26.03.1974
Sameinað þing: 69. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 3116 í B-deild Alþingistíðinda. (2776)

270. mál, greiðslur vegna Laxárdeilu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þessari fsp. hefði réttilegar verið beint til fjmrh. heldur en forsrh. En sá misskilningur, sem þar er um að ræða, stafar sennilega af því, að ég átti þátt í því, að sættir náðust í svokölluðu Laxárvirkjunarmáli, og skipaði tvo sáttamenn til þess á sínum tíma, og tókst að lokum að koma sáttum á í því máli, og samningur sá undirritaður, sem hv. fyrirspyrjandi gat um. Síðan hef ég — guði sé lof — ekki haft nein afskipti af Laxárvirkjunarmálinu, heldur hefur það eðlilega heyrt undir hlutaðeigandi rn. og þá fjárgreiðslur samkv. þessu samkomulagi undir fjmrh. Og sú grg., sem ég les hér á eftir, er frá fjmrn., undirrituð af starfsmanni þess, Gunnlaugi Claessen, og hún er svo hljóðandi:

„Samkv. ósk yðar hef ég tekið saman nokkur atriði til upplýsingar fsp. Braga Sigurjónssonar til forsrh. um greiðslur úr ríkissjóði vegna Laxárdeilu. Fsp. var í 5 liðum, svo hljóðandi:

„1. Hefur gerðardómur gengið (sbr. sáttasamning 19/5 1973) um skaðabótakröfur landeigenda við Laxá op Mývatn á hendur Laxárvirkjun, og hve háar greiðslur hafa þá veríð úrskurðaðar?

2. Hversu mikið hefur ríkissjóður greitt vegna kostnaðar Landeigendafélags Laxár og Mývatns af Laxárdeilu?

3. Hversu miklu af þeirri upphæð nam málflutningsþóknun Sigurðar Gizurarsonar hrl.?

4. Hvað hefur ríkissjóður greitt Laxárvirkjun vegna kostnaðar við Laxárdeilu, og hver var þóknun lögmanns fyrirtækisins?

5. Var álits Lögmannafélags Íslands leitað, áður en þóknun til hvors lögmannsins var ákveðin, og hvert var þá álit félagsins?“

Gerðardóminn skipa þeir Gunnar M. Guðmundsson, tilnefndur af Hæstarétti, Guðmundur Ingvi Sigurðsson, tilnefndur af Laxárvirkjun, og Þórir Baldvinsson, tilnefndur af Landeigendafélagi Laxár og Mývatns. Niðurstaða gerðardómsins liggur enn ekki fyrir, en er væntanleg með haustinu. Fyrirhuguð er vettvangsganga dómenda, en af því getur ekki orðið fyrr en í vor, er snjó hefur leyst að fullu.

Um 2. Beinar greiðslur til Landeigendafélagsins vegna kostnaðar þess nema 3 901 796 kr. Auk þess hefur rn. greitt kostnað af tveim matsgerðum, sem framkvæmdar voru að ósk Landeigendafélags Laxár og Mývatns, þ.e. 615 868 kr. í annað skiptið, yfirmatsgerð vegna 6.5 MW virkjunar í Laxá og 477 320 kr. í seinna skiptið, mat vegna skemmda á bökkum Mývatns.

Um 3. Auk framangreindra fjárhæða hefur lögmanni Landeigendafélags Laxár- og Mývatnssvæðisins, Sigurði Gizurarsyni, verið greidd málflutningsþóknun að fjárhæð 2 millj. og 250 þús. kr., en við það bætist dæmdur málskostnaður frá Laxárvirkjun honum til handa 160 þús. kr. Heildarkrafa lögmannsins um þóknun er að fjárhæð 4 millj. 694 þús. kr., auk útlagðs kostnaðar 707 938 kr. Samtals eru kröfur hans því að fjárhæð 5 401 938 kr., og er það í samræmi við ályktun gjaldskrárnefndar Lögmannafélagsins, sem metur ofangreinda þóknun hæfilega ákveðna. En umsögn gjaldskrárnefndar er út af fyrir sig ekki bindandi.

Rn. (þ.e. fjmrn.) hefur mótað þá afstöðu, að Sigurði Gizurarsyni verði greidd jafnhá þóknun og tveir lögmenn Laxárvirkjunar fengju til samans, eða alls 2 790 500 kr. Auk þess verður honum greiddur sannanlega útlagður kostnaður. Umfram þetta verður ekki um greiðslur til hans að ræða. Líta verður svo á, að álíka mikil vinna liggi að baki við rekstur þessara dómsmála hjá hvorum aðila um sig, enda hefur annað ekki verið leitt í ljós. Málskostnaðarkrafa Sigurðar Gizurarsonar var hins vegar næstum helmingi hærri en kröfur lögmanna Laxárvirkjunar. Reikningur fylgdi ekki kröfum hans umfram ályktun gjaldskrárnefndar.

Um 4. Heildargreiðsla til Laxárvirkjunar vegna kostnaðar hennar af málaferlum við Laxármál nam 4188 508 kr. og 40 aurum. Þar af nam þóknun til Friðriks Magnússonar hrl. 2 660 500 kr. og þóknun til Hjartar Torfasonar 130 þús. kr.

Um 5. Reikningar lögmanns Laxárvirkjunar bárust ráðuneytinu ítarlega fram settir og sundurliðaðir. Eftir skoðun þeirra var það mat rn., að eftir atvikum væri unnt að fallast á þá. Þeim var því ekki skotið til stjórnar Lögmannafélagsins til úrskurðar. Ekki hefur enn reynt á það, hvort leitað verður úrskurðar stjórnar Lögmannafélagsins varðandi kröfugerð Sigurðar Gizurarsonar.

22.3 1974.

Gunnlaugur Claessen.“ Sigurður Gizurarson mun hafa sent gjaldskrárnefnd Lögmannafélagsins bréf og óskað ákvörðunar hennar um sína málflutningsþóknun. Og ég get bætt hér við úrskurði þeirrar gjaldskrárnefndar eða ályktun, en hún er svo hljóðandi:

„Þóknun Sigurðar Gizurarsonar hrl. fyrir störf í þágu Landeigendafélags Laxár og Mývatns og flutning máls varðandi lögmæti virkjunarframkvæmda Laxárvirkjunar í Laxá í Þingeyjarsýslu og lögbannsmáls vegna þeirra framkvæmda telst hæfilega ákveðin 4 millj. 694 þús. kr., auk útlagðs kostnaðar.

Það skal tekið fram, að til útlagðs kostnaðar í þessu sambandi telst ekki þóknun Þórólfs Jónssonar fyrir mats- og fulltrúastörf. Þóknun lögmannsins fyrir flutning skaðabótamáls fyrir félaga Landeigendafélags Laxár og Mývatns og fyrir réttargæslu og verjendastörf er hins vegar ekki innifalin í framangreindri upphæð.“

En eins og fram kom af greinargerð þeirri frá fjmrn., sem ég las, hefur fjmrh. ekki fallist á þessa ályktun gjaldskrárnefndar Lögmannafélagsins.

Við þessa greinargerð frá fjmrn. hef ég engu að bæta.