25.03.1974
Efri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3069 í B-deild Alþingistíðinda. (2735)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að gera þá breyt. á landgrunnslögunum frá árinu 1948, nm vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, að heimilt verði samkv. þeim lögum að færa fiskveiðimörkin við landið ekki aðeins út yfir allt landgrunnshafið í kringum landið, heldur allt að 200 sjómílum út frá grunnlínum, eins og segir 1. gr. frv.

Öllum hv. þdm. er kunnugt, að nú er rætt mikið um það, að ef til vill takist að fá allvíðtækt samkomulag á alþjóðavettvangi um, að strandríki megi taka sér allt að 200 mílna fiskveiðilandhelgi. Íslendingar hafa, þar sem þessi mál hafa verið rædd erlendis, tekið skýrt fram, að þeir eru fylgjandi þeirri stefnu, að strandríki fái slíkan rétt, og fulltrúar okkar hafa þegar flutt till. í þá átt. Það er því enginn vafi á því, að það er afstaða okkar Íslendinga að styðja þá meginstefnu. Það er því skoðun ríkisstj., að rétt sé að fá fram breyt. á landgrunnsl. frá árinu 1948 í þessa átt, þannig að það liggi fyrir lagaleg heimild til þess að færa landhelgismörkin allt út í 200 sjómílur frá grunnlínum, séu aðstæður að öðru leyti taldar til þess að framkvæma slíkt. Það hefur þótt rétt að setja þetta í landgrunnslögin. Á þeim lögum höfum við byggt allar okkar aðgerðir í fiskveiðilögsögumálum, síðan þau lög voru sett, og er því eðlilegt, að þessi heimild verði sett inn í þessi lög og þau verði notuð þannig áfram.

Nú verður að játa það, að þó að landgrunnslögin frá árinu 1948 miðuðu við landgrunnshafið, þá er ekki fyllilega ljóst, hvað langt það getur náð út frá landi eða við hvaða mörk skuli þar miða, m.a. vegna margbreytilegra till., sem upp hafa komið á síðari árum um það, við hvað skuli miða landgrunn. Því er það, að nauðsynlegt er að taka skýrt fram, ef ætlunin er að undirstrika þessa stefnuyfirlýsingu okkar, að það sé ekki aðeins miðað við einhverja sérstaka skilgreiningu á landgrunni, heldur einnig miðað við rétt til þess að fara allt að 200 sjómílum út frá landinu.

Mál þetta hefur þegar verið afgreitt í hv. Nd., og var algjör samstaða um það þar. Þar komu fram aths. í umr. um málið um það, að ef til vill væri rétt að gera ráð fyrir því í þeirri breyt., sem á þessum lögum yrði gerð, að þó að talað væri um allt að 200 sjómílur út frá grunnlínum, þá skyldi þó miðað við miðlínu á milli landa, þar sem skemmra væri á milli landa en sem nemur 400 sjómílum. Þetta á við í þeim tilfellum, þar sem um er að ræða landhelgismörk á milli Íslands og Færeyja og Íslands og Grænlands. En þeir sérfræðingar, sem unnu að því að semja þetta frv., töldu réttara að hafa það orðalag, sem er í 1. gr. frv., en að setja inn í frv. nokkurn hlut um miðlínureglur, m.a. vegna þess, að það eru uppi ýmis sjónarmið um það, við hvað skuli miða þessar miðlínureglur. Það hefur því ekki þótt rétt né þörf á því að setja inn sérstök ákvæði af okkar hálfu, sem bindi okkur á þann hátt við sérstaka miðlínureglu. En það gefur hins vegar auga leið, að það er ætlun okkar að ganga til samninga t.d. við Færeyinga og Grænlendinga varðandi setningu marka á milli þessara landa samkv. þessari heimild, þegar þar að kemur, og yrði þá að sjálfsögðu stuðst við þau almennu ákvæði, sem viðurkennd væru í slíkum tilfellum af alþjóðlegum reglum.

Við þá athugun, sem fram fór á frv. í hv. Nd., varð sjútvn. þar einnig sammála um það, eftir að hafa hugað nánar að málinu, og sömuleiðis þeir hv. þm. í Nd., sem höfðu m.a. vakið máls á þessu, að réttast væri að hafa það orðalag í þessum efnum, sem er í gr., og gera hér ekki á breyt., þó að þetta væri sú hugmynd, sem á bak við stæði frá okkar hálfu, að miða við eðlilega miðlínureglu á milli landa, þar sem svona stendur á.

Ég tel mjög mikilvægt, að þessi breyt. nái fram að ganga og það sem fyrst, til þess að það liggi alveg ljóst fyrir, þegar Alþjóðahafréttarráðstefnan kemur saman, að við Íslendingar höfum þegar fest í lög hjá okkur heimild okkar til þess að taka okkur svona víðáttumikla fiskveiðilandhelgi. Það undirstrikar enn frekar afstöðu okkar í þessum efnum, og síðan yrði að sjálfsögðu á valdi íslenskra stjórnvalda að ákveða, hvenær tími er til að notfæra sér slíka heimild sem þarna væri þá komin í lög.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál í löngu máli hér að þessu sinni. Málið er þegar allmikið rætt og öllum vel kunnugt, og ég treysti á það, að hér geti orðið full samstaða um afgreiðslu á þessu máli, eins og tókst í hv. Nd. Ég skal því ekki lengja þessar umr, frekar, nema sérstakt tilefni gefist til.

Herra forseti. Ég legg til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn, til fyrirgreiðslu.