25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

249. mál, Landsvirkjun

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að tveimur nýjum heimildum verði hætt inn í lög um Landsvirkjun.

Í fyrsta lagi verði ríkisstj. heimilt að ákveða, að ríkissjóður láni Landsvirkjun allt að 350 millj. kr. með þeim kjörum, sem fjmrh. ákveður.

Í annan stað er lagt til, að ríkisstj. sé heimilt að taka lán og endurlána Landsvirkjun í þessu skyni.

Hér er um að ræða lið í fjármögnun Sigölduvirkjunar til viðbótar auknum höfuðstólsframlögum ríkisins og Reykjavíkurborgar, fé úr rekstri Landsvirkjunar og öðrum lántökum. Þetta er sami háttur og á var hafður í sambandi við Búrfellsvirkjun, og er gert ráð fyrir því, að lánið standi að baki stofnlánum annarra aðila til virkjunarframkvæmdanna, þannig að árlegar greiðslur afborgana og vaxta af því verði háðar nettótekjum Landsvirkjunar að frádregnum öðrum lánagreiðslum á hlutaðeigandi fjárhagsári Landsvirkjunar.

Þetta mál hefur verið til afgreiðslu í Ed., og um það var enginn ágreiningur þar, og ég vænti þess, að sú verði einnig raunin hér í hv. Nd. En ég vil leyfa mér að beina því til hv. iðnn., sem fær málið til afgreiðslu, að það væri mjög æskilegt, ef hægt væri að gera frv. þetta að l. sem allra fyrst. Það stendur þannig á undirbúningi að lántökunum, að það er þörf á þessari lagaheimild.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.