25.03.1974
Neðri deild: 89. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (2765)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Tilefni þess, að ég segi hér örfá orð, eru ummæli hæstv. iðnrh., sem hann lét falla um skrif Morgunblaðsins m.a. En áður en ég kem að því atriði, langar mig til að fá að víkja fáum orðum að tveim eða þrem efnisatriðum, sem ekki hafa komið fram í þessum umr., en er ástæða til að vekja athygli á.

Ég held, að enginn Íslendingur hafi á s.l. 23 árum haft um það fleiri orð en hæstv. iðnrh., hver höfuðglæpur hafi verið framinn, þegar varnarsamningurinn var gerður árið 1951. Hann hefur kallað hann flestum illum nöfnum, landráðasamning og annað í þeim dúr, sagt að þm. hafi verið smalað saman að næturlægi utan þingfunda til að svíkja land sitt o.s.frv., o.s.frv. Nú kemur þessi sami maður í ræðustól hér á hinu háa Alþ. og fer að hæla þessum samningi, lesa upp 4. gr. hans, þar sem segir, svo að ekki verður um villst og réttilega á það bent af ræðumanni, að Íslendingar hafi auðvitað allt vald til þess að láta herinn fara, hvenær sem þeim svo sýnist.

En hvað er að gerast nú? Á grundvelli þessa samnings samþykkir þessi hæstv. ráðh. og hinn ráðh. Alþb. að taka á sig bæði pólitíska og stjórnskipulega ábyrgð á þessum ofboðslega samningi. Það fer ekki á milli mála. Á grundvelli þessa samnings á nú að semja við Bandaríkjamenn, að vísu um það, að herliðið hverfi að mestu leyti á brott og yfirleitt það lið, sem gæti verið okkur Íslendingum til varnar. En hins vegar á að ívilna bandalagsþjóðum okkar nokkuð. Það á að veita þeim aðstöðu, þ. á m. að nokkur hundruð hermenn a.m.k. verði hér „um aldur og ævi“, skilst manni. Er það ekki orðalagið? Ekkert er tekið fram um það, að þeir eigi héðan að hverfa. Eða veit það ekki hver maður, bæði forsrh. og aðrir, að þeir 200 menn, sem hann nefndi, sem eiga að sjá um viðhald á herflugvélunum, eru auðvitað hermenn, þeir eru undir heraga. Hann benti á, að Bandaríkjamenn mundu ekki láta neina útlendinga fara um borð í þessar vélar, vegna þess að þær væru hernaðarleyndarmál. Þeir láta ekki heldur neina Bandaríkjamenn um borð í þær vélar, nema þeir séu undir heraga, þeir séu hermenn. Það getur vel verið, að þeir hafi verið settir í Gefjunarföt, en hermenn eru þeir engu að síður. Á þessu ætlar hæstv. iðnrh. að taka ábyrgð, stjórnskipulega og pólitíska. Þetta er rétt, að menn hafi í huga.

Annað atriði: viðræðugrundvellinum sjálfum stendur, að þetta og hitt eigi að gera, til þess að við Íslendingar fullnægjum skuldbindingum okkar við NATO. Hvenær höfum við Íslendingar skuldbundið okkur til þess að hafa her á Íslandi um aldur og ævi Ég spyr. Það höfum við aldrei gert. Það var tekið fram við gerð Atlantshafssáttmálans, að við mundum ekki hafa hér her á friðartímum. Það held ég, að allir viti eða ættu að vita. Nú segir hæstv. ríkisstj. og miðstjórn Alþb., að við höfum þær skuldbindingar við NATO að hafa hér her um aldur og ævi. Ég mótmæli því. Undir það vil ég aldrei gangast.

Þetta eru líka staðreyndir, sem ekki verða hraktar.

Hæstv. forsrh. svaraði fsp. hv. þm. Hannibals Valdimarssonar á þann veg, að um væri að ræða ekki bara viðræðugrundvöll, heldur drög að viðræðugrundvelli. Ef þetta væri viðræðugrundvöllur, þá liggur í hlutarins eðli, að hæstv. utanrrh. hefur rétt til þess að víkja eitthvað frá honum, hann á að ræða málin fram og til baka. En þegar það eru bara orðin drög að viðræðugrundvelli, þá getur það nú varla staðist, sem hæstv. iðnrh. segir, að þetta sé fastmælum bundið o.s.frv., o.s.frv., eins og hv. þm. Hannibal Valdimarsson vék hér réttilega að. Nei, annaðhvort er hæstv. iðnrh. opinber ósannindamaður eða hann verður að koma því á blaðamenn Þjóðviljans, að þeir hefðu falsað ummæli hans, og vel gæti ég svo sem trúað honum til þess.

Hæstv. iðnrh. hafði mjög mörg og fögur orð um það, að þetta væru engir úrslitakostir, við vildum samkomulag við Bandaríkjamenn og að utanrrh. væri að fara til Bandaríkjanna til viðkvæmra samningaumr. og þess vegna mættu vondir menn ekki vera að reyna að spilla fyrir, sundra þjóðinni o.s.frv. Í næstu setningu segir hann: Það eru til vondir menn á Íslandi, sem segja, að við eigum að semja við Bandaríkjamenn. Það voru árásirnar á Morgunblaðið, sem sagt hefði að við ættum að semja við Bandaríkjamenn. Sjálfur er hann búinn að margsegja: Þetta á allt að vera með samkomulagi, samningaviðræður eiga að fara fram. Nei, nei. Svo eru einhverjir aðrir, sem eru hreinir landráðamenn, af því að þeir hafa sagt, að við þurfum að semja við Bandaríkjamenn. Það hefur Morgunblaðið aldrei sagt. Við þurfum ekki að semja við Bandaríkjamenn um eitt eða neitt. Auðvitað getum við sagt upp herverndarsamningnum og það nú þegar. Hér í dag gæti Alr~samþykkt það. Og Bandaríkjamenn mundu auðvitað fara í burtu. Það víta allir menn. Og svo kemur þessi maður og er að bera saman ástand á Íslandi og í Tékkóslóvakíu. Það er hans uppáhaldsiðja. Mundi rússneska herliðið fara frá Tékkóslóvakíu, ef Tékkar bæðu um það? Auðvitað ekki, það vita allir menn.

Ég fagna mjög eindregnum yfirlýsingum forsrh. um það, að málið komi til endanlegrar afgreiðslu Alþ. Hann vék að því, að stjórnarandstæðingar gætu flutt um það till., að Alþ. væri andvígt þeim drögum að viðræðugrundvelli, sem utanrrh. á að fara með til Bandaríkjanna. Ég spyr nú hæstv. forsrh.: Væri ekki eðlilegra, að hann sjálfur og ríkisstj. leitaði eftir því hér á Alþ., hvort stuðningur við þetta ákvæði málefnasamningsins, sem aldrei hefur verið undir Alþ. borið, hvort stuðningur er við þessar till., sem hæstv. utanrrh. á að fara með til Bandaríkjanna? Væri það nú ekki vel gert við hæstv. utanrrh. að leita eftir því hér á Alþ. með því, að stjórnin sjálf kannaði það? Auðvitað ber stjórnin og ráðh. — þá auðvitað lýðræðisflokkanna fyrst og fremst — mikla ábyrgð í þessu efni, og mér finnst það eðlilegra, að þeir hafi á þessu stigi að því frumkvæði, fremur en að einhver okkar stjórnarandstæðinga bæri fram þessa till. Þeim er það í lófa lagið að fá að vita um þetta. Þeir hafa aldrei kannað það, hvort Alþ. íslendinga styður þetta ákvæði málefnasamningsins. Forsrh. gat þess réttilega og drengilega, að það væru alþm., sem að lokum tækju afstöðu, en ég held, að það væri styrkur fyrir hann og ríkisstj. í heild að vita, hvort Alþ. styður þá í þessu máli eða ekki.