25.03.1974
Efri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3069 í B-deild Alþingistíðinda. (2732)

113. mál, skipulag ferðamála

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir, hvernig með þau mál, sem um ræðir í brtt. á þskj. 420, er farið sem stendur, og jafnframt koma með ábendingu, sem ég tel, að gæti kannske orðið til þess, að ekki þyrfti lengur um að deila, hvernig með skuli fara það efni, sem till. er gerð um.

Hvað varðar undirbúning að byggingu skólahúsnæðis, þá voru gefin um það mjög skýr fyrirmæli til byggingadeildar menntmrn. fyrir að mig minnir um það bil 2 árum, að gefa Ferðamálaráði kost á að fylgjast með byggingu nýs heimavistarskólahúsnæðis með því að tilkynna, þegar ákveðið væri að byggja heimavistarskóla, svo að það gæti metið, hvort að þetta væru ferðamannastaðir, þar sem hagkvæmt gæti orðið að nýta heimavistarhúsnæðið til gistihúsarekstrar yfir ferðamannatímann.

Þegar er því með vinnubrögðum í rn. leitast við að fullnægja þeim tilgangi og þeim vinnubrögðum, sem gert er ráð fyrir í fyrstu setningu brtt. Er ég því algerlega meðmæltur, að þessi málsmeðferð verði lögfest, en ég hlýt að fallast á það, að slík ákvæði ætti best heima í skólakostnaðarl. Hins vegar hlýt ég líka að samþykkja það, sem hv. flm. hefur bent á, að síðari hlutinn á tvímælalaust heima í 1. um ferðamál, þar sem þar er verið að ræða um Ferðamálastofnun og Ferðamálasjóð og fjárútvegun á þeirra vegum. Ég vil því beina því til hv. tillögumanns, að hann athugi, hvort ekki væri ráð að gera, eins og oft er gert, þegar tveir lagabálkar snerta hvor annan, að skilja að, þannig að þau efnisatriði, sem hvoru lagasviðinu eru skyldust, tilheyri þeim l., sem sagt, að fyrsta setningin yrði flutt sem sérstök breyt. við skólakostnaðarl., en síðan þyrfti líklega að breyta eitthvað orðalagi á þeim setningum, sem þá væru eftir, en eiga tvímælalaust heima í ferðamálalögum.