25.03.1974
Efri deild: 88. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

85. mál, vísindaleg verndun fiskimiða landgrunnsins

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég skal vera fáorður við þessa umræðu, þar sem ég hef aðstöðu til þess að skoða málið nánar í þeirri n., sem fær málið til meðferðar, sjútvn. En ég vil aðeins segja, að vitanlega erum við sammála um að taka undir það, sem í þessu frv. felst varðandi ákvæði um landgrunnslögin, og rétt er það, að við höfum alltaf byggt okkar aðgerðir, Íslendingar, varðandi útfærsluna á landgrunnslögunum, fyrst úr 3 í 4 mílur 1952, síðan úr 4 í 12 1958, og síðasta útfærsla landhelginnar í 50 sjómílur var einnig byggð á þessum sömu lögum. Hitt er svo annað mál, sem mér finnst fljótt á litið a.m.k. orka tvímælis í sambandi við orðalag, þegar talað er um „innan endimarka landgrunnsins“, að tengja það við þessa tölu, 200 sjómílur. Ég tel, að þetta sé ekki nógu athugað mál. Við munum eftir því, þegar landgrunnslögin voru samþykkt á sínum tíma, 1948, að þá var yfirleitt miðað við 200 m. dýpi. Núna eru hagnýtingarmörkin orðin miklu meiri, og við vitum í sambandi við síðustu útfærslu, að þá erum við komnir sem næst 700 m. dýptarlínu, þannig að landgrunnið getur ekki miðast við 200 mílna landhelgi eða neitt annað, sem hægt er að ákveða í dag. Endimörk landgrunnsins hljóta að verða miklu meira en 200 mílur innan ekki langs tíma, vegna þess að hagnýtingarmöguleikarnir varðandi sjálfar fiskveiðarnar ná miklu lengra út frá ströndinni en áður. Ég tel að athuga þurfi betur, þar sem stendur í frv. „innan endimarka landgrunnsins“, að hnýta það ekki saman við 200 sjómílurnar, því að það finnst mér ekki geta staðist, og í framtíðinni hljótum við að miða sjálft landgrunnið við hagnýtingarmörk, sem um er að ræða hverju sinni.