21.03.1974
Neðri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3058 í B-deild Alþingistíðinda. (2719)

269. mál, bygging staðlaðs húsnæðis til eflingar iðnaði á landsbyggðinni

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 521 er frv. til I. um byggingu staðlaðs húsnæðis til eflingar iðnaði á landsbyggðinni. Frv. er flutt af mþn. í byggðamálum, en í henni eiga sæti ásamt mér hv. þm. Steingrímur Hermannsson, Matthías Bjarnason, Ingvar Gíslason, Karvel Pálmason, Helgi F. Seljan og Pétur Pétursson.

Í þál., sem samþ. var á Alþ. 13. apríl 1973 og mþn. starfar eftir, segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Auk þess skal n. athuga till. til þál. á þskj. 383 og leggja fram þau frv. til breyt. á I. þegar í byrjun næsta þings, sem n. telur, að ekki þoli bið.“

Hér er átt við þáltill. um byggðamál, sem þm. sjálfstæðismanna úr öllum kjördæmum landsins lögðu fram á síðasta þingi. Þetta frv. er unnið og lagt fram í samræmi við framangreinda málsgr. þál. Frv. felur í sér, að tekin yrði upp alger nýbreytni hér á landi að því er varðar aðgerðir ríkisvaldsins til eflingar iðnþróun á landsbyggðinni og um leið aðgerðir til þess að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu. Meginefni frv. eru reglur um samstarf heimamanna í hinum ýmsu byggðarlögum á landsbyggðinni, byggðasjóðs og annarra fjárfestingarlánasjóða um byggingu staðlaðs iðnaðarhúsnæðis, sem selt yrði eða leigt sjálfstæðum iðnrekendum með góðum kjörum. Gert er ráð fyrir, að Byggðasjóður og Iðnlánasjóður veiti 80% lán til slíkra bygginga, en 20% verði eigið framlag.

Þessi aðferð til þess að hvetja til iðnþróunar í þeim landshlutum, sem búa við byggðavanda vegna brottflutnings fólks og fábreytt atvinnulíf, hefur víða verið reynt í nágrannalöndum okkar, þótt í mismunandi formi sé. Má þar m.a. til nefna Breta, sem hafa reist Industrial Estates í þessu skyni um marga áratugi, og Norðmenn, sem tóku slík vinnubrögð upp eftir ítarlega könnun á þessu kerfi í Bretlandi. Í Noregi eru slíkar byggingar nefndar industri vekstanlegg, og ákvað Stórþingið að stofna ríkishlutafélag með lögum hinn 1, jan. 1968 til þess að hafa á hendi frumkvæði um að byggja og reka staðlað iðnaðarhúsnæði á þeim stöðum, sem frekast voru taldir koma til greina í því skyni. Þetta félag er nefnt Selskapet for industri vekstanlegg, skammstafað SIVA.

Þá tíðkast í Noregi eins og öðrum nágrannalöndum, að sveitarfélögin komi sér upp iðnaðarhúsnæði í sama skyni með stuðningi byggðasjóða eða viðkomandi ríkisstj. Árið 1971 hafði 171 sveitarfélag í Noregi komið sér upp stöðluðu iðnaðarhúsnæði og fengið til þess tæplega 100 millj. norskra kr. úr byggðasjóði Noregs. Munurinn á starfsemi SIVA í Noregi og á viðleitni sveitarfélaganna þar í landi í þessu efni er sá, að stefnt er að miklu stærri endanlegum byggingum hjá SIVA. Þar er gert ráð fyrir, að markið sé að fá 500 manns atvinnu í viðkomandi byggðarlagi með þessum hætti.

Með þessu frv. er ekki lagt til að koma á fót sérstöku ríkishlutafélagi eða sérstofnun til þess að koma við þessari aðferð að byggja staðlað iðnaðarhúsnæði til eflingar iðnaði á landsbyggðinni, eins og gert var í Noregi. Vegna sérstöðu okkar, m.a. vegna fámennis þeirra staða, sem til greina koma við slíkar byggingar, er með frv. lagt til, að stofnuð verði byggingarfélög iðnaðarhúsnæðis í einstökum sveitarfélögum, sem reyna vilja og hafa aðstöðu til þess að hagnýta þessa aðferð til eflingar iðnaði. Gert er ráð fyrir, að sveitarstjórnirnar hafi frumkvæði í þessu efni og leggi fram hlutafé, sem yrði fyrst og fremst í því formi, að viðkomandi sveitarfélag legði á skatta og gjöld, sem bæri að greiða til þeirra af slíkum byggingum, fram sem hlutafé og jafnframt geti aðrir áhugaaðilar gerst hluthafar. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir, að stjórn Byggðasjóðs láti teikna og hanna staðlað iðnaðarhúsnæði og láti byggingarfélögunum í té þau gögn. Þá er lagt til, að stjórn Byggðasjóðs leggi fram verulegt lánsfé til þessara bygginga og að ríkisvaldið beiti sér fyrir samningum við aðra stofnlánasjóði, svo sem Iðnlánasjóð, um lán til bygginganna, þannig að heildarstofnlán til þeirra verði 80% af byggingarkostnaði, eins og ég minntist á áðan. Til þess að takmarka fjölda þeirra, sem byggja slíkt iðnaðarhúsnæði samtímis, og til þess að ekki verði farið út í byggingar, fyrr en fjármagn er tryggt, er sett það ákvæði í frv., að byggingarfélögunum sé ekki heimilt að hefja framkvæmdir, fyrr en fjáröflun er tryggð.

Meginkostur hugmyndarinnar um byggingu staðlaðs íbúðarhúsnæðis til eflingar iðnþróunar á landsbyggðinni er, að með þeirri aðferð getur hið opinbera haft áhrif á eflingu iðnaðar á þeim stöðum, sem hafa vaxtarskilyrði sem miðstöðvar iðnaðar í viðkomandi héruðum. Þá er einnig um ávinning að ræða fyrir iðnrekendur, sem kaupa eða leigja slíkt húsnæði. Sé þeim gefinn kostur á sæmilegum kjörum, liggur í augum uppi hagræði þeirra af því að fá slíka fyrirgreiðslu, miðað við að þurfa að koma sér upp húsnæði af eigin rammleik. Oftast eru þessir aðilar hver um sig með lítil fyrirtæki, sem eiga í erfiðleikum vegna þess, hve örðugt er oft um vik um allan iðnrekstur á landsbyggðinni. Í stöðluðu iðnaðarhúsnæði, þar sem smáir iðnrekendur hafa aðstöðu, er hægt að koma við margvíslegri samvinnu, t.d. um bókhald, skrifstofuaðstöðu o.fl. Þessir kostir, sem eru því samfara að reka iðnað í stöðluðu einingahúsnæði, sem byggt yrði í samræmi við ákvæði frv., ráða í mörgum tilvikum úrslitum um atvinnurekstur einstakra iðnrekenda. Fyrir sveitarfélögin yrði einnig um stórkostlegt hagsmunamál að tefla. Margir smáiðnrekendur verða að reka fyrirtæki sín í smáhýsum eða skúrum, sem ekki samræmast viðkomandi skipulagi byggðarlagsins. Með því að stuðla að byggingu staðlaðs iðnaðarhúsnæðis er unnt að koma slíkum smáiðnaði fyrir í skipulegum iðnaðarhverfum og í myndarlegum og hagkvæmum byggingum.

Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að víðast erlendis er fyrst og fremst leitast við að byggja staðlað iðnaðarhúsnæði fyrir framleiðsluiðngreinar, sem selja framleiðsluvörur sínar utan viðkomandi byggðarlaga. Ástæðan er sú, að slíkur atvinnurekstur stuðlar að því að flytja tekjur inn í viðkomandi byggðarlag, sem hafa síðan keðjuörvunaráhrif á aðra atvinnustarfsemi. Hér á landi skortir víða aðstöðu fyrir frumstæðustu þjónustugreinar, þannig að í frv. er gert ráð fyrir, að ákvæði þessi gildi bæði um húsnæði fyrir framleiðslu og þjónustuiðnaðinn, en í samræmi við gildi framleiðsluiðnaðarins fyrir byggðaþróun í heild er gert ráð fyrir, að hann njóti nokkurs forgangs í fyrirgreiðslu.

Þetta frv. felur í sér, eins og áður segir, ef að lögum verður, að tekin verður upp nýbreytni um aðgerðir ríkisvaldsins til þess að stuðla að eflingu iðnþróunar á landsbyggðinni. Hér er að sjálfsögðu aðeins um eitt úrræði að ræða af mörgum, sem ríkisvaldið getur beitt í þessu efni. M.a. mætti nefna, að ríkisvaldið getur yfirleitt haft úrslitaáhrif um staðarval stóriðju og stórfyrirtækja í landinu. Það úrræði, sem í þessu frv. felst, hefur þann meginkost, að unnt er með því að dreifa örvunaráhrifunum hæfilega mikið í hverjum landsfjórðungi, og er það því beinlínis nauðsynlegt jafnhliða því að taka upp raunhæfa stefnu á því sviði að velja stórfyrirtækjum stað utan mesta þéttbýlissvæðis landsins.

Sú hugmynd, sem er hreyft með þessu frv., er ekki alveg ný af nálinni hér á landi. Í skýrslu Norðurlandsáætlunar: Atvinnumál á Norðurlandi, sem gefin var út af Efnahagsstofnuninni í ágúst 1969, var lagt til, að hafin yrði hér á landi bygging staðlaðs iðnaðarhúsnæðis til útleigu eða endursölu á landsbyggðinni í því skyni að stuðla þar að aukinni iðnþróun. Lagt var til. að byrjað yrði á þessari starfsemi til reynslu á Akureyri. Í framhaldi af því voru teknar upp viðræður milli Atvinnujöfnunarsjóðs þáv. og atvinnumálanefndar Akureyrar. Viðræður þessar náðu því stigi, að atvinnumálanefnd Akureyrar gerði till. til stjórnar Atvinnujöfnunarsjóðs um, hvernig standa ætti að þessum framkvæmdum, en síðan hefur því miður ekkert gerst í því máli af einhverjum ástæðum.

Vífill Oddsson verkfræðingur hefur gert áætlun um slíkt staðlað iðnaðarhúsnæði, sem þetta frv. fjallar um, og gerir hann þar ráð fyrir því að skipta húsnæðinu niður í misstórar einingar, sbr., fskj. II. og þskj. III með frv. Helstu niðurstöður þessarar áætlunar eru í stórum dráttum sem hér segir. Hver eining yrði 6x26 metrar eða 120 fermetrar í vinnusal og 36 fermetrar í kaffistofu, snyrtingum og skrifstofu. Hver eigandi gæti tekið 2, 3, 4 eða fleiri einingar. Iðnrekendum gæfist þá kostur á eftirfarandi húsrými: Í fyrsta lagi 312 fermetrum, í öðru lagi 468 fer metrum o.s.frv. Talið er, að 5 einingar séu lágmarksbyrjunaráfangi, þ.e.a.s. 1090 fermetrar að flatarmáll, en 5250 rúmmetrar að rými. Byggingarkostnaður slíks húsnæðis er nú áætlaður 4030 kr. á rúmmetra miðað við byggingarvísitölu 913 og leiga á fermetra 165 kr. á mánuði miðað við að 10% á ári fáist í vexti og afborganir.

Um aths. við einstakar gr. vísa ég til grg. með því og meðfylgjandi fskj.

Ég vil að lokum fara nokkrum almennum orðum um nauðsyn þess að gera verulegt átak í byggðamálum á næstu árum, en það er sannfæring mín, að hugmyndin um byggingu staðlaðs iðnaðarhúsnæðis á landsbyggðinni gæti orðið, ef rétt er á haldið, verulegur þáttur í þeirri viðleitni. Allir þekkja, hver þróun hefur orðið í byggð landsins síðustu áratugi. Nú býr rúmlega helmingur þjóðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, þ.e.a.s. Reykjavík og nágrannasveitarfélögum, að meðtöldum Hafnarfirði og Kópavogi, sem nú mynda í raun eitt borgarsvæði, en 60% þjóðarinnar á svonefndu Reykjanessvæði, sem verður í vaxandi mæli ein samfelld byggðarheild. Fyrir nokkrum áratugum bjó á þessu svæði aðeins brot þjóðarinnar.

Fram til þessa má til sanns vegar færa, að sá kostur hafi fylgt misþróun byggðarinnar, að vegna hennar eignuðumst við fyrr öfluga höfuðborg, miðstöð athafna og þjóðlífs. Án slíkrar höfuðborgar fær ekkert nátímaþjóðfélag staðist. Engum blandast hins vegar hugur um, að nú höfum við eignast slíka höfuðborg, sem gegnir prýðilega því hlutverki. Þau þáttaskil eru því í byggðaþróun landsins, að nú fylgja því einungis verulegir ókostir, að fólk flytjist frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, en engir kostir. Þessir ókostir koma ekki síst fram í kostnaðarsömum vandamálum á höfuðborgarsvæðinu.

Því hefur verið spáð, að Íslendingar verði milli 310–330 þús. um aldamót. Miðað við reynslu á sviði fólksflutninga milli landshluta hefur það verið reiknað út, að þá muni a.m.k. 200 þús. manns búa á höfuðborgarsvæðinu, en rúmlega 100 þús. manns á öllum öðrum byggðasvæðum landsins og þar af bróðurparturinn í næsta nágrenni við höfuðborgina. Hvað hefði þessi þróun í för með sér? Á höfuðborgarsvæðinu hefði hún í för með sér, að þar þendist byggð út, svo að fullbyggt yrði frá Hafnarfirði að hlíðum Esju, eins og Valdimar Kristinsson fulltrúi í Seðlabankanum komst að orði í grein í 2. hefti Fjármálatíðinda á s.l. ári. Auðvitað kostar þessi útþensla byggðarinnar stórfé. Mengunarvandamál aukast. Nú er rætt um hundruð þús. millj. kr. í framkvæmdir til þess að forðast mengun vegna frárennsla út í Faxaflóa. Sú upphæð dygði skammt, ef framangreind þróun yrði. Bílastæðum færi að fækka ískyggilega í miðbænum, og byggja yrði yfir helstu umferðarhnútana. Allt er þetta leysanlegt, en kostar mikla fjármuni, og svo er um fleiri vandamál, sem koma upp við slíka þróun á höfuðborgarsvæðinu, sem verða ekki rakin hér.

Á landsbyggðinni mundi þessi þróun til aldamóta hafa í för með sér hægfara framþróun á öllum sviðum, verri búsetuskilyrði og örðugri — aðstöðu til þess að nýta auðlindir og mannvirki þjóðarinnar. Þegar þetta er skoðað, er alveg ljóst, að við lifum þau tímamót, að áframhaldandi misþróun byggðar í landinu hefur í för með sér vaxandi og dýran þjóðfélagsvanda, en fáa eða enga kosti. Því er ekki úr vegi að staldra við og spyrja: Hvernig eru horfurnar í raun og veru í þessu efni? Hvaða þjóðfélagsleg öfl eru að verki, sem viðhalda slíkri þróun? Hversu sterk eru þau, og hvernig er hægt að sveigja þau inn á hagkvæmari brautir? Horfurnar eru því miður ekki góðar, ef ekki er haldið áfram aðgerðum til eflingar byggðar úti um land og framkvæmd samræmdari byggðastefna en tíðkast hefur. Ástæðan fyrir þessu er sú, að margvísleg þjóðfélagsleg lögmál eru að baki misþróun byggðar og aðgerðir stjórnvalda auka oft og tíðum á styrkleika þessara lögmála einmitt á þeim sviðum, sem mestu máli skipta fyrir heildarmannfjöldaþróun í hinum ýmsu landshlutum.

Fyrsta þjóðfélagslega fyrirbrigðið, sem ég vil nefna, sem hefur í för með sér vaxandi hættu á aukinni byggðaröskun frá því, sem nú er, er sérstök aldursskipting þjóðarinnar. Um 40 þús. Íslendingar verða tvítugir áratuginn 1970–1984. Þetta eru fjölmennari árgangar ungs fólks en áður hafa komið fram á vinnumarkað og einnig fólk með fjölþættari menntun og starfsþjálfun en nokkru sinni fyrr í sögu landsins. Þetta fólk velur sér að sjálfsögðu búsetu þar, sem það getur notið fjölbreyttrar menntunar sinnar, og jafnframt í umhverfi, sem er félagslega vel á veg komið, þ.e.a.s. í þéttbýlinu.

Annar þáttur, sem ég vil nefna, er sá, að frumframleiðslugreinar eru stundaðar á landsbyggðinni. Í þeim atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði, tekur vélvæðingin að sér í sívaxandi mæli framleiðslustörfin, ef svo mætti að orði komast. Þessar atvinnugreinar taka ekki við miklum mannafla í viðbót af þeim 40 þús. manna hópi, sem bætist á vinnumarkað á yfirstandandi áratug. Því er það svo, að efla verður iðnað og þjónustu atvinnugreina á landsbyggðinni samtímis fiskveiðum og landbúnaði, ef stefna á að jafnari byggðaþróun.

Þriðji þátturinn, sem ég vil nefna og hefur stórfelld áhrif á aðflutninga fólks og fjármagns til höfuðborgarsvæðisins, er útþensla ríkisbáknsins hér í Reykjavík. Opinberar stofnanir hvers konar eru orðnar snar þáttur í atvinnurekstri á höfuðborgarsvæðinu. Allir landsmenn eru skattlagðir til þess að greiða þessu fólki laun. Það notar svo laun sín til þess að kaupa sér ýmsa persónulega þjónustu og stendur þannig undir orðum þjónustustofnunum á höfuðborgarsvæðinu, rótt í einkaeign séu. Með þessum hætti flyst fjármagn í stórum stíl frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og á miklu ríkari þátt í að efla þar viðskipta- og atvinnulíf en margan grunar, enda kemur þetta skýrt í ljós, þegar að kreppir í frumframleiðslugreinum. Þá siglir almennur samdráttur í kjölfarið á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ríkisbáknið þenst út, eykur það auðvitað á þetta fjármagnsstreymi. En það hefur einnig í för með sér, að menn flytjast til höfuðborgarinnar og ganga í þjónustu hins opinbera, oftast þeir, sem hafa einhverja verulega menntun. Miðstjórnarkerfi hins opinbera og ýmsar sérstofnanir þess draga til sín bæði fjármagn og ekki síst atgervi frá landsbyggðinni og þeim mun meir sem þetta kerfi þenst út.

Miklu fleira mætti nefna, sem ýtir undir misþróun byggðar í landinu. Þar mætti t.d. tala langt mál um húsnæðismál, almenna aðstöðu til heilbrigðisþjónustu, verslunaraðstöðu, samgöngur o.s.frv., o.s.frv. Einn er þó sá þáttur, sem er ónefndur. Það eru stórvirkjanir og stórfyrirtæki. Tilhneigingin hefur verið sú að velja slíkum fyrirtækjum stað nálægt höfuðborgarsvæðinu, og er svo enn. Ég hef gert lauslegar athuganir á, hvaða áhrif mismunandi staðarval slíkra stórfyrirtækja hefði á þróun byggðar í landinu. Útkoman varð sú, að ráða mætti búsetuvali nokkurra þúsunda manna með staðarvali eins slíks fyrirtækis.

Horfurnar eru því allt annað en glæsilegar um þróun byggðar í landinu. Ég er hiklaust þeirrar skoðunar, að byggðaröskun fari fremur vaxandi en hitt frá því, sem nú er, ef ekki er að gert. A.m.k. er á því veruleg bætta vegna sérstöðu í aldursskiptingu þjóðarinnar, einhæfra atvinnuhátta á landsbyggðinni, tilhneigingar til útþenslu ríkiskerfisins í Reykjavík og staðarvals stórvirkjana og stóriðju þar í grennd, þótt önnur mikilvæg og alkunn atriði komi þar einnig til. Menn mega ekki láta villa sér sýn, þótt manntalstölur á árinu 1973 bendi á yfirborðinu til þess, að horfur séu batnandi í þessum efnum. Í fyrsta lagi er fráleitt að taka mark á þróun eins árs á þessu sviði, en auðvitað alveg sérstaklega ársins 1973, þegar eldgos kom upp í Vestmannaeyjum og allir mannabústaðir á höfuðborgarsvæðinu fylltust af aðkomufólki þaðan, þannig að hvergi var hægt að fá inni fyrir fólk, sem vildi flytjast af landsbyggðinni. Því miður er það því af þessum og fleiri sökum alger tálsýn, sem sum blöð hafa verið að birta lesendum sínum um þetta efni, en ég ætla ekki að ræða nánar að sinni.

Herra forseti. Með þessu frv., sem hér er til umr., er hreyft nýmæli í íslenskri löggjöf. Tilgangur þess er sá að stuðla með sérstökum hætti að eflingu iðnaðar á landsbyggðinni og þar með hagkvæmari byggðaþróun en á horfist. Ég vænti þess, að þingheimur geri sér ljóst, hvað hér er mikið nauðsynjamál á ferðinni, og skoði það sem einn þátt nýrra átaka þjóðarinnar til þess að berjast við þann byggðavanda, sem ég hef hér lýst að nokkru. Ég vil því vænta þess, að frv. fá góðar viðtökur.

Ég legg svo til. herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.