26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (2770)

Afgreiðsla mála úr nefndum

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Þessar fjörugu umr. gefa mér tilefni til að koma fram með eina hógværa ábendingu, en svo er mál með vexti, að á öðrum eða þriðja degi þingsins, flutti ég ásamt nokkrum hv. þm. öðrum frv. til l. um happdrættislán vegna Norðurlandsvegar. Þetta frv. er enn ekki komið úr n. Það var sent til fjvn.- og viðskn., svo sem ég taldi eðlilegt og forseti hv. Nd. taldi eðlilegt, en hins vegar var flutt annað frv. svipaðs eðlis um happdrættislán vegna Djúpvegar og sent í aðra n. Hún var athafnasamari og kom málinu frá sér, og það hefur þegar verið afgreitt í Nd.

Ég vil mælast mjög eindregið til þess, að ekki verði dráttur á því, að frv. þetta komi úr n., þannig að það fái þinglega afgreiðslu. Ég tel, að landsmenn almennt séu mjög fúsir til að verja fjármunum sínum til kaupa á veðskuldabréfum með þessum hætti, einmitt vegna vegaframkvæmda. Þeir Vestfirðingar munu vafalaust kaupa happdrættisskuldabréfin vegna Djúpvegarins. Og ég hygg, að það frv. hafi í Nd. verið samþ. einróma. Ég efast ekki um, að hitt frv. fái sömu afgreiðslu og að fjár til vegaframkvæmda verði í stöðugt ríkara mæli aflað einmitt með þessum hætti. Sem sagt, ég vona, að það dragist ekki lengur, að þetta mál komi til afgreiðslu í þd.