05.11.1973
Neðri deild: 14. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

55. mál, niðurfærsla verðlags o.fl.

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin á s. l. sumri. Efni þessa frv. er það, að talið var nauðsynlegt að setja brbl. til þess að tryggja tiltekna verðlækkun á vörum og þjónustu til samræmis við þá hækkun á verðgildi íslenskrar krónu, sem ákveðin var 30. apríl s. l. Þótti rétt að tryggja það, að áhrif þessarar gengishækkunar kæmu sem allra fyrst til skila í verðlagið, og því er í frv. ákvæði um, að allt almennt verðlag og þjónusta skuli færast niður um 2%, nema þar sem sérstakar undanþágur væru veittar, einnig, að verð á þjónustu, sem reiknað er í erlendum gjaldeyri, skyldi taka breytingum þá þegar, og einnig um það, að verð á landbúnaðarvöru skyldi færast niður um sambærilega upphæð.

Þessi lög hafa þegar komið til framkvæmda og hafa ekki praktískt gildi lengur í sjálfu sér, en frv. er hér flutt til staðfestingar á brbl., eins og skylt er að gera.

Þar sem öllum hv. þm. er fullkunnugt um ástæður til þess, að þessi brbl. voru sett og um efni frv., sé ég ekki ástæðu til að orðlengja frekar um það, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. fjh. og viðskn.