21.03.1974
Efri deild: 87. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

255. mál, lántökuheimildir erlendis

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég stend upp til þess að gera stutta aths. Reyndar hefur hæstv. iðnrh. minnst á það atriði, og get ég því stytt mál mitt.

Ég vil í upphafi lýsa ánægju minni með það stóra átak, sem gera á í raforkumálum og greinilega kemur fram í þessu frv. um lántökuheimildir erlendis.

Í brtt. á þskj. 490 er rætt um hagkvæmnisathugun á mismunandi valkostum til að leysa orkuþörf Norðurlands. Ég held, að þarna sé á nokkrum misskilningi byggt. Ég vil benda á, að þessi lina mun þjóna fleiri landshlutum en Norðurlandi, eins og kom reyndar fram hjá hæstv. iðnrh. Á Vestfjörðum verður varla, a.m.k. er það vafasamt, orkuþörf fullnægt með virkjunum heima fyrir. Þetta er að vísu núna í ítarlegri athugun, og hefur sérstöku verkfræðifyrirtæki verið falið að skoða þar alla kosti. Í fljótu bragði virðist, eins og ég sagði, vafasamt, að þar fáist nægilegt virkjað vatnsafl til þess að fullnægja orkuþörfinni, einnig fyrir húsahitun. Ljóst er því, að sá landshluti þarf að tengjast meginraforkukerfi landsins hið fyrsta, og raunar er líklegt, að það sé langsamlega fljótvirkasta leiðin til að fá á Vestfirðina þá raforku, sem talin verður nauðsynleg í þessu skyni, m.a. til húsahitunar. Vestfirðingar binda því einnig töluverðar vonir við þessa línu norður. Stysta leiðin til að tengjast raforkukerfi landsmanna yrði með línu frá Mjólká og í Hrútafjörðinn, og er það um 200 km leið. Þannig yrði með fljótu móti aukin raforka Vestfjarða og ekki síður, svo sem einnig er nauðsynlegt, öryggi meira en það er nú með raforku frá einni meginvirkjun. Þessari aths. vildi ég koma hér á framfæri. Þessi lína þjónar fleiru en Norðurlandi, m.a. Vestfjörðum, þótt það virðist stundum gleymast hv. þm., að sá landshluti þarf einnig og ekki síður en aðrir og jafnvel fremur en sumir aðrir að tengjast orkukerfi landsins vegna takmarkaðra virkjunarmöguleika og lítils sem einskis jarðhita þar í nálægð við stærri byggðakjarna.

Ég vil svo aðeins segja að lokum, að það er vitanlega ákaflega mikill misskilningur, að þessi lausn þjóni aðeins Norðurlandi um skamman tíma. Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. Ég hygg, að hv. flm, þessarar brtt. muni finna, er þeir kynna sér þessi mál, t.d. hjá öðrum þjóðum, nágrannaþjóðum okkar o.fl., að þar er lögð höfuðáhersla á svona samtengingu, ekki síst til þess að bæta nýtingu orkuvera og skapa það öryggi, sem nauðsynlegt er í nútímaþjóðfélagi, þegar um er að ræða notkun raforku til flest allra hluta. Ég er því þeirrar skoðunar, að samtenging orkuveitusvæða sé eitt af brýnustu málum þessarar þjóðar, og ég fagna því átaki, sem þarna er gert. Jafnframt undirstrika ég það enn einu sinni, að því þarf að fylgja eftir með tengingu Austfjarða og Vestfjarða við það samtengda orkukerfi, sem þannig skapast.