kw. þaðan norður yfir heiðar að Laxárvatni eða til Varmahlíðar, eftir nánari ákvörðun síðar. Gert er ráð fyrir því, að kostnaður við þessa framkvæmd verði 759 millj. samkv. nýlega gerðum áætlunum og miðað við núverandi verðlag. Annar möguleikinn er sá, að línan liggi frá Soginu norður í Lundarreykjadal austan við Þingvelli, og yrði það öllu lengri leið og yrði línan um 50 millj. kr. dýrari en sú leið, sem fyrr var nefnd. Við þetta mundu þó sparast 20 millj., af því að ekki þyrfti að byggja sérstaka spennistöð á leiðinni, eins og ella yrði gert við Grundartanga, og því yrði þessi lína um 30 millj. kr. dýrari heldur en sú, sem fyrr var nefnd eða mundi kosta 789 millj. Orkumálastjóri upplýsti, að gert væri ráð fyrir því, að hönnun yrði lokið eftir tvo mánuði, og hann taldi aðspurður, að hugsanlegir möguleikar væru á því, að línan yrði komin norður í Húnavatnssýslu haustið 1975, þótt hann að vísu tæki skýrt fram, að erfitt væri að gefa neinar öruggar yfirlýsingar um þetta atriði, og víst væri um það, að línan yrði tæplega að fullu reist leiðina alla norður í Skagafjörð fyrr en eftir 2 ár eða veturinn 1976.

Í fjh.- og viðskn. komu fram allmiklar efasemdir um það, að línulögn þessi gæti borgað sig og að þetta væri hyggileg framkvæmd, og svipaðar skoðanir hafa komið fram í umr. um önnur mál hér í þinginu, m.a. í umræðum um Kröfluvirkjun. En þá hélt, ef ég man rétt, — kannske hefur það verið við eitthvert annað orkumálefni, sem sú fullyrðing kom fram, en í öllu falli var það ekki alls fyrir löngu, að hv. þm. Geir Hallgrímsson fullyrti hér í þinginu, að þessi línulögn væri óskynsamleg„ vegna þess að það væri ekki þörf á þessari línu nema rétt fram að þeim tíma, að Kröfluvirkjun yrði upp komin, og mætti vafalaust reikna það út, að það væri fjárhagslega óhagstætt að reisa linu, sem ekki ætti að nota nema í skamman tíma, og þyrfti að athuga gaumgæfilega, hvort það borgaði sig ekki að gera einhverjar allt aðrar ráðstafanir til þess að útvega rafmagn á Norðurlandi frekar en að reisa þessa linu. Í öllu falli skildi ég orð hans svo, og verður það þá leiðrétt, ef það var ekki rétt skilið.

Eins og kom fram af upplýsingum orkumálastjóra, er kostnaður við þessa línulögn 800 millj. kr., og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér, eftir að þessar viðræður fóru fram við orkumálastjóra, má áætla, að rekstrarkostnaður og kostnaður af afkastavöxtum af línulögn af þessu tagi muni vera um 9%, þannig að reikna má út, að orkuflutningurinn þarf að skila í sparnaði milli 70 og 80 millj. kr. á ári, til þess að þessi framkvæmd standi undir kostnaðinum. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, hvað kostnaður við að framleiða kwst. af rafmagni með olíu muni vera mikill í dag, og skv. þeim útreikningum mun það nema 4.45 kr. Jafnframt hafa kunnugir menn sagt mér, ef reiknað er með flutningskostnaði og töpum við flutning rafmagns frá Sigöldusvæðinu, sem mundi hugsanlega getað látið orku í té fyrir 75 aura kwst., að það væri í alhæsta lagi að reikna með, að raforka komin til Norðurlands kostaði upp undir kr. 1.40. Segjum við, að hún kostaði kr. 1.45, þá sjáum við, að mismunurinn á þessum tveimur kwst., annarri framleiddri með olíu, hinni framleiddri með vatnsafli, mundi vera um kr. 3.00 pr. kwst. Af þessu leiðir þá, og má draga þá ályktun, að ekki þurfi að flytja til Norðurlands eftir þessari línu nema 24 gwst. á ári, til þess að línulögnin svari kostnaði. Ef hins vegar er reynt að gera sér einhverja grein fyrir því, hve mikla orku þessi lína á eftir að flytja, þá munu allir geta verið um það sammála, ef það er skoðað niður í kjölinn, að á næstu árum er augljóst, að flutningur eftir þessari línu verður margfaldar 24 gwst. Miðað við þá orkuspá, sem nú hefur verið lögð fram um þróun orkumarkaðar á Suðvesturlandi, þ.e.a.s. orkuveitusvæði Sigölduvirkjunar og Búrfellsvirkjunar annars vegar, og hins vegar á samtengdu orkuveitusvæði fyrir norðan, í Norðurl. v. og í Norðurl. e., er útlit fyrir, að þessi lína mundi flytja a.m.k. 50 gwst. árið 1976, 100 árið 1977 og 140 árið 1978 eða samanlagt á þessum 3 árum um 290 gwst.

Af þeim útreikningum, sem ég hef hér dregið fram, má því draga þá ályktun miðað við það útlit í orkumálum, sem nú blasir við, að bygging þessarar línu mundi borga sig upp á 3 árum, að allur kostnaðurinn mundi borga sig upp á 3 árum. Síðan má með mikilli vissu fullyrða, að þessi lína á eftir að flytja mikla orku milli Norður- og Suðurlands, í hvora áttina sem það nú verður hvert árið um sig. Það skal að vísu viðurkennt, að á árinu 1979 er skv. orkuspá ekki gert ráð fyrir ýkjamiklum orkuflutningum milli þessara landshluta, þegar Kröfluvirkjun er komin í fullan gang og Sigölduvirkjun líka, en allt útlit er fyrir, að í framhaldi af því mundu eiga sér stað miklir orkuflutningar eftir þessari línu á næstu árum þar á eftir, ekki hvað síst þegar hafist verður handa um húsahitun með rafmagni á Vestfjörðum og almennt á Norðurlandi, og því má fullyrða með nokkuð öruggum rökum, að þessi lina eigi eftir að margborga sig, að ekki sé dýpra tekið í árinni. Ég hef gert hér grein fyrir aðalliðum í lánsfjáröflun erlendis, sem til stendur að fari fram á árinu 1974. Eins og mönnum mun nú vera ljóst, er langt frá því að hér sé um að ræða öll erlend lán, sem Íslendingar taka erlendis. Hér er aðeins um að ræða lítinn hluta af lánum Íslendinga erlendis, og þarna fyrir utan eru að sjálfsögðu bæði fjöldamargar opinberar stofnanir, opinberir sjóðir og svo einkaaðilar. Ég vil segja það sem skoðun mína, að þegar frv. af því tagi, sem hér um ræðir, er á ferðinni á Alþingi, þ.e.a.s. frv. um lántökuheimildir erlendis, þá ætti að sjálfsögðu að fylgja því glöggt heildaryfirlit yfir söfnun erlendra skulda og lántökur erlendis, bæði á liðnum árum og einnig það, sem gert er ráð fyrir að verði á þessu ári skv. þeim spám, sem fyrir liggja. Og ég tel, að það sé mikill galli á því frv., sem hér liggur fyrir, hvað þar skortir mikið af upplýsingum, sem þar ættu að vera, og vildi ég eindregið mælast til þess við fjmrn., að það bætti úr, er frv. af svipuðu tagi verða tekin til umr. eða lögð fyrir Alþ. síðar.

Ég hef reynt að bæta nokkuð úr þessu með því að reyna að afla upplýsinga um, hvernig staðan í þessum efnum er, bæði með upplýsingum, sem ég hef fengið frá hagfræðideild Seðlabankans, eftir að fjh.- og viðskn. afgreiddi þetta mál frá sér, og með þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar. Ég tel, að það sé nauðsynlegt að átta sig á þessu dæmi í heildina tekið, ekki síst vegna þess, að nú í seinni tíð eru farnar að tíðkast heldur en ekki grófar fullyrðingar hv. stjórnarandstæðinga um þessi efni. Ég minnist þess t.d., þegar frv. af þessu tagi var til umr. hér á Alþ. í fyrra, að þá hafði hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason uppi ýmiss konar áróðursglósur og fráleitar fullyrðingar um það, að Íslendingar væru að sökkva sér niður í skuldafen með óhemjulegum lántökum, og hafði uppi harðar árásir á ríkisstj. af þessum sökum, og svipaðs hefur gætt hjá talsmönnum Sjálfstfl.

Talsmenn ríkisstj. hafa að sjálfsögðu bent á það í umr, um efnahagsmál, að gjaldeyrisvarasjóður þjóðarinnar hefur heldur farið vaxandi á seinni árum, þrátt fyrir miklar hrakspár stjórnarandstæðinga. En því hefur þá gjarnan verið svarað svo, að það væri litið að marka tölur af þessu tagi, því að hin almenna skuldasöfnun í langtímalánum væri svo gífurleg, að hitt væri eins og dropi í hafið og kæmi nánast ekki málinu við. Einmitt af þessum ástæðum tel ég, að það sé rétt að reyna að átta sig á því, hvernig á stendur um erlendar skuldir Íslendinga.

Í árslok 1973 munu erlend lán hafa numið samtals 21173 millj. íslenskra króna, miðað við dollaragengi kr. 83.60, og höfðu vaxið um tæpar 4 þús. millj. frá árslokum 1972, þ.e.a.s. um 3 927 millj. Ef litið er á það, hver hundraðshluti af þjóðarframleiðslunni erlendar skuldir eru, þá lætur nærri, að hann sé um 23.8%. Greiðslubyrði erlendra skulda, ef greiðslubyrðin er borin saman við útflutningstekjur landsmanna, sem eðlilegt er, — það er eðlilegt að bera saman þessar tvær tölur, — þá lætur nærri, að í árslok 1973 hafi greiðslubyrðin numið tæpum 10% af útflutningstekjum landsmanna, nánar tiltekið 9.7%.

Oft hefur það verið af hagfræðingum sett upp sem æskilegt markmið í sambandi við lántökur þjóðarinnar, bæði þessarar þjóðar og annarra þjóða, að greiðslubyrði af erlendum lánum færi ekki yfir 10% af útflutningstekjum þjóðarinnar. En það þarf ekki að taka það fram, að hér á landi hefur þetta oft farið langt upp fyrir þetta mark, og víðast er það nú erlendis, að mönnum gengur illa að halda sig við þessi takmörk. En á árinu 1973 uppfylltu þó Íslendingar þessa ströngu kröfu hagfræðinganna, því að greiðslubyrðin náði því ekki að vera 10% af útflutningstekjunum. Þetta stafar að sjálfsögðu ekki af því, að lántökur hafi minnkað á liðnu ári, heldur er skýringin að sjálfsögðu einfaldlega sú, að útflutningstekjur þjóðarinnar hafa vaxið svo stórlega á seinni árum. En sé litið til fyrri ára, þá er rétt að láta það koma hér fram, að greiðslubyrði í hundraðshlutum á útflutningstekjum nam árið 1969 16.7%, 1970 11.2% og 1971 10%, 1972 11.4% og svo, eins og ég sagði áðan, 1973 9.7%, þannig að það er að sjálfsögðu engin leið að halda því fram, að hallað hafi undan fæti fyrir Íslendingum í þessum efnum á liðnu ári, og lántökur erlendis hafa greinilega ekki verið meiri en hægt er að verja frá hagfræðilegum sjónarmiðum.

Í desemberhefti tímaritsins Þjóðarbúskapurinn, sem er gefið út af hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins, er reynt að áætla, hverjar muni verða erlendar lántökur þjóðarinnar á árinu 1974. Þar er því spáð, að erlendar lántökur verði um 6 800 millj. kr. og afborganir af erlendum lánum verði 2 800 millj., þannig að samanlagt verði innkomin löng lán 4 þús. millj. kr.

Ég hef reynt að afla mér upplýsinga um það, á hverju þessi spá er byggð, og vil gera hér stuttlega grein fyrir því. Það er gert ráð fyrir því, að lántökur opinberra aðila muni nema 3 350 millj., en afborganir 1 100 millj., þannig að samanlagt verði lántökur opinberra aðila 2 250 millj. Þessar lántökur eru í fyrsta lagi vegna hafna 270 millj., eins og reyndar kemur fram í því frv., sem hér liggur fyrir, í öðru lagi vegna kaupa á togurum frá Spáni 490 millj., vegna Landsvirkjunar 1 310 millj., vegna Pósts og síma 140 millj., vegna Rafmagnsveitna ríkisins 65 millj., lántaka, sem nefnd hefur verið á undanförnum árum PL-480 50 millj., varðskip 350 millj., Reykjavíkurborg 500 millj. og ófyrirséð 150 millj., eða samanlagt 3 355 millj. — Eins og hér hefur komið fram, má kannske reikna með því, miðað við það frv., sem hér liggur fyrir, að lántökurnar verði ívið meiri en hefur verið gert ráð fyrir í þessari spá, en þar skakkar greinilega ekki miklu.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því, að lánastofnanir taki lán að upphæð 1 650 millj. á þessu ári, en greiði af lánum 1000 millj., þannig að samanlagt nemi löng innkomin lán á vegum lánastofnana 650 millj. kr. Til þess að gera grein fyrir þessu, skulu nefndar hér þessar áætlunartölur: Lán vegna lána viðskiptabanka vegna togarakaupa munu nema 620 millj., lán Framkvæmdastofnunarinnar vegna fjárfestingarlánasjóðanna munu nema 800 millj. og ófyrirséð 230 millj., þ.e.a.s. samtals 1 650 millj.

Í fjh: og viðskn. var allmikið spurt að því af hv. þm. Geir Hallgrímssyni, hverjar yrðu lántökur fjárfestingarlánasjóðanna. Því miður var ekki unnt að svara þessari spurningu að þessu sinni frekar en endranær. Á undanförnum árum hefur ekki verið unnt að svara þessari spurningu, um leið og frv. um lántökur vegna opinberra framkvæmda hefur verið afgreitt. Það er ekki heldur hægt að gera það í þetta sinn, vegna þess að áætlun fjárfestingarsjóðanna hefur enn ekki verið afgreidd og liggur því ekkert fyrir um það, hvað verður þar um mikla erlenda lántöku að ræða. Og það eina, sem þá er hægt að upplýsa, er einungis það, að hagrannsóknadeildin hefur reiknað með, að þarna verði um að ræða lántökur, sem nemi 800 millj. kr. Þetta var sú upphæð, sem hagrannsóknadeildin reiknaði með fyrir hálfu ári. Að sjálfsögðu hefur málið síðan verið tekið til athugunar, og það kemur inn í, að menn verða auðvitað að skoða það mjög vandlega með hliðsjón af þenslunni í þjóðfélaginu og ríkjandi verðbólgu, hvort hægt sé að draga úr þessum erlendu lántökum og afla þessa fjár frekar á innlendum lánamarkaði. Vegna þess að enn er ekki fullséð um það, hvernig til tekst með það, er því miður ekki hægt að svara spurningu hv. þm. um þetta efni og það verður að bíða, þar til áætlun fjárfestingarsjóðanna verður kynnt hér á Alþ. síðar. Að lokum gerir hagrannsóknadeildin ráð fyrir því, að lántökur einkaaðila á árinu verði 1800 millj., en að þeir greiði af lánum 1050 millj. kr., þannig að samanlagt nemi lántaka þeirra I50 millj. kr. — Nettó gerir þetta þá samanlagt um 4 þús. millj. kr.

Mér þykir rétt að benda á, að hér hafa verið tilteknar allmargar lántökur vegna skuttogarakaupa, og beint vegna skuttogarakaupa hafa hér verið nefndar erlendar lántökur að upphæð 2.185 millj., en þar til viðbótar kemur fjáröflun Fiskveiðasjóðs vegna skuttogarakaupa, sem varla verður undir einum 300 millj. kr., þannig að samanlögð erlend fjáröflun vegna skuttogaranna mun áreiðanlega nema um 2 800 millj. og sjá menn. þá, að þessar lántökur eru bróðurparturinn af þessum erlendu lántökum. (Grípið fram í: Á þessu ári?) Á þessu ári, þ.e. 2 800 millj. á þessu ári af 4 þús. millj. kr. nettólántöku, sem áætlunin gengur út á.

Ég bæti því aðeins við, sem komið hefur þegar fram í mínu máli, að það má kannske reikna með, að þessi tala hækki eitthvað lítillega vegna þess, að í frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir heldur meiri erlendum lántökum en áætlunin gerði ráð fyrir.

Ef gert er ráð fyrir því, að erlendar lántökur nemi 4 þús. millj. kr. á árinu 1974, verða erlendar skuldir Íslendinga komnar upp í rúmlega 25 þús. millj. kr., eða um 25173 millj. á því gengi, sem gilti í árslok. Það var kr. 83.60 miðað við dollar. Í þjóðhagsspá hagrannsóknastofnunar Framkvæmdastofnunarinnar fyrir árið 1974 voru útflutningstekjur landsmanna áætlaðar rúmlega 40 þús. millj. kr., nánar tiltekið 40160 millj., og þjóðarframleiðslan var áætluð 111 þús. millj. kr., nánar tiltekið 110850 millj. Miðað við þjóðarframleiðsluna er þá heildarupphæð erlendra lána skv. þessu á árinu 1974 um 22.7% af þjóðarframleiðslunni, en þetta er lægsta hundraðstala erlendra lána miðað við þjóðarframleiðslu, sem verið hefur um mjög langt skeið. Ég vil leyfa mér að nefna samanburð miðað við fyrri ár. Á árinu 1969 var samsvarandi hundraðstala erlendra lána af þjóðarframleiðslu 34.3%. Sjálf upphæðin var 11726 millj., og þjóðarframleiðslan var 46 340 millj. Þetta eru 34.3%. Á árinu 1970 var samsvarandi tala 25.9%, — lækkaði verulega, sem að sjálfsögðu skýrist fyrst og fremst af því, að þjóðarframleiðslan hefur aukist verulega milli þessara tveggja ára. Á árinu 1971 var þessi tala 27.1%, á árinu 1972 26%, á árinu 1973 23.8%, og eins og ég hef þegar tekið fram, er hún áætluð á árinu 1974 22.7%, gæti kannske fyllt upp í 23% miðað við það, að þessi áætlun hækki eitthvað, en verður samt, ef áætlunin stenst að öðru leyti hvað snertir þjóðarframleiðsluna, lægsta hundraðshlutfall erlendra lána miðað við þjóðarframleiðslu, sem verið hefur um margra ára skeið.

Þetta held ég að sýni það, að fullyrðingar stjórnarandstæðinga um, að Íslendingar séu að sökkva sér niður í ægilegt skuldafen og greiðslubyrðin verði þyngri og þyngri með ári hverju o.s.frv., — áróðursglósur, sem eru vel þekktar í ísl. stjórnmálum um þessar mundir, — ég held, að þessar tölur sýni, að á bak við þessar fullyrðingar stendur nákvæmlega ekki neitt, heldur eru staðreyndir þvert á móti þær, að í þessum efnum er ástandið þó heldur skárra en það hefur oft áður verið.

Eins og ég hef tekið hér fram, kann að vera, að erlendar lántökur opinberra aðila verði lítið eitt meiri en hér er gert ráð fyrir. En það má þá minna á það líka, að í spánni var liðurinn ófyrirséð, svo að það er ekki útlit fyrir, að þar muni miklu skakka. Eins breytir það auðvitað töluverðu um þessa áætlun, hver verður hin raunverulega fjáröflun til fjárfestingarsjóðanna. Eins og ég tók fram, nemur hún skv. spánni 800 millj. kr. á þessu ári, en lánsfjárþörfin er talin munu nema í kringum 1700–1800 millj. kr. samtals miðað við þær áætlanir, sem gerðar voru í haust. Og eins og ég hef tekið fram, fer allt eftir því, hvernig til tekst með öflun innlends lánsfjár, hvað stór hluti af þessum lánum verður erlent fé.

Herra forseti. Ég hef þá ekki neinu við það að bæta, sem ég hef nú sagt, en ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að ég tel nauðsynlegt, að þegar frv. af því tagi, sem hér er til umr., er lagt fram á Alþ., þá fylgi því gleggri upplýsingar í fskj. heldur en gerðist með þessu frv., því það er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að reyna að átta sig á, hvernig heildarmyndin er varðandi erlendar lántökur. Frá því í fyrra hefur orðið sú breyt., eins og mönnum er kunnugt, að framkvæmdaáætlun ríkisins hefur nú verið tekin inn í fjárlögin, og þess vegna er ekki flutt af hálfu fjmrh. sérstök skýrsla um framkvæmdaáætlunina, eins og hefur verið gert á undanförnum árum. Og þessi breyt. kemur þá m.a. fram í því, að frv., sem hér liggur fyrir, það heitið lán vegna framkvæmdaáætlunar, en heitir nú frv. til l. um lántökuheimildir. Við það, heitir nú frv. til l. um lántökuheimildi.r Við það, að þessi skýrsla fellur niður, kann að vera, að ýmsar þær upplýsingar, sem gefnar hafa verið um þetta leyti árs á undanförnum árum, komi þá ekki jafnskjótlega fram. En úr þessu mætti bæta með því að hafa grg. gleggri hvað þetta snertir.