25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3085 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

Umræður utan dagskrár

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Sá samkomulagsgrundvöllur, sem hæstv. ríkisstj. ákvað fyrir helgi, í varnarmálunum, hefur ekki verið birtur opinberlega, en einn ráðh. hefur skýrt ítarlega frá honum bæði í sjónvarpi og í dagblaði. Það er ljóst, að meginefni þessa samkomulagsgrundvallar er það, að Ísland skuli varnarlaust eftir tvö ár. Ég lít svo á í fyrsta lagi, að allt bendi til þess, að þessi ákvörðun ríkisstj. sé í andstöðu við vilja meiri hl. Íslendinga. Í annan stað liggur ekkert fyrir um, að meirihlutastuðningur sé á Alþ. fyrir þessum grundvelli.

Á þessum fundi er málið rætt utan dagskrár, og vitanlega varð ekki hjá því komist að hefja hér umr. um þetta stórmál á hinum fyrsta þingdegi, eftir að stjórnin tók þessa ákvörðun. Hins vegar er nauðsynlegt, að Alþ. fjalli ítarlega um málið og ræði það fyrir opnum tjöldum. Ég vil því beina þeirri áskorun til hæstv. forsrh., að hann hlutist til um, að á næstu dögum verði umr. í Sþ. um þessi mál sem sérstakur dagskrárliður, þar sem hægt er að fá nægilegt svigrúm og nægan tíma fyrir þingmenn til að ræða málið og láta í ljós skoðanir sínar. Í annan stað tel ég, eins og þetta mál er allt vaxið, að ekki komi til mála, að hæstv. utanrrh. fari til samningaviðræðna með þetta veganesti fyrr en málið hefur verið rækilega rætt á Alþ. Ég endurtek þá áskorun, raunar þá kröfu til hæstv. forsrh., að hann hlutist til um, að næstu daga fari hér fram umr. í Sþ. um þetta mál.