26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

270. mál, greiðslur vegna Laxárdeilu

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Á þskj. 524 bar varaþm. Bragi Sigurjónsson fram svohljóðandi fsp, til hæstv. forsrh.:

„1. Hefur gerðardómur gengið (sbr. sáttasamning 19. maí 1973) um skaðabótakröfur landeigenda við Laxá og Mývatn á hendur Laxárvirkjun, og hve háar greiðslur hafa þá verið úrskurðaðar?

2. Hversu mikið hefur ríkissjóður greitt vegna kostnaðar Landeigendafélags Laxár og Mývatns af Laxárdeilu?

3. Hversu miklu af þeirri upphæð nam málflutningsþóknun Sigurðar Gizurarsonar hrl.?

4. Hvað hefur ríkissjóður greitt Laxárvirkjun vegna kostnaðar við Laxárdeilu, og hver var þóknun lögmanns fyrirtækisins?

5. Var álits Lögmannafélags Íslands leitað, áður en þóknun til hvors lögmannsins var ákveðin, og hvert var álit félagsins?“

Ef Bragi Sigurjónsson hefði enn verið á hv. Alþ., þegar fsp. var svarað, ætlaði hann að fylgja henni úr hlaði með eftirfarandi grg., sem hann hefur beðið mig að flytja:

Hinn 19. maí 1973 var undirritaður annálsverður sáttasamningur í svonefndri Laxárdeilu milli Landeigendafélags Laxár og Mývatns og Laxárvirkjunar. Fyrir þessari svonefndu sátt beitti núv. ríkisstj. sér, og undirritaði forsrh. sáttina, sem batt ríkissjóði fjárhagslegar skuldbindingar á herðar samkv. úrskurði gerðardóms í skaðabótakröfum, sem uppi voru hafðar. Einnig lofaði ríkisstj. að greiða deiluaðilum hæfilega fjárhæð, eins og það heitir í sáttinni, vegna þess kostnaðar, sem þeir hafa haft af málaferlum í sambandi við deilumál þetta. Enn fremur lofaði ríkisstj. að kosta fiskveg fram hjá virkjununum Laxárvirkjunarstjórnar í Laxá við Brúar, en slíkt telja fróðir menn hundruða þúsunda kr. fyrirtæki og athyglisvert, að ríkið telji sér skylt að greiða það að öllu, þegar þess er þá líka gætt, að lax hefur aldrei frá landnámstíma, svo að vitað sé, gengið upp í Efri-Laxá. Með sátt þessari skuldbatt ríkisstj. sig einnig til að beita sér fyrir, að fé yrði veitt úr ríkissjóði til að taka þátt í, eins og það er orðað, umframkostnaði við Laxárvirkjun, og viðurkenndi þannig óbeint, að hún væri að vernda Laxárvirkjun fyrir fjárhagslegu tjóni með því að knýja hana til samkomulags um minni og óverulegri virkjunarframkvæmdir en þegar hafði verið heimilað með l. frá 1965.

Samkv. 3. gr. sáttagerðarinnar átti gerðardómur um skaðabætur í Laxárdeilu að ljúka störfum fyrir árslok 1973, og má því ætla, að niðurstöður liggi nú fyrir. Þykir því tímabært að gera fsp.

þá, sem hér er til umr., þar sem niðurstöður hafa ekki verið birtar.

Þá hefur fyrirspyrjanda borist til eyrna, að þóknun til lögmanna deiluaðila hafi verið greidd ótrúlega há og mun hærri til þess, sem sótti málið á hendur Laxárvirkjun og ríkinu, og væri lærdómsríkt leikmönnum a.m.k að fá það skýrt af æðsta manni dómstóla í landinu. Enn hefur fyrirspyrjanda borist til eyrna, að þessi þóknun, a.m.k. til Sigurðar Gizurarsonar, sé drjúgum hærri en Lögmannafélag Íslands lagði til, er umsagnar þess á að hafa verið leitað, og væri fróðlegt að njóta uppfræðslu um það, hverjir þeir yfirburðir þessa lögfræðings eru, sem sparnaðarnefnd ríkisins telur sjálfsagt að hækka þóknun við fram yfir það, sem stéttarfélag hans leggur til, eða hvort það telst á einhvern hátt verðlaunaskylt að sækja mál á hendur opinberum aðilum og kunna til þess lagakróka, að almenningur hljóti skaða af, svo sem óumdeilanlegt er með hindrun fulllúkningar Laxárvirkjunar III.