21.03.1974
Neðri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

46. mál, jarðalög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hefur nokkuð rakið sögu þessa frv. Hún er þegar orðin alllöng. Frv. var lagt fram á síðasta Alþingi, en varð þá ekki útrætt. Það var lagt fram snemma á þessu þingi og er nú komið frá Ed. En hugmyndin að þessu frv. mun hafa vaknað á búnaðarþingi 1971, að ég ætla.

Það er ofureðlilegt, að menn velti þessum málum fyrir sér og reyni að ná góðri niðurstöðu. Það hefur verið mörgum áhyggjuefni, að ýmsar góðjarðir í sveitum landsins hafa lent í höndum braskara, eins og það er kallað, á undanförnum árum, en slíkt er vitanlega tilræði við byggðina, enda var ætlunin með því að láta endurskoða þessi l. og lögð á það áhersla, að það væri nauðsynlegt að fyrirbyggja, að jarðeignum væri ráðstafað með óeðlilegum hætti miðað við viðskiptavenjur og reynt að koma í veg fyrir brask með jarðeignir í hagnaðarskyni. Þetta held ég, að flestir geti orðið sammála um, — það var því eðlilegt, að lagaákvæði um þessi efni væru tekin til endurskoðunar.

Þetta frv. hefur verið sent ýmsum aðilum til umsagnar, m.a. búnaðarsamböndum, landshlutasamtökum, Sambandi ísl. sveitarfélaga o.fl. En það er dálitið einkennilegt við umsagnir þær, sem borist hafa, og vekur óneitanlega athygli, að þar eru margir þættir þessa frv. gagnrýndir og komið fram með ýmsar aths. Þeir aðilar, sem m.a. gera ákveðnar aths. við frv., svo að ég nefni dæmi, eru t.d. landnámsstjóri, skipulagsstjóri ríkisins, Samband ísl. sveitarfélaga. Fjórðungssamband Norðlendinga vekur sérstaka athygli á því, að ekki hafi verið haft nægilegt samráð við samtök sveitarfélaga í einstökum landshlutum né heldur við sýslunefndir í sambandi við undirbúning þessa frv. Og sannleikurinn er sá, að búnaðarsamböndin mörg hver hafa sent ýmsar athugasemdir við frv. Vil ég nefna í því sambandi Búnaðarsamband V.- Húnvetninga og Búnaðarsamband S.-Þingeyinga. Þess vegna hefur komið upp sú hugmynd, að það væri ekki ástæða til þess að flýta málinu mjög á þessu þingi, heldur væri með hliðsjón af þessum umsögnum rétt að flýta sér ekki of mikið í þessu máli og leita nokkru nánara samráðs við þá aðila, sem þetta mál varðar. Vissulega er þetta stórmál. Það er mjög mikilvægt mál, sem snertir hagsmuni margra aðila, og er því viðkvæmt mál.

Ég mun ekki rekja frv. mjög efnislega og ekki hafa mjög mörg orð um það á þessu stigi, þó að full ástæða væri til þess. En samkv. II. kafla á að setja á fót byggðaráð. Í hverri sýslu skal starfa byggðaráð skipað 3 mönnum og jafnmörgum til vara. Sýslunefnd og búnaðarsamband hlutaðeigandi sýslu tilnefna hvort sinn mann í byggðaráð, og skulu þeir kunna góð skil á byggð og búháttum í sýslunni, en ráðherra skipar byggðaráð og formann þess án tilnefningar.

Eins og ég sagði og öllum má ljóst vera, hefur frv. þetta verið sent til umsagnar búnaðarsamböndum landsins. En hvers vegna þá ekki sýslunefndum, sem samkv. 5. gr. frv. eiga að hafa svipaðan rétt í þessu máli og búnaðarsamböndin, þ.e.a.s. tilnefna einn fulltrúa í ráðið? Það er svo annað mál, að byggðaráði eru falin hin stærstu og viðkvæmustu mál til umsagnar og mikið vald í þeim málum. Ég vek athygli á þessu, að frv. er sent til umsagnar búnaðarsamböndum, en ekki sýslunefndum. Nú er það svo, að samkv. sveitarstjórnarlögum, 92. gr. þeirra, er beinlínis tekið fram, að sýslunefndir eigi að fjalla um mál, er varða einstaka hreppa eða sýsluna, enda skal engu slíku máli til lykta ráðið, fyrr en álitsgerð sýslunefndar hefur verið leitað. Og í sömu gr. segir einnig, eins og ég hef nýlega rætt um á þingi, að sýslunefndir skulu fjalla um till. um hvað eina, sem verða má sýslunni til gagns. Nú spyr ég: Hvaða málefni varðar eða á að varða sýslunefndir, ef það er ekki einmitt mál af þessu tagi, sem getur varðað byggð eða auðn að mér liggur við að segja, í sveitum landsins? Ekki nóg með það, heldur tel ég með hliðsjón af þeim tilvitnunum úr l., sem ég vitnaði til, að það sé beinlínis ólöglegt að ráða þessu máli til lykta hér á hv. Alþingi án þess að leita umsagna sýslunefnda. Ég vil vekja athygli á því, að fram undan eru sýslufundir á þessu vori í öllum sýslum landsins. Það er því kjörið tækifæri fyrir þá hv. þn., sem fær þetta mál til meðferðar, að senda það nú þegar út um landið til umsagna sýslunefnda. Þetta er stórmál, þó er það þess eðlis, að það varðar ekki öllu, að því sé ráðið til hlunns á þessu vori. Það er miklu betra að mínum dómi að undirbúa þessa lagasetningu enn betur, leita umsagna sýslunefnda, sem algjörlega hefur verið vanrækt á löglausan hátt, og leggja það síðan fyrir Alþingi á hausti komanda, eftir að þessara umsagna hefur verið leitað og eftir að þær athugasemdir, sem gerðar hafa verið við frv. af ýmsum aðilum, hafa verið krufnar til mergjar.

Að þessu mæltu ætla ég mér ekki að ræða málið efnislega í einstökum atriðum, en ítreka þá skoðun mína og vil koma henni skýrt og greinilega á framfæri við þá þn., sem fær málið til að fjalla um það, að hún veiti þessari aths. minni athygli, taki frv. til athugunar og afli um það umsagna allra sýslunefnda á landinu, eins og skylt er samkv. lögum.