25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

129. mál, kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Félmn. hefur fjallað um frv. til l. um kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni, sem raunar er frv. til l. um kaupstaðarréttindi til handa Hólshreppi í N.-Ísafjarðarsýslu.

Nokkuð samtímis og þetta frv. kom fram bárust n. einnig frv. um kaupstaðarréttindi til handa tveimur öðrum stöðum, þ.e.a.s. Seltjarnarneshreppi og Dalvíkurkauptúni. Enn fremur hafði hv. Ed. borist sams konar frv. um kaupstaðarréttindi til handa tveimur öðrum stöðum, þ.e.a.s. Eskifirði og Grindavík. Það var því sýnt, að þarna voru á ferðinni 5 frv. öll sama eðlis, þ.e.a.s. um það, að hreppsfélög vildu fá kaupstaðarréttindi. Af þessu varð strax ljóst, að ekki yrði komist hjá, ef frv. yrðu samþ., eins og þau lágu fyrir, að stofna til allmargra embætta, þ.e.a.s. bæjarfógetaembætta, a.m.k. á þeim stöðum, þar sem ekki væri fyrir lögreglustjóraembætti eða sýslumaður ætti setu, svo sem var t.d. á Eskifirði og í Bolungarvík, en þar er lögreglustjóri, en á hinum 3 stöðunum hefði orðið að stofna alveg frá grunni bæjarfógetaembætti. Nú þykjast allir vera andvígir því, að embættismannakerfið þenjist út, og það var líka fljótt ljóst í hv. n., að mönnum hraus nokkuð hugur við því að stofna til fógetaembætta í sambandi við þessi frv. Var því haft samband við dómsmrn. um það, hvort hægt væri að afgr. þessi frv. með þeim hætti, að ekki yrði stofnað til bæjarfógetaembætta með öllu því, sem þeim fylgir, þrátt fyrir það að orðið yrði við vilja fólksins í heimahéruðum um það að stofnað yrði til kaupstaðar á þessum stöðum. Dómsmrn. var sama sinnis og nm., að gera bæri ráðstafanir til þess að komast hjá þessum embættastofnunum, ef unnt væri, og gerði till. um það til n. Einnig sendi n. þessi frv. til umsagnar svokallaðrar réttarfarsnefndar, og frá henni kom einnig álit þess efnis, að æskilegt væri, að ekki væri stofnað til nýrra embætta, ef hægt væri að komast hjá því, á meðan sú n. væri að athuga svipuð mál um dómaskipunina í landinu. Nm. voru sammála um, að taka bæri tillit til óska dómsmrn. og réttarfarsnefndar, með því líka að nm. höfðu frá öndverðu haft svipuð sjónarmið gagnvart þessum frv.

Hins vegar kom sú skoðun fram í hv. n., að við það, að þessir staðir öðluðust bæjarréttindi, yrðu sýslufélögin, sem þau hafa fram að þessu verið meðlimir í, miklu veikari eftir en áður. Að því leyti sem þessi fjölmennu kauptún, sem hér um ræðir, hafa í sínum sveitarfélögum staðið undir sameiginlegum gjöldum við rekstur sýslufélagsins, en færu nú út úr sýslufélaginu, þá risi þarna nýtt vandamál, sem rétt væri með einhverjum hætti að koma til móts við, þótt ekki væri hægt að gera það í sambandi við afgreiðslu þessara frv. Ég læt það koma hér fram, að það var vilji fyrir því í félmn., að það mál yrði tekið upp til nánari athugunar, hvernig væri hægt að veita sýslufélögunum, eins og þau verða eftir þessa breyt., fjárhagslegan stuðning, sem bæti þeim það skarð, sem þarna verður fyrir skildi, við það, að þessi fjölmennu kauptún verða ekki lengur greiðendur í t.d. sýsluvegasjóði, og kann að koma fleira til.

Hefur orðið niðurstaðan í félmn. að afgreiða öll frv. um kaupstaðarréttindi, þ.e.a.s. Seltjarnarneshrepps, Dalvíkurkauptúns og Bolungarvíkur, með sama hætti, að svo miklu leyti sem við á, og er lagt til, að þetta frv. um kaupstaðarréttindi til handa Bolungarvíkurkauptúni verði samþ., en með nokkrum breyt. Skal ég nú gera grein fyrir breyt., sem n. leggur til að gerðar verði:

1. Við 2. gr. Till. er um það að hún orðist svo:

„Lögreglustjórinn í Bolungarvík verður bæjarfógeti í Bolungarvíkurkaupstað. Hann hefur á hendi sömu störf og öðrum bæjarfógetum eru falin í sínum umdæmum og með þeim kjörum, sem þeim eru ákveðin.“

2. brtt. er við 3. gr., og hún er á þá lund, að gr. orðist svo:

Dómsmrh. skipar fyrir um, hvernig málum þeim við embætti sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu, sem varða hagsmuni í Hólshreppi og ekki eru útkljáð, þegar l. þessi öðlast gildi, skuli skipt milli sýslumannsins í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógetans í Bolungarvíkurkaupstað.“

Þannig er n. sammála um, að 3. gr. verði, en að vísu hefði alveg eins mátt skipa þessu á þann veg, að þetta væri í bráðabirgðaákvæði, og meira er um þess háttar efnisþætti, sem ættu þar kannske frekar heima, en n. gerði að till. sinni, að þetta yrði 3. gr. frv.

Þá flytur n. enn fremur brtt. við 6. gr. um það, að gr. orðist svo:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi fallin l. nr. 14 frá 25. jan. 1934“ — þ.e.a.s. lögin um lögreglustjóraembætti í Bolungarvík.

Þannig breytt leggur félmn. til, herra forseti, að frv. verði samþ.