21.03.1974
Efri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3024 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

255. mál, lántökuheimildir erlendis

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi óska eftir því, að hæstv. iðnrh. væri hér viðstaddur framhald umræðnanna. Ég sé, að hann er kominn í salinn, enda hafði ég nokkrar spurningar fram að færa, sem ég vænti, að hann muni svara.

Við 1. umr, um þetta frv. til l. um lántökuheimildir erlendis gagnrýndi ég það sérstaklega í fyrsta lagi, að þessar lántökuheimildir byggðust á heimildarákvæðum, sem skotið hefði verið inn í fjárlagafrv. við síðustu umr. þess. Ég taldi þetta óeðlileg vinnubrögð að skjóta inn í fjárlagafrv. á síðasta stigi meðferðar þess svo víðtækum heimildum sem þarna er um að ræða og taldi það bera vitni um ónógan undirbúning þessara fyrirhuguðu framkvæmda og vera gagnstætt þeim áætlunarbúskap, sem ég hygg, að hæstv. iðnrh. sé fylgjandi. Og ég vil lýsa yfir af minni hálfu, að ég er fylgjandi, að unnið sé að opinberum framkvæmdum á skipulagsbundinn hátt með forsjálni og framsýni, sem ég tel þarna því miður ekki vera um að ræða.

Þá gagnrýndi ég í öðru lagi við 1. umr., að hér væri bersýnilega verið að auka mjög lántökuheimildirnar frá ári til árs, en í aths. við lagafrv. þetta kemur fram, að fjáröflunin milli ára eykst úr 1168 millj. kr. 1973 í 2169 millj. kr. 1974 eða um 85.7%. Ég taldi þetta vafasamt í því ástandi, sem nú ríkir, þar sem spennan og eftirspurnin á vinnumarkaðnum er svo gífurleg sem raun ber vitni. Auk þess sem lánsfjáröflunin eykst gífurlega í heild, bæði innanlands og erlendis, þá er einkum athyglisvert, hve erlendar lántökur eiga að hækka, en 1973 var lánsfjáröflun erlendis til opinberra framkvæmda samtals 238 millj. kr., en á nú að þrefaldast og rúmlega það og verða 764 millj. kr. Ég tel, að þetta auki enn á spennuna innanlands og sé til þess fallið að kynda undir verðbólgunni.

Ræða hv. þm. Norðurl. v., Ragnars Arnalds, hér áðan breytir engu um þetta, því að erlendar lántökur, féð, sem flutt er inn til landsins, eykur eftirspurnina eftir vinnu, vöru og þjónustu, sem er að hluta til ekki til staðar, eða eykur eftirspurnina eftir vinnu, vöru og þjónlönd. Hv. þm. ræddi hér nokkuð um erlendar lántökur og taldi þær ekki óeðlilega miklar. Ég er á gagnstæðri skoðun. Í slíku ástandi, sem nú ríkir, ber að halda erlendum lántökum niðri eins og unnt er. Það er bersýnilega ekki gert. Ég dreg í efa þá staðhæfingu haus, að erlendar lántökur samkv. áætlunum muni aðeins auka erlendar skuldir um 4 þús. millj. kr. á þessu ári. Ég vek athygli á því, að samkv. mjög varlegum spám hagrannsóknadeildar, sem fjh: og viðskn. voru sýndar við afgreiðslu skattkerfisfrv., bera vitni um meira en 5 þús. millj. kr. viðskiptahalla á árinu, og það er ekki unnt að bera hann uppi nema með samsvarandi erlendum lántökum. Að vísu kemur þarna til greina, að gengið verði á gjaldeyrisvarasjóð landsmanna, en þá um leið er hann orðinn lægri en forsvaranlegt er, því að nú þegar nemur hann ekki meira en um 3 mánaða innflutningsverðmæti, sem er lágmark þess, sem viðunandi er. Ég tel meira að segja, að gjaldeyrisvarasjóðurinn sé nú orðinn lægri en 3 mánaða innflutningsverðmæti nemur, því að á hann hefur gengið mjög rösklega frá áramótum og einkum og sér í lagi síðasta mánuð.

Samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið, mun þessi lækkun gjaldeyrisvarasjóðsins nema nokkuð á 2. milljarð kr. Ég tel því, að útlit sé fyrir það, að erlendar skuldir landsmanna muni fara töluvert fram úr því, sem hv. þm. Ragnar Arnalds gat um hér áðan, og verða til þess, að greiðslubyrði landsmanna vegna erlendra skulda, afhorgana og vaxtagreiðslna, í framtíðinni muni fara langt fram yfir þau mörk, sem viðunandi megi teljast.

Ég er sammála hv. þm., að nauðsynlegt er, að heildarmynd liggi fyrir, þegar frv. sem þetta er afgreitt. Ég óskaði því eftir ýmsum upplýsingum við meðferð málsins í fjh.- og viðskn., og þær upplýsingar voru þá ekki taldar liggja á lausu eða vera til staðar. Úr þessum skorti hefur hv. þm. bætt, að ákveðnu marki, en þó ekki eins og vera ber. Því tek ég mjög ákveðið undir með honum, að úr þessu verður að bæta við afgreiðslu slíkra mála hér í framtíðinni.

Ég vil gjarnan taka frekar til meðferðar ýmsar þær tölur, sem hv. þm. gat um, annaðhvort við 3. umr. málsins eða í tengslum við önnur þingmál, því að þar var margt, sem ég tel mistúlkun.

Ég skal þá víkja að því frv., sem hér er til umr. sérstaklega, og einkum þá ræða brtt., sem við hv. 2. þm. Norðl. e., Halldór Blöndal, höfum flutt, en brtt. fjallar um það, að heimildin til að taka erlend lán til flutningslínu raforku um Suður-, Vestur- og Norðurland að upphæð 100 millj. kr. sé bundin því skilyrði, að lögð verði fram á Alþ. grg. um framkvæmd og kostnaðaráætlun um byggingu flutningslínunnar svo og hagkvæmnissamanburð mismunandi valkosta til að leysa orkuþörf Norðurlands.

Í þessu sambandi vil ég taka fram, að menn eru sammála um, að vinna beri að samtengingu landsins alls, þannig að unnt sé að flytja raforku á milli landshluta. En hins vegar hefur menn greint á um það, hvenær samtenging sé tímabær. Koma þar einkum til greina tvenn sjónarmíð: annars vegar fjárhagsleg, þ.e. spurningin um það, hvort ódýrar og hagkvæmar virkjanir eru mögulegar í héraði, og hins vegar öryggissjónarmið, þ.e.a.s. að taka verður tillit til, að línurnar eru háðar veðráttu og ekki síst hálendislínur. Hv. þm. er minnisstætt, vænti ég, að hæstv. iðnrh. gaf yfirlýsingu fljótlega eftir að hann settist í ráðherrastól, að byggð skyldi lína til flutnings raforku, hálendislína milli Norðurlands og Suðurlands. Ég man ekki betur en hann hafi sagt, að þessi lína ætti að vera komin í gagnið á árinu 1973. Þá voru rannsóknir á þeirri línu ekki hafnar, en þær hafa síðan verið gerðar, í það minnsta hvað veðurfar snertir, og leitt til þess, að menn hafa hætt við hálendislínuna, sem hæstv. iðnrh. sagði, að mundi verða komin í gagnið þegar á síðasta ári.

Slík yfirlýsing var auðvitað gefin að óathuguðu máli, af fljótfærni, ef ekki af auglýsingamælsku.

Nú er sagt, að byggja eigi svokallaða byggðalínu frá landsvirkjunarkerfinu á Suðvesturlandi um Vesturland til Norðurlands. Ein ástæðan fyrir þessari ákvörðun mun vera sú, að þegar hefur verið byggð lína frá Eyjafirði til Skagafjarðar í þeirri trú, að flytja mætti orku frá hinu hrjáða Laxársvæði til hins enn hrjáðara Norðvesturlands. Þessi lína er nú því miður orðin að athlægi. Það eina, sem hún flytur, er orkuskortur milli landshluta, eins og að orði hefur verið komist. Það er því ekki að ástæðulausu, að menn telja, að hyggilegt hafi verið talið að réttlæta tilvist hennar sem lið í heildarsamtengingu Norður- og Suðurlands og það sé ein forsendan fyrir svokallaðri byggðalinu. Þessi Eyjafjarðar- og Skagafjarðarlína mun kosta eitthvað milli 100 og 150 millj. kr. með tilheyrandi búnaði. Ég vil gjarnan biðja hæstv. iðnrh. að upplýsa d. um það, hvar á bilinu þessi kostnaður er, hvað línan í raun og veru kostar. Hún mun vera byggð af Rafmagnsveitum ríkisins, en framkvæmdin var þó ekki samþykkt í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, áður en hún hófst. Það mun vera ákvörðun hæstv. iðnrh. eins, sem þarna er um að ræða, og því hæpið, að fylgt sé ákvæðum 60. gr. orkulaga.

Á þessu ári mun vera heimild í fjárlögum um 200 millj. kr. fjárveitingu til framhalds þessarar byggðalínu, og í þessu frv. er farið fram á 100 millj. viðbótarfjárveitingu, eftir því sem mér skilst. En sannleikurinn er sá, að þm. hafa ekki fengið neina grg. um það, hver heildarkostnaður af þessari línubyggingu verður. Samkv. upplýsingum orkumálastjóra á fundi fjh.- og viðskn., má gera ráð fyrir því, að þessi kostnaður sé 760 millj. kr., og byggist það á kostnaðargrundvelli um áramót, en ekki núgildandi verðlagi, eins og hv. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, vildi vera láta. Mikil kostnaðarhækkun hefur síðan orðið, og því er ekki ósennilegt, að heildarkostnaður fari töluvert fram úr 760 millj. kr. Ekki er upplýst, hvort vextir á byggingartíma eru innifaldir eða hugsanlegar bætur til landeigenda. Mér þykir því ekki óeðlilegt að ætla, að þessi heildarkostnaður verði 1000 millj. kr., þegar línan er fullbyggð, og raunar hærri, ef svo heldur fram sem horfir um verðlag á þessu landi.

Þá hef ég upplýsingar um það, að ráðgjafarfyrirtækjum, íslensku og norsku, hafi að vísu verið falið að rannsaka, hvort umrædd lína fái staðist raftæknilega, og er þá einkum um að ræða svonefnda stöðugleikarannsókn. Niðurstöður munu vera frekar jákvæðar; að þeim skilyrðum uppfylltum, að orka verði annaðhvort flutt til stórfyrirtækis á Norðurlandi, sem tekur 50 mw., eða suður frá Kröfluvirkjun. Hins vegar hefur millibilsástand linunnar ekkert verið rannsakað, þ.e.a.s. fram að þeim tíma, að áðurnefndur orkuflutningur fari fram, annað hvort til stórfyrirtækis á Norðurlandi eða suður á bóginn frá Kröfluvirkjun, en hún er ekki ráðgerð komin í gagnið fyrr en 1978.

Hæstv. iðnrh. hefur lýst því yfir, að þessi lína verði tengd á næsta ári, og muni þannig í bili firra frekari vandræðum á Norðurlandi. Nú hefur Landsvirkjun, að því er ég best veit, ekki beint ráðagerðir uppi um byggingu 130 kw. línu á því ári, og því yrði að reka þessa línu með 60 kw. spennu fyrst í stað, en engin raffræðileg athugun hefur verið gerð á slíkri línu. Þá er rétt að ítreka það, sem áður hefur komið hér fram, að landsvirkjunarsvæðið mun ekki verða aflögufært á næsta ári eða veturinn 1975–1976, áður en Sigölduvirkjun er lokið. Útlit er því fyrir, að þarna sé enn a.m.k. um ársbil verið að byggja línu til flutnings á orkuskorti.

Þá er rétt að taka það fram, að þótt frumathugun á raffræðilegum stöðugleika línunnar sé lokið, eftir því sem talið er, þá megi fullyrða, að engin raffræðileg hönnun er enn hafin. Það liggja ekki fyrir upplýsingar, a.m.k. ekki fullnægjandi upplýsingar, um það hvaða áhrif væntanleg málmblendiverksmiðja í Hvalfirði muni hafa á gæði raforkunnar á téðri línu, en mér er sagt, að verksmiðjur af því tagi hafi truflandi áhrif á spennu og þurfi því helst að vera með sérstaka línu frá orkuveri eða vera tengd sterku rafkerfi.

Það er fyrst nú, sem norskt ráðgjafarfyrirtæki mun vinna að hönnun línunnar frá byggingartæknilegu sjónarmiði. Niðurstöður liggja ekki fyrir, eins og fram kom hjá orkumálastjóra á fundi fjh.- og viðskn., þar sem hann sagði, að lega línunnar væri ekki í einstaka atriðum ákveðin og ekki væri ákveðið, að hve miklu leyti línan yrði byggð með tréstaurum og að hve miklu leyti með stálstaurum. Þó eru frumathuganir hafnar á vegum Rafmagnsveitna ríkisins á efnisþörf, en ekkert hefur verið upplýst um það, hvort framkvæmdin verður boðin út eða ekki. Ég vildi spyrja hæstv. iðnrh. um það, hver ætlunin væri í þeim efnum.

Það er og ljóst, að mjög hæpið er, að þessi lína komist í gagnið á næsta ári. Það er kannske bættur skaðinn, vegna þess að á fyrsta árinu, frá 1975 til 1976, gerir hún ekki mikið gagn, eins og áður er rakið. En hún kemst væntanlega í gagnið á árinu 1976 og ekki fyrr, því að orkumálastjóri taldi byggingartíma mundi verða um 2 ár, og koma þær upplýsingar orkumálastjóra ekki heim og saman við ákveðnar yfirlýsingar hæstv. iðnrh., að þessi lina sé til þess fallin að bæta úr orkuskorti á Norðurl. þegar á næsta ári.

Af því, sem ég hef hér rakið, er eðlilegt, að við flm. brtt. teljum eðlilegt og sjálfsagt, að greinargerð um þessa framkvæmd sé lögð fram og sömuleiðis sé í þeirri grg. hagkvæmnisamanburður mismunandi valkosta til þess að leysa orkuþörf Norðurlands. En það er enn fremur til dæmis um, hve vinnubrögðin af hálfu hæstv. iðnrh. eru handahófskennd, að það er fyrst nú, löngu eftir að fjárlög voru samþykkt og nokkru eftir að þetta frv. er lagt fram hér á Alþ., að hann flytur brtt. um lántökuheimild til virkjunar í Fljótaá, 75 millj. kr., sem ég hef talið, að væri eðlileg framkvæmd, en hingað til hefur staðið á leyfi stjórnvalda, hæstv. iðnrh., svo að hún gæti hafist.

Það er kunnugt af Fréttum í blöðum og útvarpi, að þessi línubygging hefur verið harðlega gagnrýnd á nýafstöðnum fundi Sambands íslenskra rafveitna og sérstaklega, hvernig að henni hefur verið staðið og undirbúningi öllum.

Þá var sérstaklega gagnrýnt á þessum fundi, að ekki hefur verið notuð heimild Alþ. um virkjun Svartár og ekki leitað samninga við landeigendur þar.

Nú er það svo, að þótt þessi línubygging hefjist og sé komin í framkvæmd á árinu 1976, þá er útlit fyrir, að hún muni ekki koma að gagni nema á tímabilinu 1976–1978, vegna þess að þá kemur Kröfluvirkjun í gagnið samkvæmt áætlunum, og þá er ekki þörf á flutningi raforku norður um. En Kröfluvirkjun verður ekki heldur aflögufær eftir 1978 til flutnings á raforku hingað suður, svo að nokkru nemur, og mun ekki gera það mögulegt, að unnt sé að fresta virkjunarframkvæmdum á landsvirkjunarsvæðinu. Á tímabilinu 1978–1980 verður ný virkjun eftir Sigöldu að komast í gagnið. Þá er um þrjá valkosti að ræða, þ.e. Hrauneyjarfossvirkjun, Sultartangavirkjun eða jarðgufuvirkjun. Ákvörðun í þeim efnum verður að taka eigi seinna en um næstu áramót, til þess að slíkar virkjanir séu komnar í gagnið á þessu tímabili, 1978–1980. Þá er í raun og veru ekki nema um 1–2 ár að ræða, sem hugsanlegt er, að þessi lína geri nokkurt gagn, og kostnaður við hana er slíkur, orkuflutningskostnaðurinn, sem um er að ræða, er svo hár, að ástæða er til, að fram verði lögð greinargerð með samanburði mismunandi valkosta til að leysa orkuþörf Norðurlands, svo að menn geti a.m.k. gengið úr skugga um, hvort hér sé um réttlætanlegan kostnað að ræða eða ekki.

Ég vil biðja hæstv. iðnrh. að leiðrétta mig, ef hann telur mig ekki hafa farið með rétt mál að því er snertir byggingartíma linunnar. Ég vil spyrja hann um það, hvenær ráðgert sé, að hönnun háspennulínunnar ljúki annars vegar og hins vegar, hvenær ráðgert sé, að byggingu línunnar ljúki. Ég hef farið hér með ákveðnar upplýsingar þar að lútandi, en vil gjarnan heyra hans eigið mat að þessu leyti.

Þá vildi ég spyrja á hvaða spennu línan verði rekin, bæði fyrst í stað og síðar, og hvort samið hafi verið við orkuframleiðendur um sölu raforku inn á téða línu og hver sé áætlaður flutningskostnaður línunnar.

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh., hvaða aðili annist undirbúning línubyggingarinnar og hver verði eigandi línubyggingarinnar?

Ég vil óska eftir því, að hæstv. iðnrh. tjái sig um þá brtt., sem við höfum hér flutt, hv. 2. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal. og ég, og vonast til þess, að honum finnist það eðlileg ósk af hálfu þm. að fá grg. um svo mikla framkvæmd sem hér er um að ræða.

Mig langar til þess að vita, hvort Framkvæmdastofnun ríkisins hafi fjallað um þetta mál, og hlýtur annaðhvort hæstv. iðnrh. eða hv. þm. Norðurl. v., formaður stjórnar Framkvæmdastofnunarinnar, að geta veitt upplýsingar um þetta, en ekki sýnist óeðlilegt, að Framkvæmdastofnunin, miðað við ætlunarverk hennar og hlutverk, fjalli um slíkar framkvæmdir.

Ég vildi leggja áherslu á í sambandi við þá brtt., sem við flytjum, að fram komi áætlaður kostnaður smærri virkjana á Norðurlandi, þ. á m. Skeiðsfoss, Svartár, og hve langan tíma mundi taka að ljúka slíkum virkjunum eftir ákvörðunartöku.

Í þessu sambandi verður ekki komist hjá því að minnast á möguleika á því að taka upp samninga við landeigendur á Laxársvæðinu, því að það er viðurkennt af öllum, sem um þetta mál hafa fjallað, að þar er um að ræða langhagkvæmustu virkjunarmöguleikana til þess að leysa orkuskortinn á Norðurlandi.

Ég vil gjarnan heyra frá hæstv. iðnrh., hvort það sé rétt, að samningar við Svartá hafi aldrei verið fullreyndir.

Mér er ljóst, að hér er um margar fsp, að ræða, en ég held einnig, að það séu eðlilegar fsp. Ég tel æskilegast, að svör við þessum fsp. komi fram í þeirri grg., sem brtt. okkar fjallar um, og fellur mér ágætlega við það, ef hæstv. iðnrh. heitir því að sjá til þess.

Ég tel á þessu stigi rétt að láta hér staðar numið, en fjalla við annað tækifæri almennt um fjáröflun, bæði til opinberra framkvæmda og til fjárfestingarlánasjóða, en get þó ekki annað en undirstrikað það, að fjárskortur fjárfestingarlánasjóðanna mun vera allt að 2 milljörðum kr., eftir því sem nú horfir, og þurfa þá útlán þeirra væntanlega að aukast um þriðjung frá því, sem var á árinu 1973. Þegar þetta er haft í huga ásamt hinum stórhækkuðu lántökum til opinberra framkvæmda, er hér um að ræða ráðagerðir og fyrirætlanir, sem eru til þess fallnar að auka verðbólguna og spennuna í landinu, og er ekki á það bætandi.