25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3085 í B-deild Alþingistíðinda. (2757)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti: Þessar umr. hafa spunnist út af drögum að viðræðugrundvelli um endurskoðun á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Og það er kannske vert að byrja á botninum hjá hv. fyrsta fyrirspyrjanda, þar sem hann spurðist fyrir um það, hvort það væri ekki hægt að birta þessi samningsdrög. Það er hægt að birta þessi samningsdrög nú, af því að þau hafa verið kynnt viðsemjendum. Þau hafa verið kynnt og birt í utanrmn., og það er sá eðlilegi háttur, þegar um utanríkismál er að tefla, af því að utanrmn. má skoða sem eins konar umboðsmann Alþ. í þeim málefnum, af því að oft eru þau mál þannig vaxin, að það er ekki heppilegt að ræða þau fyrir opnum tjöldum. Þau snerta aðra, annað ríki eða önnur ríki, og geta oft verið á því stigi, að það væri til engra bóta að fara að ræða þau opinberlega. Ég sé hins vegar ekkert því til fyrirstöðu, úr því að þessi drög að viðræðugrundvelli hafa nú verið kynnt viðsemjendum og þau hafa verið birt, að ég kynni þingheimi þau.

Þessi drög að viðræðugrundvelli um endurskoðun á varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna eru svo hljóðandi:

1. Varnarlið það, sem nú er á Íslandi, skal hverfa af landi brott í áföngum. Skal brottflutningnum hagað þannig, að fyrir árslok 1974 verði fjórðungur liðsins farinn, helmingur fyrir mitt ár 1975, 3/4 fyrir árslok 1975 og síðasti hlutinn fyrir mitt ár 1976. — Hér er sem sagt gert ráð fyrir því, að varnarliðið hverfi brott af Íslandi í áföngum á tveimur árum. Síðan segir:

2. Til fullnægingar skuldbindingum Íslands við NATO leggur íslenska ríkisstj. til, að eftirfarandi háttur verði á hafður.

a. Flugvélar á vegum NATO hafi lendingarleyfi á Keflavíkurflugvelli, þegar þurfa þykir vegna eftirlitsflugs yfir norðurhöfum. Þó skal eigi vera hér föst bækistöð flugvéla. Um nánari ákvæði verði fjallað í samningnum.

b. Vegna slíkra lendinga hafi NATO heimild til að hafa á Keflavíkurflugvelli hóp manna, er ekki séu hermenn, til þess að sjá um eftirlit áðurgreindra flugvéla. Um tölu þessara tæknimanna fer eftir nánara samkomulagi, þó þannig, að aðeins verði um takmarkaða starfsemi að ræða.

c. Eftir brottför varnarliðsins taka Íslendingar við löggæslu á flugvellinum. Skulu Íslendingar áður þjálfaðir í þeim sérstöku löggæslustörfum, sem þörf er á.

d. Íslendingar skulu leggja til þann mannafla, sem þarf til að veita þeim aðilum, sem samkv. framansögðu hafa dvöl á Keflavíkurflugvelli, nauðsynlega þjónustu.

e. Íslendingar taka við rekstri radarstöðvanna á Suðurnesjum og í Hornafirði, þegar þjálfaður íslenskur mannafli er til taks.

f. Farþegaflug skal vera algerlega aðskilið frá þeirri starfsemi, er samkv. framansögðu verður haldið uppi á Keflavíkurflugvelli til fullnægingar skuldbindingum Íslands við NATO.

Ég tel, að þessi drög að viðræðugrundvelli um endur skoðun á varnarsamningnum séu í samræmi við málefnasamning ríkisstj. Ég held, að það þurfi ekki að koma neinum hv. alþm. á óvart, þó að ríkisstj. framkvæmi þann málefnasamning, sem hún hefur gert. Það hafa svo sem heyrst raddir um, að ríkisstj. ætlaði sér að svíkja þetta ákvæði, en það hefur aldrei verið meiningin. Ríkisstj. ætlar sér að standa við þau orð, sem hún hefur sett fram í málefnasamningi. Hún ætlar a.m.k. að gera heiðarlega tilraun til þess. En eins og í öllum öðrum málum er æðsta valdið í málefnum Íslendinga í höndum Alþ., og það verður þess vegna Alþ., sem segir síðasta orðið í þessum efnum. En ég held því fram, að einmitt þetta, að varnarliðinu er ætlað að fara eða ríkisstj. gerir fyrir sitt leyti till. um það í þeim viðræðum, sem fram eiga að fara við Bandaríkjamenn, að varnarliðið fari brott af landinu í áföngum, sé í samræmi við málefnasamninginn. Sú till. frá hendi ríkisstj. kemur Bandaríkjamönnum áreiðanlega ekki á óvart. Og ég held, að það sé ekki hægt að segja, að það sé komið aftan að einum eða neinum með slíkum till. af hendi ríkisstj. Ég held, að það sé ekki hægt að saka ríkisstj. um að hafa farið óðslega að neinu í þessu efni.

Að því er lýtur að síðari kafla þessara draga að viðræðugrundvelli, eru þau líka algerlega í samræmi við málefnasamninginn, þar sem því er lýst yfir, að Ísland verði að óbreyttum aðstæðum í NATO, og af því leiðir, að það verður að fullnægja þeim skuldbindingum, sem á því hvíla gagnvart NATO, á meðan það er í þessum samtökum. Það tel ég það gera með þessum samningsdrögum. Auðvitað geta aðrir verið á öðru máli, og skoðanir geta verið skiptar um það hér á Alþ., og auðvitað geta viðsemjendur okkar verið á öðru máli um það, það kemur á daginn. En þarna er gert ráð fyrir því, að flugvélar á vegum NATO hafi hér lendingarleyfi, og þó að það sé í samræmi við ákvæði málefnasamningsins að tala þarna um flugvélar á vegum NATO, þá er þess að geta, að það er fullt samkomulag um það innan ríkisstj., að þarna sé í raun átt við flugvélar Bandaríkjamanna, vegna þess að hér er um að ræða samning við Bandaríkjamenn, sem að vísu var í öndverðu gerður samkv. tilmælum Atlantshafsbandalagsins og að nokkru leyti að segja má í umboði þess. En ég vil segja það sem mína skoðun, að ég er algerlega andvígur öllum hugmyndum um það, að hér verði einhverjar flugvélar frá fleiri þjóðum innan Atlantshafsbandalagsins. Ég er algerlega andvígur þeim hugmyndum og mun ekki ljá máls á þeim, á meðan ég veiti ríkisstj, forstöðu. Ég tel, að í þessu falli sé skynsamlegast og hagsmunum Íslands best borgið með því að eiga um þessi mál við Bandaríkjamenn eina.

Það er ekki miðað við það í þessum a-lið 2. gr., að ástand verði í þessum efnum óbreytt frá því, sem hér er nú. Það er ekki gert ráð fyrir því, að um verði að ræða reglubundnar skiptiflugsveitir. Það, sem við höfum í huga, er, að hér geti átt sér stað svipuð skipan og mun vera í Noregi og Danmörku, og leyfir sér enginn að halda því fram, að þar sé erlent varnarlið. En það vita líka jafnframt allir, að flugvélar NATO- ríkja hafa þar aðgang að og afnot af flugvöllum. Og það felst í þessu ákvæði eða á að felast að okkar dómi, að Ísland geti eftir sem áður með þessari skipan, sem upp verður tekin, gegnt sínu hlutverki sem hlekkur í eftirlitskerfi NATO í norðurhöfum.

Það er í b-liðnum talað um það, að NATO, — en í raun og veru er þar átt við Bandaríkjamenn, — hafi heimild til að hafa á Keflavíkurflugvelli tæknimenntaða menn til þess að sinna þjónustu við þessar flugvélar. Það er vitað mál og þýðir ekkert að loka augunum fyrir því, að þeir leyfa ekki öðrum en eigin mönnum að fara inn í þessar flugvélar, og þess vegna er það, að ef við ætlum að leyfa þessum flugvélum að lenda hér, þá verðum við líka að leyfa liði eða sveit að vera þar til staðar til þess að sinna nauðsynlegum tækniþjónustustörfum við þessar flugvélar.

Það er ekki sagt í þessu ákvæði, hvað þessir menn skuli vera margir. Það er gert ráð fyrir því og sagt, að það skuli vera um takmarkaða starfsemi að ræða. Það er eins og er rétt, að það hefur verið rætt um það eða réttara sagt hefur verið nefnd sú tala í ríkisstj., að þarna gæti verið um að tefla ca. 200 manna hóp. En það segir fyrst og fremst í þessu, að um tölu þessara tæknimanna fer eftir nánara samkomulagi.

Ég held, að í sjálfu sér þurfi hin ákvæðin ekki beint skýringa við, nema hvað ég geri ráð fyrir því, að flestir Íslendingar telji það liggja í hlutarins eðli, að Íslendingar þurfi fyrr en síðar að taka að fullu og öllu í hendur sínar löggæslu á Keflavíkurflugvelli. Ég held, að flestir Íslendingar verði á það sáttir, að ekki sé annað sæmandi en að þannig sé frá málum gengið. Til þess þarf að vísu verulegt lögreglulið, og það þarf verulega sérþjálfaða menn í þeim efnum, og vitaskuld verður ekki hægt að taka þessa skipan upp, fyrr en hefur tekist að þjálfa menn fullkomlega til slíks. Þetta kostar peninga, en mér dettur ekki í hug að efast um, að það standi á nokkrum einasta hv. alþm., þegar þar að kemur að veita nægilegt fé til þess að standa undir kostnaði við þessa óhjákvæmilegu gæslu, sem verður að hafa á alþjóðlegum flugvelli.

Þetta eru, eins og ég hef margsagt, drög að viðræðugrundvelli, sem utanrrh. fer með til fundar við hlutaðeigandi aðila í Bandaríkjunum, og það var auðvitað fyrst gert ráð fyrir því, að þá fyrst yrðu þessi drög lögð fram formlega og opinberlega, þegar utanrrh. væri mættur til þess fundar. Ég vænti þess, að sá fundur geti átt sér stað fljótlega, þó að ekki geti orðið af því í þessari viku. Þá fer auðvitað sá fundur fram eins og hverjir aðrir viðræðu- og samningafundir. Það þarf ekki að ræða um það hér, að þetta eru engir úrslitakostir, það liggur ljóst fyrir. Og ég held, að það sé engin deila um það á milli ráðh. Eftir því sem ég hlýddi á skýringar og yfirlýsingu, sem kom frá Magnúsi Kjartanssyni í ríkisútvarpinu að gefnu tilefni, þá tók hann það alveg skýrt fram, að hér væri ekki um úrslitakosti að tefla, þannig að það er enginn ágreiningur um það efni á milli ráðh. Það er öllum ljóst, að hér er ekki um neina úrslitakosti að ræða. Ef svo hefði verið, hefði verið alveg óþarft að vera að senda hæstv. utanrrh. til viðræðufundar, það hefði mátt senda úrslitakostina í pósti og fá svar við þeim. Þannig högum við ekki okkar samningagerð. Ég geri ráð fyrir því, að viðsemjendur okkar muni hlýða með athygli á mál utanrrh. Ég geri ráð fyrir því, að þeir muni taka þessar till. okkar til skoðunar, e.t.v. tjá sig að einhverju leyti á þessum viðræðufundi. Hitt þykir mér ekki ólíklegt, að þeir óski eftir einhverjum fresti til þess að fjalla um þessar till., og hugsanlegt er, að þeir, að þeim fresti liðnum, leggi fram einhverjar gagntill. um þetta efni, og þá er það auðvitað svo, að ríkisstj. mun skoða þær till. Öðruvísi fara samningar ekki fram.

Hitt liggur svo í augum uppi, að með málefnasamningnum hefur ríkisstj. í þessum efnum markað sér ákveðna stefnu. Hún hefur sagt það skýrt og skorinort, að hún ætli að láta varnarliðið fara frá Íslandi í áföngum. Það er hennar stefna.

Hverjir þeir áfangar eru eða verða, er ekki markað í málefnasamningnum. En hitt gefur auga leið, að ef það er ekki lengur grundvöllur til þess að koma fram þessari stefnu á skemmri eða lengri tíma, þá er grundvöllurinn fyrir þessari ríkisstj. hruninn. Þetta er að sjálfsögðu, eins og allir gera sér ljóst, slíkt meginatriði í stjórnarsamningnum, og þess vegna hlýtur ríkisstj. að taka afleiðingunum af því, ef hún kemur ekki fram í samningaviðræðum ákvörðunum í þessa átt. Hitt er svo annað mál, eins og ég sagði áðan, að ríkisstj. hefur ekki í þessum efnum fremur en öðrum síðasta orðið. Það er Alþ. Því hefur verið marglýst yfir, bæði af utanrrh. og mér, að áður en lýkur, kemur þetta mál til kasta Alþ., hver sem niðurstaðan verður af þessum samningaviðræðum. Það er hin rétta lýðræðislega meðferð á þessu máli. Það er Alþ. Íslendinga, sem á að taka ákvörðun um mál eins og þetta, það eru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, kjörnir til ákveðins tíma, óbundnir af öllu nema sinni sannfæringu, óbundnir af öllum fyrirmælum frá kjósendum, óbundnir af öllum fyrirmælum frá sínum þingflokkum, sem eiga að taka ákvörðun um þetta mál. Umboð þm. er til fjögurra ára, — það verður ekki aftur kallað, eins og sums staðar er háttur, — en þeir verða að standa reikningsskap sinna gerða að kjörtímabili loknu og sækja umboð sitt að nýju til kjósenda. Þannig er lýðræði á Íslandi háttað. Hitt er ekki íslenskt lýðræði, að láta fundarsamþykktir ráða, að láta undirskriftir ráða, hvort sem þær eru fjölmennar eða fámennar. Það eru þessir menn, sem hér sitja, samkv. þeirri yfirlýsingu, sem þeir hafa undirritað, og samkv. þeirri ábyrgð, sem þeir bera, sem eiga að taka ákvörðun um þetta mál, en ekki hv. kjósendur í undirskriftasöfnun, sem ekki hafa aðstöðu til þess að meta og vega allt, sem fyrir liggur og menn þurfa að hafa fyrir augum, þegar þeir taka ákvörðun í jafnviðkvæmu og vandasömu máli og þessu.

Þess vegna er það, þó að það sé skylda ríkisstj. að fylgja fram sínum málefnasamningi, þá verður það að ráðast og sjást, hvort meiri hl. á Alþ. er sama sinnis, þegar þar að kemur. En ég held fyrir mitt leyti, að það væri skynsamlegt að spara sem flestar yfirlýsingar og afstöður um málið, þangað til spilin öll liggja á borðinu.

Ég hef sagt það áður, að ég muni telja mér skylt skv. málefnasamningnum að leggja fyrir Alþ. till. um heimild til þess að segja varnarsamningnum upp, ef ekki næst með endurskoðun á honum viðunandi lausn, og við það mun ég að sjálfsögðu standa. Hitt, hvort forsrh. telji sér skylt að leggja fram uppsagnartill., ef allir flokkarnir í ríkisstj. séu ekki sammála um það, þá held ég, að sé réttara að setja það fram á annan veg. Það verður auðvitað ekkert samkomulag í ríkisstj. um t.d. tilboð, sem koma frá gagnaðilum, nema allir ríkisstjórnarflokkarnir séu þar um sammála. Það liggur ljóst fyrir. Og ef ekki er lengur samkomulag um það, þá hefur auðvitað alltaf sá flokkur, sem ekki vill samþykkja, þann kost að segja sig úr stjórninni, en eftir sem áður mundi ég telja mér skylt að leggja slíka uppsagnartillögu fyrir Alþingi, þ.e.a.s. á meðan stjórnin væri ekki augljóslega komin í minni hl., en þá auðvitað teldi ég mér skylt að segja af mér. Það liggur nokkuð í hlutarins eðli.

Ég held, að ég hafi nú svarað þeim spurningum, sem var beint til mín, og það ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir, hvað við teljum, að eigi að felast í þessum drögum að viðræðugrundvelli, sem utanrrh. fer með til Bandaríkjanna og ég fyrir mitt leyti hef ekki ástæðu til að efast um, að Bandaríkjamenn munu taka til alvarlegrar íhugunar.

Það er tekið skýrum stöfum fram í varnarsamningnum, að það sé og skuli vera á valdi Íslendinga sjálfra að ákveða, hver fjöldi erlendra her~anna er á Íslandi. Og það var aldrei ætlunin, þegar varnarliðið var tekið hér inn í landið, að það yrði varanleg herseta hér á landi. Þvert á móti voru ekki nema 4 eða 5 ár liðin, frá því að það átti sér stað, þangað til fitjað var upp á því á Alþ., að þessi samningur skyldi tekinn til endurskoðunar og varnarliðið skyldi látið fara. Sá flokkur, sem átti frumkvæðið að tillöguflutningi um það efni, var Alþfl. Það var Alþfl., sem flutti till. um það efni á Alþ. 1955–1956, líklega var það fyrir áramót, sem hann flutti sína till. Hins vegar varð svo samkomulag milli 3 flokka um afgreiðslu þeirrar till, og henni lítillega breytt, en þannig var hún afgreidd á Alþ. 1956. Það var því vakandi áhugi á því, að dvöl erlends varnarliðs hér yrði ekki varanleg. Sú endurskoðun, sem þá var stofnað til í því skyni, að varnarliðið færi af landi brott, komst ekki í framkvæmd vegna utanaðkomandi atvika, og það er nú svo, að við verðum að sætta okkur við það Íslendingar, að við ráðum ekki veröldinni. Það komu til utanaðkomandi áhrif og geta alltaf komið til utanaðkomandi áhrif, sem við verðum að taka tillit til. En það var gerður samningur um niðurfellingu þessara endurskoðunarviðræðna, sem birtur var 1956 og er að finna einmitt í samningum Íslands við önnur ríki. Þar lýsa Bandaríkin fullum skilningi sínum á þeim fyrirvörum, sem íslendingar settu við inngöngu í NATO. Og meira en það, þeir undirstrika það, að þeim sé ljóst, að það sé enn og eigi að vera algerlega á valdi Íslendinga sjálfra, hvort erlendur her sé í landinu eða ekki.

Ég endurtek, að það, sem hér hefur gerst, þarf engum að koma á óvart. Það er bein skylda þessarar ríkisstj. að gera þessa tilraun til þess að ná þeim markmiðum, sem sett eru fram í málefnasamningi hennar. Og þetta eru ekki úrslitakostir, heldur munum við skoða þær till., þær hugmyndir, sem koma frá okkar viðsemjendum, og við verðum að vega það og meta, hvort þær eru þess eðlis, að þær geti farið saman við þau markmið, sem við settum í okkar málefnasamningi. Þegar það liggur fyrir og þá fyrst, þá held ég, að tími sé kominn til mikilla yfirlýsinga, og þá fyrst er kominn tími til þess að fara með þetta mál til Alþingis.

Ég held, að það sé staðhæfing hjá hv. þm. Gunnari Thoroddsen, sem hann getur ekki rökstutt, að meiri hl. Íslendinga sé í andstöðu við þetta. Hann getur að vísu sagt, að það væri órökstudd fullyrðing hjá mér, ef ég segði, að meiri hl. Íslendinga væri þessu sammála. Hvort tveggja eru staðhæfingar. En það eru hv. alþm., sem hér sitja, sem eiga að taka ákvörðun um þetta. Þeir hafa fengið til þess alveg fullkomið umboð frá Íslendingum, eins og til þess að taka ákvarðanir um önnur málefni, og verða svo að taka afleiðingum af því, ef meiri hl. Íslendinga er á annarri skoðun um þetta efni.

Ég get ekki skoðað hjörtu eða nýru hv. alþm., og ég get ekki verið með neinar fullyrðingar um það, eins og hv. 5. þm. Reykv., að hann efaðist um það, að meiri hl. á Alþ. væri fyrir þeirri málsmeðferð, sem hér er um að tefla. Það er hægurinn hjá þeim, sem það vilja vefengja, að bera fram till., þar sem úr fæst skorið um vilja Alþ. í því efni. Þangað til hún kemur fram og er samþykkt, mun ég hafa það fyrir satt, að þessi málsmeðferð sé í samræmi við vilja meiri hl. hv. alþm. Ég held þess vegna, að það sé ekki í sjálfu sér til neinna bóta fyrir þetta mál og fyrir okkar þjóð, að það sé farið að stofna til almennra umræðna á Alþ. um málið á þessu stigi. En ekki skal ég skorast undan því, ef aðrir vilja taka það upp. Ég held, að hitt sé, eins og ég þegar hef sagt, betra, að bíða þess og sjá, hvað kemur út úr þessum viðræðum, og þá sé réttur tími til að taka málið til umr. á Alþ. Og ég held, að þetta mál sé þannig vaxið, að það sé best að ræða það með sem minnstum hita á þessu stigi og íhuga það rólega og athuga það, hrapa ekki að neinu og spara sér of miklar fyrir fram yfirlýsingar, áður en vitað er, hvernig forsendurnar verða, þegar öll kurl eru komin til grafar.