25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3075 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

61. mál, tannlækningar

Frsm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. þessarar hv. d. hefur að undanförnu haft til athugunar frv. til l. um tannlækningar. Málið er komið frá Ed., sem samþykkti það, sbr. nál. heilbr.- og trn. Ed., en með nokkrum brtt. Heilbr.- og trn. þessarar hv. d. mælir sömuleiðis með samþykkt þessa frv. með nokkrum breyt., sem liggja frammi á þskj. 544 og ég ætla með örfáum orðum að víkja nokkuð að.

1. brtt. n. á þessu þskj. er við 2. gr. frv. 1. mgr. Leggur n. til, að mgr. orðist svo:

„Leyfi samkv. 1. gr. skal veita þeim, sem lokið hefur prófi frá tannlæknadeild Háskóla Íslands og hefur meðmæli deildarinnar og landlæknis.“

Þessi breyt. gengur út á það, að fellt er niður ákvæði 2. gr. frv. um, að skilyrði til slíks leyfis sé m.a. íslenskur ríkisborgararéttur, og aðrar minni háttar breyt. eru líka fólgnar í þessari brtt. n., sem eru ljósar við samlestur á brtt. og sjálfu frv.

2. brtt. heilbr.- og trn. lýtur að 3. gr. frv. Þar er lagt til, að 2. mgr. 3. gr. falli niður, en hún hljóðar svo:

„Tannlæknadeild Háskóla Íslands getur sett það skilyrði fyrir meðmælum sínum, að umsækjandi sanni fyrir henni, að próf hans sé sambærilegt að gæðum við próf frá deildinni.“

Við teljum í n., að sú breyt., sem við leggjum til við 2. gr. og ég var hér að lýsa áðan, nái til þessa atriðis og þegar af þeirri ástæðu þurfi ekki að hafa það í frvgr.

3. brtt. lýtur að 4. gr. frv. N. leggur til, að hún falli niður. Við teljum í n. að hún sé ónauðsynleg miðað við þær breyt., sem við höfum lagt til við 2. gr. frv.

4. brtt. n. lýtur að 5. gr. frv. N. leggur til, að 1. mgr. orðist svo, A-liður:

„Ef nauðsyn krefur, má um stundarsakir fela tannlæknisefni, sem lokið hefur 10 missira námi við tannlæknadeild Háskóla Íslands, að gegna störfum tannlæknis eða aðstoðartannlæknis, þar sem aðstaða er fyrir hendi, en ekki hefur reynst unnt að fá tannlækni til starfa, og hefur hann þá tímabundið tannlækningaleyfi á meðan.“

Breyt. felst í því, að hér er lagt til, að tannlæknanemi á síðasta námsári geti öðlast þessi réttindi. Þessi breyting er gerð m.a. vegna tilmæla frá tannlæknanemum, og er hún gerð í samráði við rn, eða Jón Ingimarsson, sem af rn. hálfu var skipaður sem einu af þeim nm., er undirbjuggu frv. til l. um tannlækningar.

B-liður þessarar 4. brtt. lýtur að því að fella niður úr 2. mgr. 5. gr. orðið „jafnan“.

5. brtt. n. lýtur að 6. gr. frv. N. leggur til, að úr 1. mgr. falli niður „svo og tannréttingar og hvers konar gervitannagerð:“ Þetta er ekki mikil breyt. eða nánast engin efnisbreyt., en n. þótti réttara að leggja til, að þetta félli niður.

6. brtt. n. lýtur að 7. gr. N. leggur til, að 7. gr. orðist svo:

„Enginn tannlæknir má kalla sig sérfræðing, nema hann hafi fengið til þess leyfi ráðh. Tannlæknadeild háskólans setur reglur um nám sérfræðinga, er ráðh. staðfestir, og getur enginn fengið leyfi til þess að kalla sig sérfræðing, nema hann sanni fyrir tannlæknadeildinni, að hann hafi lokið slíku námi.

Tannlæknir á rétt á leyfi til að kalla sig sérfræðing, ef hann sannar fyrir tannlæknadeild háskólans, að hann hafi lokið tilskildu sérfræðinámi, og landlæknir mælir með leyfisveitingunni “

Þessi breyt. er gerð til samræmis við gildandi læknal. í landinu. N. fannst ástæðulaust annað en að hafa hér gildandi sambærilegar reglur um heimild tannlækna til þess að öðlast sérfræðingsheitið og gilda í hinum almennu læknalögum.

7. brtt. n. lýtur að 9. gr., sem lagt er til, að orðist svo:

„Tannlæknum er heimilt að hafa sérhæft starfsfólk, svo sem tannsmiði, tanntækna o.fl., enda hafi það, hvert á sínu sviði, hlotið löggildingu heilbrrh. að loknu viðurkenndu námi og prófi, svo sem mælt er fyrir í l. um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir. Enn fremur er tannlæknum heimilt að láta tannlæknisefni, sem lokið hefur 10 missira námi við tannlæknadeild Háskóla Íslands, aðstoða sig við tannlæknisstörf, að svo miklu leyti sem tannlæknir treystir þeim til og tannlæknadeild Háskóla Íslands mælir með.“

Hér er ekki um veigamikla efnisbreyt. að ræða að mínu viti og skýrir brtt. sig sjálf. Þá kem ég að síðustu brtt. n., þeirri 8. Hún lýtur að 12. gr. frv., sem n. leggur til, að falli niður. 12. gr. frv. lýtur að takmörkunum á heimild tannlækna til þess að auglýsa sjálfa sig og starfsemi sína, og er að finna í henni nokkuð sérstæðar reglur. Ástæðan til þess, að n. telur ekki þörf á og n. er alveg sammála um að hafa þessa gr. ekki inni í sjálfu frv., er sú, að í hinum almennu læknalögum er að finna reglu um heimildir lækna til auglýsingastarfsemi fyrir sjálfa sig og starfsemi sína, sem við teljum í n., að eðlilegast sé, að gildi líka um auglýsingar tannlækna. Auk þess sýnist n. eðlilegt, að Tannlæknafélag Íslands geti tekið hverjar þær aðrar reglur um þetta atriði, sem ekki er að finna í hinum almennu læknalögum, upp í sínar siðareglur, því að ég geri ráð fyrir, að tannlæknar hafi eins og margar aðrar háskólamenntaðar stéttir siðareglur til þess að fara eftir.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv. hér við 2. umr., en ítreka, að n. mælir með samþykkt frv. shlj. með þeim breyt., sem ég var að gera grein fyrir með örfáum orðum.