25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3079 í B-deild Alþingistíðinda. (2749)

210. mál, umferðarlög

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur gengið í gegnum Ed., en þar hefur það tekið breyt. Þegar það var lagt fyrir hv. Ed. á sínum tíma, fjallaði það um tvö atriði. Annars vegar fól það í sér hækkun á vátryggingarfjárhæðinni í 70. gr. umferðarl. og hins vegar sérstaka fjáröflun til umferðarráðs. Það er svo, eins og kunnugt er, að umferðarlög leggja bótaábyrgð á hendur eigendum bifreiða og annarra skráningarskyldra ökutækja vegna slysa eða tjóna, sem hljótast af notkun þeirra, og gildir það jafnvel þótt slys eða tjón verði eigi rakið til bilunar eða galla á ökutæki eða ógætni annars. Vegna hinna miklu fjárhæða, sem um getur verið að ræða í hverju einstöku tjóni, og til að tryggja hagsmuni þeirra, sem fyrir tjóni verða, hefur þótt rétt að skylda eigendur ökutækjanna til að kaupa vátryggingu fyrir þessari áhættu. Eigi hefur þó til þessa þótt fært að skylda eigendur til að kaupa fulla vátryggingu á þessari áhættu, m.a. vegna kostnaðar og vegna annmarka, sem eru á því að fá endurtryggingu á slíkri áhættu. Þess í stað hafa eigendur verið skyldaðir til þess að kaupa lágmarkstryggingu, mismunandi háa eftir því, hvort um er að ræða bifreið, bifhjól. dráttarvél eða létt bifhjól. Þessar vátryggingarfjárhæðir hafa svo verið endurskoðaðar með nokkurra ára millibili, enda hefur verðlagsþróunin fljótlega gert þær úreltar. Vátryggingarfjárhæðirnar voru síðast hækkaðar á árinu 1970 með l. nr. 55 1970, voru ákveðnar 1 millj. fyrir létt bifhjól, 11/2 millj. fyrir dráttarvélar og bifhjól og 3 millj. fyrir bifreiðar, sem flytja mega 10 farþega eða færri, en vátryggingarfjárhæðin hækkar síðan um 200 þús. fyrir hvern farþega, sem flytja má umfram 10. Vegna verðlagsþróunar þeirrar, sem hefur orðið frá árinu 1970, er lagt til. að þessar vátryggingarfjárhæðir verði tvöfaldaðar, og á þetta sjónarmið hefur hv. Ed. fallist.

Hins vegar var svo jafnframt í þessu frv., þegar það var upphaflega lagt fram, ákvæði um það, að til umferðarráðs skyldi greiða 11/2% af iðgjöldum. Þetta ákvæði hefur hv. Ed. fellt niður.

Í framsöguræðu minni í hv. Ed. gerði ég nokkra grein fyrir störfum og verksviði umferðarráðs, hvaða fjárráð það hefur haft, hvaða óskir það hefur haft í því efni og að hve miklu leyti þær hafa verið teknar til greina. En með því að samþ. þá fjárveitingu með þessum hætti, sem lagt var til í þessu frv., má telja, að sæmilega vel hefði verið séð fyrir þörfum umferðarráðs. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði um þetta efni í Ed., en vil segja það, að ég geri ráð fyrir því, að öllum hv. alþm. sé ljós þýðing þess, að sem mest og best sé unnið gegn slysum, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að starfsemi umferðarráðs miðar að því. En þar sem ég ætla mér ekki að taka þetta ákvæði upp aftur í þessari d., þá ætla ég að sleppa því að fara um það fleiri orðum, en vil vísa hv. n., sem fær málið til meðferðar, á ræðu mína í hv. Ed. um þetta, ef hún hefur hug á því að kynna sér það.

Þá gerði hv. Ed. nokkra breyt. á þeirri sjálfsábyrgð, sem hver bifreiðareigandi ber, lækkaði hana nokkuð frá því, sem gert var ráð fyrir í upphaflega frv., en þar var gert ráð fyrir því, að sama hlutfallsgreiðsla ætti sér þar stað. Um það hef ég ekkert sérstakt að segja, það getur verið álitamál, hversu sú upphæð á að vera há. En ég fyrir mitt leyti er ekki í nokkrum vafa um, að það var rétt ákvörðun að taka upp þessa sjálfsábyrgð á sínum tíma. Hún hefur nokkuð stuðlað að því að draga úr slysum.

Ég sé svo, herra forseti, ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi. Ég veit, að hv. n. mun kynna sér það og getur þá fengið þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru í dómsmrn. varðandi þetta mál. Ég leyfi mér aðeins að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.