26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka form. allshn. fyrir það, sem hann sagði hér. Það er rétt, að ég sagði, að mér þætti það miður, ef n. Alþ. legðust á mál. Ég er á þessu stigi að tala um þetta eina mál, sem er fjallað um í allshn. Sþ. Það er ekki útilokað, að það sé hægt að finna fleiri dæmi, bæði innan Sþ. og eins innan deilda þingsins, og það kannske kemur að því síðar, að það þurfi að spyrja líka um það. En það er engin afsökun fyrir hv. form. þessarar n., þó að einhverjir aðrir séu líka slælegir í störfum. (Gripið fram í.)Ég tel, að menn þurfi að afsaka það, ef á að taka a.m.k. tvö þing í röð að fá afgreiðslu á máli úr n., sem er þó ekki, að því er mér hefur virst eða neinum þm., neitt ágreiningsmál hér á Alþ. Það hefur ekki mér vitanlega neinn hv. alþm. talað gegn þessu máli. Það ætti því að vera auðvelt að koma því máli út úr n. Það ætti ekki að þurfa tvö ár í röð til þess að afgreiða slíkt.

Hann vék að fjvn. Það má rétt vera, að þessi hv. þm, hafi, ef hann ber fyrir brjósti einhver mál, sem lagst hefur verið á í fjvn., hinn sama rétt og ég til þess að kvarta um það hér á þingi og gera um það umkvörtun við formann. Það hefur hann ekki gert, þannig að það verður að lifa svo á, að hann hafi samþykkt þetta með sínu þunna hljóði, þ.e., að gera ekki aths. við neitt af því, sem liggur í fjvn. Og það eru engin rök heldur fyrir því, að svona mál skuli ekki fást afgreitt út úr allshn. Sþ., sem búið er að vera í n. í tvö ár. Það er því að fara til hliðar við það, sem um er að ræða. Það hefur verið á þetta mál lagst, það var á síðasta Alþ., og ég var farinn að óttast, að það ætti líka að gera það á þessu þingi. En ég gleðst yfir því, að form. n. hefur nú lýst því yfir, að það sé von afgreiðslu fleiri mála úr allshn. en nú þegar hafa komið, og ég vænti þess fastlega og reyndar sagði hann, að þetta mál muni vera eitt af þeim. Ég þakka fyrir það, þó að seint sé.